31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3387 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki ætla ég að líkja hæstv, ríkisstj. við refi, eins og Bjartmar Guðmundsson gerði áðan, þó að refirnir hafi reynzt bændunum skaðvaldar og stjórnin hafi reynzt bændum illa. En ég er Bjartmari sammála um það, að eins og refirnir gáfust upp fyrir Jóni tófuspreng, mun stjórnin gefast upp eftir stutt skeið.

Allir Íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, vita, hvílíkur skaði skeður, ef mikil frost gerir á vorin, þegar farið er að gróa, kyrkingur kemur í nýgræðinginn eða hann deyr. Stundum deyja jafnvel ræturnar, svo að moldin á stærri eða minni svæðum skilar engum gróðri næstu ár, nema hún sé plægð og í hana sáð. Enginn óbrjálaður maður biður skaparann um slík veður á vordögum.

Í þjóðsöng okkar biðjum við guð vors lands um gróandi þjóðlíf, og betri bænar verður ekki beðið fyrir þjóð og landi.

Síðustu áratugir hafa verið vordagar í íslenzku efnahagslífi, misgóðir að vísu, en vordagar með miklum gróindum samt. En þau ósköp hafa gerzt á Alþingi því, er nú situr, að meiri hluti þess undir forustu núv. hæstv. ríkisstj. tekur frostíð í þjónustu sína til þess að draga úr almennum gróindum þjóðlífsins.

Hæstv. ríkisstj. er í einhvers konar álögum. Hún líkist hinni mikilsvirtu frú, sem þjóðsagan hermir að gerð var með göldrum að tröllkonu, sem sat á gnípu og blés óveðrum yfir land sitt.

Hvers konar álög eru það, sem hvíla á ríkisstj. og leggja stuðningsmenn hennar í læðing? Það eru álög frá stefnu, sem er úrelt í samfélagsmálum á Íslandi, — stefnu, sem vill skipta þjóðinni í yfirstétt og undirstétt, stefnu, sem leggur grundvöll að því, að ríkir verði ríkari og fátækir fátækari, — stefnu, sem er andvíg því, — og veit sér allra hættulegast, — að almenningur geri sig voldugan og sterkan með mætti samtaka sinna. Þetta er sérhagsmunastefnan, sú gamla norn. Ég vil til tilbreytingar í þessum umr. kalla hana kalstefnu, því að fyrir hið íslenzka gróandi þjóðlíf er hún kalstefna.

Þessi stefna fer nú með völdin og hefur á þessu þingi beitt meiri hluta sínum afdráttarlaust, eins og alþjóð er kunnugt. Meiri hlutinn er naumur, en af því að frostið er nóg, losnar enginn frá hópnum. Allir eru þar samfrosta. Stjórnarflokkarnir fengu þennan nauma meiri hluta sinn aðeins fyrir það í síðustu kosningum, að þeir sögðu rangt til um stefnu sina. Ef þeir hefðu sagt, að þeir hygðust gera það, sem þeir nú hafa gert, hefðu áreiðanlega margir þeirra manna ekki setið á þessu þingi. Umboð ótortrygginna kjósenda hafa þeir herfilega misnotað. Það hefur verið svikizt með kalstefnuna að gróandi þjóðlífi Íslendinga.

Alþingi hafa í vetur og vor borizt mörg mótmælaskjöl gegn hinni grófu lagasetningu stefnunnar hvaðanæva af landinu, frá einróma fjöldafundum, þótt menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi tekið þátt í þeim. Það er mjög fátítt að hitta formælanda hennar á förnum vegi. Margt í lagasetningunni er sóknarhug almennings eins og hnífstungur í bakið.

