19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vona, að hv. 4. þm. Reykn. hafi ekki heyrt skakkt áðan. Ég sagði ekkert um það, að Grindavíkurbátum yrði ekki bætt tjónið. Ég sagði aðeins það, að ég vildi ekki á þessu stigi málsins gefa loforð um, að það yrði gert. Ég vildi láta rannsókn fara fram í þessu máli áður, til þess að það kæmi fram, hvort Grindvíkingar hefðu bæði siðferðilegan og lagalegan rétt til þessarar kröfu. Og ég einmitt undirstrikaði það, að jafnvel þótt þeir hefðu ekki lagalegan rétt, þá mætti svo fara, að þeir fengju eigi að síður bætur út á siðferðilega réttinn.

Ég vil aðeins til þess að fyrirbyggja misskilning taka enn fram, að þótt ég á þessu stigi málsins gefi Grindvíkingum ekki loforð um bætur, þá má vera, að þeir fái bætur eigi að siður, ekki sízt ef rannsóknin á þessu máli verður þeim í vil.

Það er svo aftur á móti aukaatriði í þessu máli, þótt ég eins og hv. 4. þm. Reykn. vilji ekki segja, að það sé alveg sambærilegt, það sem gerðist hjá Ólafsvíkurbátum og Grindavíkurbátum, þar sem Bretarnir voru innan landhelgi, þegar þeir ollu tjóninu. Og óþarflega finnst mér og of fast að orði kveðið hjá hv. 4. þm. Reykn., þegar hann segir hér og fullyrðir alveg, að tjóninu hafi verið valdið af ásetningi. Ég vil ekki fullyrða það, og ætla ég þó ekki að bera í bætifláka fyrir íslenzku togarana, sem ollu tjóninu. En ég vil ekki á þessu stigi málsins fullyrða það, að þeir hafi eyðilagt netin af ásetningi. Ég vil miklu heldur trúa því, að þeir hafi ekki séð merki á veiðarfærunum, ekki vitað, að það voru net undir, þar sem þeir voru að toga, og ég vil, að rannsóknin leiði í ljós, hvort mín skoðun er að þessu leyti réttari eða fullyrðing hv. 4. þm. Reykn. Og ég held, að málstaðurinn batni ekkert við það, þó að við séum með fullyrðingar, sem vantar allar sannanir fyrir. Ég vil miklu frekar ætla það, að íslenzkir togaraskipstjórar, þegar þeir voru að toga á þessu 10 mílna belti, hafi ekki vitað af netunum, heldur en þeir hafi af ásetningi togað yfir netin, vitandi vits eyðilagt milljónaverðmæti.