31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

Almennar stjórnmálaumræður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á því tímabili, sem Framsfl. fór með stjórn landbúnaðarmála, urðu meiri framfarir í landbúnaði en nokkru sinni fyrr. Núverandi stjórnarflokkar, einkum Sjálfstfl., hafa talið sér það til gildis, að þeir eigi síður en Framsfl. bæru hag landbúnaðarins fyrir brjósti. Eitt er að tala, annað að gera. Síðan Framsfl. lét af stjórn landbúnaðarmála, eru 17 mánuðir. Á þeim stutta tíma hefur orðið gerbreyting á aðstöðu landbúnaðarins.

Á öndverðu ári 1959 lá það fyrir, að til samræmis við aðrar stéttir áttu laun bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvellinum að hækka um rúm 3%. Framsóknarmenn freistuðu þess að fá það lögfest. Sú till. var felld, en því heitið af stjórnarflokkunum, að bændur skyldu fá þetta leiðrétt síðar á því ári. Þegar að því kom s.l. haust, hófust undanbrögð stjórnarflokkanna. Þeir höfðu svokallaða stöðvunarstefnu að yfirvarpi. Alþfl.-menn kváðust heimta óbreytt ástand. Margir gerðu sér þá ekki grein fyrir, að yfir köldu var búið í herbúðum stjórnarflokkanna líkt og hjá Goðmundi kóngi, því að af þeirra hálfu var raunverulega fyrir kosningar stefnt að því, sem nú er fram komið. Afurðaverðið var bundið með brbl. Sjálfstfl. afsakaði sig gagnvart bændum, en tók þó samtímis ábyrgð á framkvæmd laganna. Hann viðurkenndi, að krafa bænda væri réttmæt, og lýsti yfir því, að hann mundi ekki styðja brbl. á Alþ. og hann mundi á Alþ. leggja til, að bændum yrði bætt það tjón, sem þeir af þessum sökum yrðu fyrir. En þegar á Alþ. kom í haust, voru sjálfstæðismenn svo uggandi út af þessari loðnu yfirlýsingu sinni, að þeir vildu þá forðast að gera till. um þetta, heldur knúðu fram þingfrestun með ofurkappi og komust þannig hjá að afgreiða brbl. Einungis vegna traustrar samstöðu innan Stéttarsambands bænda og vegna einarðrar baráttu Framsfl. fyrir málstað bændastéttarinnar var loks ákveðin 2.85% hækkun á afurðaverðinu. En sex mánuði urðu bændur að bíða eftir þessu, meðan baráttan var háð, þrátt fyrir viðurkenningu Sjálfstfl. þegar í haust á réttmæti kröfunnar og þrátt fyrir gefið fyrirheit stjórnarflokkanna á öndverðu ári 1959 um leiðréttingu á afurðaverði í samræmi við þetta. En skömmu síðar lögðu stjórnarflokkarnir 3% söluskatt á landbúnaðarafurðir að nýmjólk undanskilinni. Þá báru þeir ekki umhyggju fyrir hag neytenda. Engin ríkisstj. á Íslandi hefur fyrr gerzt svo fingralöng að heimta söluskatt til ríkissjóðs af afurðum bóndans eða af fiski sjómannsins.

Hin stórkostlega verðhækkunarskriða, sem stjórnarflokkarnir hafa hrundið af stað, sverfur að bændabýlunum eigi síður en öðrum heimilum í landinu. T.d. er verðhækkun á vélum gífurleg. Dráttarvél til heimilisnota, sem kostaði á s.l. ári 52 þús. kr., kostar nú vegna ráðstafana ríkisstj. 86 þús. kr. Jeppabifreið kostar nú 90–100 þús. kr. Samtímis þessu er skortur á lánsfé til landbúnaðarins og lánakjörum breytt til mikils óhagræðis fyrir lántakendur. Veðdeild Búnaðarbankans er gersamlega févana. Ný lán úr byggingarsjóði sveitabæja vegna húsa, sem gerð voru fokheld á s.l. ári, voru loks veitt í þessum mánuði og þá með hækkuðum vöxtum. Lánakjörum ræktunarsjóðs hefur verið breytt þannig, að árgjald af 80 þús. kr. láni hækkar um 2622 kr., árgjald af 50 þús. kr. láni hækkar um 1638 kr. Hækkunin nemur um 44%.

