06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

48. mál, efnahagsmál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar hafa nú flutt hér alllangar ræður. Þeir eru búnir að tala eina 9 eða 10 klukkutíma. Það virðist vera mikil samkeppni þeirra í milli, kannske ekki beint um það, hver leggur fram þyngstu rökin, heldur fremur um það, hver getur talað flesta stundarfjórðungana eða klukkutímana.

Ég mun ekki gera neina tilraun til að svara hverjum fyrir sig, enda mundi það taka mjög langan tíma, og ég mun ekki heldur gera tilraun til þess að rekja hér öll hin einstöku atriði, sem þeir hafa vikið að. Það yrði líka allt of langt mál, og það mundi auk þess engu valda öðru en því, að hv. stjórnarandstæðingar mundu endurtaka sömu firrurnar og þeir hafa hér látið sér sæma að viðhafa.

Ég mun þess vegna láta nægja að víkja að örfáum atriðum, án þess beint að benda á höfund ummælanna. Það er bræðrafélagið Framsókn og kommar, samvinnufélag með takmarkaðri ábyrgð, sem ég ætla að svara. Þeir hafa stofnsjóðinn í lagi, það er þolið og hávaðinn, eins og heyra mátti á ræðu hv. síðasta þingmanns. Ég verð að játa það, að ég dáði hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sem er um 10 árum eldri en ég, — ég man nú ekki, annaðhvort eldri eða yngri, en það skiptir ekki öllu máli, — og talaði hér á þriðju klukkustund í gær. Og ég hélt, að hann væri Her Majesty's gunboat, sem væri alltaf að skjóta. Alltaf var hávaðinn jafn og krafturinn jafn. En þegar allir fara að tala eins, þeir, sem eru skapaðir með þessum ósköpum, og hinir, sem eru að reyna að verða eins, — þá leiðist mér. Ég segi eins og er. Ef það er ekki óvirðulegt að nefna jórturdýr, — ég tek það fram, að mér dettur ekki í hug að líkja hv. alþm. við jórturdýr, enda er sannleikurinn sá, að þau dýr jórtra það, sem þau éta sjálf, en alþingismennirnir jórtra það, sem aðrir hafa étið og étið upp. Ég líki þeim alls ekki saman.

Ég skal svo víkja að nokkrum, örfáum atriðum.

Það hefur mjög komið fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, að nýir skattar, sem væru lagðir á þjóðina, næmu 370 eða 400 millj. kr. ríkissjóði til framdráttar, og þetta hét á máli hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, að það væru ótíndar blekkingar, eins og hann orðaði það, það sem við hefðum um þetta sagt. Þegar sömu tolla- og skattstigum er haldið í hundraðstölu, þá hefur það ekki verið kallað tolla og skattahækkun hingað til, a.m.k. ekki af hv. 1. þm. Austf., þótt tekjustofninn vaxi, hvort heldur er að verði eða magni, svo að heildartekjur ríkissjóðs verði meiri. Verðtollur og önnur aðflutningsgjöld hækka ekki að hundraðstölu, en gefa samt 92,1 millj. kr. meira en áður vegna hærra heildarverðs á innflutningsvörunum. Og ein tegund þessara aðflutningsgjalda lækkar verulega. Það eru innflutningsgjöldin, þau lækka frá 62% niður í 40% og frá 40% niður í 30%, og 22% innflutningsgjaldið lækkar ofan í 15%, auk þess sem innflutningsgjaldið er alveg fellt niður á sumum vörum, eins og nýjum og þurrkuðum ávöxtum. Já, ég sagði: Innflutningsgjaldið er alveg fellt niður á sumum vörum, eins og nýjum og þurrkuðum ávöxtum, og af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá.

En skattarnir innanlands, hækka þeir þá svo geigvænlega sem stjórnarandstæðingar halda fram? Álmennur söluskattur er áætlaður um 280 millj. Ég veit nú ekki, hvort sú áætlun stenzt, ég dreg það mjög í efa, en hann er áætlaður þetta. En á móti koma þrír skattar, sem ýmist lækka verulega eða eru afnumdir með öllu. Lækkun tekjuskattsins er áætluð 107 millj. kr., afnám hins afar óvínsæla og óréttláta söluskatts á iðnaði og þjónustu nemur 114 millj. kr., og framlag til sveitarfélaga til að lækka útsvörin nemur 56 millj. kr. Samtals eru þetta 277 millj. kr. eða svo til sama upphæðin og almenna söluskattinum nemur.

Ég þarf ekki meira að greina en þetta til þess að sýna, að allt tal stjórnarandstæðinga um 400 millj. kr. nýja skatta er algerlega staðlausir stafir. Og mér er satt að segja algert undrunarefni, hvernig jafnskýrir menn og þessi ummæli hafa viðhaft hafa flaskað svo í þessum efnum.

Þá er það mér líka alveg óskiljanlegt, allt tal stjórnarandstæðinga um, að stjórn, sem vill ekki taka lán, af því að hún telur, að greiðslubyrðin sé orðin hættuleg, skuli ætla að leyfa sér að taka 700 eða 800 millj. kr. lán.

Nú er það að sönnu svo, að þessi stjórn, ef hún á sér einhvern valdaferil fram undan, sem hvorki ég né aðrir vita um, þá mundi hún að sjálfsögðu vilja taka lán til langs tíma og með góðum skilmálum til nytsamlegra hluta á sviði fjárfestingar. Það, sem við höfum áhyggjur af, er, hvað miklar lántökur hafa verið teknar til skamms tíma með óhagstæðum kjörum og til óskynsamlegra hluta, eins og ég skal koma að síðar.

