28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru tvær ástæður til þess, að ég kveð mér hljóðs í sambandi við þessar umræður utan dagskrár.

Önnur ástæðan er sú, að ég vildi gjarnan svara nokkrum ásökunum, sem hæstv. landbrh. taldi ástæðu til að bera fram á hendur Framsfl. í sambandi við meðferð landbúnaðarmála, og gerði hæstv. ráðh. það af tilefni fsp. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Þetta er önnur ástæðan. Hin ástæðan er að láta í ljós álit mitt á þeirri málsmeðferð, sem nú er efnt til hér á hv. Alþingi með því fundahaldi, sem til hefur verið stofnað í dag, og þeim yfirlýsingum, sem hafa nú komið fram frá hæstv. ríkisstj.

Hæstv. landbrh. sagði, að það væri ánægjulegt að heyra, að framsóknarmenn hefðu nú orðið áhuga fyrir málefnum landbúnaðarins, það væri athyglisverð nýjung, að því er manni skildist, og sá ástæðu til þess að taka upp umræður um það atriði utan dagskrár á Alþingi. Ég hafði satt að segja haldið, að þessi hæstv. ráðh. hefði fengið alveg nóg á undanförnum árum af áhuga framsóknarmanna á landbúnaðarmálum og honum væri hann minnisstæðari en svo, að hann þyrfti að vera með þessi látalæti hér á hæstv. Alþingi. Og ég býst við, að það verði líka þannig á næstunni, að sá áhugi muni verða honum athyglisverður.

Hann sagði, hæstv. ráðh., að núverandi stjórn og þeir, sem stæðu að henni, mundu gæta þess gaumgæfilega að búa réttlátlega að stéttunum í landinu, t.d. að bændastétt landsins byggi við sams konar hlut og aðrir, og mundi þar verða öðruvísi haldið á málum að þessu leyti en hefði verið hjá vinstri stjórninni, því að þar hefði undir forustu framsóknarmanna verið hallað á bændur. Þetta gefur mér tilefni til þess að svara með örfáum orðum.

Þessi hæstv. ráðh. virtist hafa í huga nokkuð efnahagslöggjöfina, sem sett var 1958, því að í framhaldi af þessu fór hann að tala um 55% almenna yfirfærslugjaldið, sem þá var lögboðið, og virtist hafa þá í huga, að með því gjaldi hefði verið hallað á bændastéttina í landinu. Það vill nú svo til, að um þessa efnahagsmálalöggjöf er til vitnisburður, sem hefur miklu meiri þýðingu og er miklu ábyggilegri en fleipur hæstv. landbrh. og hans manna um þessi efni, og það er vitnisburður frá stjórn Stéttarsambands bænda. Sú stjórn íhugaði þessa löggjöf og áhrif hennar á stéttirnar, og hún gaf út þann úrskurð, að þessi löggjöf eða ákvæði hennar ætluðu bændastéttinni jafnrétti á við aðrar stéttir í landinu. Það var m.a. dómur þessara trúnaðarmanna stéttarinnar um almenna yfirfærslugjaldið, og það var vitanlega af þeirri einföldu ástæðu, að það yfirfærslugjald var ekkert sérstaklega ætlað á rekstrarvörur landbúnaðar, heldur var það gjald, sem lagt var á allar rekstrarvörur allra atvinnuvega í landinu. Og enn fremur var það vegna þess, — og það vil ég taka fram, ef hæstv. landbrh. hefur ekki skilið það áður, að það var beinlínis gert ráð fyrir því, að verðlag á framleiðsluvörum bænda eins og á sjávarvörum hækkaði til þess að vega á móti hækkuninni á gjaldinu á rekstrarvörunum.