Ræktun landsins er undirstaða að stækkun búanna og velmegun bænda. Með starfsemi vélasjóðs og ræktunarsambandanna hafa verið unnin stórvirki á þessu sviði, og þarf sú þróun að haldast. Nú eru stórir steinar lagðir í götu þeirra, sem að þessu vinna. Á s.l. ári kostaði beltadráttarvél af meðalstærð 385 þús. kr. Vegna áhrifa hinnar nýju löggjafar kostar sams konar vél nú um 620 þús. kr. Hækkunin nemur meiru en vél af sömu gerð kostaði fyrir 4 árum. Beltavél af stærstu gerð, sem hér er notuð til jarðræktar, kostar allt að 1 millj. kr. Jafnframt gerir þessi gífurlega verðhækkun fyrningarsjóði ræktunarsambandanna lítils megnuga. Þrátt fyrir þetta hafa stjórnarflokkarnir komið í veg fyrir, að ýmis frumvörp og till. Framsfl., sem fela í sér aukinn stuðning við landbúnaðinn, næðu fram að ganga. M.a. var felld till. framsóknarmanna um 3 millj. kr. framlag til stuðnings við ræktunarsamböndin vegna vélakaupa, svo að ekkert er ætlað til þess í fjárl. fyrir þetta ár, og frv. framsóknarmanna um stuðning við stofnlánasjóði Búnaðarbankans náði ekki fram að ganga. Afleiðingarnar eru að koma í ljós. Samdráttur verður í byggingarstarfsemi. Undanfarin sumur hafa skurðgröfur vélasjóðs verið notaðar nótt með degi víða um land við að bæta landið og búa það undir ræktun. Fyrirsjáanlegt er, að um þriðjungur þeirra fær ekki verkefni á þessu sumri, og vafasamt, að þær skurðgröfur, sem einhver verkefni hafa, verði fullnýttar. Hinn nýi söluskattur er lagður á viðgerðir vélanna og einnig bætt við leiguna, sem eftir þær er greidd. Hann leggst því á þessa starfsemi með tvöföldum þunga.

Innflutningur beltadráttarvéla mun hér um bil stöðvast á þessu ári. Hjá þeim innflytjanda, sem flutt hefur inn flestar dráttarvélar til heimilisnota, lágu um síðustu áramót yfir 200 pantanir á slíkum vélum. Vegna efnahagsaðgerða ríkisstj. hafa nú rúmlega ¾ hlutar pantananna verið afturkallaðir. Tæplega ¼ hluti þeirra á að halda gildi. Til samanburðar skal þess getið, að 1958, þegar sjálfstæðismenn býsnuðust yfir verðhækkunum vegna yfirfærslugjaldsins, seldi þessi sami innflytjandi á fjórða hundrað dráttarvélar til bænda. Búið var að leyfa að flytja til landsins á þessu sumri 100 rússneska jeppa. Miðað við reynslu fyrri ára og umsóknir, sem borizt höfðu, hefði það ekki nægt til að fullnægja eftirspurn. Nú munu tæplega 30 jeppar seljast. Svona mætti lengur telja.

Hvað er hér að verki? Sannarlega er góðæri af náttúrunnar völdum til lands og sjávar. Hér er að verki stjórnarstefna, sem lamar framkvæmdir og gerir skortinn að skömmtunarstjóra almennings. Dæmin, sem ég hef nefnt á sviði landbúnaðarins, bera henni vitni. Þegar litið er á landbúnaðinn í þessu sambandi, er vert að íhuga þetta: Hvernig væri bændastéttin á vegi stödd við þau skilyrði, sem henni eru búin af stjórnarflokkunum, ef hún nyti ekki nú þess árangurs, sem orðið hefur af þeirri sókn til framfara, er Framsfl. hefur haft forustu um á undanförnum árum? Ríkisstj. stefnir markvisst að því að minnka kaupgetuna og láta almenning bera svo þungar klyfjar, að honum sækist seint brautin að auknum framförum. Og þær klyfjar, sem henni hefur þegar tekizt að koma á bak almennings, eru svo þungar, að mörgum mun þykja örðugt undir að rísa. Ráðherrar og liðsmenn þeirra á þingi kosta þó kapps um að koma laundrjúgum böggum ofan í milli klyfjanna, þar sem almenningur úti á landsbyggðinni á í hlut. Þessi dæmi skulu nefnd:

