03.12.1959
Neðri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það virðist augljóst, að það muni vera tilætlun hæstv. ríkisstj. að berja fram þingfrestunina. Þó er því ekki lokið enn. En það er augljóst, að hverju stefnt er. Ég hef áður beint því til hæstv. forseta að eiga þátt í því að afstýra þessari óhæfu og eiga hlut að því að reyna að koma einhverju viti í vinnubrögðin og fyrirætlanir stjórnarflokkanna. Ég hef skorað á þá að gera þetta til þess að gæta í því virðingar og sóma Alþingis, vegna þess að það er ósæmilegt að senda nýkosið Alþ. heim þegar á fyrstu dögum þess og án þess að fyrir liggi nokkur frambærileg rök fyrir því, að slíkt geti yfir höfuð komið til mála. Þau rök, sem hér hafa verið flutt fram um vinnufrið, eru fundin upp til þess að leyna því, sem raunverulega er tilgangurinn, en tilgangurinn er fyrst og fremst sá að losna við þingið, losna við áhrif þingsins og losna við vald þess á vissum málum, sem stjórnin ætlar að skipa í þinghléinu eftir sínu höfði, láta menn síðan standa frammi fyrir því sem orðnum hlut, þegar þeir koma til baka, í því trausti, að þótt einhverjir af þingliði þeirra jafnvel væru óánægðir með það, sem gert var að þeim fjarstöddum, þá beygi þeir sig og samþykki það eftir á heldur en að gera uppsteyt. Og þá verður þeim rökum beitt, að þeir verði að gera það fyrir stjórnina og hennar metnað, og að þeir verði að gera það fyrir flokkinn sinn að fallast á þetta.

Við vitum, að þessi þingfrestun, sem nú stendur til, á ekkert skylt við þau venjulegu starfshlé, sem hér hafa verið höfð um jólaleytið, þingmanna vegna og stundum hafa, að vísu stjórnarinnar vegna, náð nokkuð fram í janúar með alveg eðlilegum hætti. Við vitum, að það, sem nú er verið að gera, á ekkert skylt við þetta. Þetta er allt annars eðlis. Nú er stefnt að því að losna við þingið til þess að losna við áhrif þess og til þess að losna við vald þess á vissum málum. Og það leikur beinlínis grunur á því, sem mun sýna sig á næstunni, hvort styðst við full rök, að ætlunin sé að ganga svo langt í þessu, að allt þetta sé í raun og veru gert til þess að koma í veg fyrir, að þingviljinn um brbl. um landbúnaðarverðlagið fái nokkurn tíma að koma fram, og að það verði ekki skirrzt við að brjóta alla þingsiði, allar þingræðisvenjur og jafnvel sjálfa stjskr. til þess að geta komið þessu fram. Þetta á allt eftir að sýna sig.

En ég vil enn einu sinni skora á hæstv. forseta þessarar d. að eiga þátt í því að koma hér á heppilegri vinnuaðferð og eiga þátt í því að bjarga sóma þingsins. Ég álít, að þingforsetar séu ekki skyldir til þess að hafa fundi alltaf, þegar stjórnin segir þeim. Ég álít, að þingforsetum beri ekki skylda til þess. Ég álít, að jafnhliða því sem þeir með eðlilegum hætti hafa samstarf við ríkisstj. og þann þingmeirihluta, sem styður hana, þá hafi þeir sérstakar skyldur við Alþ. sem stofnun og það sé þeirra verk að sjá um, að þingræði sé í fullum heiðri haft, — það sé fyrst og fremst þingforsetanna að sjá um þetta. Og ég vil ekki trúa því, fyrr en ég sé það, að hæstv. þingforsetar, ef þeir taka sig fram, geti ekki haft áhrif í rétta átt í þessu efni. Ég hef spurzt fyrir um þetta oftar en einu sinni síðustu dagana, síðan sú furðulega þáltill. kom fram um þingfrestun, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, þar sem gert var ráð fyrir því að fresta þinginu 30. nóv. — tveimur dögum eftir að stjórnarherrunum datt það í hug. Það sýnir álit þessara manna á Alþ. sem stofnun, að þeim skuli detta þetta í hug. Ég hef hvað eftir annað, síðan þessu furðulega þskj. var útbýtt, farið fram á það við hæstv. forseta, að þeir gengju hér á milli og reyndu að koma þessu í heppilegra horf. En þeir hafa aldrei svarað þessari málaleitan neinu. Ég vil taka fram, að ef þeir lýstu því hér yfir á Alþ., að þeir vildu vinna í þessa átt, þá mundi ég taka þá yfirlýsingu þeirra gilda og telja, að hún væri gerð af heilum hug og að þeir mundu gera það, því að ég trúi því ekki, að þeir mundu segja það hér á hv. Alþingi, ef þeir gerðu ekki tilraun í þá átt.

En þeir hafa engu svarað. Þeir hafa ekki svarað því, hvort þeir vildu gera slíka tilraun til þess að koma í veg fyrir þessa málsmeðferð. Og ég er mjög óánægður með framkomu hæstv. forseta að þessu leyti, að þeir skuli ekki ganga fram fyrir skjöldu, svo að allir viti, og gera slíka einiæga tilraun.

Ég skal svo ekki hafa þessi inngangsorð fleiri. En ég mun máske síðar koma ofur lítið nánar að því, hvers vegna það er slík óhæfa að fresta Alþingi eins og hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér.

Við heyrðum það hér í gær í Sþ., að einn liður í áætlun hæstv. ríkisstj. er sá, að 1. umr. fjárlaganna fari ekki fram, áður en þingfrestun á sér stað. Þeir ætla að senda þingið heim, án þess að 1. umr. fjárlaga fari fram. Það á ekki að halda fjárlagaræðuna, og það á ekki að gefa þingmönnum upplýsingar hér á Alþ. um það, hvernig þjóðarbúið stendur nú á haustdögunum, áður en menn þurfa að móta sér skoðun um, hvað eigi að gera. Það er sagt, að það sé nóg fyrir þingmenn að heyra þetta, þegar þeir koma til baka og þegar stjórnin hefur þegar tekið ákvarðanir um, hvað eigi að gera. Hæstv. fjmrh. sagði hér í gær, að það væri alveg nóg fyrir menn að heyra þetta í janúar, þegar stjórnin væri búin að ákveða, hvað ætti að gera. Er hægt að hugsa sér meiri fyrirlitningu á þingræðinu og þingliðinu en fram kemur í þessum framslætti hæstv. fjmrh.? Ég efast um það. Ég efast um, að það séu nokkur dæmi til þess í þingsögunni, að yfirlýsingar þessa eðlis hafi komið fram. Ég efast um, að það sé nægilega snemmt, að menn fái að vita um þetta, þegar þeir koma til baka og þegar hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið, hvað verði gert, — þá verði allt lagt fyrir menn og upplýsingar með og náttúrlega sagt við meirihlutamennina, sem verða sendir heim eða eiga að senda sjálfa sig heim næstu daga: Þetta eigið þið að samþykkja. Þetta var ákveðið, á meðan þið voruð heima.

Það var einhver, — ég held það hafi verið hæstv. dómsmrh., — að minnast á það hér á dögunum, þegar hann flutti hér yfirlýsingu, að það væri svo sem hægt að hafa samráð við þingmenn um efnahagsmálin, þó að þeir væru heima hjá sér. Já, það er ákaflega líklegt, að ríkisstj. og þeir, sem með henni starfa, geti sett þingmennina, — við skulum segja í meiri hlutanum, — inn í öll þessi mál í gegnum síma, hvern og einn, og að menn geti þannig tekið fullan þátt í undirbúningi mála og ákvörðunum í einstökum atriðum og í heild. Þetta á að gera í gegnum sima í þinghléinu.

Við höfum heyrt, að það á ekki að halda fjárlagaræðuna og það á ekki að fara fram 1. umr. fjárlaganna. Það liggur ekkert á því. Það hefur komið fram yfirlýsing í Varðarhúsinu. Hún er alveg nóg og engin ástæða til þess að vera að tala um það meir. Sú yfirlýsing, sem flutt var í Varðarhúsinu, hlaut náttúrlega að byggjast á einhverjum skýrslum. En þingmenn varðar ekkert um þær skýrslur, sem sú yfirlýsing byggðist á. Það er nægilegt að fá niðurstöðuna í einu lagi úr Varðarhúsinu. Það er alveg mátulegt handa Alþingi. Það er ekki þörf á meira. Svo geta menn farið heim. Menn verða kannske sumir, þeir sem eru mest í náðinni, hringdir upp einstöku sinnum, — auðvitað verður það nú aldrei, — hringdir upp einstöku sinnum til þess að segja þeim fréttir. Svo kemur þetta allt. Þegar menn koma til baka, þá verður stjórnin búin að ákveða, hvað eigi að gera, og þið getíð sagt já og amen, sem styðjið stjórnina. Það er alveg sama, hvað hinir segja, og þeir þurfa ekkert að vita. — Þetta er hugsunarhátturinn, og þetta eru fyrirætlanirnar.