Það er því alveg staðlaust, sem hæstv. ráðh. segir, að það hafi gleymzt í þessari löggjöf að gæta tekjuhliðarinnar í þessu máli. Auðvitað reyndi hæstv. landbrh. og hans menn að gera efnahagsmálalöggjöfina tortryggilega í augum bænda. Það skorti ekkert á tilraunir og viðleitni í þá átt. Þeir geystust um landið þvert og endilangt til þess að halda því fram við bændur og annað sveitafólk, að með þessu gjaldi hefði verið sérstaklega ráðizt á það og afkomu þess. Vitanlega var aldrei nein heil brú í þessum áróðri hæstv. ráðh., eins og ég hef raunar þegar sýnt fram á, og ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum. En ég get minnt á hitt í sambandi við þetta, að það er nú nokkuð langt síðan, — það er meira en ár og heilt Alþingi liðið síðan framsóknarmenn hættu að móta stefnuna í landbúnaðarmálunum og aðrir tóku við. Og hverjir tóku við? Það voru þeir, sjálfstæðismennirnir, sem tóku við og settu upp stjórn af sinni hendi, skipaða Alþýðuflokksmönnum, sem þeir réðu algerlega yfir, eins og þeir vildu, og höfðu líf hennar í hendi sér og löggjöfina algerlega. Ef sjálfstæðismenn meintu nokkurn skapaðan hlut með þessari gagnrýni sinni á 55% gjaldinu, áttu þeir vitanlega að láta það verða sitt fyrsta verk að afnema þetta gjald, að lagfæra þetta misrétti, sem þeir sögðu að hefði verið lögboðið í garð bændastéttarinnar og hæstv. landbrh. sá alveg sérstaka ástæðu til þess að fara að ræða hér í dag, á laugardegi, utan dagskrár í hv. Alþingi, — og náttúrlega er engin ástæða til að skorast undan að ræða, fyrst hæstv. ráðh, sér ástæðu til þess.

En því fer svo alls fjarri, að Sjálfstfl. hafi beitt sér fyrir því að afnema þetta gjald eða yfir höfuð gera ráðstafanir til þess að rétta hlut landbúnaðarins, eins og allir vita, að það, sem gerzt hefur í þessum efnum, síðan áhrifa Framsfl. gætti ekki lengur til úrslita, er það, að það hefur jafnt og þétt verið hallað á bændastéttina, tekinn upp sá háttur á ný, sem tíðkaðist líka næst áður, þegar Sjálfstfl. fór með landbúnaðarmálin, að halla á bændastétt landsins í löggjöfinni. Það er þessi stefna, sem hefur verið tekin upp, eftir að áhrifa Framsfl. hætti að gæta til úrslita í landbúnaðarmálunum, en sjálfstæðismennirnir tóku við þeim málum.

Það væri full ástæða til þess út af þessum ásökunum hæstv. landbrh. að rekja þetta mál ýtarlega og sýna fram á, í hverju þetta hefur verið fólgið, í hverju hefur verið fólgin þessi stefna Sjálfstfl. í landbúnaðarmálunum, sem raunar er þó engin ný bóla. En ég skal fara mjög fljótt yfir sögu í því efni.

Ég vil þó minnast á, að þegar efnahagslöggjöfin var sett hér á s.l. vetri, — og það var efnahagslöggjöf, sem var undirbúin jöfnum höndum í herbúðum sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna, — þá var bændum í fleiri en einu tilliti ætlaður skarðari hlutur en öðrum stéttum. Þá hefði verið eðlilegt, að inn í löggjöfina hefði verið sett ákvæði um að færa verðlag landbúnaðarafurða í rétt hlutfall við kaupgjald, eins og það var þá, sérstaklega með tilliti til þess, að þessari löggjöf var ætlað að brjóta blað í þessum málum og tekinn var upp alveg nýr grundvöllur t.d. um útreikning vísitölu og byrjað á tölunni 100, þá hefði átt að vera hægt að ætlast til þess, að þeir, sem stóðu að þessu, hefðu viljað láta alla byrja jafnt. En því var ekki að heilsa, heldur var það fellt hér á hæstv. Alþingi með atkv. stjórnarflokkanna að taka þessa verðlagsleiðréttingu til greina.

