08.03.1960
Neðri deild: 44. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

72. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár til vinnuheimila

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Á þskj. 136 hef ég ásamt hv. 5. þm. Vestf. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 12 1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila.

Eins og fram er tekið í grg. fyrir frv., var svo ákveðið með nefndum lögum, að erfðafjárskattur samkv. l. nr. 30 frá 1921 og arfur samkv. 33. gr. erfðalaga frá 1949 skyldi frá 1. jan. árið 1953 renna í sérstakan sjóð, erfðafjársjóð. Fé því, sem þannig safnaðist saman, skyldi svo varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni, að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum. Í l. er heimilað að veita sveitarfélögum og öðrum félögum og einstökum mönnum lán og styrki úr sjóðnum í þessu skyni, en þó fari samanlagðar upphæðir lána og styrkja eigi fram úr 2/3 hlutum stofnkostnaðar vinnuheimilis, vinnustofu eða vinnutækja.

Þá er ákveðið í l., að félmrh. taki ákvarðanir um lánveitingar og styrkveitingar úr sjóðnum að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins, sem varðveitir sjóðinn og annast allt reikningshald fyrir hann. Einnig er gert ráð fyrir því, að ráðh. setji reglur um fyrirkomulag og rekstur þeirra vinnuheimila og vinnustöðva, sem lán fá eða styrki úr sjóðnum.

Ég hef fengið nokkrar upplýsingar um tekjur erfðafjársjóðs, síðan hann tók til starfa, og lánveitingar og styrkveitingar úr sjóðnum. Upplýsingar þessar ná þó ekki lengra en til ársloka 1958. Á árinu 1957 námu tekjur sjóðsins 854427 kr. og á árinu 1958 1423853 kr. Vaxtatekjur sjóðsins þessi tvö ár námu samtals 333261 kr. Í árslok 1958 voru eignir hans 5983914 kr., en þar af voru í útlánum 803 þús. kr., þannig að reiðufé sjóðsins hefur þá verið um 5 millj. 180 þús. kr. Þá hafa verið veittir styrkir úr sjóðnum að fjárhæð samtals 303 þús. kr. Á s.l. ári mun hafa verið lofað lánum úr sjóðnum fyrir upp undir 2 millj. kr., en um tekjur hans það árið hef ég ekki fengið upplýsingar, en þær hafa vart verið minni en árið á undan.

Allir munu vera á einu máli um það, að erfðafjársjóður hafi komið að miklum notum, þar sem hann hefur hjálpað þeim þegnum þjóðfélagsins, öryrkjunum, sem einna versta hafa aðstöðuna til sjálfsbjargar. Þessir aðilar hafa nú stofnað með sér félagssamtök víða um land, eins og t.d. hér í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði, til þess að koma sér upp félags- og vinnuheimilum. Hefur þeim orðið vel ágengt í þeim efnum og þá ekki sízt vegna stuðnings erfðafjársjóðs. Er mikið undir því komið, að sú starfsemi geti haldið áfram og aukizt, eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Það hefur verið eitt af mestu vandamálum margra sveitar- og bæjarfélaga og þá einkum nú síðari árin að tryggja öldruðu fólki, sem býr við erfiðar aðstæður, hæfan dvalarstað til frambúðar. Sums staðar hefur verið ráðizt í það að koma upp elliheimilum, en mjög víða er það eftir og jafnvel þar, sem þörfin er mjög aðkallandi. Fjárskortur hefur tafið eðlilega þróun í þessum efnum. Er það engin furða, þegar á það er lítið, að sveitarfélögin hafa orðið að taka á sig þungar byrðar vegna byggingar skólahúsa og sjúkrahúsa auk mikilla framlaga til þess að tryggja og auka atvinnureksturinn. Það hefði þurft að vera til einhver stofnun, sem lánaði ríflega til elliheimilabygginga, og í því sambandi verður að hafa í huga, að þörfin fyrir slíkar stofnanir mun vaxa með ári hverju, vegna þess að meðalaldurinn fer stöðugt hækkandi. Hvernig annast á gamla fólkið, sem getur ekki séð um sig sjálft, verður því eitt af vandamálum framtíðarinnar.

Með frv. þessu er lagt til, að heimilað verði að lána úr erfðafjársjóði til elliheimilabygginga, eftir því sem fjárhagur sjóðsins leyfir. Með því er átt við, að ekki verði gengið á hlut öryrkjanna, en stofnanir þeirra látnar sitja fyrir lánum, meðan fjárhagsgeta hans er takmörkuð. Það er ástæða til að ætla, að sjóðurinn vaxi svo á komandi árum, að hann geti sinnt þessum tveimur verkefnum og þannig orðið að ómetanlegu liði fyrir samtök öryrkjanna og fyrir þau sveitarfélög, félagssamtök og einstaklinga, sem ráðast vilja í það að koma upp almennum elliheimilum.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að með frv. þessu er síður en svo ætlunin að skerða á nokkurn hátt aðstoð þá, sem l. um erfðafjársjóði er ætlað að veita öryrkjunum. Fyrir okkur flm. vakir það eitt, að heimild fáist til þess að lána úr sjóðnum til elliheimilabygginga, þegar þannig stendur á, að hægt er að gera það án þess að skerða aðstoðina við vinnuheimilin. Með hliðsjón af þessu leggjum við því ekki til, að styrkur sé veittur úr sjóðnum til venjulegra elliheimila, enda þótt þörf hefði verið á því, sem allir vita, er eitthvað eru kunnugir fjárhag sveitarfélaganna.

Ég leyfi mér svo að fara fram á það við hæstv. forseta, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.