Hluta af fé sparisjóða og innlánsdeilda samvinnufélaga á að heimta af þeim og flytja í banka í Reykjavík. Með því að flytja þetta fé úr héruðunum er geta samvinnufélaganna skert til að veita viðskiptamönnum jafnmikilsverða fyrirgreiðslu og þau hafa gert. Þeir, sem hafa einhæfa framleiðslu, er skilar ekki arði fyrr en á síðasta ársfjórðungi, en verða á fyrri hluta árs að kaupa neyzluvörur, rekstrarvörur og efni til framkvæmda, munu áreiðanlega við árslok sjá áhrif vaxtaokursins gjaldamegin í verzlunarreikningum sínum.

Hinn nýi söluskattur leggst á síðasta stig viðskipta, þ.e. verð vörunnar, þegar flutningsgjöld og annar kostnaður eru meðtalin. Því hærri flutningsgjöld og því meiri kostnaður sem leggst á vöruverðið, þeim mun fleiri krónur skal kaupandinn greiða í söluskatt af hverri vörueiningu. Heimilt skal að leggja veltuútsvör á andvirði seldra búsafurða hjá bændum, enn fremur á verzlun með nauðsynjavörur, m.a. áburð og fóðurvörur. Veltuútsvör samvinnufélaga verða í reynd skattur á félagsmennina og íþyngja fjölmörgum heimilum. Þau miðast við viðskipti allra á félagssvæðinu, en renna óskipt til þess sveitarfélags, þar sem þau eru á lögð. Þau jafngilda raunverulega fjárflutningi frá mörgum sveitarfélögum til verzlunarstaðarins.

Landið, sem við byggjum, er „faðmað af ylstraum á eina hlið, á aðra af sæfrerans harðleikna taki.“ Árgæzka er því háð, hvort þessara náttúruafla reynist áhrifaríkara á hverjum tíma. Stjórnarstefnur hafa ríkuleg áhrif með þjóðinni. Með þeirri stefnu félagshyggju og framfara, sem Framsfl. fylgir og sett hefur svip á þjóðfélagið, hafa bændum eins og öðrum stéttum verið búin góð skilyrði til mikilla framkvæmda og aukinnar velmegunar. Samdráttarstefna núv. stjórnarflokka kreppir að á þessu sviði líkt og sæfrerans harðleikna tak kreppir að gróðrí jarðar.

Frá hefðartindi valdhafanna, sem kosta kapps um að ryðja braut hinni kaldrænu stjórnarstefnu, kemur napur næðingur yfir landsbyggðina. Nær ekkert nýmæli í landbúnaðarlöggjöf hefur verið samþ. á þessu þingi, en hindrað, að ýmis umbótamál, sem framsóknarmenn hafa flutt, næðu fram að ganga. Ótvíræð er viðleitni ríkisstj. til þess að torvelda starfsemi félagssamtaka bænda og annarra samvinnumanna. Já, það andar sannarlega köldu. Kveðjan, sem ríkisstj. sendir út yfir landsbyggðina, er réttilega túlkuð með þessum orðum skáldsins:

Dýrðin vor þegar sýnir sig,

þér sæmir bezt að lúta oss.

Það hefur stundum fyrr blásið af sömu átt. Það hefur tekizt vegna áhrifa Framsfl. að standast slíkan gust. Þessi reynsla vísar veginn: Að efla Framsfl., það mun enn sem fyrr bezt gefast í þeirri baráttu, sem nú er háð og fram undan er.