Ég veit, að þeir menn, sem hér hafa verið að tala, gera sér fulla grein fyrir því, að hér er aðelns um yfirdráttarheimild að ræða, eins konar gjaldeyrisvarasjóð, eins og við margoft höfum sagt. Við vitum ekkert í dag, hvort eða að hve miklu leyti víð þurfum á þessum sjóðum að halda. En það er ákaflega óskynsamlegt að ráðast í þessar miklu ráðstafanir án þess að hafa eitthvað til að mæta því, sem á veginum kann að verða. Við skulum hugsa okkur t.d., að einhver sölutregða haldi áfram á útflutningsvörum okkar. Við erum í dag þannig, að það er hending, eins og ég sagði áður og margir aðrir hafa sagt, að við lendum ekki í algerum greiðsluþrotum. Það er alveg hending, að við vorum ekki auglýstir sem vanskilamenn land úr landi, beinlínis af því að við gátum ekki staðið við þær skuldbindingar, sem æra okkar lá við að borga, ef við áttum eyri til þess. Við vitum ekkert nema slíkt kunni að koma aftur fyrir, og reyndar getur það komið fyrir í enn ríkara mæli en að þessu sinni. Þær birgðir, sem við eigum núna, eru ekkert óeðlilegar eða óvenjulegar. Í árslok 1954 eru birgðirnar taldar litlar. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson lýsti því hér yfir í gær, að þær hafi alls engar verið í landinu. Andvirði þeirra nam þó 170 millj. kr. og þá var krónan talsvert önnur en hún er í dag. Í árslok 1958 nam andvirði birgðanna 229 millj., og ég segi: það er alveg hending, hvort það er 100 millj. meira eða minna, sem þarna liggur. En það er auðvitað ekkert vit í því að geta ekki tekið því áfalli, ef menn vilja kalla það svo, ef það ber að höndum, án þess að lenda í opinberum vanskilum. Og það er í þessu skyni, sem þessar yfirdráttarheimildir eru fengnar, og einnig til þess að mæta væntanlegri vaxandi eftirspurn eftír gjaldeyri, þegar verzlunarfrelsið verður aukið, og yfirleitt að öðru leyti þeim árstíðasveiflum, sem Íslendingar verða alltaf að gera ráð fyrir í þjóðarbúskap sínum. Þetta er tilgangurinn með þessum bráðabirgðalánum. Svo belgja menn sig hér eins og þetta væru börn eða vísvitandi ósannindamenn, yfir því, að ríkisstj. sé að taka 700–800 millj. kr. eyðslulán. Mundi nokkrum manni þykja það óhyggilegt af sparisjóðsstjóra, ef hann reyndi að eiga vissan aðgang að yfirdrætti í Seðlabankanum eða öðrum bönkum, til þess að mæta því, sem alltaf getur orðið á vegi hvers sparisjóðs, að á hann sé leitað fastara í einn tíma en annan? Auðvitað væru það talin mikil hyggindi af sparisjóðsstjórans hendi að afla sér slíkrar heimildar og öryggi fyrir sparisjóðinn og hans viðskiptavini, jafnt innistæðueigendur sem skuldara. Þetta er ekki alveg hliðstætt, en það sýnir bara myndina, sem ég er að tala um. Þetta er okkur nauðsynlegt, og það væri dæmalaust fyrirhyggjuleysi, ef við leituðumst ekki við að nota þá heimild og þá kröfu, sem Íslendingar eiga á slíkum yfirdráttarheimildum, ef þeir aðeins fullnægja þeim skilyrðum, sem öll lönd, sem slíkar heimildir vilja nota, verða að ganga undir og við Íslendingar erum svo heppnir að þurfa ekkert að sveigja frá okkar skoðun, a.m.k. ekki okkar, sem stöndum að þessu frv., til þess að fella okkur við. Við teljum sjálfir, að okkur sé algerlega nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir vegna okkar sjálfra og öryggis okkar og að undirbyggja réttmætar vonir um, að þessar aðgerðir heppnist.

Um þetta skal ég ekki segja meira, og ég veit, að ég þarf ekki að segja meira, bæði af því, að þetta er nógu skýrt, til þess að menn af því megi skilja efni málsins, en líka af því, að flestir af þeim, sem hér hafa talað, vissu þetta áður, hvað sem þeir segja.

Hér talaði einn hv. ræðumanna og ekki sá ómerkasti, hv. 1. þm. Austf., með óskaplegri tilfinningu um, að ríkisábyrgðir ættu nú eitthvað að takmarkast, og hann taldi, að þær hefðu verið hið mikla vopn í baráttunni fyrir eðlilegri þróun atvinnulífsins í dreifbýlinu og farsæld þess fólks, sem þar býr.

Ég vil segja það frá mínu sjónarmiði, að ég viðurkenni, að ýmislegt, sem þarna hefur gerzt, hefur kannske verið nauðsynlegt og óumflýjanlegt. En það er auðvitað mikið áhyggjuefni, að ábyrgðir ríkissjóðs skuli vera komnar um eða yfir 1000 millj. kr., og mikið af þessu eru vanskilaskuldir. Og þeir, sem um fjárlögin fjalla, vita það, að frá ári til árs verður að ætla æ vaxandi upphæðir á fjárlögum til að standa skil á þessum ábyrgðum, sem við erum í. Hv. þm. Eysteinn Jónsson sagði líka: Það hefur oft verið gengið í þessar ábyrgðir, enda þótt maður vissi, að þær mundu ekki verða greiddar. — Er þetta heilbrigð fjármálapólitík? Ef menn hafa vitneskju um, að skuldirnar verði ekki greiddar, hví í ósköpunum á þá ekki að gera ráðstafanir á fjárl. til þess strax að setja undir þennan leka? Er það eðlilegt vald í hendi ríkisstj., að hún taki ábyrgð fyrir Pétur eða Pál, sérstaklega fyrir Pétur, af því að hann er vinur? Þeir spyrja: Er það þinn eða minn sjóhattur, sem biður um ábyrgðina? Það er minn sjóhattur, og hann fær hana. En þinn, hann fær hana ekki. Ábyrgðina fær hann, og svo á að segja á eftir, það var til framdráttar mönnum á Hornströndum eða Hornafirði eða einhvers staðar annars staðar, að þessi ábyrgð var veitt, og þá gerir það ekkert til, þó að við töpum einhverju.

Þetta gengur ekki. Við vitum allir, að þetta getur ekki gengið. Þetta er ein aðalbrotalömin í okkar fjármálalífi. Þetta er líka spilling, sem þarna er á ferðinni, eða a.m.k. opinn möguleiki til spillingar. Auðvitað væri eðli málsins samkvæmt rétt að hafa alveg ákveðnar reglur um það, undir hvaða kringumstæðum má veita ríkisábyrgðir og hverjir eiga að veita þær. Ég mundi telja mjög skynsamlegt, að það sæti stöðug nefnd frá öllum flokkum, sem dæmdi um það, hvort óskin um þessa eða hina ríkisábyrgð er eðlileg og hvort það er óhjákvæmilegt að fullnægja henni og hvað mikið gagn hún gerir. Ég mundi skoða alveg sanngjarnt, að þessi ábyrgð kostaði — við skulum segja hálfan af hundraði á ári. Af hverju á þessi að fá ríkisábyrgð fría, en ekki hinn? Einhver smágjöld á ríkisábyrgðunum, annaðhvort í eitt skipti fyrir öll eða árlega, sem svo gætu runnið í sjóð til þess að bera þá áhættu, sem óhjákvæmilega yrði á ríkisábyrgðum, eru sanngjörn og nauðsynleg. Það er mér algert undrunarefni, að maður, sem hefur verið fjármálaráðherra jafnlengi og hv. 1. þm. Austf.. skuli miklast af því, að ríkisábyrgðirnar hafi verið teknar af hendingu fyrir Pétur, en ekki fyrir Pál. Enda þótt þær hafi gert gott, og áreiðanlega hafa þær gert það víða, þá er ekki hægt að komast fram hjá að játa, að skipan þessara mála er með öllu óviðunandi. Þetta er eitt af því, sem við verðum að breyta.