Þá var enn fremur í þessari efnahagsmálalöggjöf í fyrsta skipti tekinn upp sá háttur, að það skyldi hækka verðlag sjávarafurða, ef vísitala hækkaði, að vísu ekki alveg jafnóðum, en eftir vissum reglum. Og þá var vitanlega stungið upp á því af Stéttarsambandi bænda og framsóknarmönnum, að sama regla gilti einnig fyrir landbúnaðarafurðir, eins og þá hafði verið tekin upp fyrir sjávarafurðir. En till. um þetta efni, sem kom fram frá Stéttarsambandi bænda og var flutt hér í hæstv. Alþingi, var felld af hæstv. núverandi landbrh. og hans mönnum, mönnunum, sem eru að tala um, að það sé hægt að treysta þeim til þess að líta eftir málefnum landbúnaðarins og gæta jafnréttis í þessu sambandi. Til þess að gera langa sögu stutta er nauðsynlegt að draga þetta saman og minna á og bera saman, hvernig vitnisburður Stéttarsambandsins var annars vegar um þessa löggjöf, sem hæstv. núv. landbrh. sá vafalaust um landbúnaðarþáttinn í, og hins vegar þá löggjöf, sem vinstri stjórnin hafði sett í þessum efnum, þar sem Framsóknarflokksmenn fjölluðu sérstaklega um eða höfðu forustu um landbúnaðarþáttinn.

Ég er búinn að minnast á það, hvað sagt var af hálfu Stéttarsambandsins um efnahagslöggjöfina frá 1958, að þar væri jafnréttis gætt í garð bændastéttarinnar. En löggjöfin, sem núv. hæstv. landbrh. bar ábyrgð á landbúnaðarþættinum í fyrst og fremst, fékk annan vitnisburð af hendi stjórnar trúnaðarmanna landbúnaðarins. Þeir lýstu því yfir, að í þeirri löggjöf væri í mörgum atriðum hallað sérstaklega á bændastéttina, og mótmæltu því harðlega, án þess að það væri þó að nokkru haft af núv. hæstv. landbrh. og hans mönnum. Vill nú ekki hæstv. landbrh, gera það fyrir mig að hugleiða þessi efni, áður en hann fer næst að vekja máls á því, að aðrir hafi átt hlut að því að halla á landbúnaðinn? Og þó er þetta vitaskuld ekki nema lítið brot af þeirri sögu, sem gerzt hefur í þessum efnum, bara á þessu eina ári, sem liðið er, síðan andi hæstv. núv. landbrh. fékk að sveima yfir þessum vötnum. Og er þá skemmst að minnast þeirra atburða, sem gerðust á s.l. hausti og nú að eðlilegum hætti hafa blandazt inn í þessar umræður, þ.e. í sambandi við brbl. um verðlagningu landbúnaðarafurða.

Þegar það var gagnrýnt í fyrravetur, að verðlag landbúnaðarafurða væri ekki fært til samræmis við annað verðlag, sögðu sjálfstæðismenn og ég held raunar einnig Alþýðuflokksmenn hér á Alþingi, að þetta væri ekki stórt mál. Hér væri aðeins um mjög stuttan frest að ræða, bændur mundu samkvæmt gildandi löggjöf fá þessa umræddu leiðréttingu á verðlaginu næsta haust, eins og þeir ættu að fá að óbreyttum lögum. Þeir gætu þess vegna verið alveg rólegir. Það sæju þeir menn um þessi mál, eins og horfði, að þeir þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim.

