30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3507 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir það í hæsta máta kynleg kenning, sem hæstv. sjútvmrh. heldur hér fram frammi fyrir þingheimi, að það skipti litlu máli, hvort Alþ. fái tóm til að afgreiða þingmál í hendur ríkisstj. til framkvæmda eða ekki. Það skiptir meginmáli frá mínu sjónarmiði. Ríkisstj. hefur auðvitað skyldu til þess að framfylgja þeim verkefnum, sem Alþ. gefur henni fyrirmæli um, og það skiptir mjög miklu máli, að Alþ. fái aðstöðu og tóm til þess. Það skiptir nokkru máli, hvort við gætum fengið það á hreint fyrir jól, áður en þingið væri sent í jólafrí, að ríkisstj. ætti að hlutast til um, að veðdeild Landsbankans tryggði sölu á bankavaxtabréfum, t.d. allt að 40 millj. kr., A- og B-flokks bréfum. Og við höfum enga tryggingu fyrir því, að ríkisstj. leggi sig í silann til þess að knýja það fram, nema því aðeins að Alþ. hafi falið henni að leysa það mál. Ég veit ósköp vel, að bankastjóri Seðlabankans hefur ekkert verið ginnkeyptur fyrir því að fá fyrirmæli ríkisstj. um slíka hluti. En hann þarf sannarlega að fá þau, ef það ætti að vera von á því, að Seðlabankinn gerði eitthvað í þessu. Það er kannske hægt að segja, að það sé ekki nein fullnægjandi trygging fyrir því, að peningarnir fáist, þó að Seðlabankanum væri falið að gera allt, sem hann gæti, til að tryggja sölu á slíkum bankavaxtabréfum. En vonirnar eru þó nokkrar, og ég veit ekki betur en stjórn Sogsvirkjunar hafi nú fest nokkrar vonir við það, að það væri kannske leið til lausnar á hennar fjárhagslegu vandamálum að bjóða út verðbréf til sölu. Ég gæti bezt trúað því, að ef hæstv. ríkisstj. legði fast að Seðlabankanum um að kaupa slík vaxtabréf úr eigin sjóði, þá væri hann nokkurs megnugur í því. Það er vitað, að Seðlabankinn sjálfur hefur viljað leggja í stórkostlegar fjárfestingar fyrir tugi milljóna og er kannske að því, er ef til vill búinn að fá samþykki ríkisstj. fyrir því. En ég álít, að úrlausnir í húsnæðismálunum séu svo aðkallandi, að það hefði verið full ástæða til þess, að ríkisstj. gæfi honum fyrirmæli um að láta sínar stórkostlegu tugmilljóna fjárfestingar bíða og leggja heldur eitthvað af sínum árlega ágóða til þess að kaupa bankavaxtabréf til húsnæðismála. Bæði hans fasteignabrask hér í höfuðborginni, kaup á fasteignum fyrir stórupphæðir, og byggingarplön Seðlabankans hefðu heldur átt að bíða, að mínu áliti, heldur en að hafast ekkert að í fjárútvegunum fyrir íbúðarhúsnæðismál í borginni og í landinu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) sagði hér áðan, að það þyrfti ekki að fela ríkisstj. að leita eftir láni hjá stjórn atvinnuleysistrygginganna, því að húsnæðismálastjórnin væri búin að reyna það án árangurs, þá legg ég ekkert að jöfnu aðstöðu húsnæðismálastjórnar, þótt voldug sé, og hæstv. ríkisstj. um það að ræða þau mál við stjórn atvinnuleysistrygginganna. Ég tel alls ekki fullreynt um það, hvort það fé fæst eða ekki, fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur lagt sig í sila um það. Hún gæti e.t.v. gefið atvinnuleysistryggingasjóðsstjórninni fyrirheit um það, að þó að þetta fé væri nú lánað, þá skyldi svo séð um, að það yrði greitt, ef til þess kæmi, að atvinnuleysistryggingarnar þyrftu á fénu að halda, vegna t.d. aðsteðjandi atvinnuleysis, sem hún yrði auðvitað að láta sína sjóði sitja í fyrirrúmi um að leysa. Það getur húsnæðismálastjórnin aftur á móti engin fyrirheit gefið um. Í sjóði atvinnuleysistrygginganna eru stórar fjárupphæðir, en ég skil ósköp vel, að sjóðsstjórnin þorir ekki að binda það fé, nema hún geti fengið tryggingar fyrir því, að það verði greitt, ef atvinnuleysi bæri svo að höndum, að hún yrði félaus og gæti ekki innt af hendi sínar skyldur skv. þeim lögum, sem sjóðsstjórnin á að starfa eftir. Það er hæstv. ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. ein, sem getur gefið slíkar tryggingar, þannig að stjórn atvinnuleysistrygginganna kynni kannske að fengnum slíkum tryggingum að geta veitt lánið, þó að hún gæti alls ekki svarað húsnæðismálastjórninni játandi um sama efni.

Ég tel, að það sé höfuðnauðsyn, að hv. Alþ. fái frið til að starfa, til þess að leysa þetta mál og mörg önnur mál, og að það nái ekki nokkurri átt að senda þingið heim frá svona málum óleystum. Það eru einmitt svona mál, í viðbót við þau mál, sem hér voru rædd undanfarna daga, t.d. út af verðlagsmálum landbúnaðarins, sem Alþ. þarf að leysa og fela ríkisstj., á hvern hátt skuli leysa.

Það er alveg furðuleg kenning, sem hér var haldið fram fyrir nokkrum dögum, að ríkisstj, þyrfti að losna við þingið, svo að hún fengi frið til að starfa. Hvenær þarf Alþ. að starfa, ef ekki þegar vandamál eru fyrir hendi, sem leysa þarf? Þá á Alþ. að vera ríkisstj. til aðstoðar um lausn málanna og segja henni í sumum tilfellum fyrir um og að öðru leyti að vera ríkisstj. til samráðs um, hvernig skuli snúizt við aðkallandi vandamálum. Hitt nær ekki nokkurri átt, að halda því fram, að Alþ. sé verkefnalaust, einmitt þegar vandamál steðja að. Þá hefur það fangið fullt af verkefnum, og nú er einmitt svo, bæði um verðlagsmál landbúnaðarins, að því er snertir þau brbl., sem sett voru á s.l. hausti, um þetta mál, um að koma fjárlögunum a.m.k. til fjvn., — allt þetta á auðvitað að gerast nú fyrir áramót, ef nokkurt lag er á vinnubrögðum þings og ríkisstj. Nú höfum við sem sé enga vitneskju um það, hvort Alþ. fær frið til að starfa. En hitt dylst engum alþm., að verkefnin eru mörg og mikil, sem Alþ. á að leysa, ber skylda til að leysa með ríkisstj., og það væri gerræði gegn þingræðinu að senda Alþ. heim frá þessum málum óleystum, og það er sýnt, að hvorki forsetar þingsins né hæstv. ríkisstj. getur gefið neina vitneskju um það, hvaða lausn hin aðkallandi mál fái, ef þingið verði sent heim.