Lánin, sem vinstri stjórnin samdi um, eru veitt með vissum skilyrðum. Ég hef ekki alla lánalistana. Ég skal taka t.d. lán, sem var tekið í desember 1956, notað á árunum 1957 og 1958, eða lán, sem var tekið í desember 1957, notað 1958 og 1959. Annað er að upphæð 4 millj. dollara og þetta er tekið frá ICA, og hitt er 5 millj. Ég þarf ekki að fara langt út í það, en þessi lán eru veitt með því skilyrði, að keyptar séu fyrir þau ákveðnar vörur. Við skulum taka 4 millj. dollara lánið eða þó heldur 5 milljónirnar, það er styttri listi, sem ég þarf að lesa upp, heldur en 4 millj. dollara lánið. Það er veitt með þeim skilyrðum, að keypt sé almennt talað sú vara, sem Bandaríkin hafa umfram sínar notaþarfir og geta ekki selt, þó að þar kunni að vera frávik. Þessi listi lítur svona út um 5 millj. dollara lánið: Tilbúinn áburður fyrir 500 þús. dollara, efnivörur fyrir 350 þús., timbur 300 þús., bifreiðar, vélar og varahlutir 500 þús., dráttarvélar 300 þús., járn- og stálvörur 800 þús., smurningsolíur 300 þús., gúmmívörur 200 þús., vefnaðarvörur 650 þús., vélar og túrbínur 500 þús., varahlutir í landbúnaðarvélar 200 þús., landbúnaðarvélar og tæki 200 þús. og iðnaðarvélar 200 þúsund. Alls 5 millj. dollarar.

Svona er hvert einasta lán, sem tekið er. En kannske eru svo skipin, sem hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, hefur verið að smíða, smíðuð úr gúmmí? Ég læt nægja, þegar ég byggi skip, að hafa gúmmíbát með þeim. Ekki falla þau heldur undir vefnaðarvörur o.s.frv. En það er hins vegar rétt, að margt af þessu hefði verið keypt annars staðar og orðið að brúka til þess gjaldeyrí, sem við kannske með þessum hætti höfum getað sparað og notað þá til nýsköpunar í einu eða öðru formi. Við skulum hafa það alveg ljóst, svo að ég geri engum rangt til. Þessar nauðsynjavörur okkar kaupum við annars staðar líka. Og þegar þessar nauðsynjavörur og rekstrarvörur okkar eru keyptar og greiddar, þá spyrjum við: Hvað höfum við afgangs af gjaldeyri? Það, sem við höfum afgangs, vilja allir góðir menn helzt mega nota til fjárfestingar að verulegu leyti. Þjóð eins og við á að hafa opin augun fyrir þeirri nauðsyn, og í þeim efnum fellst ég á allt, sem þeir hafa um það sagt, sem hér hafa fegurst um það talað. Það játa ég. En við skulum játa, að þarna byrjar togstreitan. Hvað á ég, þegar ég er búinn að borga rekstrarvörurnar og matinn, þá að nota í fjárfestingu og hvað á ég að nota í lúxus? Það er um það, sem deilan hefur staðið.

Ég veit vel, hvert hugur manna stefndi. Ég veit vel t.d., að hv. 4. þm. Austf, hefur haft tilhneigingu til þess að fjárfesta sem mest. Ég veit það. Hann hefur hins vegar líka orðið að berjast fyrir því innan vínstri stjórnarinnar að taka sem mestan hluta af þeim peningum, sem afgangs voru, frá fjárfestingunni og yfir í það, sem kallað er lúxus. Hvers vegna? Vegna þess að honum var ljóst, að einasta ráðið til að halda uppi því kerfi, sem hann vill halda dauðahaldi í, var að flytja inn þessar hátollavörur. Í því og því einu liggur skýringin á því, að hann brýtur á móti sínu ríka eðli til þess að auka fjárfestinguna með öllum mætti og lætur féð í stað þess renna yfir í lúxusvörukaupin. Þannig réð hann því áreiðanlega, að 1958 var ákveðið innan stjórnarinnar að verja 226 millj. kr. af okkar litla gjaldeyrisforða til þess að kaupa þessar dýru vörur, sem margir aðrir vildu hafa miklu minna af. Reyndin tók svo í taumana, og það urðu ekki nema 190 millj. kr., vegna þess, eins og ég sagði í gær, að ef maður hefur ekki peninga bæði til þess að punta sig og éta, þá étur sá svangi; þó að hann þurfi að gera það á nærbuxunum, — það er sannleikurinn. Og þjóð, sem hefur ekki nóg til sinna brýnustu þarfa, gerir engan leik að því að kaupa hátollavörur, a.m.k. ekki í þann hlutann, sem í eiginlegum skilningi er lúxus.

Ef við athugum nú, að greiðsluhallinn undanfarin fimm ár er að meðaltali 200–220 millj. kr. á ári, og lítum svo hins vegar á, að til innkaupa á þessari svokölluðu lúxusvöru var á árinu 1958 ætlað 226 millj. og 1959 212 millj., sést, að lúxuskaupin jafngilda einmitt greiðsluhallanum. Ég viðurkenni, að það voru ekki notaðar nema 190 millj, hvort árið. En þegar maður lítur á þessar tölur annars vegar, að það eru hátollavörur keyptar fyrir 190 millj., hins vegar greiðsluhallinn 200 millj., er þá nokkuð óeðlilegt, að maður setji þá greiðsluhallann í beint samband við þessi kaup á hátollavörunni? M.ö.o.: kerfið, sem við bjuggum við, herrar mínir, það kallaði á innkaup, sem neyddu vinstri stjórnina til að fella niður aukningu framleiðslutækja, en kaupa í staðinn vörur, sem þið sjálfir kallið lúxus, að sumu leyti a.m.k. Þetta er bölvun kerfisins, og það er þetta, sem gerir, að við getum ekki unað kerfinu.

