02.06.1960
Efri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

112. mál, útsvör

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þó að hv. frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. hafi gert grein fyrir afstöðu okkar í minni hl., vildi ég samt gera örfáar aths. við þetta frv. frá eigin brjósti og láta í ljós mína skoðun.

Þetta stjórnarfrv. lá hjá n. í hv. Nd., eins og kunnugt er, og var ekki hreyft við því þar í margar vikur. Það hefur sætt harðri gagnrýni úr öllum áttum, innan þings og utan, og mótmælunum hefur rignt yfir, síðan það leit dagsins ljós.

Á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga gætti mikillar óánægju með frv., og margar sveitarstjórnir hafa mótmælt samþykkt þess. Ýmis önnur samtök auk fjölda einstaklinga hafa gagnrýnt einstök atriði frv. og mótmælt þeim harðlega.

Þessi mikla óánægjualda, sem einnig gætti innan stjórnarliðsins, mun hafa komið óþægilega við hæstv. ríkisstj., sem flytur frv. Mun hafa sett að henni geig allmikinn, svo að hún hikaði við. Voru meira að segja margir farnir að ætla, að frv. fengi að sofna alveg út af í n. að þessu sinni. Svo var þó ekki. Fyrir nokkrum dögum gerist það snögglega, að frv. er afgr. úr n. og síðan afgr. í skyndi úr hv. Nd. Hingað er það komið og til 2. umr., og mun ætlazt til, að það fái fullnaðarafgreiðslu á þrem dögum í hv. Ed. Hér er líklega ekki ætlazt til þess, að menn hugsi, heldur aðeins framkvæmi. Það er ekki ný bóla á þessu þingi í vetur.

Frv. var athugað og rætt á tveim fundum í hv. heilbr.- og félmn. þessarar d., og hafði n. tvo daga til umráða, einmitt þá daga, sem eldhúsumræður fóru fram, með þeim undirbúningi, er þær heimta, auk annars annríkis nú í þinglokin. Á nefndarfundunum virtist mér það koma skýrt fram, að sérhver nm. hefði sitthvað við frv. að athuga, teldi það óljóst og á ýmsan annan hátt gallað. Samkomulag náðist þó ekki um að vísa frv. frá að þessu sinni né að bera fram brtt. Mælir meiri hl. með því, að það verði samþ., en minni hl. leggur til, að því verði vísað frá.

Þetta er frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögum, frv. til bráðabirgðalaga, samið í skyndingu, til þess, eins og segir í aths., að sveitarfélögin gangi ekki lengra en góðu hófl gegnir í því að taka til sín í útsvörum þær lækkanir, sem verða á tekjuskattinum. Þessi er hinn eini rökstuðningur fyrir þessu flaustursfrv. Ekki er nú traustið til sveitarstjórna landsins mikið á allra hæstu stöðum hér. Það þykir vissara að binda hendur þeirra í þessu efni. Að vísu mega þær taka til sín í útsvörum eitthvað af þeim lækkunum, sem verða á tekjuskattinum, það gefur grg. frv. í skyn, en ekki meira en góðu hófi gegnir. En til þess eru þær einmitt líklegar, og því skulu brbl. sett, svo hæpin sem ýmis ákvæðin eru að allra dómi og enda stórgölluð að áliti velflestra manna.

Hæstv. ríkisstj. vantreystir sveitarstjórnum landsins og hyggst koma í veg fyrir fjárgræðgi þeirra með þessu frv. til l. um bráðabirgðabreyt. Mikil er umhyggjan fyrir skattgreiðendum og sýnilega meiri nú í þinglokin en framan af þingi, og hefði hæstv. ríkisstj. betur sjálf gætt hófs í þessu efni fyrr.

Þetta vantraust á sveitarstjórnunum í landinu tel ég yfirleitt ómaklegt, og ég fyrir mitt leyti er andvígur því, að hendur sveitarstjórna verði bundnar svo sem ráðgert er af þessari tilgreindu ástæðu.

Ég trúi því tæpast, að nokkur hv. þdm. sé ánægður með þetta frv., nema ef vera skyldi hæstv. fjmrh. Ýmsir, sem neyðast til að fylgja því, færa það til afsökunar, að nauðsynlegt sé að fá einhverja reynslu á þeim ýmsu atriðum, sem í frv. felast, áður en endanlega verður gengið frá breyt. á útsvarslögunum. Þetta er léleg afsökun og flaustursleg. Enga breyt., ekki heldur til bráðabirgða, á að gera á lögum nema að vandlega athuguðu máli. Oftast verða ágallarnir nógu margir fyrir því, er til reynslunnar kemur. En í þessu frv. vilja stuðningsmenn hæstv. stjórnarvalda láta allt flakka og afsaka sig með því að fá gallana prófaða ásamt öllu hinu. Þessi aðferð var í minni skólatíð kölluð happa- og glappaaðferðin og talin vottur um skynsemi á lágu stigi.

Sú meginbreyting, sem í frv. felst, er löggilding ákveðinna útsvarsstiga, lögbinding ákveðinna reglna um álagningu útsvara. Eiga þær reglur að ná til allra sveitarfélaga, og er um þrjá stiga að ræða. Með þessari breytingu er afnumið hið gamla ákvæði um álagningu útsvara eftir efnum og ástæðum. Um það ákvæði í sjálfu sér má margt segja, bæði með og móti. Að mínu áliti mælir ýmislegt gegn þessu gamla ákvæði, ekki sízt þegar um er að ræða fjölmenn sveitarfélög eins og Reykjavík. Í fámennum sveitarfélögum er viðhorfið nokkuð annað.

