31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, sagði í ræðu sinni í gærkvöld, að um margt væru Alþfl, og Sjálfstfl. ólíkir, en eitt ættu þeir þó sameiginlegt, en það væri að standa við heit sin. Þegar það er haft í huga, að hæstv. forsrh. er landskunnur fyrir gamansemi sína og m.a. þekktur fyrir þann ágæta eiginleika að geta skopazt að sjálfum sér, þá veit ég, að allur almenningur er ekki í minnsta vafa um, hvernig skilja beri þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh.

Sé málið hins vegar tekið alvarlega, sem ég efast um að hæstv. forsrh. sé nokkur þökk í, þá er tvennt athugavert við þessa fullyrðingu. Annað er það, að Alþfl. og Sjálfstfl. séu afar ólíkir um margt, því að staðreyndin er sú, að þeir eru nú í dag svo líkir, að þar verður trauðla greint á milli, a.m.k. ekki með berum augum, auk þess sem það er algert öfugmæli og verður aldrei skilið nema sem hreint grín hjá hæstv. forsrh., að þessir flokkar hafi það sérstaklega til síns ágætis að standa við heit sín.

Þeir mörgu útvarpshlustendur, sem minnast þeirra daga, þegar hæstv. núv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, var einn aðalfyrirliði róttækra Alþýðuflokksmanna, hafa án efa undrazt ræðu hans hér á þessum stað í gærkvöld og þann boðskap, sem hann flutti, m.a. þá afturhaldskenningu, sem varla nokkur málsmetandi maður hefur imprað á í heila öld eða meira, að menn skyldu ekki taka það sem neinn sjálfsagðan hlut, að hægt væri að lifa blómlegu lífi á Íslandi, því að landið væri svo miklu verra en önnur lönd. Ég vil leyfa mér að draga í efa, að hæstv. ráðh. hafi verið sjálfrátt, þegar hann mælti þessi orð, og má þó vera, að hann hafi talað þau af ráðnum hug til þess að búa menn undir þá lífskjaraskerðingu, sem hæstv. ríkisstj. undirbýr af óvenjulegu kappi og hefur þegar tekizt að koma á í stórum stíl þvert ofan í gefin loforð fyrir kosningar, þegar það voru aðalkosningavígorðin, að fara ætti leiðina til betri lífskjara, eins og sjálfstæðismenn sögðu, og vinna að stöðvun dýrtíðarinnar og óbreyttu verðlagi, eins og Alþýðuflokksmenn lögðu sérstaklega til. Það er ekki til neins fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla nú að skjóta sér undan ábyrgð sinna eigin orða. Stjórnarflokkarnir náðu meiri hluta sínum á Alþ. aðeins fyrir það, að fólk trúði í alvöru orðum þeirra um, að þeir mundu öðrum fremur vinna að því að koma atvinnulífi þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, tryggja atvinnuöryggi til frambúðar og bæta lífskjörin. En síðan hæstv. ríkisstj, tók við völdum, hefur hún einmitt valið þær leiðir í þjóðmálunum, sem alveg sérstaklega voru til þess fallnar að missa þess marks, sem stjórnarflokkarnir þóttust stefna að fyrir kosningar.

Það, sem hæstv. ríkisstj. telur sér mest til gildis, er það, að hún sé að koma hér á nýju efnahagskerfi. Á grundvelli þessa nýja efnahagskerfis þykist hæstv. ríkisstj. ætla að gera þau stórvirki til lífskjarabóta, sem hún lofaði fyrir kosningar. En hvort sem hæstv. ríkisstj. er það ljóst eða leynt, er það einmitt hið nýja efnahagskerfi, sem er upphaf og endir þeirrar óvissu, sem er farin að gegnsýra íslenzkt atvinnulíf og setja mark sitt á lífskjörin á Íslandi.

Hið nýja efnahagskerfi hæstv. ríkisstj. miðar fyrst og fremst að stórfelldum almennum samdrætti í atvinnulífinu og hlýtur þar af leiðandi að stöðva atvinnuuppbygginguna, svo að það eru engar líkur til þess, að við höfum getu til að halda í horfinu um atvinnuskilyrði fyrir það fólk, sem þegar byggir þetta land, hvað þá heldur að við verðum þess megnugir að taka við ört vaxandi fólksfjölgun. Framleiðslusamdrátturinn mun að sjálfsögðu hafa stórkostleg áhrif á lífsafkomu alls almennings í nútíð og framtíð og án efa leiða til harðari vinnudeilna og stéttabaráttu en hér hefur þekkzt um áraraðir. Það eru þess háttar þjóðfélagsaðstæður, sem hæstv. ríkisstj. er að skapá með stefnu sinni í efnahags- og fjármálum.