Þá vík ég aðeins að því, sem einn hv. þm. var að tala um sem hroðalega árás á samvinnustefnuna á Íslandi, að nú skyldi eiga að leggja einhverjar svipaðar kvaðir á innlánasjóði kaupfélaganna, láta gilda um þá sömu reglu og sparisjóði í landinu. Menn þurfa að vera ótrúlega blindir til að hneykslast á þessu. Þeir, sem eru í samvinnufélögum, vilja ekki aðeins njóta þeirra skattfríðinda, sem fátækir bændur urðu að fá, þegar þeir í öndverðu voru að berjast við kaupmannavaldið í landinu og reyna að byggja upp samtök sín, komast undan hæli kúgarans og reyna að fá frið til þess að mega kaupa sinar notaþurftir og þurfa ekki að vera skattlagðir fyrir þann rekstur. Þetta var eðlilegt þá, en það er auðvitað orðið algerlega óeðlilegt núna. Þetta er orðið stærsti rekstur landsins á öllum sviðum. En þetta er mönnum ekki nóg. Menn segja: Ef við megum ekki hafa okkar sparifé í friði, hvað sem öðru líður, þá er verið að ráðast á okkur. — Hvað er hér á ferðinni? Hér er það á ferðinni, að þessir þegnar þjóðfélagsins segja: Við tökum okkar sparifé, það liggur hér. Að því á enginn aðgang nema samvinnumaðurinn. Svo kem ég til sparifjár hinna, sem eru ekki samvinnumenn, og af því heimta ég mörg hundruð millj. fyrir mig. — Það hljóta allir að sjá, að annaðhvort verða samvinnufélögin að nota sama lögmál og aðrir eða ef þau ætla að hafa þessa sjóði alveg fyrir sig; þá verður lokað fyrir sjóði annarra. Það væri eðli málsins. Ég held, að þetta sé ekki hægt. Ég held, að samvinnuhreyfingin þyldi það ekki. Ég held, að það yrði svo gífurlegt áfall, af því að hún hafi svo mörg hundruð millj. að láni af sparifé annarra þegna í landinu, að það mundi ríða henni að fullu; svo að ég tel þetta ekki úrræði í dag. En menn verða að skilja það, að eitt verður yfir alla að ganga.

Ég hef alltaf verið að búast við því, að eins og Einar á Eyrarlandi bar fram hér í mína ungu daga á þingi tillögur, sem jöfnuðu að nokkru milli samvinnufélaga og einkarekstrar, mundu nú einhverjir viti bornir samvinnumenn sjálfir bera fram till., sem bætti úr því ófremdarástandi, sem nú ríkir, að þeir segðu: Við erum ekkert upp á ykkur komnir, við þurfum engin sérréttindi, enga vernd, látum eitt yfir alla ganga. — Nei, það er ekki þessi tónn, heldur hinn, að ef nokkur maður leyfir sér að segja: Eigum við ekki allir að vera jafnréttháir, þá er það árás á stærstu hreyfingu þjóðarinnar. Þetta er hugsunarháttur, sem ég held að sé ákaflega hættulegur fyrir samvinnuhreyfinguna og beri þess vegna að venja sig af honum.

Hér var talað um, að það ætti að þrengja mjög hag bátaútvegsins. Það er mikill misskilningur. Ég held einmitt, að bátaútvegurinn sé kannske sá þáttur framleiðslunnar, sem einna hæstan hlut ber frá borði. Það, sem gerir mig vongóðan um, að þeir reikningar standi vel, er, að reiknað er með fyrningu bátsins miðað við núverandi kaupverð. Það er ekki þörf á þessu í dag, vegna þess að heildin af flotanum er keypt við miklu lægra verði. Þetta er þörf framtíðarinnar. Auðvitað verður framtíðin að miðast við það, að þegar hinn nýi bátur með hinu nýja verði er orðinn ónýtur, þá sé einhver sjóður til til að kaupa annan nýjan bát með því verði, sem þá er. Ég er þess vegna að vona, að bátaútvegurinn geti borið þennan 5% söluskatt, sem ætlað er að gilda í eitt ár, — ekki að eilífu, eins og menn voru að tala um, heldur í eitt ár, eins og kemur fram í grg. Það er ætlað með honum að greiða upp þann 270 millj. kr. halla, sem útflutningssjóðurinn nú ber. Ætlað er, að birgðirnar í landinu skili af því 150 millj. og útflutningsskatturinn, sem á að nema 5%, og miðað við 2400 millj. kr. útflutning, eins og við vonum að verði samkv. nýja genginu, skilar hann 120 millj. Þessir tveir gjaldstofnar ættu þá að borga á einu ári hala útflutningssjóðsins, sem er ekki hægt að borga með neinu öðru móti.

Ég hjó í það, að einn hv. ræðumaður sagði, að uppbætur ættu ekki að hætta, alls ekki, þær mundu meira að segja vaxa. Ég fer ekki langt út í það. Ég man ekki betur en útflutningssjóðurinn væri 1400 millj. kr. Af þeim gjöldum, sem hann stóð undir, tekur gengið og ríkissjóður við öllu nema 265 millj. til niðurgreiðslu á bændavörum og 37 millj. til niðurgreiðslu á kaffi, sykri og kornvöru. Og þetta er ekki gert að gamni sínu, að greiða niður bændavörurnar. Annars vegar er vísitalan, sem annars mundi rjúka upp úr öllu valdi. Hins vegar efast ég um, að bændur væru nokkuð þakklátir þeim mönnum, sem væru hér að ráðast á þá, sem vilja halda áfram að greiða þessar vörur núna niður. Mér er sem ég sæi framan í bændur, ef þeim væri sagt í dag: Nú megið þið verðleggja mjólkina ykkar alveg eins og þið viljið, en við greiðum ekki einn eyri úr ríkissjóði. — Hvað ætli þeir segðu? Þá hefðu þeir ástæðu til þess að ráðast á okkur. Það verður auðvitað smátt og smátt að reyna að koma á þeirri skipan, að þessar niðurgreiðslur minnki og hætti, en væri það gert núna, þá mundi það bæði drepa bændur og börn, — ég meina ekki þau börn, sem hér eru að halda fram þessari vitleysu, þau mættu missa sig. Það yrði þá að neita börnunum um mjólkina og bændunum um peningana, sem þeir eiga að fá fyrir mjólkina. Það yrði þess vegna ógurlegt reiðarslag annars vegar á almenning í landinu og hins vegar á bændurna, ef þessar niðurgreiðslur hættu í dag.

Þá hefur verið mikið ráðizt á okkur hér eða spurt um það: Hvaða vinnubrögð eru þetta hjá ykkur, að þið skuluð færast í fang svona mikið án þess að gera nokkrar tilraunir til þess að hafa samband við nokkra í stjórnarandstöðunni? Það er nú aðallega Framsfl. eða hv. 1. þm. Austf., sem hefur verið að tala um þetta. Það getur vel verið, að það væri betra að reyna að skapa frið um þetta með samstarfi allra. En mér er sem ég sjái fyrir mér eftir þær árásir, sem hér er búið að gera á þetta kerfi, hvernig samkomulag hefði orðið eða hversu auðveld leiðin var að samkomulagi við þessa menn. Mér er sem ég sjái það. En auk þess minni ég Framsfl. á það, að hann lýsti því yfir, þegar hann stofnaði sína stjórn 1956, að það yrði að útiloka sjálfstæðismenn, því að þeir væru ekki samstarfshæfir. Og ég man ekki betur en það sé ekki lengra síðan en sumarið 1958, að Hermann Jónasson norður á Hólmavík taldi sér þó það til ágætis þrátt fyrir mörg brostin loforð, að hann væri búinn að koma Sjálfstfl. út í yztu myrkur áhrifaleysis í íslenzkum stjórnmálum. En núna er það aðalbjörg fyrir þjóðfélagið að fá að koma upp í til okkar. Mitt hjarta er heitt, og minn faðmur er breiður, en það er í bili ekkert pláss fyrir framsóknarmenn þar, alls ekki.