En ef hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. hefur álitið, að þessi ákvörðun, að fjárlagaræðan skuli ekki haldin fyrir jól, 1. umr. fjárlaganna skuli ekki fara fram, — að þetta hljóti að verða til þess, að þá verði ekkert rætt nú um efnahagsmálin á Alþingi, — ef hæstv. ríkisstjórn álítur það, þá er það mikill misskilningur, af þeirri einföldu ástæðu, að efnahagsmálin hljóta a.m.k. að verða rædd af okkur hinum í sambandi við þau efnahagsmálafrv., sem hér eru lögð fyrir. Og eitt þeirra er það frv., sem nú er hér til 1. umr. í d. og tekið er á dagskrá með afbrigðum á þann smekklega hátt, sem ég hef verið að lýsa. Og ástæðan til þess, að ég og fleiri greiddum atkv. á móti afbrigðunum nú, var sú, að við vildum með því mótmæla þingfrestunarmálinu öllu saman, því að fyrirtekt þessa máls hér með afbrigðum í dag er eingöngu einn liður í því að koma þingmönnum heim, að losa sig við þingið, en ekki nein venjuleg beiðni um afbrigði fyrir þingmáli á þann hátt, sem tíðkazt hefur. Þess vegna greiddi ég atkv. á móti afbrigðunum, og það sama mun vera óhætt að segja um þá aðra, sem það gerðu.

En það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh. eða ríkisstj., að það sé hægt að tryggja það, að ekkert verði minnzt hér á efnahagsmál, með því að láta 1. umr. fjárlaganna dragast. Hitt er svo annað mál, að ríkisstj. nær þeim tilgangi sínum með þessu, að það upplýsist auðvitað ekki um þau mál, eins og hefði átt að gera og hefði orðið, ef hæstv. ráðh. hefði gert skyldu sína nú og gefið skýrslu. En þessi mál hljóta eigi að síður að verða rædd við þær umræður, sem eiga sér nú stað, áður en þingfrestunin fer fram.

Ég skal ekki hafa langan sögulegan inngang að því, sem ég ætla að segja hér um efnahagsmálin eða fjármálin. Ég ætla ekki að fara langt aftur í tímann í því sambandi. En til þess að skilja það ástand, sem nú er orðið í efnahagsmálum landsins, er þó nauðsynlegt að rifja upp örfáa drætti í því, sem gerzt hefur í þeim efnum, a.m.k. síðustu missiri. Vitanlega er löng nót dregin að því, sem nú er í efnahagsmálum, og margs konar áhrif, sem koma þar til greina, en vitaskuld er það tvennt, eins og nú standa sakir, sem á einna mestan þátt í þeim vanda, sem við er að fást. Fyrra atriðið er skemmdarstarfsemi Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni gegn efnahagslöggjöfinni 1958. Þetta er annar höfuðþátturinn, sem menn eiga eftir að bíta úr nálinni með. Og hinn höfuðþátturinn er sú svikastefna í efnahagsmálum, sem núverandi stjórnarflokkar hafa haldið uppi síðan í fyrrahaust. Ég kalla það svikastefnu í efnahagsmálum, sem þeir hafa haldið uppi, síðan þeir tóku við þessum málum, um leið og stjórn Alþfl.-manna var mynduð af Sjálfstfl. s.l. haust. Og ég skal færa fyrir þessu nokkrar ástæður.

Það er enginn vafi á því, að efnahagslöggjöfin, sem lögð var fyrir og samþ. vorið 1958, var á margan hátt mjög þýðingarmikil og markaði spor í rétta átt í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það mætti færa fyrir þessu margar ástæður. Ég vil t.d. nefna, að í þeirri löggjöf var með vissum hætti stigið skref út úr uppbótakerfinu með því að minnka það ósamræmi, sem íslenzkir atvinnuvegir höfðu átt við að búa, þar sem sumar atvinnugreinar höfðu áður starfað nær uppbótalaust, en aðrar með geysilegum uppbótum. Ýmiss konar atvinnurekstur í landinu var að dragast upp af þessum ástæðum, eins og siglingar og margvíslegur annar atvinnurekstur. En með löggjöfinni var stigið spor til jöfnunar á milli atvinnugreina í þessu efni með almenna yfirfærslugjaldinu, en af því hlaut náttúrlega að leiða nokkra almenna verðhækkun. Hjá því varð ekki komizt. Í sambandi við þessa löggjöf kom það fram, að sjálfstæðismenn viðurkenndu það út af fyrir sig, að með þessu væri stigið spor í rétta átt. Ef hér hefði verið um heiðarlegan stjórnmálaflokk að ræða og málefnalegan, hefði afleiðingin af því átt að verða sú, að hann hefði a.m.k. ekki ráðizt með heift gegn þeim þætti í löggjöfinni, sem hann taldi til bóta. En það var öðru nær. Einmitt þetta atriði, að innleiddur var þessi jöfnuður með almennu gjaldi, — einmitt þetta atriði, sem sjálfstæðismenn höfðu þó lýst yfir, að væri til bóta, var alveg sérstaklega rógborið um landið þvert og endilangt af útsendurum sjálfstæðismanna og allt gert, sem unnt var, til þess að skera upp herör gegn löggjöfinni og ríkisstj. út af þessu atriði, sem sjálfstæðismenn þó viðurkenndu hér á Alþingi að hefði átt rétt á sér. Hver er sá, sem man ekki rógburð sjálfstæðismanna út af hækkun þeirri, sem varð á rekstrarvörum til landbúnaðarins í þessu sambandi? Hver er sá, sem man ekki hliðstæðan málflutning þeirra við sjávarsíðuna út af þeirri hækkun, sem hlaut að verða á rekstrarvörum til sjávarútvegsins, einnig í sambandi við þennan þátt löggjafarinnar? Hitt er svo annað mál og sýnir einnig, hvernig þessi málflutningur var, að síðan Sjálfstfl. kom aftur til áhrifa í þessum efnum, hefur hann auðvitað alls ekki stigið neitt skref í þá átt að aflétta þessu almenna gjaldi, sem hann þó rógbar af öllum kröftum víðs vegar um byggðir landsins, bæði í sveit og við sjó, — auðvitað alls ekki. Þá kom í ljós, að hér var aðeins um rógburð að ræða á lægsta plani. En þetta hafði verið ein aðaluppistaðan í öllum málflutningi þessa stærsta flokks í landinu á annað ár. Hvað segja menn um svona framkomu? Hvað segja menn um slíkan flokk?

En það var ekki nóg með þetta. Sjálfstfl. vissi, að ef efnahagslöggjöfin gæti komið að fullum notum fyrir þjóðina og fyrir landið, þá mundi hún um leið styrkja í sessi stjórnina, sem að henni stóð. Og af því að Sjálfstfl. var þetta ljóst, tók hann vitanlega þann kostinn, sem í mestu samræmi var við hans forustu og eðli flokksins, sem er fyrst og fremst það að vera valdaklíka, — klíka, sem sækist eftir völdunum. Og sá kostur var, að af því að efnahagslöggjöfin var líkleg til þess að styrkja í sessi þáverandi stjórn og stjórnarmeirihluta, þá var sjálfsagt að reyna að eyðileggja hana í framkvæmd, þó að hún væri tvímælalaust að gagni fyrir þjóðina. Aldrei eitt andartak var nokkur vafi um það á þeim bæ, að þjóðarhagur skyldi í þessu alveg víkja fyrir þeirri nauðsyn flokksins, sem talin var, að reyna að koma vinstri stjórninni frá og brjótast til valdanna. Þó að það kostaði stórtjón fyrir landið og þjóðina, þá var það ekki það, sem úr skar.