En hvað hefur komið í ljós? Hvað er komið á daginn? Hvað gerðist s.l. haust, þegar eftir gildandi löggjöf þessi leiðrétting átti að eiga sér stað? Það, sem gerðist, var það, að ríkisstj., sem hafði lofað þessu, og Sjálfstfl., sem einnig hafði lofað því og réð þeirri ríkisstj, og hafði líf hennar í hendi sér, — þessi öfl notfærðu sér ágreining, sem kom upp milli neytenda og framleiðenda varðandi það, hvernig ákvarða skyldi einstaka liði í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, og annað fleira, — þeir notfærðu sér þennan ágreining til þess að setja alveg nýja löggjöf, — ekki nýja löggjöf til stuðnings þeirri eldri, sem gerði t.d. mögulegt, að hagstofustjóri skæri úr þessum ágreiningi, eins og eðlilegt var samkvæmt þeirri löggjöf, sem fyrir var, — þeir settu ekki löggjöf um þetta til þess að tryggja þannig, að bændur fengju sitt. Nei, þeir settu bráðabirgðalöggjöf um, að verðlag landbúnaðarafurða mætti ekki hækka til 15. des., — það var það, sem þeir gerðu, — það skyldi standa óbreytt, enda þótt fyrir lægi, að til samræmis við aðrar stéttir væri réttmætt og skylt að breyta verðlaginu. Alþýðuflokksstjórnin, sem sat fyrst og fremst með stuðningi Sjálfstfl., gaf löggjöfina út. Sjálfstfl., hæstv. núv. landbrh., Ingólfur Jónsson, og hans menn, þeir gátu mjög vel komið í veg fyrir, að þessi löggjöf yrði gefin út. Það var ekkert flókið mál, þeir þurftu ekkert annað en að segja við ríkisstj.: Stuðningi okkar við stjórnina er lokið, ef hún notfærir sér okkar stuðning til þess að gefa út löggjöf af þessu tagi. — Þá kom aldrei til greina, að nein slík löggjöf yrði gefin út. En Sjálfstfl. vildi, að löggjöfin yrði gefin út. Hann vildi ekki nota þann rétt, sem hann hafði til þess að stöðva hana, og löggjöfin kom út, ekki aðeins á ábyrgð Alþýðuflokksstjórnarinnar, heldur engu síður á ábyrgð þeirra, sem höfðu sett stjórnina upp, sem báru ábyrgð á henni stjórnarfars- og stjórnskipulega og eftir því sem hæstv. forsrh. lýsti yfir höfðu endurnýjað stuðningsyfirlýsingu sína við stjórnina einmitt í sambandi við þetta mál. Í yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. lét Alþýðublaðið flytja, segir hann, að stjórnin hafi sagt Sjálfstfl., að stjórnin gæti ekki gefið út löggjöfina, nema Sjálfstfl. héldi áfram stuðningnum. Og þá stóð ekki á svarinu. Sjálfstfl. hélt áfram stuðningnum og löggjöfin kom út, eins og hæstv. fyrrv. forsrh. orðaði það. Er hægt að segja það skýrara en með þessu móti, að Sjálfstfl. hafði þetta mál í hendi sér og réð því raunverulega, að þetta var gert, og þ. á m. hæstv. núv. landbrh.?

Hitt er svo dálítið annað mál, en þáttur af því sama, að þegar Sjálfstfl. hafði átt þennan hlut að málinu, varð hann hræddur, af því að það átti að fara að kjósa, og farið var að gefa út yfirlýsingar um það, að bændur skyldu fá í staðinn fyrir löggjöfina uppbætur einhverjar. Og nokkru síðar urðu þeir enn hræddari, og þá gáfu þeir út yfirlýsingu um það til viðbótar, að þeir væru á móti brbl. og mundu fella þau, þegar Alþingi kæmi saman. Á hinn bóginn var og er allt óljóst um það, hvað koma skal í staðinn. En ef þeir standa við að fella bráðabirgðalöggjöfina, gilda vitanlega afurðasölulögin, eins og þau voru, og við vitum, hvað í þeim er.

Þetta er ljót saga, en sönn, um gang þessara mála í höfuðdráttum, — aðeins örfáum stórum dráttum, aðeins stiklað á nokkrum höfuðatriðum, eins lítið og unnt er, í tilefni af því, sem hæstv. landbrh. sagði. En ef það ætti að rekja þessa sögu ýtarlega, yrði það lengra mál, sem ég sé ekki að hægt sé að koma að nú að þessu sinni.

Þá er komið að þeim þætti í þessu máli, sem langmestu skiptir nú þessa dagana, og það eru brbl., sem sett voru um verðlagsmál landbúnaðarins, og hvernig á þeim verður haldið. Ég gerði fyrirspurn um það hér í gær til hæstv. landbrh., hvort þeim yrði ekki útbýtt nú þegar hér í þinginu og þau tekin fyrir. Ég hafði að vísu ákveðið að gera þessa fsp., áður en ég vissi um þessar hugmyndir um að fresta Alþingi. En það er enn þá meiri ástæða til að ganga eftir skýrum svörum við þessari fsp. vegna þeirrar tillögu, sem nú er komin fram um að fresta Alþingi.