Menn höfðu af foringjum stjórnarflokkanna á undanförnum árum vordaganna verið hvattir til athafna. Máske hefur hvatningin verið sprottin af ótta við samkeppni annarra flokka, en hvatning var það samt. Og svo komu hinar stórfelldu verðhækkanir stjórnarflokkanna, lánsfjártakmarkanirnar og vaxtaokrið eins og stungur í bakið á mönnum, sem færzt höfðu í fang það, sem dugandi mönnum sæmir og þeir höfðu verið hvattir til að gera. Með þessum og fleiri sams konar aðgerðum stjórnarstefnunnar er skorið á afltaugar hins almenna framtaks. Veturinn er kallaður yfir hið gróandi þjóðlíf löngu eftir sumarmál þess. Þið hafið kynnzt þessu sjálfir, hlustendur. Þið hafið fundið kuldann. En frostið á þó enn eftir að stíga hærra og verða bitrara og sárara, eftir því sem það stendur lengur.

Vegna gengislækkunarinnar og söluskattsfargansins hafa vörur stigið stórkostlega og eiga sumar eða flestar eftir að stíga enn. Jón Skaftason, Páll Þorsteinsson og Ingvar Gíslason og fleiri hafa nefnt staðreyndadæmi um verðhækkun á lífsnauðsynjum og atvinnutækjum. Þau dæmi sýna, að margar vörur, sem fólk kemst ekki hjá að kaupa, hækka um þriðjung og meira. Þegar nauðsynjar hækka um þriðjung og jafnvel meira, en tekjur standa í stað eða rýrna vegna almennrar kreppu, tekur fljótt fyrir það, sem hægt er að gera til framfara, og skorturinn kemur til sögunnar.

Stjórnarflokkarnir ákváðu einnig, að draga skyldi úr útlánum banka, svo að almenningur skyldi ekki hafa þangað að leita framkvæmdafjár. Það hljómaði kuldalega, þegar hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði í gærkvöld — og er hann þó ekki kuldalegur maður: Aldrei hefur verið gripið til jafnvíðtækra og samfelldra efnahagsaðgerða hér.

En þetta er alveg satt. Til fullkomins öryggis gegn framfarasókn almennings og til tryggingar því, að frostið stígi nógu hátt, settu þeir útlánsvexti allt upp í 12% og sprengdu með því löggjöfina um bann við okri. Ekki gleymdist heldur að ákveða, að helmingur af aukningu sparifjár í sparisjóðum og innlánsdeildum skuli með valdi fluttur í höfuðbanka ríkisins og bindast þar. Er sú ráðstöfun hatrammleg, sérstaklega gagnvart fólki landsbyggðarinnar. Má segja, að stefna stjórnarinnar í garð landsbyggðarinnar líkist nýlendustefnu. Vil ég í því sambandi líka nefna lækkun verðs á mikilsverðum fisktegundum, sem eru verulegur hluti af afla sjómanna landsbyggðarinnar fyrir vestan, norðan og austan.

Ekki er rétt að ganga fram hjá því, sem kallað er afnám skatta á lágtekjum og aukning fjölskyldubóta, sem stjórnarflokkarnir gera mikið úr á móti kjaraskerðingu. En þegar á það er litið, að afnám tekjuskatts skiptir hlutfallslega litlu fyrir lágtekjumenn, af því að þeir höfðu litla tekjuskatta, en lækkun sú, sem fylgir fyrir hátekjumenn, er margföld, þá sést, fyrir hverja er fyrst og fremst verið að vinna. Einnig verður minna úr gildi nýju fjölskyldubótanna til mótvægis, þar sem mest á liggur, af því að þær eru hlutfallslega miklu meiri hjá því fólki, sem hefur litla ómegð.