Sjálfstfl. hafði árum og áratugum saman lagt á það megináherzlu, að kaupgjaldsstefnunni yrði að haga þannig, að ekki leiddi til verðbólgu, það væri hið versta tjón, sem hægt væri að gera þjóðinni og launastéttirnar gætu gert sjálfum sér, ef þær hækkuðu kaupgjaldið ófyrirsynju. En þegar Sjálfstfl. þurfti á einhverju ráði að halda til þess að eyðileggja efnahagsmálalöggjöfina frá 1958 í framkvæmdinni og koma í veg fyrir, að hún yrði að því gagni, sem til stóð, þá stóðu þessar yfirlýsingar um þá stefnu, sem ætti að fylgja í kaupgjaldsmálum, ekki til hindrunar því, að flokkurinn gerði allt, sem í hans valdi stóð, til þess að reisa nýja kauphækkunaröldu í landinu með það fyrir augum að efla verðbólgu- og verðhækkunardrauginn á ný, koma efnahagsmálum þjóðarinnar úr jafnvægi á ný, skapa öngþveiti í þeim málum, sem yrði til þess, að nýjar ráðstafanir þyrfti að gera, nýjar álögur, gengislækkun eða eitthvað slíkt, — allt í því trausti, að ef þetta tækist, þá hlyti að koma upp ágreiningur á milli vinstri flokkanna, samtök þeirra sundrast, skapast öngþveiti í málefnum landsins, sem gæti leitt til þess, að Sjálfstfl. kæmist til valda. En það var aðalatriðið, að hann kæmist til valda. Þess vegna voru handlangarar þessara manna í verkalýðsfélögunum sendir út og samdar fyrir þá á skrifstofu Sjálfstfl. ræður, þar sem því var haldið fram, að það væri ekkert vit í öðru fyrir launafólk í landinu en að krefjast hækkaðra launa. Með hinni nýju löggjöf væri vinstri stjórnin búin að halda þannig á þessum málum, að það yrðu að eiga sér stað nýjar launahækkanir. Og ef það leit út fyrir, eins og stundum var, að meiri hlutinn í félögunum sæi í gegnum þennan svikavef og kæmi auga á, að hér væri ekki verið að ráða nein hollráð eða af heilum hug, ef hik var á mönnum að fara eftir ráðleggingum þessara útsendara og upp komu raddir um, að hyggilegra væri að bíða, eins og t.d. Dagsbrún gerði, til þess að sjá, hver yrði niðurstaðan, hvernig efnahagslöggjöfin yrði í reynd fyrir kjör fólksins, og það fengi að sýna sig, hvort hér væri um skref í rétta átt að ræða eða ekki, — þegar slíkar raddir komu fram, þá voru sendir út menn til þess að bjóða kauphækkanir í nafni atvinnurekenda. Það hlaut þó a. m, k. að duga til þess að losa fyrsta steininn. Flokksvél Sjálfstfl. vann þannig ekki með einu móti, heldur með öllu móti að því að reyna að koma skriðunni af stað og koma þessum málum úr böndunum. Og það tókst með þessum aðförum, sem ég hef verið að lýsa.

Síðan, þegar flett var ofan af þessum óheilindum, voru náttúrlega fundin upp alls konar ráð — tylliráð — til þess að reyna að fela þessar aðfarir og skekkja þá mynd, sem blasti við þjóðinni út af þessum vinnuaðferðum. Þá var það blákalt borið fram, þó að það væru hrein ósannindi, að það væru allt aðrir, sem hefðu átt þátt í því, að ný kauphækkunaralda reis, og einskis svifizt í því sambandi, þvert ofan í fyrirliggjandi staðreyndir. Frægasta dæmið um þetta er það, þegar hæstv. núv. dómsmrh. bjó það hreinlega til og hélt því fram missirum saman, að upphaf þessarar hækkunaröldu hefði verið í því fólgið, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefði gengið á undan með kauphækkanir, eftir að efnahagslöggjöfin var sett. Þessu hélt hann fram, þó að það lægi fyrir sem staðreynd, að Sambandið hafði viðhaft þá aðferð að leiðrétta laun hjá sínu fólki, eftir því sem áður hafði verið gert annars staðar við hliðstæð verk. Þannig voru vinnubrögðin. En allt kom þetta auðvitað fyrir ekki, því að þetta mál lá of ljóslega fyrir, til þess að því yrði leynt, hverjir það voru, sem hér áttu raunverulega hlut að máli.

Þessar aðfarir sjálfstæðismanna voru undirrót þess, að ný kauphækkunaralda reis í landinu árið 1958. En efnahagslöggjöfin var einmitt byggð á því, að á grundvelli hennar mundi geta tekizt að ná jafnvægi í þjóðarbúskap Íslendinga, ef ekki ættu sér stað almennar grunnlaunahækkanir, fyrr en ný framleiðsluaukning hefði komið til sögunnar, sem hefði getað staðið undir þeim. Og í þessari löggjöf var líka stigið fyrsta skrefið til þess að taka vísitöluna úr sambandi, ef svo mætti segja, með því að kippa út nokkrum stigum, en lögbjóða þess í stað í efnahagslöggjöfinni nokkra grunnkaupshækkun. Og það var álit þeirra, sem að þessu stóðu, að atvinnureksturinn mundi þola þessa grunnlaunahækkun, sem ákveðin var í efnahagslöggjöfinni, en ekki heldur meira, eins og sakir stæðu. Og þá var gert ráð fyrir því, að kaupmáttur tímakaupsins væri ekki minni en hann var í ársbyrjun 1958 og í október 1958. En það var einmitt þetta atriði í efnahagslöggjöfinni, sem sjálfstæðismönnum var sérstaklega ljóst. Frá þeirra sjónarmiði var löggjöfin einmitt hættuleg, af því að hún gat orðið að liði til frambúðar, ef rétt var að farið. Einmitt af því var hún hættuleg frá sjónarmiði sjálfstæðismanna og þurfti að raska henni, eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Þessar aðfarir sjálfstæðismanna, sem ég hef lýst með nokkrum orðum, urðu svo til þess, að almennar launahækkanir urðu í landinu, og um haustíð 1958 voru þessi mál af þeim ástæðum komin í talsvert alvarlegan hnút. Það lá sem sé þá orðið fyrir, að vegna þess, sem gerzt hafði, var óhjákvæmilegt að gera nýjar ráðstafanir. Og þá kom því miður upp ágreiningur um, hverjar þær ráðstafanir skyldu verða. Ég skal ekki rekja þann ágreining hér í einstökum atriðum, því að hann kemur ekki því máli við, sem hér liggur fyrir til umræðu. En sá ágreiningur endaði með því, því miður, að vinstri stjórnin sá sér ekki annað fært en fara frá, því að það var álit þeirra, sem höfðu forustu í stjórninni, að það væri óhugsandi, að sú stjórn gæti haldið áfram, nema hægt væri að sjá efnahagsmálum landsins sæmilega borgið. Forusta þeirrar ríkisstj. var ófáanleg til þess að halda áfram, þegar það lá fyrir, að stórfelldur halli hlaut að verða í þjóðarbúskapnum, sem hefði hlotið að enda með því, að vandinn hefði farið vaxandi, en ekki minnkandi. Við þau skilyrði var vitanlega ekki hægt að halda áfram vinstri stjórninni.

Þá hafði Sjálfstfl. að vissu leyti uppskorið ávöxt þeirrar iðju, sem hann hafði stundað. Honum hafði tekizt að vinna skemmdarverk á efnahagsmálalöggjöfinni og efnahagsmálum landsins. Honum hafði tekizt að tefla þeim í nýjan hnút. Og honum hafði tekizt að tefla þeim þannig í hnút, að það kom upp ágreiningur um það innan vinstri flokkanna, hvernig málið skyldi leysa. Og vinstri stjórnin fór frá.