Ég ætla ekki að rökræða þessa breyt. nú frá almennu sjónarmiði. Ákvæði frv. um skattstiga útiloka álagningu útsvara eftir reglunni: efni og ástæður. Útsvörin eiga að ákvarðast í samræmi við lögbundnar reglur, ákveðinn skattstiga. Alls eru skattstigarnir þrír, einn er ætlaður Reykjavík, annar öðrum kaupstöðum og hinn þriðji hreppsfélögum. Í þessum stigum er allt sundurliðað og útreiknað, og ákvæðið um efni og ástæður úr sögunni. En viti menn, það er raunar ekki úr sögunni. Í 3. gr., staflið a, er heimilt að vefengja skattframtal og áætla tekjur og eignir, þó að skattayfirvöld hafi metið framtalið gilt. Gamla ákvæðið um efni og ástæður er þá aldeilis ekki úr sögunni. Niðurjöfnunarnefndir geta þá eftir sem áður vefengt skattframtölin upp til hópa og lagt á útsvör eftir eigin geðþótta, eftir eigin áliti um efni manna og ástæður. Það, sem gefið er með annarri hendinni, er þannig hrifsað aftur með hinni, og þannig á líklega að gera öllum til hæfis, bæði þeim, sem eru með og móti gamla ákvæðinu um efni og ástæður.

Skattstigarnir eru þrír og misháir. Með því verður fólki mismunað mjög í útsvarsgreiðslum eftir því, hvar það býr á landinu. Ekki lítur það vel út, og ekki veit ég, hvaða sanngirni mælir með því, en þannig skal þetta lögbindast. Þessu er ég andvígur sem meginreglu, og ef útsvarsbyrðarnar nú verða að vera misþungar á fólki einhverra orsaka vegna, verður hið bráðasta að leita þeirra orsaka og nema þær í burtu. Lögfesting þessarar mismununar er fráleit, jafnvel þótt gerð sé til bráðabirgða. Það ætti að vera hlutverk jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að uppræta þessa mismunun, og verður hann að fá til þess eðlilegar tekjur, svo sem sérstök landsútsvör.

Auk þeirrar meginbreytingar, sem ég hef drepið á og í frv. felst, eru þar ýmis nýmæli, sem mjög orka tvímælis, hve sanngjörn eru, og verða þau því mikið umdeild. Eitt þeirra er lögfesting veltuútsvars. Þótt sveitarfélög telji sér það yfirleitt nauðsynlegt, er það samt viðsjárvert á ýmsan hátt, og fjölyrði ég ekki um það. En það er með veltuútsvörin eins og annað, að þau eiga samkv. frv. að leggjast misþungt á eftir því, hvers konar sveitarfélög er um að ræða. Það virðist ekki sanngjarnt og mun fyrirsjáanlega mælast illa fyrir. Það er einnig alveg út í hött og óumdeilanlega rangt að leggja samvinnufélög til jafns við einkafyrirtæki um álagningu útsvara. Eðli þessara fyrirtækja er gerólíkt og aðstaða öll sömuleiðis. Því er ekki rétt að láta sömu reglur gilda um þau. Það mundi koma fram sem áníðsla á samvinnufélögin og sem ívilnun handa fyrirtækjum í einkaeign.

Ákvæði í 3. gr., staflið c., um, að útsvör s.l. árs skuli dregin frá hreinum tekjum, ef þau hafa verið greidd að fullu fyrir áramót, er umbun, sem sérstaklega er ætluð hátekjumönnum og er þannig í stíl við stefnu hæstv. ríkisstj. Þeir einir koma raunverulega til með að græða á þessu. Vegna þessa frádráttar lækka heildarupphæðir útsvara t.d. í Reykjavík um 15–20 millj., að ég ætla, og verður þá að hækka álagningu sem því nemur, en obbinn af þeirri hækkun fellur á þá, sem hafa lágar tekjur og miðlungstekjur. Þetta er því ein tilfærslan á fjármagni hjá hæstv. ríkisstj. frá hinum fátæku til hinna ríku. Hún er sjálfri sér samkvæm, hæstv. ríkisstj., í þessu sem öðru. Ef sanngirni hefði ráðið um þennan frádrátt, hefði um leið þurft að gera breytingu á skattstigum til samræmis, þannig að engum yrði ívilnað á annarra kostnað.

Ég hirði ekki um að tína fleira fram úr þessu frv. Þar er sem sagt ýmislegt augljóslega misjafnt, en fleira er þar þó óljóst og loðið, vegna þess að það er ófullkomlega hugsað og unnið, og kom það skýrt fram við þá litlu athugun, sem fram fór í hv. heilbr.- og félmn.

Ég hygg, að tvímælalaust hefði verið betur heima setið en af stað farið með þetta frv., betra að bíða með breyt. á útsvarslögunum en að samþ. þetta frv., jafnvel þó að til bráðabirgða sé. Hroðvirkni og flaustur hefur einkennt vinnubrögð hæstv. ríkisstj. á þingi í vetur, og ekki er þetta frv. barnanna bezt. Hæstv. stjórn virðist liggja einhver lifandis ósköp á. Kannske hún sjái pólitíska feigð sína fyrir og sé þess vegna svo mjög að flýta sér? Áhugamálin knýr hún fram með svo miklum bægslagangi, að hvorki henni sjálfri né starfsfólki hennar gefst tími til að sjá fótum hennar forráð, en lög hennar frá í vetur hafa þegar verið til leiðréttingar hér, eins og kunnugt er. En víst er, að öll hennar lagasetning þarfnast hinnar bráðustu endurskoðunar, og þetta frv. orðið að lögum verður sízt undantekning frá því.