27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

112. mál, útsvör

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 8. gr. frv., eins og það nú er eftir 2. umr. hér í d., segir, að útsvar á veltu megi ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en það var á hverjum stað árið 1959. Þó skal þeim sveitarfélögum, sem lögðu á lægri veltuútsvör á því ári, miðað við tegund gjaldstofns, en lagt var á í Reykjavík árið 1959, heimilt að hækka útsvör á veltu í allt að þeim hundraðshluta, sem þar var þá á lagður.

Það liggja ekki fyrir upplýsingar með þessu frv. um það, hvaða reglur hafi gilt yfirleitt um álagningu veltuútsvara á árinu sem leið, nema að því er varðar Reykjavík. Í aths. með frv. eru birtar þær reglur, sem Reykjavíkurbær fór eftir við álagningu útsvara 1959, og þ. á m. reglurnar um álagningu veltuútsvars. Þar er greint frá því, hvað hátt veltuútsvar mátti leggja á hverja tegund umsetningar, og þar segir m.a., að leggja megi allt að 2% veltuútsvar á umboðslaun. Mér skilst af þessu, að sú regla hafi verið í Reykjavík 1959, að á umboðssöluviðskipti hafi ekki verið lagt veltuútsvar á heildarupphæð þeirrar vöru, sem verið var að kaupa eða selja í umboðssölu, heldur aðeins á umboðslaunin, sem greidd voru eða tekin voru fyrir þessa þjónustu. Og þá liggur það fyrir, að þannig muni þetta verða einnig á þessu ári. Reykjavík er ekki heimilt að breyta til í þessu efni og má ekki samkv. þessu, þegar um umboðsviðskipti er að ræða, hvort heldur er kaup á vörum í umboði annarra eða sölu á vörum í umboði annarra, taka annað veltuútsvar af þeim viðskiptum en af umboðslaunum og þá í hæsta lagi 2% af þeim. Hins vegar gildir annað samkv. þessu frv., eins og það nú er, um aðra staði. Í 6. gr., þar sem ákveðin er útsvarsálagning í öðrum kaupstöðum, segir í síðustu mgr. þeirrar greinar, að leggja megi allt að 2% veltuútsvar á umboðs- og heildverzlun. Það á sennilega að skilja þetta þannig, að ef umboðssali er búsettur t.d. í Hafnarfirði eða Vestmannaeyjum, þá sé heimilt að krefja hann um veltuútsvar, sem nemi allt að 2% af heildarupphæð þeirra viðskipta, sem hann annast í umboði annarra, og þá er það vitanlega margfalt hærra veltuútsvar en heimilt er að taka í Reykjavík af sams konar viðskiptum og jafnmiklum viðskiptum. Þetta sýnist mér vera fjarri öllu lagi, að heimila slíkt. Því er það, að ég hef ásamt hv. 4. þm. Reykn. borið fram á þskj. 517 brtt. um þetta atriði. Það er 1. brtt. á þskj. og er við 6. gr. Till. er þannig, að í staðinn fyrir umboðs- og heildverzlun, sem talin er í síðustu mgr. greinarinnar, komi umboðslaun, heildverzlun og annað ótalið. Þá verða umboðssalar jafnt settir í öllum kaupstöðunum, og þannig tel ég þetta eiga að vera. Ég tel það alveg fráleitt, að menn, sem vilja stunda slík viðskipti í öðrum kaupstöðum en Reykjavík, geti átt það á hættu, að á þá verði lagt veltuútsvar margfalt hærra en á þá, sem fara með slík viðskipti í Reykjavík, en það sýnist mér liggja fyrir, ef frv. verður ekki breytt.