Í framhaldi af þessu voru svo gerð samtökin um kjördæmabreytinguna, sem ég skal ekki tefja tímann með að fara að ræða hér núna, þó að það væri í raun og veru full ástæða til þess, vegna þess að kjördæmabreytingin byggðist að mjög verulegu leyti á vissri skoðun í efnahagsmálum, sem nú er ætlunin að byrja að framkvæma af þeim þingmeirihluta, sem nú hefur tekið við. Menn skulu gera sér það ljóst, að sú efnahagsmálastefna, sem þeir flokkar, sem nú hafa tekið saman um ríkisstjórnina, ætla sér að framkvæma, er í raun og veru beint og hreint framhald af kjördæmabreytingunni og þeim hugsunarhætti, sem á bak við hana lá. Þessi efnahagsmálastefna verður byggð á því að þrengja að framkvæmdunum, draga saman fjárfestinguna og framkvæmdirnar í landinu og fyrst og fremst framkvæmdirnar víðs vegar úti um landið, bæði í sveitum og við sjávarsíðuna. Það þarf ekki lengi að skoða það, sem kemur nú þegar úr þeim herbúðum, þótt litið sé, til þess að sjá alls staðar, hvað til stendur í þessu efni. Ætlunin er að fórna þessari atvinnuframsókn að verulegu leyti á altari verðbólgudraugsins. Og af þessum toga eru spunnar allar þessar geigvænlegu lýsingar, sem farnar eru að koma fram nú þegar á því, hversu hættulegt sé að reka áfram t.d. sömu ríkisábyrgðapólitik og gert hefur verið. En einmitt sú ríkisábyrgðapólitík hefur verið einn helzti hornsteinninn undir uppbyggingunni víðs vegar um landið, eins og hægt væri að sýna fram á með hundruðum dæma, ef tími væri til þess nú. Af því stafa líka sumpart þær fyrirætlanir, sem gægjast fram um það að hætta jafnvel að mestu leyti að taka erlend lán til framkvæmda í landinu, og fjöldamargt annað af sama tagi, sem allt á eftir að koma betur í ljós, eftir því sem málum vindur fram á þessu þingi, ef þessi samsteypa stendur nógu lengi til þess að koma þessu samsæri öllu í framkvæmd. Það væri sem sagt rík ástæða til þess að ræða þennan þátt efnahagsmálanna allýtarlega nú þegar hér á hv. Alþingi. En ég ætla ekki, a.m.k. ekki í bili, að fara mjög langt út í það eða miklu lengra en ég hef gert, heldur halda áfram, þar sem ég hvarf frá áðan, en það var að rekja í fáeinum orðum nokkra þætti í sögu efnahagsmálanna síðustu þrjú missirin eða svo.

Ég var kominn að því, að Sjálfstfl. hafði tekizt með þessum þokkalegu vinnubrögðum að koma vinstri stjórninni frá. Honum hafði tekizt að vinna óþurftarverk í efnahagsmálum landsins, og þá stóð fyrir að ákveða, hvað skyldi verða næst, hvað skyldi koma næst. Og þá skeður það, að fundið er upp það snjallræði til þess að brúa bil í þessum málum, til þess að komast yfir dauða punktinn, ef svo mætti segja, — til þess að komast yfir dauða punktinn í þeim snúningi, sem átti að verða í þjóðmálum, var fundið upp það snjallræði, að Sjálfstfl. myndaði Alþýðuflokksstjórn. Jú, það reyndist hægt. Það var sumpart byggt á kjördæmabreytingunni. En hún var þó bara einn liður í þessu. Fyrst og fremst var þetta byggt á því, hversu hugsunarháttur þeirra manna, sem nú ráða í Alþfl., er líkur hugsunarhætti hinna, sem ráða í Sjálfstfl. Það er þannig, að hægri klíka Alþfl., sem hefur algerlega tekið þar völdin og lagt fyrri stefnu Alþfl. gersamlega á hilluna, — að hugsunarháttur þessara manna í hægri klíku Alþfl. er ekki, að því er maður getur fundið, í neinu verulegu frábrugðinn hugsunarhætti þeirra manna, sem ráða raunverulega í Sjálfstfl. Ég get ekki fundið, hvar mismunurinn liggur, og þess vegna er það engin tilviljun, því miður, að hægt var að komast yfir dauða punktinn í snúningnum á þennan hátt, sem mörgum fannst fljótt á litið einkennilegur, að Sjálfstfl. myndaði Alþfl.-stjórn.

En hvað gerðist síðan? Það var tekið upp kjördæmamálið og sagt, að allt væri undir því komið um góða framtíð Íslands, að gömlu kjördæmin yrðu öll lögð niður og innleitt alveg nýtt skipulag. — Ég lofaði því áðan að fara ekki út í kjördæmamálið, og ég skal efna það. — En þetta var haft á oddinum. Jafnframt var svo verið að koma á þessari nýju valdasamsteypu í efnahagsmálunum, sem ég lýsti áðan með aðeins örfáum orðum. Og fyrsta skrefið, sem stigið var í því efni, það var þetta, að Alþfl.-menn settust í ráðherrastólana.

En hvernig átti að fara með efnahagsmálin? Venjulegum mönnum sýndust góð ráð dýr. Það var búið með skemmdarverkum að eyðileggja efnahagslöggjöfina frá 1958 í framkvæmdinni. Það hafði Sjálfstfl. gert eða haft forustu um, skulum við segja, því að ég sýkna ekki ýmsa aðra í því sambandi, þó að ég fari ekki út í það núna, því að það er ekki ástæða til þess, — en þar hafði Sjálfstfl. forustuna. Og efnahagsmálin voru komin í nýjan hnút. Þetta sýndist venjulegum mönnum vera nokkuð erfitt viðfangsefni, sem þarna blasti við, og að það þyrfti að grípa til einhverra raunhæfra úrræða, ef ekki ætti að fara illa. En þeir, sem nú voru komnir að, hugsuðu ekki þannig. Þeir höfðu ákaflega einfalt ráð í þessu efni, og það ráð notuðu þeir, og það varð í framkvæmdinni að því, sem ég kalla svikastefnu í efnahagsmálunum og ég skal leyfa mér að fara um nokkrum orðum og Alþfl. ber ekki ábyrgð á einn, heldur engu síður Sjálfstfl. og þeir menn, sem núna, eftir að komið er yfir dauða punktinn, hafa setzt við hliðina á Alþfl.-mönnum í ráðherrastólana. En þar eru þeir nú setztir til þess að skera upp ávextina af því, sem þeir sáðu sjálfir, á meðan þeir létu Alþfl.-menn vera þar eina, og svo náttúrlega líka til þess að ráða fram úr því, sem þeir efndu til, sjálfstæðismenn, með því að setja úr skorðum efnahagslöggjöfina 1958. Þetta er það verkefni, sem bíður þessara hæstv. ráðherra.

En áður en við komum nánar að því, þá rifjum aðeins betur upp, hvað þeir gerðu, þegar búið var að mynda stjórnina með Alþýðuflokksmönnunum. Það var ákaflega einfalt. Þeir sögðu: Það eru til ákaflega einfaldar aðferðir í efnahagsmálunum, við ætlum að nota þær. Það er að halda niðri dýrtíðinni án þess að hækka skattana. Þetta er ákaflega einfalt, og þetta ætlum við að gera. — Ég var að spyrja kunningja minn að því áðan, hvort hann kannaðist við Ali Baba. Hann var ekki vel með á nótunum, en ég held, að Ali Baba hafi verið náungi, sem gat allt. Það var ekki til það verkefni, sem hann gat ekki leyst. Hann gat setíð í lausu lofti t.d., það var bara eitt lítilfjörlegt atriði af því, sem hann gat gert. Þessi stjórn sagði við þjóðina: Ég er Ali Baba. Ég get allt. Ég get stöðvað dýrtíðina án þess að hækka skattana. — Og síðan var byrjað á þessu. Hvernig fóru mennirnir að þessu? Það er spurningin. Þeir fóru fyrst og sömdu við framleiðendur um það að hækka útflutningsuppbæturnar. Þar næst tóku þeir sig til og juku niðurgreiðslur á verðlagi landbúnaðarafurða eins og þurfti, til þess að verðlagið stæði óbreytt í bili. Það skipti engu máli í augum þessara manna, hvort það kostaði 10 millj. kr. eða t.d. 100 millj. Þeir ákváðu bara að greiða niður það, sem þurfti, til þess að verðlagið stæði óbreytt.

Þá var nú búið að efna annað loforðið, sem Ali Baba hafði gefið. Það var að stöðva dýrtíðina. Þá var hitt eftir: án þess að hækka skattana. Það var ekkert vandasamt heldur. — Hér vil ég skjóta inn í, að það var einn broslegur þáttur í þessu öllu saman, að þegar þetta gerðist og þessi stjórn var sett á laggirnar, þá byrjuðu forustumenn Sjálfstfl. að útmála það með ákaflega sterkum litum, hversu viðskilnaður vinstri stjórnarinnar hefði verið óhæfilegur á alla lund, allt hefði verið á svarta-, bólakafi. Það er satt, að sá þáttur þeirra mála, sem Sjálfstfl. hafði getað haft áhrif á, sem sé þróun dýrtíðarmálanna, var á geigvænlegu stigi. En það var aðallega verk Sjálfstfl., eins og ég hef þegar lýst. En þeir þættir, sem voru viðráðanlegir fyrir stjórnina, eins og t.d. afkoma ríkissjóðs, voru sannarlega ekki í neinu öngþveiti. Það lá sem sé fyrir, að það var verulegur greiðsluafgangur á sjálfum ríkisbúskapnum.