Sú tillaga, sem komin er fram frá hæstv. ríkisstj. um að fresta Alþingi og ég vil ekki trúa enn að sé ætlun hennar að berja fram í gegnum þingið, — ég vil ekki trúa því enn, — fjallar um, að fundum þingsins geti orðið frestað eftir 30. nóv., sem sé ef þetta væri barið fram, ef það væri möguleiki til þess, gæti fundum Alþ. orðið frestað eftir 30. nóv. Og þetta gefur manni tilefni til þess að spyrja: Hefur það kannske hvarflað að hæstv. ríkisstj. að senda þingið heim án þess að leggja fyrir brbl. um verðlag landbúnaðarafurða eða án þess að hæstv. Alþingi gefist kostur á því að greiða atkvæði um þessa löggjöf? Hefur það hvarflað að hæstv. ríkisstj. að halda þannig á málinu? Og ég vil leyfa mér að spyrja, — já, hæstv. forsrh. er ekki við, það liggur svo mikið á að halda hér áfram þingfundum, að það er ekki einu sinni látið valda því að fella niður laugardagsfund, þó að hæstv. forsrh. sé ekki við, — en ég vil leyfa mér að spyrja þá þann, sem svarar í hans stað fyrir ríkisstj.: Kemur það til mála, að hæstv. ríkisstj. fresti þinginu, án þess að brbl. um landbúnaðarverðlagið verði lögð fyrir þingið og atkvgr. hafi farið fram um það mál í þinginu? Kemur það til nokkurra mála, að slíkt komi fyrir? Ég vil ekki álíta að óreyndu, að slíkt geti skeð, því að ef þannig væri á málum haldið, þá er það svo freklegt brot á öllu þingræði og raunar brot á sjálfri stjórnarskránni, að ég læt mér ekki til hugar koma að óreyndu, að nokkrum manni detti það í hug. En þá vil ég líka benda hæstv, ríkisstj. á, ef hún vill fría sig ámæli um slíkt, að draga það ekki að útbýta nú þegar bráðabirgðalögunum um landbúnaðarverðlagið, láta ganga í þetta nú þegar, og afstaða verði tekin til þeirra til þess að fyrirbyggja allan hugsanlegan misskilning um þetta eða alla hugsanlega tortryggni í þessu sambandi. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. og hv. stuðningsmenn hennar hljóta að gera sér grein fyrir því, hvar komið er með Alþingi og störf þess, ef það t.d. ætti að koma til mála, að þingið yrði sent heim, brbl. gengju svo úr gildi 15. des., eins og þau gera, féllu þá niður, og að stjórnin setti þá önnur brbl. um þessi efni, eftir að vera nýbúin að senda Alþingi heim og hafa aldrei lagt fyrir það hina löggjöfina. Hvar er þá komið alþingishaldi á Íslandi og þingræði í landinu, ef slíkt gæti komið til greina? Ég vil alls ekki álíta, að þetta komi til greina. En þá á ekki heldur að vera að skapa neina óþarfa tortryggni með því að vera að leggja fram tillögur um frestun á fundum Alþingis, sem gætu orðið túlkaðar á þá lund, að þetta stæði til, eða gæfu nokkurt svigrúm til, að þetta yrði gert. Þess vegna vil ég enn á ný alvarlega beina því til hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. í heild að íhuga einmitt þessa hlið á málinu og láta það ekki dragast neitt að leggja fram þessa löggjöf, þannig að málefnið geti fengið þingræðislega meðferð.

Ég blátt áfram bið menn að stofna ekki til þess óvinafagnaðar, sem af því hlyti að hljótast, ef ekki væri farið eftir réttum þingræðisvenjum í þessu efni. Ég bið ekki um neitt í því efni vegna Framsfl. eða vegna bændastéttarinnar eða neinna þeirra, sem eiga afkomu beint undir löggjöfinni, það er allt annað mál. Ég bið bara um, að þetta verði athugað, vegna þess að þetta mundi færa allt okkar þinghald og alla okkar málsmeðferð niður á lægra plan en það hefur nokkru sinni áður verið, og við því megum við alls ekki. Við því má þingræði á Íslandi alls ekki.

Hvað sem hægt er að segja um þingfrestun og ekki þingfrestun og hvenær þing skuli sitja, þá er í sambandi við þetta mál um svo þýðingarmikið atriði að ræða, sem snertir innstu taugar í okkar stjórnarfari, að það verður að hafa góða gát á því, að hér verði ekki nein mistök á.