Hitt er nú meira hlátursefni en það sé hægt að taka það alvarlega, þegar framsóknarmenn eru að ráðast á okkur fyrir, að við höfum ekki haft neitt samráð við þingið, jafnvel ekki við okkar eigin menn, um þessi mál. Svo fróður maður sem hv. 3. þm. Vesturl. er ætti að vita betur.

Það undrar mig, ef þessir menn eru búnir að gleyma öllu. Eða eru þeir bara að — ja, ég vil ekki viðhafa það óþinglega orðbragð, en ég var nærri búinn að segja, eru þeir bara að gamni sínu að hneppa ofan um sig, svo að við getum flengt þá? Þessir menn hljóta þó að muna, þegar þingið kom saman 1957 og vinstri stjórnin lýsti yfir: Við verðum að hafa samráð við okkar menn. — Þeir töluðu svo ekki við þá frekar en þetta væru einhverjir útilegurefir. Við þessa menn var ekki talað eitt einasta orð, þegar þeir komu. Ég veit vel, hvernið ástandið var. Þá voru þingfundir að meðaltali 7 mínútur á dag, og það var komið að jólum, og ég man eftir, að skemmtiskáld framsóknarmanna, 1. þm. Norðurl. e., var búinn að segja mér, að hann ætlaði að skreppa heim og kveikja á jólatrénu. Allt í einu komu boð ofan úr stjórnarráði, þau fyrstu: Heyrið þið, klárið þið snöggvast fjárlögin, drengir mínir, svo megið þið sleppa. — Þeir gerðu þetta, eins og þeir voru beðnir, í skyndi. Það er eðlilegt, að vitibornir og skarpskyggnir menn, eins og þessir framsóknarmenn voru, væru sárgramir yfir meðferðinni. Þeir kláruðu fjárlögin, og það er náttúrlega undarlegasta fjárlagaafgreiðsla, sem ég man eftir, — við skulum ekki fara út í það, þá er ég farinn að tala eins og þeir, sem hér eru að tala, framsóknarmennirnir, að rifja upp alla mannkynssöguna. Undarleg voru þau. En það, sem þeir muna, og það, sem allir muna, er það, að svo komu þeir heim. Þeir komu aftur hingað á þingið eftir sitt frí, og þeir sátu og þeir römbuðu og reru og vissu ekkert, hvað var að ske. En í stjórnarráðinu var verið að nuddast og níðast, og þeir vissu sem sagt jafnmikið um það, sem þar var verið að tala, eins og þeirra kjósendur heima í héraði. Þeir vissu ekkert um það,— ekkert. Og ég veit núna, af hverju þeir fengu ekki að vita það. Það var af því, að í stjórnarráðinu var hver höndin upp á móti annarri. Hæstv. menntmrh. gaf okkur svo dæmalaust skýra og greinilega skýrslu um þetta. Það var verið að rífast, og þeir rifust svo mikið, að þeir sögðu: Ja, nú verðum við að hætta, við skulum bara láta skrifa það upp og segja bara: Bókstafurinn blífur. — Og þegar það var komið, þá fengu loks þm. að vita um þetta. Við fylgdumst vel með. Þetta eru indælismenn, margir framsóknarmenn, og hafa fyrir utan það að vera prýðismenn fleiri kosti, þeir eru líka kjöftugir, þ.e.a.s. þeir segja manni svolítið. Við vissum alveg, hvað var að ske, og þeir vissu sem sagt minna en við eða nærri minna en við, hvað var að ske.

Og svo koma þessir menn núna og eru að gera gabb að okkur fyrir það að hafa ekki skroppið öðru hverju upp í Borgarnes og sagt við hinn ágæta 3. þm. Vesturl.: Nú er ég búinn að hugsa þetta, og hvað segir þú um það? — Og svo á næsta bæ og tala við þá. Enginn þessara manna getur meint neitt af því, sem þeir segja, og þetta er ekki til annars í raun og veru en gera þá sjálfa hlægilega.

Og það er ráðizt á okkur fyrir, að við höfum ekki viljað gefa upplýsingar. Ég segi nú bara það, að í fyrsta lagi höfum við gefið upplýsingarnar, að svo miklu leyti sem við sjálfir vorum komnir til botns í málinu, en að öðru leyti spyrjum við: Hvað gerði vinstri stjórnin við okkur? Ég held, að við höfum fengið tveggja eða þriggja daga fyrirvara, áður en frv. 1958 um 790 millj. álögurnar var lagt hér fram, — tveggja eða þriggja daga fyrirvara. Og við fengum ekki að tala við stjórnina. Þeir leyfðu okkur að tala við sina sérfræðinga, Jónas H. Haralz og Klemenz Tryggvason, og ég man ekki, að við fengjum að tala við þá lengur en í tvo tíma. Og svo var okkur ætlað að ræða málið hér í deildinni. Ég segi bara: öðrum ferst, en þeim ekki.

Ég vil þá aðeins leiðrétta þann mjög þýðingarmikla misskilning, sem kom fram hjá einum hv. þm., að takmörkun á upphæð lánaaukningarinnar, sem greinir frá í frv., sé bundin, alveg án hliðsjónar af því, hvort aflinn er mikill eða lítill. Það er misskilningur. Ég segi mönnum það til hugarléttis, ef þeir hafa haldið þetta, að það er mikill misskilningur, vegna þess að auðvitað og að eðlilegum hætti hækkar þessi upphæð, ef aflamagnið vex.

Þá vil ég einnig næst drepa á það, að það er líka ákaflega mikill misskilningur, ef menn halda, að frystihúsin græði eitthvað alveg sérstaklega á þessum ráðstöfunum, bátaútvegurinn aftur á móti of lítið, eins og hv. 4. þm. Austf, sagði. Hann er nú orðinn, þessi maður, svo vanur að ráða þarna fyrir alla, segja: Frystihúsin skulu fá þetta, báturinn fær þetta og sjómaðurinn þetta. — Og ég er ekkert að lasta það frá hans sjónarmiði. Hann gerir þetta með mesta dugnaði, og sannast sagna, ef maður má tala mjög vont mál, sló mig alveg út hjá útgerðarmönnunum. Hann var svo góður við þá, og það er honum að sumu leyti til lofs, því að ég er alveg viss um, að útgerðin þurfti meiri styrk en ég hefði viljað ganga inn á að veita henni. En það er ekki af því, að ég vildi ekki gjarnan búa vel að útgerðinni, heldur af því, að ég átti ekki að borga þetta sjálfur, það varð að takast úr vösum almennings í landinu.