Og þegar fyrrverandi stjórn fór að athuga, hvort það væri mögulegt að standa við þetta loforð, sem hún hafði gefið, að stöðva dýrtíðina án þess að hækka skattana, — þeim hafði að vísu auðvitað aldrei dottið í hug, að þeir gætu staðið við það nema örstutta stund, — þá fann hún greiðsluafgang fyrrv. ríkisstjórnar, sem hún hikaði ekki við að láta í svikamylluna. Það komu að sjálfsögðu fram till. um að verja þessum greiðsluafgangi eins og áður hafði verið gert, t.d. til íbúðalána í landinu og til þess að greiða fyrir uppbyggingu víðs vegar um landið. Allar slíkar till. voru felldar af Alþfl.-mönnum og sjálfstæðismönnum, en greiðsluafgangurinn var tekinn og látinn í svikamylluna, ef það mætti verða til þess, að stjórnin gæti dragnazt fram yfir kosningarnar samkv. þessum fyrirheitum, sem hún hafði gefið. En fyrirheitin voru ekki aðeins um það, hvað ætti að ske fram að kosningunum. Fyrirheitin voru um það, að stjórnin ætlaði sér að stöðva verðbólguna, stöðva dýrtíðina án þess að hækka skattana, og kem ég að því síðar.

Þar næst var svo gengið í það að skera niður verklegar framkvæmdir, minnka það fjármagn, sem ríkið legði fram til verklegra framkvæmda í landinu. Það var skorið niður atvinnuaukningarféð, en atvinnuaukningarféð er það fjármagn, sem bezt hefur komið að liði nokkurra peninga, sem ég þekki til, til þess að byggja upp atvinnulífið í sjávarplássum landsins. En það var eitt fyrsta úrræði þessarar stjórnar að reyna að fleyta sér fram yfir kosningarnar með því að skera niður atvinnuaukningarféð. Og það er athyglisvert, að sá niðurskurður er látinn standa enn á því fjárlagafrv., sem núverandi stjórnarsamsteypa hefur lagt fram, enda er það ekkert einkennilegt, því að það eru sömu aðilarnir og sömu öflin, sem standa að því, sem nú er að gerast, og hinu, sem gert var í fyrravetur. Þá var ráðizt á raforkuáætlun dreifbýlisins og framlög til hennar skorin niður um 30–40 millj. á einu ári, sumpart af lánsfé og sumpart af því, sem veitt var á fjárlögunum sjálfum. Meira að segja var gengið svo langt, að bönkum landsins var sleppt við að efna loforð um lánaframlög í þessu skyni, sem þeir höfðu gefið fyrrv. stjórn. Þeir voru leystir undan því loforði. Það lá ekkert á rafvæðingunni úti um land, það þurfti ekki á þessu lánsfé að halda. Og með þessum aðförum voru raforkuframkvæmdir í landinu minnkaðar um marga milljónatugi á einu ári. Og nokkuð af því fé, þ.e.a.s. það, sem skorið var niður á fjárlögunum, gat gengið beint í svikamylluna eins og greiðsluafgangurinn.

Þá var það vitað, að Sogsvirkjunin átti ógreidda tolla og mundi eiga að greiða tolla á þessu ári, en það vantaði fjármagn til þeirra tollgreiðslna. Og það var ákveðið af þessum úrræðagóðu mönnum að reyna að fá Seðlabankann til þess að lána í þessar tollagreiðslur og kasta því líka í svikamylluna, en það jafngilti bara því að ganga í Seðlabankann og taka þar að láni nokkra milljónatugi til þess að kasta í svikamylluna, sem ég hef leyft mér að kalla.

En þetta var sýnilega ekki nóg, til þess að hægt væri, — ekki að standa við loforðin, það datt engum í hug, — til þess að hægt væri að leyna því fram yfir kosningarnar, hvað raunverulega var að ske. Þetta var ekki nóg. Þá var fundið eitt snjallræði í viðbót, alveg sérstaklega merkilegt, og það var að leggja megináherzlu á það í nokkra mánuði að flytja inn hátolla- og lúxusvörur til landsins og láta nauðsynjar sitja á hakanum, skrapa þannig saman um stutta stund verulegar auka- og umframtekjur í ríkissjóð og láta það líka ganga beint í svikamylluna. En hvað varðaði þessa menn um það, þó að hér væri á ferðinni, eins og í hinum dæmunum, aðferð, sem aðeins gat orðið notuð einu sinni, en svo ekki meir, þó að hér væri að ræða um aðferð, sem raunverulega var fólgin í því að éta sig út? Það átti ekki aðeins að éta út greiðsluafganginn og ógreidda tolla, sem hægt væri að skrapa inn, éta upp fé, sem áður hafði gengið að verulegu leyti til verklegra framkvæmda. Nei, það átti líka að éta út gjaldeyrinn, verja honum í hátollavörur meira en áður og lúxusvörur og auka þannig tolltekjurnar í bili, til þess að þeir gætu dragnazt áfram með þessi mál fram yfir kosningarnar og leynt þjóðina því, hvernig raunverulega var ástatt.

Þegar þessi mál voru til umræðu hér í fyrravetur og ég benti hæstv. þáv. fjmrh. á, hversu háskalega braut þarna væri verið að fara inn á og hversu ábyrgðarlaust þetta væri, að ætla að fleyta sér á þennan hátt, þá svaraði hann af miklu yfirlæti hér, á milli kl.4 og 5 að nóttu, um hánótt, að af þessu skyldu menn engar áhyggjur hafa, þessar tekjur mundu skila sér. Ríkisstjórnin mundi sjá um, að þær hátollavörur, sem áætlaðar væru, kæmu inn í landið. Hæstv. ráðherra hélt víst, að ég mundi hafa áhyggjur af því einu, að þeir mundu ekki ganga nógu vel fram í því að flytja inn lúxusinn og hátollavörurnar til þess að fleyta sér á með þessum þokkalega hætti. Og hæstv. ráðh. sagði í þeim umræðum, að það hefði eiginlega verið helzt ljóður á vinstri stjórninni, að henni hefði mistekizt að flytja inn eins mikið af hátolla- og lúxusvörum og hefði þurft áð gera, til þess að nægilega vel hefði komið út þjóðarbúskapurinn. En menn skyldu engar áhyggjur hafa, það væri búið að gera um þetta alveg traustar áætlanir, mjög traustar áætlanir, og þeim yrði fylgt út í æsar Það kæmi ekki fyrir oftar, að menn flöskuðu á því að láta þessar vörur vanta.

Hver er svo afleiðingin af þessari stefnu, sem þarna var tekin upp og framkvæmd? Hvernig er gjaldeyrisástandið í dag, og hver eru áhrif þessarar stefnu á þjóðarbúskapinn?

Gjaldeyrisástandið er þannig í dag, að það má heita, að gjaldeyrisyfirfærslur séu stöðvaðar. Á hinn bóginn er mér sagt, þó að það sé eitt af því, sem okkur er neitað um upplýsingar um, og það er kannske m.a. þess vegna, að ekki er hægt að halda neina fjárlagaræðu að svo stöddu, — hins vegar er mér sagt, að þó að gjaldeyrisástandið sé svona, þá hafi verið fullkomlega staðið við þessa áætlun um innflutning lúxusvara, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. var svo stoltur af. Og það er þá líklega eitt af því fáa, sem hefur verið staðið við af því, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gaf fyrirheit um. En á hinn bóginn vantar gjaldeyri svo tilfinnanlega fyrir nauðsynjum, að það dregur áreiðanlega verulega úr framleiðslunni og tekjuöflun þjóðarinnar. Það er ekki hægt annað en taka eftir því, að það vantar víða nauðsynlegustu varahluti og nauðsynlegustu tæki til sjálfrar framleiðslunnar, byggingar standa opnar um háveturinn og eyðileggingu undirorpnar, vegna þess að ekki fæst gjaldeyrir fyrir þakjárni. Og þannig mætti telja alveg endalaust til vitnisburðar um það, hvernig framkvæmd þessarar stefnu hefur orðið að þessu leyti, hvernig þessi þáttur hennar hefur verkað á þjóðarbúskapinn. Og hvað heyrum við svo? Við heyrum nú, að það sé ekki hægt framvegis að gera ráð fyrir jafnmiklum innflutningi hátolla- og lúxusvara og orðið hafi á þessu ári. Þetta er bein yfirlýsing, bein játning frá yfirvöldunum um, að þau hafi haldið þessu gangandi m.a. með því að éta út gjaldeyri þjóðarinnar fyrir hátolla- og lúxusvörur.

Þessi voru þá úrræðin hjá hæstv. fyrrv. ríkisstjórn. Svona átti að fara að því að stöðva dýrtíðina án þess að hækka skattana. Og takið eftir því, að þetta var kallað að stöðva dýrtíðina, að stöðva verðbólguna.