Í 2. mgr. 8. gr. frv. segir, að útsvar af landbúnaðarafurðum framleiddum innanlands og seldum í umboðs- eða heildsölu megi ekki nema meiru en 21/2% heildarveltu. Samkv. því, sem ég sagði áðan um það, að Reykjavík væri ekki heimilt að taka hærra veltuútsvar en 2% af umboðslaunum, þegar um umboðsviðskipti er að ræða, þá skilst mér, að þrátt fyrir þetta ákvæði í 8. gr. geti Reykjavík ekki tekið meira veltuútsvar en 2% af umboðslaunum, þegar um sölu á landbúnaðarvörum er að ræða. Það hlýtur að gilda jafnt um þær vörur og aðrar, sem seldar eru eða keyptar í umboðssölu hér í Reykjavík. En þá mundi þessi heimild í 8. gr. aðeins snerta staði utan Reykjavíkur. Það væru þá aðeins staðir utan Reykjavíkur, sem mættu taka 21/2% af heildarveltunni, Reykjavík væri það ekki heimilt, hún yrði að binda sig við sínar reglur frá í fyrra og taka aðeins 2% af umboðslaununum. En þetta 21/2% af heildarveltunni er vitanlega miklu hærra gjald en 2% af umboðslaununum.

Við hv. 4. þm. Reykn. höfum því líka í 2. brtt. okkar á þskj. 517 lagt fram till. um það, að þessari 2. mgr. 8. gr. verði breytt þannig, að þegar um umboðssölu er að ræða á landbúnaðarvörum, þá sé ekki heimilt að taka meira veltuútsvar af þeim viðskiptum en 2% af umboðslaununum: Þá verða menn settir á sama bekk, þeir sem fást við það að selja slíkar vörur í umboðssölu, hvort sem þeir eru í Reykjavík eða í öðrum kaupstöðum eða á öðrum stöðum á landinu, og þannig á þetta að vera. Það er vitanlega ekki heil brú í því, að menn, sem taka að sér sölu á landbúnaðarvörum og eru búsettir annars staðar en í Reykjavík, þurfi að borga miklu hærra veltuútsvar af þeim viðskiptum en fyrirtæki í Reykjavík, sem annast verzlun með þessar vörur í umboðssölu.

Enn höfum við, ég og hv. 4. þm. Reykn., flutt brtt. við 13. gr. frv. Það er 3. og síðasta brtt. okkar á þskj. 517. Till. er um það, að á eftir 13. gr. komi ný grein, þannig:

„Veltuútsvar og eignarútsvar skal draga frá tekjum, áður en tekjuskattur er á þær lagður“.

Við 2. umr. þessa máls bar hv. 4. þm. Reykn. fram till. um það, að tekjuútsvar, tekjuskattur og veltuútsvar mætti aldrei nema hærri upphæð samtals en 65% af hreinum tekjum gjaldanda. Þessi till. var felld hér í d. Úr því að svo fór um þá till., teljum við, að það sé alveg nauðsynlegt og sjálfsagt að setja ákvæði inn í frv. um það, að veltuútsvar megi draga frá tekjum, áður en tekjuskattur er á þær lagður, og við teljum, að það sama eigi að gilda um eignarútsvar, enda er það svo nú í lögum, að eignarskattur er frádráttarhæfur við álagningu tekjuskatts. Þetta er alveg eðlilegt. Það gegnir öðru máli um þetta en tekjuskatt og tekjuútsvör, því að þar er þó ekki tekinn nema ákveðinn hluti af hreinum tekjum gjaldanda. En það virðist vera ætlun meiri hluta þessarar hv. d. að leyfa að leggja á veltuútsvör án tillits til rekstrarafkomu gjaldanda, þannig að það sé hægt að leggja veltuútsvar á mann eða fyrirtæki, jafnvel þó að rekstur hans hafi engum hreinum hagnaði skilað. Þá er þetta í raun og veru bara eignaupptaka, og það er vissulega að bæta gráu ofan á svart, ef á svo að telja þær upphæðir, sem þannig eru af mönnum teknar, með skattskyldum tekjum þeirra, þannig að þeir verði að greiða á eftir tekjuskatt af þessum upphæðum.

Ég vænti þess, að mér hafi tekizt að gera þannig grein fyrir þessum brtt., að það sé ljóst þeim, sem á hafa hlýtt, að hverju þær stefna, og sé ekki ástæðu til að svo stöddu að fara um málið fleiri orðum.