En þetta um tapið og gróðann er auðvitað mikill misskilningur. Frystihúsin kaupa vörur og selja upp á sína áhættu, alveg eins og maðurinn gerir út bátinn upp á sína áhættu. Það er hætt að skammta smátt og stórt. Gengisbreytingin veldur hins vegar því, að útgerðarmaðurinn getur borgað hærra verð í krónum en ella. Þessi hv. þm., Lúðvík Jósefsson, veit betur en allir aðrir hér inni, hugsa ég, að samkvæmt eðli málsins eru miklu meiri líkur til, að það verði einmitt báturinn, sem á þessu græðir í hlutfalli við skömmtun hans sjálfs. Ég hygg, að hann hafi viljað skammta það eðlilega, þannig að báturinn fengi það, sem hann þyrfti, og húsið a.m.k. að verulegu leyti það, sem hann taldi það þurfa.

Ég býst við því, að nú verði reyndin þessi, að skortur á hráefni valdi því, að frystihúsin fari á fremsta hlunn um verðið til bátanna. Mikil eftirspurn, lítið framboð hækkar alltaf verðlag, og enginn veit betur hér inni heldur en þessi hv. þm., að víðast er það þannig, að hráefnið er allt of lítið. Þess vegna er það, að frystihús, sem hafa nægt hráefni, standa sig vel, hin illa. En í þessari staðreynd liggur, að það er báturinn og þar af leiðandi sjómaðurinn á bátnum, sem á að hafa bætta aðstöðu gagnvart frystihúsinu við það, sem var.

Hér er mikið talað um, að verðhækkanir 1950 hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. Það er rétt, og ég vil aðeins, án þess að fara að tala um það, bara minna á, að Kóreustyrjöldin, sem skall þá á rétt á eftir, hafði þau áhrif, að útlend vara, okkar notaþarfir hækkuðu mjög í verði og því miður miklu meira er okkar framleiðsla. Auk þess var hér hallæri til lands og sjávar. Það var illæri til landsins og aflabrestur til sjávar, og auk þess, þegar þar við bættist, að verzlunarástandið var mjög óhagstætt, þá auðvitað fór allt úr böndum og miklu verr en til var stofnað.

Hér var því haldið fram, að ríkissjóður græddi því meira á kerfinu, þó að útflutningssjóðurinn tapaði, og það ætti að taka það sem heild. En ég segi: Ef þetta er svona, hvernig stendur þá á greiðsluhallanum?

Hér hefur mikið verið um það spurt, hvort við höfum ráðfært okkur við Pétur og Pál. Hefur þetta eða hitt verið borið undir þennan eða hinn, segja menn, og hefur þessi eða hinn samþykkt þetta? Ég segi fyrir mig, að ég hef haft mikla tilhneigingu til að tala við þá, sem ég hef haft aðstöðu til að ná til. En það er ekki svo vel hægt að tala við fólkið, fyrr en maður er búinn að komast að endanlegri niðurstöðu um það, hvað maður ætlar að leggja til sjálfur. Við höfum haft þá ánægju að horfa framan í bæði framleiðendur og ýmsa umboðsmenn launastéttarinnar. Þeir bera enga ábyrgð á því; sem við höfum gert hér, við berum sjálfir ábyrgðina, og þeir hafa sjálfsagt tekið því misjafnlega, enda hygg ég, að það væri örðugt að finna nokkra þá leið í svona vandasömu máli, sem allir þessir aðilar vildu sætta sig við með glöðu geði.

Hér hefur því líka verið haldið fram og það einmitt af hv. 4. þm. Austf., að nú — einmitt nú — elgi að taka upp á því að borga þeim, sem lítils þarf með, jafnmikið og :hinum, sem þurfa mikils. Sennilega hefur hann meint annað með þessu en orðin gáfu tilefni til. En ég held, að kerfi hans hafi að verulegu leyti byggzt á því, að sá, sem einskis þurfti, fékk jafnt og sá, sem mikils þurfti. Aldrei hefur þessum hv. þm. dottið í hug t.d., að eigendur Fylkis og Asks og Júpíters og Marz þyrftu sömu bætur og þeir, sem áttu Vött og Austfirðing, en þeir fengu þær, — ja, ekki þær sömu, heldur miklu meiri bætur, af því að þeir höfðu miklu meira aflað. Bæturnar voru miðaðar við einingu, sá, sem bezt stóð að vígi, fékk mest. Það er hans kerfi.

Ég skal ekki ræða hér sérstaklega ræðu hv. 7. þm. Reykv., af því að mér fannst öll hans ræða byggjast á grundvallarmisskilningi á öllum tilgangi og eðli þessa lagafrv., sem hér er borið fram. Ég vil aðeins segja, að það, sem fyrir okkur vakir með þessu frv., er að reyna að koma atvinnulífi þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll. Takist það, þá er þar með fullnægt þessum 6 töluliðum, sem hann taldi upp úr stefnuskrá Sjálfstfl. En ekki bara Sjálfstfl. Þetta er það, sem allir velviljaðir menn í landinu hljóta að vilja leitast við að koma í framkvæmd. Þetta er það sama, sem Alþfl. hefur haldið fram, a.m.k. á seinni árum, og ég held, að ég gæti meira að segja fundið óræk vitni þess, að ýmsir framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn vilja þetta sama, þótt eftir mismunandi leiðum sé. En ég varð dálítið undrandi yfir því, að mér fannst þessi ræða bera vott um algeran grundvallarmisskilning þessa manns, sem þó er bæði alþm. og ritstjóri, á þessu mikla máli. Það, sem honum sveið sárast, var þó, að af gengisbreytingunni leiddi, að hinir fátækari yrðu fátækari og hinir ríku ríkari, þetta væri eðli gengisbreytingarinnar. Út af þessu var hans harða ádeila. En ég vil segja honum það, af því að hann er minnugur, ef ég veit rétt, sérstaklega á allt, sem ég geri illt og mínir flokksbræður, að varðandi gengisfall var fyrsti glæpurinn minn drýgður með Framsfl. 1939. Annar glæpur minn í þessum efnum var með Framsfl. 1950, gengisfall þá líka. Ég tók ekki þátt í þriðja glæpnum, af því að ég var ekki í stjórn 1958, þ.e.a.s., Framsókn hefur einn umfram mig í skömminni. Þeir hafa gert þrjá fátækari og þrjá ríkari, meðan ég gerði aðeins tvo.

