05.02.1960
Efri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

49. mál, eignarnámsheimild fyrir Húsavíkurkaupstað á Preststúni

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. um eignarnámsheimild fyrir Húsavíkurkaupstað á svokölluðu Preststúni í Húsavíkurlandi er hér flutt eftir beiðni bæjarstjórans á Húsavík. Bæjarstjórn Húsavíkur samþykkti 16. sept. 1959 að fela bæjarstjóra að hlutast til um, að Húsavíkurbær fengi tún þetta til kaups, þar sem það er innan hins skipulagða svæðis bæjarins og bærinn þarf á því að halda vegna margvíslegra mannvirkjagerða, sem eru fyrirhugaðar á þessu svæði. Bæjarstjóri skrifaði á sínum tíma dóms- og kirkjumrn., — það mun hafa verið tveim dögum eftir að bæjarstjórn hafði gert fyrrnefnda samþykkt, — og fór þess á leit við rn., að bærinn fengi túnið keypt. Rn. gat ekki orðið við þeim tilmælum, þar sem það skorti lagaheimild til sölunnar. Varð þá að ráði, að bæjarstjóri bað mig að leita eftir því við Alþ., að bærinn fengi möguleika til þess að eignast landið og þá helzt með eignarnámsheimild.

Tún það, sem hér um ræðir, er nyrzt í bænum, í kvos milli Húsavíkurhöfða og Húsavíkurfjalls. Stærð þess er talin vera um 20 dagsláttur. Þegar Húsavíkurhreppur fékk afsal fyrir prestssetursjörðinni Húsavík árið 1913 samkv. heimild í lögum frá 1911, þá var þetta tún undanskilið sölunni með það fyrir augum, að Húsavíkurprestur gæti nytjað það til búskapar. Mér er tjáð, að núverandi Húsavíkurprestur hafi aldrei nytjað það sjálfur. Um ástæður fyrir því, að bæjarstjórn telur sér nauðsynlegt að eignast landið, vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa stuttan kafla úr bréfi bæjarstjórans. Kaflinn hljóðar svo:

„Umrætt tún er innan bæjarstæðisins, eins og það er hugsað af skipulagsstjóra. Þegar hefur Húsavíkurbær lagt út í kostnað við vegi um þetta svæði. Lögð hafa verið ræsi og lagðar vatnsæðar um Húsavíkurtún. Allt þetta var óhjákvæmilegt, bæði vegna byggðarinnar svo og eigna kirkjunnar. En við framkvæmdir bæjarins hafa opnazt möguleikar til byggðar á svæðinu, sem ekki geta nýtzt vegna þess að úthlutun lóða á Húsavíkurtúni er ekki á valdi bæjarstjórnar. Á sama tíma verður Húsavíkurbær að leggja í ærinn kostnað við götulagnir, ræsa- og vatnsæðalagnir vegna nýbygginga í allar áttir. Nú í sumar þurfti bærinn að leggja aðalæð vatnsveitunnar um Húsavíkurtún meðfram fyrirhugaðri framlengingu Hringbrautar. Sú framkvæmd nýtist ekki, nema Húsavíkurbær fái að staðsetja hús meðfram lögninni. Er þar skipulögð gata. Nyrzt eða norðan hugsanlegrar framlengingar Hringbrautar er búið að skipuleggja íþróttasvæði eftir ábendingu íþróttayfirvalda. Þar á í náinni framtíð að hefja framræslu lands, sem eru fyrstu framkvæmdir til undirbúnings á gerð íþróttaleikvallar. Óhæfa er að staðsetja jafnvel milljónamannvirki á landi, sem bærinn hefur ekki eignarhald á, og það eftir ábendingu aðila, sem hefur eignarhald á landinu. Af ofangreindum rökum er það ljóst, að Húsavíkurbær þarf að eignast Húsavíkurtún samkvæmt skipulagi bæjarins og framvindu byggðarinnar.“

Þetta var kafli úr bréfi bæjarstjórans á Húsavík, og mun ég láta það nægja að svo komnu. Ég vil aðeins geta þess, að Húsavíkurprestur mun hafa einhverjar tekjur af þessu túni. Hann mun leigja það til slægna. En það verður mál dóms- og kirkjumrn. að bæta honum tekjumissinn, ef um slíkt verður að ræða.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.