Því miður hef ég ekki svo rúman tíma hér í umr. í kvöld, að ég geti gert öllu þessu yfirgripsmikla máli þau skil, sem ég vildi, og verð því að halda mig að fáeinum atriðum, sem mér koma í hug, en stikla þó á stóru.

Undanfarin 30 ár og vel það hefur nær óslitið verið að því unnið, og það ekki sízt fyrir tilstuðlan Framsfl., en oft með góðum stuðningi annarra flokka, að byggja upp atvinnulífið um land allt og dreifa atvinnutækjunum með það fyrir augum að skapa lífvænleg skilyrði á hverjum byggilegum stað á Íslandi. Það er skoðun framsóknarmanna og sem betur fer margra annarra góðra Íslendinga, að þrátt fyrir landstærð okkar miðað við fólksfjölda séu staðhættir slíkir hér á landi, að við höfum ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að vanrækja nokkurn þann blett landsins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífsskilyrði þessari þjóð og skyldukvöð hennar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórnarstefnu sinni, að því marki verði náð.

Það er ekki annað en falskenning, að við eigum einhver önnur úrræði betri til lífsbjargar í þessu landi en að byggja upp atvinnulíf sveita, kauptúna og þorpa umhverfis landið. Sú fjárfesting, sem farið hefur til þessarar starfsemi, er enginn baggi á ríkisbúskapnum. Hún hefur skilað fullum arði, og það fólk, sem þessa staði byggir, skuldar hvorki öðrum stéttum né landshlutum neitt og á enn fullan rétt á því, að í engu sé slakað á um áframhaldandi uppbyggingu í atvinnulífi þess og að því sé gert mögulegt að starfa í heimabyggð sinni. Það er engum til blessunar að skapa kreppuástand úti um land eða kippa að sér hendinni um uppbygginguna þar. Fólkið, sem býr í sveitum og sjávarplássum þessa lands, er undantekningarlaust starfandi við skapandi framleiðslustörf, en milliliða- og þjónustustarfsemi hverfandi lítil og í mörgum tilfellum algerlega óþekkt. Það er því skylda ríkisvaldsins á hverjum tíma að hlúa að uppbyggingarstarfseminni úti um land, eins og leitazt hefur verið við undanfarna áratugi.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, en sannleikurinn er sá, að núv. stjórnarstefna gengur þvert á þá stefnu, sem farin hefur verið á undanförnum árum, og hlýtur því að skapa óheillaástand víða úti um land. Sem dæmi má taka það, að mitt í öllu sínu frelsisskrafi hefur hæstv. ríkisstj. ákveðið að svipta fólkið úti á landi umráðum yfir hluta þess fjár, sem það hefur sparað saman og lagt í sparisjóði sína og innlánsdeildir kaupfélaga, en þessar stofnanir, sparisjóðir og innlánsdeildir, gegna mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulíf fólksins og eru raunar alveg ómetanleg stoð þeim atvinnurekstri, sem stundaður er í sveitum og sjávarplássum. Og það þarf enginn að fara í grafgötur um, að þetta fé er fólksins sjálfs, en ekki Landsbankans í Reykjavík eða stjórnarherranna í Arnarhvoli. Þetta litla dæmi um kröfu stjórnarvaldanna til sparisjóða og innlánsdeilda til að skila til Landsbankans hluta af fé sínu er í himinhrópandi andstöðu við þá yfirlýstu stefnu að auka frelsið í viðskiptum og framtaki.

En látum það vera, þótt hæstv. ríkisstj. sýni ekki þann manndóm að standa við heit sín. Hitt er verra, hverjar afleiðingarnar verða fyrir atvinnulífið úti um land. Það fé, sem með þessum hætti hrúgast upp í Landsbankanum í Reykjavík, verður áreiðanlega ekki notað til þess að lána sjómönnum til báta eða veiðarfærakaupa eða annarra nauðsynja né húsbyggjendum úti á landi, sem ávallt hafa notið verulegrar aðstoðar sparisjóðanna til þess að koma upp eigin íbúðum.