Ég tók það dæmi af þessum aðförum í fyrravetur í þeim deilum, sem þá urðu um þetta, að hér væri ekki verið að stöðva dýrtíðina eða stöðva verðbólguna. Það var sagt þá af einum stuðningsmanni þessara aðfara, að það væri með þessu verið að hlaða stíflugarð fyrir framrás verðbólgunnar. Það var kannske verið að hlaða stíflugarð, ef menn vilja gefa svona löguðum aðferðum slík nöfn. En þá líktist sú aðferð því einna helzt, ef menn tækju sér fyrir hendur að byggja stíflugarð í stórfljót, sem fossaði fram, og héldu því svo fram, að framrás fljótsins hlyti að stöðvast, af því að garðurinn hefði verið byggður. Auðvitað hefði framrás fljótsins aðeins stöðvazt, á meðan það rúm, sem myndaðist fyrir ofan stífluna, var að fyllast. En þegar það rúm var orðið fullt, beljaði fljótið vitaskuld áfram með sama krafti og áður. En það er ekki einu sinni svo gott, að hér hafi verið farið þannig að, heldur hefur þessi stífla, sem hlaðin var, reynzt þannig, að nú er hún raunverulega sprungin. Og nú er okkur sagt, að í staðinn fyrir þessa stöðvun, sem átti að vera búið að koma á, eigum við von á því, sem nú er kallað óðaverðbólga, ef ekki séu gerðar stórfelldar nýjar ráðstafanir, og kem ég að því ofur litið síðar.

Ég lýsti nokkuð hér áðan þeim aðferðum, sem hæstv. fyrrv. stjórn og núv. stjórnarflokkar viðhöfðu til þess að blekkja þjóðina í efnahagsmálunum í fyrravetur og þangað til búið var að kjósa í haust. En það, sem raunverulega gerðist í þeim málum, var það, að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar, þeir sem nú stjórna, sömdu við framleiðendur landsins um útflutningsuppbætur og framkvæmdu niðurgreiðslur á verðlagi innanlands án þess að afla nokkurs eyris til þess að standa undir þessu til frambúðar. Það var þetta, sem þeir leyfðu sér að kalla að stöðva verðbólguna, að stöðva dýrtíðina án þess að leggja á nýja skatta. En þeir gátu leynt þessu fyrir þeim, sem voru ekki nógu kunnugir þessum málum, með þeim ósvífnu aðferðum, sem ég nú þegar hef lýst, fram yfir kosningarnar: með því að skera niður á fjárlögum verklegar framkvæmdir, með því að éta upp greiðsluafgang þann, sem varð árið 1958, og með því að láta hátollaðar lúxusvörur sitja fyrir gjaldeyri landsmanna. Með þessum ósvífnu aðferðum tókst þeim að leyna þessu fyrir þjóðinni, og jafnvel má finna fólk, sem trúði því, að þessar ósvífnu fullyrðingar væru sannar, að þessari samsteypu hefði tekizt raunverulega að stöðva dýrtíðina, að stöðva verðbólguna án þess að hækka skattana.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að víkja að því, að til viðbótar þessum þakkalegu úrræðum, sem ég hef lýst, átti náttúrlega að láta safnast skuldir og óreiðuhala hjá ríkissjóði og útflutningssjóði, sem gengi yfir til framtíðarinnar, ef þessar aðfarir nægðu ekki fram yfir kosningarnar. Nú skal ég ekki fullyrða neitt um það, hversu mikil skuldasöfnun þarna mun eiga sér stað. Hitt veit ég, að afkoma ríkissjóðs er á annað hundrað millj. kr. verri en hún var á sama tíma í fyrra. Hitt veit ég líka, að skuldir ríkissjóðs í bönkunum hafa hækkað mörgum milljónatugum meira á þessu ári en í fyrra. Ég veit það líka um útflutningssjóð, að síðan Alþingi hætti störfum s.l. vor, hafa útflutningsuppbætur verið hækkaðar verulega frá því, sem þá var gert ráð fyrir og í það dæmi var sett, sem þá var verið að reikna. Til dæmis hafa síldaruppbætur hækkað frá því. Það kom sem sé á daginn, þegar átti að ákveða þessar uppbætur, að þá varð að ákveða þær miklu hærri en gert var ráð fyrir í þeirri áætlun, og ég hygg, að það muni muna á 6. tug milljóna. Auk þess hafa komið til aðrar uppbætur og aðrar greiðslur úr útflutningssjóði, sem bætast þar við, þannig að útgjöld útflutningssjóðs, ef miðað er við ársframleiðslu, verða sennilega upp undir 100 millj. meiri en ráðgert var í fyrravetur. Hitt er svo annað mál, að það verða eitthvað hærri tekjur útflutningssjóðsins en gert var ráð fyrir, m.a. fyrir það, hvernig hátollavörum og lúxusvörum hefur verið haugað inn. En samkvæmt öllu því, sem ég veit um þessi mál, er þó algerlega augljóst, að það mun skorta á, að tekjur útflutningssjóðs á þessu ári geti staðið undir uppbótum á framleiðslu þessa árs. Það er því enginn vafi á því, að útflutningssjóður mun draga á eftir sér hala til framtíðarinnar, og það mun koma í ljós, að ekki einu sinni þessar aðfarir, sem ég var að lýsa, munu nægja til þess að koma í veg fyrir lausaskuldasöfnun á þessu ári. M.ö.o.: greiðsluafgangur ársins 1958 að viðbættum þeim aukatollum, sem náð hefur verið inn með óvenjulegum innflutningi lúxusvara, munu ekki einu sinni hrökkva til þess að standa undir þeim halla, sem efnt var til af fyrrv. ríkisstjórn. Mun niðurstaðan verða sú, að skuldahalinn verður dreginn yfir á næsta ár. Mun allt það fram koma, sem við sögðum um þessi efni í fyrravetur og í sambandi við alþingiskosningarnar, þegar við vöruðum við þessum aðförum öllum saman.

Nú fást efnahagsmálin ekki rædd hér á hv. Alþingi. Það á að senda Alþ. heim, án þess að fjárlagaræðan sé haldin og án þess að 1. umr. fjárlaga fari fram. Og það er haldið upplýsingum fyrir mönnum. Ég get sagt mönnum frá því, að ég fór fram á það við fyrrv. stjórn, — þá stjórn, sem stóð fyrir þessum þokka, sem ég hef verið að lýsa, og lýsti því yfir, að hún hefði stöðvað dýrtíðina, — ég fór fram á það Við forsrh. þeirrar stjórnar, rétt áður en þingið kom saman, að ég fengi aðgang að þeim upplýsingum um efnahagsmálin, sem stjórnin hefði yfir að ráða. Mér var neitað um þetta. Mér var neitað um að fá að sjá þær skýrslur, sem t.d. efnahagsmálaráðunautur stjórnarinnar hafði þá þegar samið og mér er kunnugt um að hann hafði samið. Náttúrlega vildi efnahagsmálaráðunauturinn, sem þá var kallaður, en nú heitir ráðuneytisstjóri, ekki gefa mér upplýsingar, án þess að húsbændur hans samþykktu, og lái ég honum það á engan hátt. En það var neitað um þessar upplýsingar. Nú hef ég beðið forsrh. fyrir milligöngu hæstv. fjmrh. um að fá aðgang að þessum upplýsingum, en ekkert fengið. Aftur á móti hefur hæstv. forsrh. þessarar stjórnar, sem þjóðkunnugt er orðið, farið á Varðarfund og sagt mönnum, að það vanti a.m.k. 250 millj. kr. á næsta ári, til þess að endarnir nái saman, ef ætti að halda áfram óbreyttum uppbótum og óbreyttum niðurgreiðslum. Og þó að þessar upplýsingar séu náttúrlega ekki nægilegar, verður maður þó að álíta, að þær byggist á einhvers konar skýrslum, sem hæstv. ráðh. hefur fengið, séu ekki draumvitrun eða þetta sagt alveg út í bláinn. Og vil ég enn þá einu sinni endurtaka þá kröfu til hæstv. fjmrh., að þinginu verði gefin skýrsla um það, á hverju hæstv. forsrh. byggir þessa fullyrðingu. Við eigum heimtingu á að fá að vita þetta ekkert síður en fólkið í Varðarfélaginu. Við erum kosnir á þing til þess að reyna að ráða fram úr málefnum landsins, þ. á m. efnahagsmálunum.