Ég skal svo ekki segja neitt um hina ágætu og snjöllu ræðu hv. 3. þm. Reykv. Þeir mæltu hér mjög vel fyrir sínu máli, bæði hv. 4. þm. Austf. og hv. 3. þm. Reykv:, hvor frá sínu sjónarmiði og hvor með sínum hætti. Ég skal ekkert vera að hæla þeim fyrir þessi ræðuhöld, þau voru röskleg, og mátti sannast sagna vel sjá mun á þeim og sumum öðrum ræðum, sem hér voru fluttar. Ég skil vel hitann í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann var nefnilega af sannfæringarkrafti og með mikilli mælsku að færa vörn fyrir kommúnistískt þjóðskipulag. Það er alveg ámælislaust af mér. Ég met manninn, og mér fannst gaman að heyra ræðuna, að sínu leyti eins og ég hafði gaman af að heyra rök hv. 4. þm. Austf., þó að þau væru á allt öðru sviði. Hann vissi nefnilega margt betur en hann sagði. Hinn meinti allt, sem hann sagði, það veit ég. En það raskaði ekki því, að flest það, sem hann sagði, var ekki í samræmi við sannleikann, þ.e.a.s. við raunveruleikann. Mér fannst vörn hans fyrir kommúnismann og kommúnistískt þjóðskipulag mjög sterk. En málstaður, sem er veikur, verður aldrei sterkur, þó að hann sé vel varinn. Veikleikinn stendur eftir. Við höldum okkar dómgreind. Við höfum heyrt ýmis þessi rök áður, lesið og heyrt og heyrt og lesið. Maður hefur alltaf gaman af að heyra málstað vel varinn. En ég endurtek: Veikur málstaður verður ekki sterkur þrátt fyrir góða vörn, og fyrir mig og hann þýðir ekkert að vera að tala saman. Ef hann ætlar á Suðurpólinn, þá er ég á Norðurpólnum, og fari hann norður og niður, þá fer ég suður og austur. Okkur þýðir ekki að eyða tíma í að reyna að sannfæra hvor annan. Ég sá vel þungamiðjuna í hans ræðu. Hann segir: Í þessu nýja viðskiptakerfi, sem er verið að taka upp, felst möguleiki, sagði hann, til að brjóta niður viðskipti, sem Íslendingar hafa skapað sér. — Hvað sá hann þarna fyrir framan sig? Hvað var það hræðilega? Hann hélt, að maður væri kominn með tukthúslykilinn og ætlaði að loka járntjaldshurðinni og alls ekki að senda þeim einn einasta þorsk. En þetta er misskilningur. Ég skal lýsa því yfir, að ég tel mjög óhyggilegt fyrir Íslendinga, ef þeir halda, að það sé einhver sáluhjálp fyrir þá að hætta að selja járntjaldsþjóðunum afurðir sínar. Rúblan hefur gildi, og þó að við fáum hana ekki út í hönd, þá fáum við olíuna og margar aðrar nauðsynjar. Ég játa, að ég vil miklu heldur, að hönd selji hendi, fá borgun, og það getur líka vel verið,, að hin mikla hugsjón Alþb. frá 1957 um að fá borgað — voru það ekki 30 millj. — í frjálsum gjaldeyri, að hún rætist. Þá get ég fengið allt frjálst, sem ég læt Krústjoff hafa, og gull fyrir þorsk. Mín skoðun er sú, að Íslendingar séu þá bezt stæðir, þegar atvinnulíf þeirra stendur föstum fótum og viðskiptamöguleikarnir eru sem dreifðastir, og rúblan er ekkert verri, á lyktina en pundið, a.m.k. meðan: þetta er landhelgispund. Þjóðarþörf okkar er að hafa sem víðast viðskipti, og ég segi þess vegna frá mínu sjónarmiði: Þessi ótti hv. þm. er með öllu ástæðulaus. En hann sýndi, hvað hann var að verja.

Ég vil svo þakka honum fyrir það, sem hann sagði óviljandi seinast í ræðu sinni og ég hygg að hann meini, þó að hann látist meina annað. Þá skauzt upp úr honum þessi setning: Þjóðin dæmir kerfið af afleiðingunum. — Ég tek því. Ég bið ykkur, líka manninn við hliðina á honum, formann Dagsbrúnar, og aðra mikla og volduga menn í verkalýðshreyfingunni, að lifa eftir þessu. Látið þið þjóðina dæma. Viðurkennið þið sannleikann, að það er ekki bjart fram undan, ef við brjótum þetta niður. Ef það brotnar niður af sjálfu sér, þá verðum við að segja: Guð hjálpi mér, amen, hér stend ég, get ekki meira, — og viðurkenna það. En gefið okkur möguleika, látið reyndina skera úr um þetta, og við megum hlíta dómi reynslunnar.

Ég er ekkert hissa, þó að menn tali mikið um þetta mál. En ég er mjög hissa á, hvernig menn tala um það. Hér tala hv. stjórnarandstæðingar rétt eins og þetta sé í fyrsta skipti á ævi þeirra, sem íslenzk króna hefur verið felld, eða svo að ég orði það rétt, sem fall íslenzku krónunnar hefur verið játað á Íslandi. Menn tala hér um þetta eins og einhvern hroðalegan nýjan viðburð í þjóðlífinu, að fall krónunnar er játað á Alþingi Og þetta segja mennirnir, sem sjálfir eiga þessa fortíð í málunum.

Hvað er það, sem við ætlum nú að gera? Við ætlum ekki að gera annað en það að breyta annars vegar 55% gjaldinu, sem er orðið 68.5%, á innflutningnum og 86.7% gjaldinu á útflutningnum, við ætlum að breyta þessu með nýrri skráningu. Ef þetta er reiknað um, þá yrði dollarinn 31.63 kr., ef ég man rétt. En vegna þess, að afleiðingin af þessu er, að útvegurinn getur ekki lengur keypt sínar þarfir fyrir 25 kr. og ekki heldur fyrir 31.63, verður hann að fá það bætt með nýjum uppbótum. Það er þetta, sem neyðir okkur til að viðurkenna þá staðreynd, að fall vinstri stjórnarinnar á krónunni annars vegar og hins vegar arfurinn; sem hún eða við allir höfum búíð nútíðinni, þýðir það, að það er ekki hægt að ákveða gengisfallið minna en þetta, ef á að vera von til að reka atvinnuvegina hallalaust á Íslandi að óbreyttum kringumstæðum. Við erum þess vegna ekkert að gera annað en að viðurkenna það, sem er, og sýna fram á með tölum, hvaða arfi þessi stjórn tekur við. Og hvað er þá, eins og ég segi, sú lækkun mikil, sem við erum að viðurkenna? Lækkunin er í útflutningnum 20% og í innflutningnum allt upp í 34%. 1950 viðurkenndi Framsfl. ásamt með Sjálfstfl. þá lækkun krónunnar, sem þá var orðin, en það voru 42.6%, og nægði þó ekki. 1958 viðurkenndi Framsfl. ásamt með báðum hinum vinstri stjórnarflokkunum, Alþfl. og Alþb., gengisfall, sem nam á milli 35% í innflutningsverzluninni og 46% í útflutningsverzluninni, m.ö.o.: gengisfallið, sem þessir flokkar viðurkenndu, var helmingi meira í útflutningnum en það, sem hér er um að ræða, og heldur meira þó. Allar ádeilurnar á núverandi ríkisstjórn eru þess vegna ádeilur á þá sjálfa. Við erum kallaðir fyrir það óbótamenn, böðlar alþýðunnar og allt, sem menn kunna verst af orðum, en meina sízt, — ég velt það, — fyrir það að viðurkenna lækkun á krónunni, sem þó er ekki nema helmingurinn af því, sem þeir viðurkenndu sjálfir og þar með Alþb., því að það er nú upplýst hér, að þeir voru reiðubúnir til alls, hvers sem var, annars en að kalla það gengisfellingu. Og þegar þeir menn, sem að þessu stóðu, eins og báðir þeir þm. Austf., sem hér hafa verið að tala, Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, eru ýmist að spyrja eða víta eða deila á okkur, af hverju spyrja þeir ekki sjálfa sig? Þeir hljóta að þekkja þetta, þeir eru svo oft búnir að gera þetta. Og ádeilan á okkur, auðvitað hlýtur hún að bitna á mönnunum sjálfum. Ég þurfti ekki að læra þetta, að fella krónuna, því að það var ég búinn að læra af þeim vinum mínum, Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni, 1939, þegar ég fyrst var í stjórn með þeim, og hefði kannske getað kennt þeim það, ef þeir hefðu ekki kunnað það. Það var úrræðið þá og oft síðar. En svo er látíð eins og hér sé verið að fara með allt þjóðfélagið beint til helvítis í nafni mannvonzkunnar, voðalegrar illsku. Ægilegir glæpamenn, alveg hroðalegir, erum við sagðir vera. Sá var dómur hv. 3. þm. Reykv. um verknað, sem flokkur hans stóð að 1958.