Ég trúi því heldur alls ekki, að það komi til nokkurra mála, að þeir menn, sem eru kosnir á þing, eftir að hafa lýst yfir því, að þeir séu á móti þessum brbl., láti það koma fyrir, að þingið verði sent heim, án þess að þessu máli verði gerð full skil. Ég trúi því ekki, fyrr en ég sé það, og ég vil ekki álíta, að slíkt geti komið fyrir, einmitt af því, að þessi efni horfa við á þennan hátt. Við höfum nóg annað að deila um og starfa að í okkar málfærslu fram og til baka, þó að þessu verði ekki bætt inn í, þannig löguðu máli varðandi sjálfan meginkjarna þingræðisins.

Það er talað um, að það þurfi að fresta þinginu, til þess að stjórnin fái starfsfrið. Ég kem að þeim málum síðar, en það mundi náttúrlega engum dyljast, að ef hér á að fara að senda þingið heim, til þess að stjórnin geti, þegar það er nýfarið, notað löggjafarvaldið til þess að setja brbl. yfirleitt, þá er þessi þingfrestun ekki gerð í neinum góðum tilgangi, þá er þetta mál búið að fá allt annað innihald en því hefur verið gefið með þeim fáu orðum að vísu, sem sögð hafa verið til rökstuðnings þessari hugmynd að fresta þinginu fljótlega.

Þetta ætla ég, að engum dyljist, og þetta vil ég sem sagt mjög alvarlega biðja menn að skoða, og í þessu sambandi vil ég segja það strax, að ef það er raunverulega aðalvandamálið, að stjórnin hafi einhvern frið á sér fram að jólunum, en muni alls ekki hafa slíkt, ef þinghald heldur hér áfram, þá er ekki nokkur minnsti vandi að ná samkomulagi um að haga þingstörfunum þannig, að ríkisstj. hafi eðlilegan tíma til þess að vinna. Það er allt annað, sem kemur til íhugunar, þegar athuguð er nauðsyn þess að hafa þinghald eða ekki þinghald, og að því kem ég ofur lítið á eftir.

Í sambandi við þessar umræður, sem átt hafa sér stað hér um landbúnaðarmálin og brbl., vil ég enn endurtaka áskorun mína um það, að brbl. verði tafarlaust lögð fram og gerð þannig áætlun um þinghaldið og um hugsanlega frestun, að hægt sé að eyða allri tortryggni í því sambandi. Mundi þá áreiðanlega margt ganga greiðara en ella, ef þannig væri á málum haldið. Og ég held, að það væru miklu hyggilegri vinnubrögð, til þess að menn gætu haft sæmilegan starfsfrið, að koma sér saman um ýmislegt varðandi þinghaldið, heldur en sú áætlun, sem bólar á nú af hendi hæstv. ríkisstj. í þeirri þáltill., sem lögð hefur verið fram, en ég satt að segja geri mér enn verulegar vonir um að hljóti að verða breytt í einhverjum verulegum atriðum. Hvers vegna þá ekki að reyna að ná samkomulagi um það, að þinghaldinu verði hagað þannig, að nægilegur tími gefist til þess að afgr. brbl. og fram komi þingviljinn um þau, sem alls ekki þarf að taka langan tíma, og enn fremur, að ýmislegt annað fari fram, sem óhjákvæmilegt er að gert verði, áður en Alþingi verður frestað, ef þingið á að halda virðingu sinni.

Það er hægt að gera sér grein fyrir því í bróðerni, ef menn vilja, hvað það er, sem þarf að gera á Alþingi, áður en því er frestað, til þess að Alþingi haldi virðingu sinni. Og það væri hægt að raða því niður, hvernig því yrði fyrir komið, þannig að allir gætu haft sómasamlegan tíma til þeirra starfa, sem þeir þurfa að inna af hendi. Og það er þessi málsmeðferð, sem ég fyrir mitt leyti mundi telja miklu hyggilegri heldur en nokkuð annað og ætti alveg hiklaust að taka upp og ég vil alls ekki álíta að sé neitt útilokað að komi til greina. Þó að þessi hugmynd hafi komið fram um, að þingið geti staðið aðeins örstutt, þá ætti að vera hægt í framkvæmdinni að finna leið, sem allir gætu sætt sig við og gæfi nægilegt svigrúm.