Ef ég þekki hæstv. fjmrh. rétt og aðra hans félaga, þá mun ekki standa á því, þegar þar að kemur, að því verði haldið að okkur, að við eigum að hafa allt á takteinum, sem lýtur að því að ráða fram úr þessum málum, og okkur verður sennilega með fínum orðum sagt að þegja, — ég sagði með fínum orðum, — ef við höfum það ekki allt á reiðum höndum. Það verður áreiðanlega enginn vafi á því, að allir verða minntir á skyldur, sem þeir hafi. Látum þetta vera, bíðum þangað til það kemur. En ég krefst þess af hæstv. fjmrh., að hann sjái um það, að Alþingi fái þessar skýrslur, sem hæstv. forsrh. byggir á þessar upplýsingar, sem hann gaf í Varðarfélaginu. Og það þýðir ekkert að ætla að snúa út úr þessu eða hafa um þetta einhverjar vífilengjur, t.d. eins og þær, að það sé nóg fyrir okkur að vita þetta, þegar við komum til baka og ríkisstj. er búin að ákveða, hvað eigi að gera, — það sé betra að gera reikning þá, vegna þess að þá sé árið liðið o.s.frv. Ef það er hægt að gera skýrslur fyrir forsrh. og þá í Varðarfélaginu, þá er alveg eins hægt að gera skýrslur fyrir Alþingi, og þarf ekki að bíða eftir áramótum til þess eða því, að hæstv. ríkisstjórn ákveði, hvað hún ætlar að gera. Ég vil fá svar við þessu. Ég heimta svar við þessu. Við eigum heimtingu á að vita, á hverju þessar upplýsingar eða fullyrðingar eru byggðar.

Hitt er svo annað mál, að það hljóta óneitanlega að hafa verið tíðindi nokkur fyrir suma af félögum hæstv. forsrh. að heyra, hvað í þessum skýrslum stóð eða lokaniðurstöðum þeirra, að það vantaði 250 millj. kr., til þess að dæmið gæti staðizt, eins og það er í dag. Það hlýtur óneitanlega að hafa sætt nokkrum tíðindum fyrir ráðh. Alþfl. t.d., sem fullyrtu það hér á hv. Alþingi í fyrravetur og síðan um tvennar kosningar, að þeir hefðu gert ráðstafanir til þess að stöðva dýrtíðina, til þess að stöðva verðbólguna án nýrra skatta, og sögðu allt annað ósannindi og dylgjur. Það hljóta óneitanlega að vera tíðindi fyrir þessa hæstv. ráðh., að það er nú upplýst af forustumanni hinnar nýju ríkisstj., að þegar þeir höfðu sagt, að allt væri í jafnvægi og raunverulega búið að stöðva verðbólguna, þá vanti 250 millj. kr. á ári, til þess að „stöðvunarstefnan“ geti staðizt.

Og þá er komið að því, ef maður mætti leyfa sér að viðhafa nokkur gamanmál í þessu, að Ali Baba leysi hina nýju þraut og sýni fram á það, hvernig hægt er að leysa málið. Og þjóðin heimtar alveg áreiðanlega, — það geta menn verið vissir um, — að staðið verði við það fyrirheit, sem gefið var, er sagt var, að búið væri að stöðva verðbólguna, stöðva dýrtíðina án nýrra skatta. Hér hafa býsna alvarlegir hlutir skeð, sem ekki er búið að bíta úr nálinni með. En ræturnar að þessu eru aðallega tvær: Barátta Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni fyrir því að koma í veg fyrir, að efnahagslöggjöfin frá 1958 næði tilgangi sínum, og það tókst flokknum, og af því verður þjóðin nú að súpa seyðið, og það er létt í vasa, þó að flokkurinn súpi seyðið af því í leiðinni. En hitt atriðið er, að með þeirri svikastefnu í efnahagsmálum, sem Alþfl. og Sjálfstfl. hafa haldið uppi síðan í fyrrahaust, hefur þessi vandi verið aukinn. Við þetta er nú að fást.

Þessi málefni öll voru miklu léttari viðfangs s.l. haust en þau eru nú. Og það getur hvert barn séð í hendi sér, sem athugar það, sem nú er fram komið um, hvernig þessu hefur verið haldið á floti eða hitt þó heldur s.l. ár, því að það hefur verið gert með því einu að grafa undan efnahagskerfi landsins og magna verðbólguháskann. Allur hallabúskapur og allt, sem gert hefur verið til þess að éta út, hefur gengið í þessa átt. Þess vegna m.a. kemur það nú fyrir, að fyrir aðeins örfáum vikum er búið að fullyrða. að verðbólgan hafi verið stöðvuð, en nú, örfáum vikum síðar, eftir kosningarnar, er því lýst yfir, að það, sem var kölluð stöðvun. sé í raun og veru óðaverðbólga og það sé búið að ganga þannig frá þessu máli með þessum aðferðum öllum saman, sem áttu að verða til þess að stöðva, að fram undan sé enn meiri óðaverðbólga og grípa verði til einhverra nýrra og að því er manni virðist áður óþekktra úrræða. Þetta er niðurstaðan.

Margur mundi vafalaust álíta, að þegar þannig hefur verið haldið á þessum málum, mundi vera viturlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að halda þannig á þingstörfum og öðru, að sem flestir tækju þátt í meðferð mála og að allur undirbúningur yrði sem vandaðastur og með sem flestra ráði. Mundi víst margur álíta, að af því mundi sízt veita. Og allra sízt skyldu menn hafa búizt við því, að þegar svona er ástatt, væri vefengdur og skágenginn gersamlega réttur þingmanna til þess að fá upplýsingar. En það er nú öðru nær en hæstv. ríkisstjórn hafi borið gæfu til að líta svona á eða vinna á þennan hátt. Þvert á móti leggur nú hæstv. ríkisstj. æðisgengið ofurkapp á að losa sig við þingið. Og það er ekki einu sinni látið svo litið að tala við andstöðuflokka stjórnarinnar um þinghaldið eða ráðgast nokkurn skapaðan hlut um, hvernig á þessum málum verði haldið yfir höfuð. Nei, slík vinnubrögð eru ekki viðhöfð, heldur er ofan á þetta allt saman kastað fram þessari alræmdu till. um þingfrestunina, sem átti að verða þegar 30. nóv., ef stjórninni byði svo við að horfa.

Ég vil vara hæstv. ríkisstj. við svona löguðum vinnubrögðum. Þetta er mjög óviturlega að farið og mun mælast illa fyrir og er alveg áreiðanlega alls ekki í þeim anda, sem meginhluti landsmanna vill láta starfa að þessum málum, því að mönnum er ljóst, að það er talsverður vandi á höndum, eins og búið er að koma þessum málum. Það er kannske allt of seint að skora á hæstv. ríkisstj. í hundraðasta sinn eða svo að endurskoða þessa starfsáætlun. En ég vara við þessu. Þetta er ekki hyggilegt og ekki heppilegt og ekki skynsamlegur aðdragandi að því, sem á eftir kemur. Vafalaust eitthvað það óhyggilegasta, sem hæstv. ríkisstjórn gat gert.

Það er alveg einstætt gæfuleysi, ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki manndóm til þess að taka afstöðu t.d. í landbúnaðarmálunum og lætur bráðabirgðalagamálið og hræðsluna við það mál reka sig út í að viðhafa þessi vinnubrögð.

Það er eiginlega ekki hægt að sjá annað en það sé algert getuleysi hæstv. ríkisstj. til að ráða fram úr þeim málum á þann hátt, að hún þori að standa frammi fyrir þinginu með lausnina, sem gerir það að verkum, að gripið er til þessara örþrifaráða, sem eru mjög háskaleg, bæði sem fordæmi og ekkert siður, þegar litið er á þann vanda, sem á að leysa á næstunni. Ég vil benda mönnum á, hvaða vandræði verða úr þessu á allan hátt, með því að greina litið dæmi.

