28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3436 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta er auðvitað ekkert annað en að svara út úr. Það liggur áreiðanlega ljóst fyrir, að till. um þingfrestun liggur ekki fyrir þessari hv. d., og það þarf ekki að segja henni það. Ég skýrði frá þessum umr., sem hefðu átt sér stað í gær milli formanns þingflokks Framsfl. og hæstv. forsrh. um fyrirkomulag þingfrestunarinnar. Það vitanlega liggur ljóst fyrir, að þingi verður frestað einhvern tíma fyrir jól. Það þarf ekki að segja neinum það. En það er spurningin, hvenær það verður gert, og það er undir því komið, hvort það geta talizt eðlileg vinnubrögð. Þessu neitar hæstv. fjmrh. að svara, þó að forsrh. lýsti því yfir við formann þingflokks Framsfl. í gær, að hann ætlaði að halda fund um málið fyrir hádegi og mundi þá veita svör við því, hvernig þingfrestuninni yrði háttað, þ.e.a.s. hvenær hún yrði framkvæmd og hvernig.

Það er vitanlega rétt, og það þurfti ekki að taka neitt fram um það heldur, að samþykkt þessara mála, sem hér liggja fyrir, er nauðsynleg fyrir áramót. Það er engum ljósara en hv. þingmönnum. En það er ekki venja að leggja þau mál fyrir, fyrr en líður nokkuð á þingstörf fyrir hátíðar, og hefur verið venjan að láta önnur mál, sem þm. bera fram, sitja fyrir. Það eru þess vegna alveg óeðlileg vinnubrögð, ef það er ætlunin að knýja fram þessi mál nú, án þess að önnur mál, sem þingmenn óska eftir að komi hér fyrir, komist hér til umr. Þess vegna er þetta ekkert svar annað en út úr, og ég óska eftir, áður en umr. hefjast, að fá að vita um það, hver hefur orðið niðurstaðan af þessum viðræðum. Það á að vera auðvelt fyrir hæstv. fjmrh. að svara því, þar sem hann hlýtur að hafa verið á þeim fundi, þar sem þessi mál voru rædd í morgun, því að ég efast ekkert um það, að hæstv. forsrh. hefur sagt það satt við formann þingflokks Framsfl., að þessi mál yrðu rædd á stjórnarfundi núna í morgun. Ég óska eftir svari.