Ég vil þá að lokum minnast ofur lítið á þetta fundarhald hér í dag, og ég vil mjög eindregið beina því til hæstv. forseta, að hann felli niður þetta fundarhald hér í dag og að það verði þess í stað snúið sér að því, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarandstaðan tali saman og reyni að koma sér niður á skynsamlegar reglur um það, hvað þingið muni þurfa að sitja lengi fyrir jól og hvað hæfilegt sé að þingfrestunin verði löng, í staðinn fyrir að efna nú hér í dag til þeirra kappræðna eða átaka, sem hljóta að verða um þessi efni, jafnvel í vaxandi mæli, ef ætlunin er að hafa þann hátt á að knýja fram með afbrigðum og furðulegum hætti ýmis þingmál nú þegar í byrjun þings, sem getur ekki verið miðað við neitt annað en það að skapa grundvöll fyrir ríkisstj. til þess að senda þingið heim, hvaða dag sem henni sýnist. Það sjáum við öll í hendi okkar, að það er engin hætta á því, að skemmtanaskattsmálið dagi uppi í þinginu fyrir jólin eða þau mál önnur, sem nú er lögð áherzla á að gangi fljótt fram. Það er þess vegna ekki verið að halda fund á laugardegi til þess að bjarga skemmtanaskattinum frá neinum voða, heldur hlýtur þetta fundarhald í dag eingöngu að vera miðað við það að skapa grundvöll til þess, að það sé hægt að senda þingið heim hvenær sem er eða hvenær sem ríkisstj. sýnist, bara þegar stjórnin væri búin að fá fram til viðbótar þáltill. um þingfrestunina. Og ég segi það alveg hiklaust, að mér dettur ekki í hug að greiða atkvæði með afbrigðum, þegar svona stendur á. Ég man ekki til þess, að ég hafi oft, síðan ég kom hér á þing fyrir nokkuð mörgum árum, greitt atkv. á móti afbrigðum. Ef þessu fundarhaldi yrði haldið áfram, mundi ég greiða hiklaust atkv. á móti afbrigðum til þess að mótmæla því, að þessi háttur sé á hafður, og þá er ég fyrst og fremst að greiða atkv. á móti því, að það séu sköpuð skilyrði til þess, að hægt sé að senda þingið heim, hvaða dag sem hæstv. ríkisstj. sýnist, án þess að Alþingi hafi uppfyllt sínar frumskyldur. Ef sá háttur t.d. kynni að verða á hafður, að ekki yrðu lögð fram brbl., en þingið samt sent heim, þá er hæstv. ríkisstj. og meiri hl., sem að henni stendur, með því að koma í veg fyrir, að Alþingi geti uppfyllt frumskyldur sínar. Auk þess er vitanlega margt fleira, sem með réttu móti þarf að taka til meðferðar, áður en hægt sé að telja eðlilegt að fresta fundum Alþingis vegna jólanna.

Ég mun ekki ræða núna, nema þá tilefni gefist til, meira um þessa fyrirhuguðu starfsaðferð, m.a. í trausti þess, að það sé opið að endurskoða þetta. Og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að taka það til alvarlegrar athugunar, sem ég hef sagt um þessi efni og ekki er sagt af neinni löngun til þess að tefja nokkuð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi aðstöðu til þess að starfa. Það er hægt að koma því mjög vel fyrir, það getur mjög vel farið saman, að þeir hafi alla aðstöðu til þess að starfa og hér eigi sér stað þinghald með eðlilegum hætti jafnhliða. Ég er sannfærður um, að það er hægt að koma þessu fyrir, og fyrir mér vakir síður en svo að baka hæstv. ríkisstj. óþægindi, heldur er þetta beinlínis sagt til þess að koma í veg fyrir, að það þurfi að verða stórfelldur ágreiningur um þessi efni. Ég tel, að það væri ákaflega slæmt fyrir Alþingi, ef farið verður að taka upp þann hátt um þinghaldið, sem bólar nú á í þessu sambandi.

Ég vil því enn endurtaka óskir mínar til hæstv. forseta um, að hann hætti við þennan fund í dag eða hafi hann ekki lengri en það, að þessum umræðum utan dagskrár gæti orðið lokið, t.d. núna fram að kaffihléinu, en þess í stað væri snúið sér að því að reyna að koma upp áætlun um þingstörfin, sem allir gætu vel sætt sig við.