Í gær kom fram ósk frá 9 þingmönnum um að taka á dagskrá húsnæðismálið, íbúðalánamálið. Nú vitum við, að íbúðalánasjóðurinn er alveg þrotinn að fé, en þúsundir manna bíða úrlausnar í því efni. Hér er um að ræða mál, sem bókstaflega brennur á mönnum, og liggur við, að fjöldi manns, ekki sízt ungt fólk í landinu, verði að ganga frá íbúðum sínum hálfkláruðum og láta þær til annarra og sjá þar með allar sínar vonir um að eignast eigin heimili hrynja í rústir. Þannig er ástatt í þessu máli. Það var lagt til, að í þessu máli yrði gert átak s.1. vetur, eins og ég minnti á áðan, með því að samþ. nokkurn hluta af greiðsluafganginum 1958 í þessu skyni. Það var fellt, eins og ég gat um þá, og þeim peningum var fleygt í svikamylluna. En sleppum því. Nú liggur vandinn fyrir, þingmenn hafa flutt till. um þetta mál, og hún er ekki sett á dagskrá, vegna þess að stjórnin þarf að losna við þingið. Í gær kom svo fram ósk um það samkv. þingsköpum frá nægilegum fjölda þingmanna, að till. væri tekin á dagskrá. Ég skal játa, að ég er ekki vel minnugur á einstaka atburði og þori því ekki að segja um það, hvort það, sem gerðist hér í gær í því sambandi, er fordæmalaust eða ekki. Hitt vil ég segja, að þess munu fá fordæmi á Alþingi Íslendinga, að forseti hafi ekki tekið á dagskrá till. eftir slíkri ósk. En það gerði hæstv. forseti ekki í gær, heldur bar það strax undir sameinað þing. Og þá kom líka fljótt í ljós, af hverju till. var borin undir sameinað þing strax. Það var af því, að stjórnarliðið á Alþingi var búið að koma sér saman um að fella það, að þessi till. yrði tekin á dagskrá. Það var búið að gera samtök um það með flokksfundahöldum og fortölum að fella það, að íbúðalánamálið yrði tekið á dagskrá í sameinuðu Alþingi. Ég þori ekki að fullyrða, að þetta sé fordæmalaust, að það hafi verið fellt þannig að taka mál á dagskrá, en hitt fullyrði ég alveg, að fyrir því eru engin fordæmi í sögu Alþingis frekar en fyrir mýmörgu öðru, sem hv. þingmeirihluti er að gera þessa dagana, — ég segi mýmörgu öðru, sem er alveg fordæmalaust, — að fyrir því eru engin fordæmi á hv. Alþingi, að í annarri viku þingsins hafi verið synjað með atkvgr. í Sþ. að taka mál á dagskrá. Fyrir því eru áreiðanlega engin fordæmi til í þingsögu Íslendinga. En þetta er gert eftir fyrirskipun ríkisstj., sem getur ekki þolað, að Alþ. sitji, sem þarf að losa sig við Alþingi, og þetta er gert eingöngu til þess að flýta fyrir því, að þingið verði sent heim, og svo náttúrlega líka, býst ég við, til þess að það komi ekki fram, að hæstv. ríkisstj. á erfitt um úrræði í þessu efni.

Við vitum, að það er talsverður vandi á höndum í þessu sambandi, en þeim mun meiri ástæða er til þess að taka málið á dagskrá og ræða hreinskilnislega um þann vanda. Og þeim mun verra afhroð er það að notfæra sér meiri hluta þings til þess að fella það, að slíkt mál komist á dagskrá. Þessar aðfarir í sambandi við íbúðalánatillöguna eru aðeins lítið dæmi, sem ég vil benda hv. þingmönnum stjórnarflokkanna á. Það er aðeins lítið dæmi, en þó talsvert þýðingarmikið dæmi um það, út í hvaða fjarstæðu er hægt að leiða menn og út í hvaða ógæfu er hægt að leiða menn, þegar forustan er ráðvillt og ófyrirleitin og ef menn fylgja henni gagnrýnislaust og blint.

En þm. hv. stjórnarflokka er skylt að hugsa um Alþingi sem stofnun í sambandi við þessar aðfarir, og þeir eiga að beita áhrifum sínum til þess, að haldið sé uppi virðingu þingsins og aðstaða þingsins til þess að hafa áhrif á stjórnina sé að engu leyti skert. Við búum hér ekki við einræði, við búum við þingbundna stjórn. Alþingi er okkar æðsta stofnun, og þingið á að ráða. Menn gætu kannske sagt, að þetta sé gott og blessað, en það sé bara gert með því t.d., að meiri hluti þings samþykki að senda sig heim og hina, þá sé öllu þingræði fullnægt. En ég bið ykkur að athuga það, sem skipið meiri hlutann, að með þessu er ekki öllu þingræði fullnægt. Þið megið ekki láta hafa ykkur út í að setja Alþingi Íslendinga út af þeim starfsgrundvelli, sem það hefur starfað á frá öndverðu. Alþingi Íslendinga hefur ekki verið þing af því tagi, sem kallað er saman einstöku sinnum til þess að sitja í tvo eða þrjá daga og samþykkja það, sem stjórnarherrarnir hafa komið sér saman um. Alþingi Íslendinga hefur aldrei verið stofnun af þessu tagi, á ekki að verða það og verður það vonandi aldrei. En þá skuluð þið líka gæta þess, að ef sá háttur verður uppi hafður, að hvaða ríkisstj. sem er getur fengið þann þingmeirihluta, sem hana styður, til þess að senda Alþingi heim og losa ríkisstj. við það aðhald og þau áhrif, sem hún á að hafa frá þinginu, þá verður þingið óðar en varir orðið að nýrri stofnun, orðið að allt annarri stofnun en það hefur verið, og verður þá, áður en þið vitið af, orðinn allt annar og miklu óverulegri þáttur í okkar þjóðlífi en það hefur verið frá öndverðu og á að vera framvegis.

Athugið þetta, og íhugið þann hugsunarhátt, sem kom hér fram hjá hæstv. dómsmrh. fyrir örfáum dögum, þegar um þetta var rætt og ég hélt því fram, að einmitt þegar erfiðleikar væru og óráðið væri um stærstu málin, þá færi vel á því, að Alþingi sæti, til þess að stjórnin gæti ráðgazt við Alþingi um það, hvað gera skyldi, og um sjálfan undirbúning málanna. Ég benti á það, að efnahagsmálin t.d. eru undirbúin stig af stigi, þau mótast í meðförunum, og það er ómögulegt að hafa nokkur veruleg áhrif á þau málefni, nema menn taki þátt í sjálfum undirbúningnum stig af stigi svo að segja, enda hefur sá háttur verið á hafður hér um nokkuð mörg ár á Alþingi Íslendinga undanfarið, og hann er til kominn af nauðsyn. Hann er upp tekinn vegna þess, að menn fundu, að ef þetta væri ekki haft þannig, yrði hætta á því, að þingið yrði að marklausri og áhrifalausri stofnun, sem hefði það eitt að gera að koma saman örstutt og örsjaldan til að samþykkja það, sem undirbúið væri af stjórnarherrunum að þinginu og þingmönnunum fjarverandi. Og takið eftir því, að þegar ég rakti þetta og lagði áherzlu á þetta hlutverk þingmanna og Alþingi sem valdastofnun, sem ætti raunverulega að móta úrlausnirnar og ráða þeim, þá réðst hæstv. dómsmrh. algerlega á móti þessari skoðun og sagði, að það hefði verið hneyksli á undanförnum árum, að þingið hefði setíð aðgerðalaust, sem hann kallaði, þingfundir stuttir, og sagði, að hitt væri réttari háttur, að stjórnin hefði undirbúnar úrlausnir sínar í öllum efnum, áður en þingið kæmi til, og talaði um þjóðþing annarra landa í því sambandi.

Ég mótmæli þessum hugsunarhætti hæstv. dómsmrh., — hugsunarhætti, sem að verulegu leyti er undirstaða þess áhuga, sem nú hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstj. og þingmeirihlutanum að senda þingið heim. Það er verið að fara með þessu inn á háskalega braut, stórhættulega braut. Og ég mun e.t.v. síðar í þessum umræðum, sérstaklega ef tækifæri gefst til, ræða þetta atriði nánar. En ég bið þm. að íhuga þessar umræður, sem nú verða um þessi efni. Það getur vel verið, að það sé ekki hægt að stöðva þessa þingfrestun núna. Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. hafi slík tök á sínu þingliði núna, að menn samþykki að senda sjálfa sig heim við þau skilyrði, sem nú eru, þó að ég og fleiri álítum það hneyksli. En ég bið hv. þm. um að minnast þessara umræðna, sem hér hafa farið fram, og ég bið þá, hvað sem gert verður í þessu nú, að hafa þær í huga framvegis, jafnvel þótt svo fari, að þeir telji sér ekki núna fært að taka tillit til þess af því, hvernig búið er að setja þá í sjálfheldu. Ég bið þá að hafa það í huga framvegis, hvaða hlutverk Alþingi Íslendinga er ætlað að vinna, og láta þessar umræður verða til þess að koma í veg fyrir, að þetta komi fyrir aftur, — að svona verði búið að Alþingi framvegis. Og ef þetta, sem nú er til efnt, gæti orðið í hugum manna víti til varnaðar, þá mundi rætast sá gamli talsháttur, að fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott, — ef þetta gæti orðið til þess að skýra fyrir þingmönnum og fyrir þjóðinni betur en áður, hvaða hlutverk Alþingi Íslendinga er raunverulega ætlað að rækja.