Og hæstv. ríkisstj. kann líka annað snilldarráð, sem rétt er að drepa á og hún hefur þegar tekið að beita. Þetta ráð er hin almenna vaxtahækkun. Hefur ríkisstj. tekið sér það vald að hækka alla vexti á víxlum, skuldabréfum, stofnlánum og byggingarsjóðslánum. Þessi nýja vaxtapólitík er tvímælalaust einn áhrifamesti liðurinn í öllu hinu nýja efnahagskerfi og þjónar hvað bezt þeim tilgangi, sem að er stefnt, samdrætti í atvinnulífinu. Vaxtahækkunin leggst með ofurþunga á framleiðslustarfsemi í öllum greinum og hlýtur að draga úr framkvæmdum og skapa atvinnuleysi og framleiðslurýrnun, enda er til þess ætlazt og getur aldrei öðruvísi orðið. En vaxtahækkunin íþyngir ekki síður með beinum áhrifum þeim verkamönnum og öðrum launþegum, sem þurfa á lánsfé að halda vegna heimilisstofnunar og íbúðabygginga. Þessi almenna vaxtahækkun er þeim mun óréttlátari, þegar þess er gætt, að jafnvel áður en hún kom til framkvæmda voru vextir hér á landi yfirleitt hærri en í nokkru öðru nálægu landi, og nú eftir vaxtahækkunina eiga Íslendingar ótvírætt heimsmet í háum vöxtum, og er það áreiðanlega mjög vafasamur heiður.

Ég skal nefna hér eitt dæmi um áhrif vaxtahækkunar og annarra efnahagsaðgerða hæstv. ríkisstj., og er dæmið frá sjávarútveginum. Áður en efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. gengu í gildi, lánaði fiskveiðasjóður til bátakaupa frá útlöndum 2/3 kaupverðs til 20 ára með 4% vöxtum. Nú hefur lánstími sjóðsins verið styttur niður í 15 ár og vextir hækkaðir í 6% . Nýr 75 lesta bátur kostaði, áður en efnahagsráðstafanirnar komu til framkvæmda, ca. 3 millj. Ársgreiðsla af láni, sem fiskveiðasjóður veitti til kaupa á slíkum bát, nam þá 217600 kr., en eftir efnahagsráðstafanirnar kostar slíkur bátur um 4½ millj., eða hækkar í verði um 1½ millj., og ársgreiðslur af láni fiskveiðasjóðs mundu verða 453900 kr. Þessir útreikningar miðast við fyrsta árs afborganir og vexti, en þeir leiða í ljós, að hækkun afborgana og vaxta vegna aðgerða ríkisvaldsins í þessu tilfelli nemur 236 þús. kr. á ári. Hér er því um meira en tvöföldun á gjaldbyrði kaupandans að ræða.

Þetta er spegilmynd ástandsins, sem er að skapast fyrir aðgerðir hæstv. ríkisstj., og þó aðeins eitt dæmi af mörgum. Þrátt fyrir þetta og fleira, sem nefna mætti, svo sem óvissuna um fiskverðið, bæði á vetrarvertíðarfiskinum og ekki síður á sumarveidda fiskinum fyrir norðan, austan og vestan, sem notið hefur sérbóta til þess að tryggja afkomu sjómanna þar, heldur hæstv. ríkisstj. því fram, að hún sé alveg sérstaklega að bæta hag útvegsins með efnahagsráðstöfunum sínum, þó að dæmin sýni hins vegar, að hún íþyngir þessum atvinnuvegi stórlega með auknum útgjöldum, sem leiðir af hækkun stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar.

Allt er þetta í öðrum anda en þeim, sem stjórnarflokkarnir töluðu í fyrir kosningar. Í stað þess að leiða þjóðina inn á veg betri lífskjara er henni hrundið út í óvissu um lífsafkomu sína. Og í stað þess að halda óbreyttu verðlagi og stöðva dýrtíðina eykst verðbólgan með hverjum degi sem líður og vöruverð rýkur upp úr öllu valdi. Þannig efnir hæstv. ríkisstj. fyrirheit sín og loforð. — Góða nótt.