Reglur efnahagsaðgerðanna eru samdar með reikningsvélum af sálfræðilausri hagfræði að fyrirsögn kalstefnunnar. En lífið er svo breytilegt og lifandi, að það verður ekki skilið eða reiknað út með þeim hætti. Meðaltalið, sem hampað er í þessu sambandi, hefur lítið að segja. Það hefur t.d. harla litla þýðingu fyrir Pétur, sem hafði engan tekjuskatt áður, þótt Páll fái svo mikla tekjuskattslækkun, að hún verði til jafnaðar á þá báða 10 þús. kr. Eftir sem áður er það jafnmikil staðreynd, að Pétur fékk enga lækkun, en Páll 20 þús. kr. ívilnun. Og efnahagsaðgerðirnar koma jafnilla við fátæka námsmanninn einhleypa, þótt einhver maður, sem á tvö börn, fái allt í einu 5200 kr. í fjölskyldubætur með þeim, að einhverju leyti á kostnað námsmannsins, og þeir teljist síðan til jafnaðar fá 2600 kr. í fjölskyldubætur eftir heildarútreikningum hjá ríkisstj. með aðstoð reikningsvéla og hagfræði.

Nei, hér er gamla sérhagsmunanornin á ferðinni: sá ríki skal verða ríkari og fátæki fátækari.

Reynslan er ólygnust, og hún er strax farin að láta til sín heyra. Hin almennu gróindi efnahagslífsins er hastarlega tekið að kala, og nýgræðingurinn deyr. Úr öllum áttum koma tilkynningar á þessa leið: Ég get ekki keypt nema hluta af áburðinum, sem ég hef pantað og þarf. Ég er hættur við að stofna nýbýlið. Ég er hættur við að kaupa bátinn. Við erum hætt við að byggja íbúðarhúsið. Ég er hættur við að taka við jörðinni af foreldrum mínum. Ég er hættur við að reyna að koma upp fyrirtækinu, sem ég talaði um við þig. Ég er hættur við að fara í skólann. Ég hef sagt jörðinni lausri. Menn tala líka um að selja, selja jarðirnar, húsin, bílana, bátana o.s.frv. Þetta er viðlag daganna á þessu vori. En hverjir kaupa? Fáir verða til þess. Þeir fésterku, sem stjórnarstefnan lætur eiga leikinn, kaupa alls ekki annað en það, sem arðvænlegast er, og þeirra tími til þess er vitanlega ekki kominn strax.

Það, sem á undanförnum árum hefur fyrst og fremst gert almenningi á Íslandi kleift að bæta hag sinn og skapa vordaga í efnahagslífi sínu, hafa verið samtök hans, samvinnusamtökin og verkalýðssamtökin o.s.frv. Þetta veit kalstefnan, og þess vegna beitir hún sér gegn þeim. Hún veit, að þar hefur almenningur skjól fyrir yfirgangi sérhagsmunaaflanna, en þau vill hún efla.

Vísitöluviðmiðunin, sem verkalýðurinn hefur stuðzt við, var bönnuð með lögum, án þess að nokkur tilraun væri gerð til samkomulags um breyt. í framkvæmd. Var með því lögboði gengið harkalega á samningsfrelsi félaganna.

Auðsæilega er ætlunin að lama samvinnufélögin með því að taka með valdi og binda í aðalríkisbankanum fé innlánsdeilda þeirra. Með því er rofin friðhelgi eignarréttar samvinnumanna, því að þetta er rekstrarfé þeirra. Þarna kemur fram nakinn fjandskapur við samvinnufélögin.

Þá liggur einnig fyrir Alþ. stjórnarfrv. til l. um útsvör, sem talið er að liggi þau ósköp á, að ekki sé einu sinni hægt að láta sveitarstjórnir fá það til umsagnar, áður en það verður gert að l., svo sem venjulegt hefur verið um meiri háttar lagasetningu, er sveitarfélögin snertir. Á þar m.a. með lögfestingu víðtæks veltuútsvars að þjarma að félagsmannaviðskiptum í samvinnufélögum og almenningur að verða útsvarsskyldur jafnvel á 3 stöðum gegnum viðskipti samtaka sinna, þó að aðeins sé um að ræða umboðsstöðvar fyrir framleiðsluvörur þeirra og neyzluþarfir.

Verður nú mörgum að spyrja: Hvar eru Alþýðuflokksmennirnir? Þið heyrðuð til Jóns Þorsteinssonar áðan. Hann telur sig Alþýðuflokksmann! Stjórnarflokkarnir hér á Alþ. virðast orðnir eins og samgrónir tvíburar með svo nátengd taugakerfi, að þegar klipið er í eyrað á öðrum, kveinkar hinn sér engu síður.

Hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, reyndi í ræðu sinni í gær að draga fjöður yfir ofstjórn þá, sem felst í skyndisetningu hinna gerræðisfullu útsvarslaga. Hann veit, að hún mælist illa fyrir. Hann greip jafnvel til þess að nefna nöfn framsóknarmanna sem þátttakenda í smíði hennar, þótt þeir hafi lítið nærri henni komið. Svo vinsamlegur er hann ekki í þeirra garð, að hann ætlaði að gera þetta þeim til heiðurs. Hann gerði það til þess að reyna að koma ámæli af sér á aðra. Hann talaði um, að samtök sveitarfélaganna hefðu beðið um löggjöfina. Þau hafa alls ekki beðið um löggjöf sem þessa. En hann sagði alls ekki frá því, að fulltrúaráð Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sem skipa menn úr öllum landsfjórðungum og af öllum stjórnmálaflokkum, samþykkti í fyrra mánuði, að útsvarslagafrv. þyrfti betri athugunar við, og nefndi í ályktun sinni ýmis dæmi og þ. á m. það, að ekki sé rétt, að samvinnufélög greiði útsvör af skiptum sínum jafnt við félagsmenn og utanfélagsmenn eftir sömu reglum og kaupmenn sama staðar. Engar af bendingum fulltrúaráðsins hefur stj. tekið til greina. Blöð stjórnarflokkanna birtu ekki þessa umsögn sveitarstjórnarmanna, og ráðh. steinþegir um hana. Hann þorir ekki að tala um hana. Hún var samþykkt með 15:1 atkv., og það er hið eina formlega — ég segi: hið eina formlega fram komna atkvæði, sem ráðh. hefur enn sem komið er af að státa frá hálfu sveitarfélaganna. Það var von, að honum væri órótt í ræðunni.

Félagsleg uppbygging og almenningssamtök hérlendis eru svo sterk og svo nátengd gróanda þjóðlífsins, að allar ríkisstj. verða nú orðið að leitast við að samhæfa sig og störf sín þeirri þróun. Að ætla að ganga í berhögg við hana með einræði og ofstjórn, eins og núv. ríkisstj. gerir, er ofviða fyrir hvaða stjórn sem væri. Vinstri stjórnin gerði sér grein fyrir þessu og leitaði samstarfs við samtökin. Með því leitaði hún auðvitað ekki aðeins samvinnu við sína stuðningsmenn, heldur út fyrir hina pólitísku stuðningsflokka sína, af því að sjálfstæðismenn eru vitanlega í þeim samtökum. Og það var rétt.

Stjórnartíð vinstri stj. var tímabil gróanda, af því að sú stjórn starfaði með, en ekki á móti félagsmálahreyfingunum. Þá blómgaðist atvinnulíf og framfarir í sveit og við sjó. En almenningur skildi ekki nógu vel sinn vitjunartíma, og verkalýðurinn hætti að veita stj. nauðsynlegan stuðning, lét æðisgengna stjórnarandstöðu trufla sig. Síðan hefur ýmislegt gerzt og kalstefnustjórn komizt til valda, sem fer öfugt að. Eitthvað þurfti að gera, segir hún.

Hvað átti að gera? — Jú, víst þurfti eitthvað að gera. Allvondar snurður þurfti að strjúka af þræði. Við framsóknarmenn bentum á í vetur, að það væri hægt að gera án mikils sársauka fyrir þjóðina, ef allir flokkar tækju höndum saman til þess og ekki væri horfið frá stefnu vors og gróanda.