Ég skal svo ekki, af því að ég vildi heldur tala skemur en lengur og er sjálfsagt búinn að vera allt of lengi, — ég skal svo ekki fara út í það núna að endurtaka rökin fyrir því, að við eigum engra kosta völ. Þau tók ég fram í gær, og þau hafa þeir hæstv. ráðherrar, sem hér hafa talað, áréttað. Ég mundi þess vegna ekki gera annað en tefja störf þingsins, ef ég færi að endurtaka það. Allir menn vita í sannleika, að það er ekki hægt að búa við gamla kerfið af þeirri einföldu ástæðu, að kerfi, sem lifir á lánum, er dautt, þegar lán fást ekki nema með breyttu kerfi. Þetta sker úr. En rökin eru margföld og margþætt, en ég vil ekki þreyta menn á að endurtaka þau.

Ég lýk þessu máli mínu á því að segja, að mér þykir, eins og ég segi, eðlilegt, að menn ræði mikið um svona mál. Mér voru nokkur vonbrigði, hvað menn hafa byggt miklu meira á fullyrðingum heldur en staðreyndum og að vitibornir menn, sem gerþekkja alla aðstöðuna, skuli ekki meta sjálfa sig meir en það að fórna að forminu til dómgreind sinni og skynsemi til þess að ala á illu. Ég skil hins vegar miklu betur afstöðu Alþýðubandalagsmanna í þessu máli, vegna þess að þeir telja sig vera að berjast gegn því, að hér komist á kerfi í fjármálunum, í efnahagsmálum landsins, sem gefur einstaklingnum frelsi, og frelsið í þessum efnum er pest í þeirra beinum. Hér er verið að berjast fyrir frelsi hinna ríka, ekki hinna fátæku, segja menn. Staðreyndin er náttúrlega sú, að því meira frelsi sem verður í atvinnulífinu, því meiri möguleiki er fyrir unga og duglega menn til þess að bjarga sér. Ég hef oft sagt það, að jafnvel þó að mig langaði að vera orðinn ungur aftur, þá vildi ég það ekki, ef ég ætti að búa í því þjóðfélagi, sem við búum í núna, — alls ekki, — vegna þess að þeir menn, sem muna frelsið, geta illa án þess verið. Það er kannske ekkert, þegar maður er orðinn gamall og latur og óduglegur, en sá, sem er ungur og starfsglaður og hlakkar til að berjast, þegar hann vaknar á morgnana, grípur í tómt á Íslandi í dag. Það er andstyggð fyrir mann, sem er fæddur í þjóðfélagi, þar sem hver króna gat gefið möguleika til að ná í aðra og tíkallinn eða tuttugukallinn gat gefið möguleika til að eignast örlítinn part í örlitlum báti og engan þurfti að spyrja, að geta ekkert gert án leyfis. Áður var spurt: Geturðu passað hesta eða tínt ánamaðk? Þú skalt fá 10 aura fyrir eða jafnvel 25 aura. — Og ef maður hafði vit á að spara, — ég hafði það kannske ekki, ég veit ekki um það, — en ef maður hafði vit á því, þá gat maður eitthvað og þurfti engan að spyrja. Maður setti á guð og gaddinn og reri á guð og gæfuna. Nú aftur á móti skiptist þjóðin kannske í tvennt. Annar helmingurinn stendur bugtandi og beygjandi sig fyrir valdhöfunum til þess að reyna að fá innflutningsleyfi, og hinn helmingurinn stendur og gáir, eins og ég sagði áðan, hvort það er minn sjóhattur eða þinn sjóhattur, sem vill þetta, og ef það er minn, þá fær hann það, en ef það er þinn, þá fær hann það ekki. Menn verða að gera sér grein fyrir, hversu áskapleg eyðsla þetta er á starfskröftum þjóðarinnar, hvað margir mætir og ágæðir menn eyða verulegum hluta af sínum degi í það að spyrja: Má ég, má ég ekki, mamma, má ég? — Og hinn segir: Ja, við getum nú athugað það. — Þetta eru hæfileikamenn á báða bóga. Þessir menn eiga að vera að vinna. Þarna á að skipuleggja þjóðfélagið, herra Einar Olgeirsson. Þessir menn eiga að vera að vinna að framleiðslunni, en ekki að vinna að því að segja já og nei og bugta og beygja sig. Það er orðið svo, heyri ég sagt, í mörgum helztu félögum hérna í bænum og annars staðar, að aðalmaður félagsins er notaður til þess að tala við innflutningsskrifstofuna og bankana og alla þessa valdhafa, sem ráða, hvort menn hafa að éta. Áður þurftu menn að ná í þorsk til að hafa að éta, nú þarf maður að ná í innflutningsleyfi. Haldið þið, að það sé gaman? Það er gaman fyrir ykkur, sem þekkið ekki neitt annað, þið eruð orðnir samdauna þessu. En við; sem erum aldir upp við annað, við getum ekki andað. Það er þess vegna, sem maður eldist svona fljótt.

Ég lýk svo þessu máli mínu á því að segja, að auðvitað er það höfuðtilgangur okkar að reyna með þessari skipulagsbreytingu að skapa nýja möguleika fyrir þjóð okkar í framtíðinni og afstýra því geigvænlega atvinnuleysi, sem hlýtur að okkar dómi að bíða okkar, ef við eigum áfram að búa við sama kerfi.