01.03.1960
Neðri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti því, að þetta frv. fari til n. og fái athugun þar. En ég vildi beina því til hv. n. að kynna sér sem bezt, hvernig ákvæði voru í gjafabréfi, sem mun hafa verið gefið út fyrir löngu þessum jörðum viðkomandi. Ég hygg, að ég muni það rétt, að ég hafi heyrt, að jarðirnar hafi verið gefnar upphaflega þessum sjóði af einum þekktum sýslumanni Húnvetninga fyrir löngu, Bjarna Halldórssyni á Þingeyrum. Ég hygg einnig, að það sé þannig, að það sé ákveðið, að jarðirnar megi ekki selja, — ákveðið í því upphaflega gjafabréfi, og mér finnst það líka benda til þess, að svo hafi verið, að það er ekki talið fært að selja þær nema fá um það lög frá Alþ. Nú lít ég svo á, að ef þessu er þannig varið, sé rétt að víkja ekki frá því, sem í þessu upphaflega gjafabréfi stendur, og ég fæ ekki séð, að þess sé heldur þörf. Það ætti að vera hægt að halda jörðunum í byggð, án þess að þær væru seldar. Ég sé ekki betur en það væri hægt að leigja ábúendum jarðirnar á erfðafestu og veita þeim síðan heimild til að veðsetja þær fyrir nauðsynlegum lánum til uppbyggingar, húsabygginga á jörðunum, til þess að þar sé hægt að búa. Þetta sýnist mér, að væri aðferð til þess, að jarðirnar þyrftu ekki að fara í eyði. En ég vil sem sagt aðeins með þessum fáu orðum beina því til hv. landbn., að hún kynni sér málið sem bezt, og ég tel sjálfsagt, að ekki verði vikið frá ákvæðum hins upphaflega gjafabréfs, a.m.k. ekki ef hægt er að komast hjá því, og hygg ég, að það hljóti að vera mögulegt.