Hermann Jónasson lýsti í gærkvöld efnahagsmálatill. okkar, og í vetur lögðum við til, að skipuð yrði n. 2 fulltrúa frá öllum flokkum til þess að semja samkomulagstill. í efnahagsmálunum. Stjórnarflokkarnir vildu ekkert slíkt samstarf hafa á Alþ. og leituðu heldur einskis samstarfs við almenning, en settu sína grófu efnahagsmálalöggjöf í trássi við allt og alla með hroka og sjálfbirgingshætti. Stj. lét þingið hætta störfum í nærri 2 mánuði, rak menn sinna eigin þingflokka utan af landi heim eins og krakka, sem sagt er að fara frá, svo að þeir tefji ekki fyrir, heimtar svo eftir hléið, að þeir greiði atkv. með öllu, sem hún leggur fyrir þingið, þó að það brjóti í bága við velfarnað héraða þeirra.

Ekki ómerkari maður en hæstv. núv. dómsmrh. sagði í þingræðu árið 1957 orðrétt þetta, með leyfi hæstv, forseta: „Fá eða engin mál eru nú rædd meira hér á landi né hafa verið heldur en hin svokölluðu efnahagsmál og sá vandi, sem að steðjar í þeim. Hvaða úrræði sem menn telja þar vænlegust eða hverjar orsakir sem menn telja vera að þeim örðugleikum, sem við er að etja, er það víst og að því er ég hygg óumdeilanlegt, að við þennan vanda verður ekki ráðið, nema skilningur alls almennings á bæði orsökum og úrræðum sé fyrir hendi. Ég veit ekki um neitt málefni, sem síður stoði að löggjafinn einn, Alþ. og ríkisstj., taki ákvarðanir um, ef þær styðjast ekki við glöggan skilning alls almennings á nauðsyn þeirra aðgerða, sem hverju sinni eru ákveðnar. Án slíks skilnings kann að vísu að vera hægt að gera ýmiss konar bráðabirgðaráðstafanir, en ef þær eiga ekki þegar í stað að reynast haldlitlar, verða þær að hafa stoð í öflugu almenningsáliti.“

Af þessum orðum Bjarna Benediktssonar má öllum ljóst vera, að hann er þar nákvæmlega á sömu skoðun og fólst í till. okkar framsóknarmanna um nauðsyn samstarfs að úrlausnum efnahagsmálanna. „Ég veit ekki um neitt málefni,“ segir ráðherrann, „sem síður stoði að löggjafinn einn, Alþ. og ríkisstj., taki ákvarðanir um, ef þær styðjast ekki við glöggan skilning alls almennings.“ Hér er rétt ályktað og ákveðið talað.

En einmitt þetta þrjózkaðist ríkisstj. við að gera. Hún og flokkar hennar tóku sínar byltingarkenndu ákvarðanir og settu harkaleg lög gegn vilja almennings og andstætt skilningi hans. Um það votta hin mörgu mótmælabréf, sem Alþ. hafa borizt, — síðasti fundur L.Í.Ú., nýafstaðin ráðstefna Alþýðusambandsins og maðurinn á götunni. Hæstv, dómsmrh. hefur fyrir fram kveðið upp dauðadóm yfir efnahagsmálaaðgerðum ríkisstj. Sá dómur hans er réttur, og honum verður ekki hnekkt.

Mannkynið allt stefnir að meira og meira jafnrétti og bræðralagi, þó að afturkippir komi við og við. Íslendingar eru framarlega í þessum efnum. Þrælahaldið kemur hér aldrei aftur. Hjúahald í hinni gömlu merkingu er úr sögunni. Yfirstétt og undirstétt tilheyra liðnum tíma. Hin félagslega menning og félagslega hagþróun, sem stefnir að því að gera alla a.m.k. bjargálna og frjálsa um leið, í beztu merkingu þess orðs, er það afl, sem héðan af verður ekki bugað á Íslandi. Nazismi og línukommúnismi geta tafið fyrir um stundarsakir, en ekki meira.

Álagastjórnin, sem nú situr og ráðið hefur á þessu þingi, spillir gróanda þjóðlífsins eins og kal spillir grund á vondu vori. En grundin grær aftur. Athafnasöm þjóð og framsækin plægir kalsvæðin og sáir í þau. Því fyrr, því betra.