06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

48. mál, efnahagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði hér nokkuð áðan. Hann var að kvarta yfir því, að ég hefði hvesst augun fullmikið á hæstv. viðskmrh., meðan ég talaði, og hef ég líklega ekki verið eins vondur við hann og hann mundi telja eðlilegt.

Ég tel mjög eðlilegt það, sem hæstv. forsrh. er að gera. Hann er foringi íslenzkrar auðmannastéttar, formaður þess flokks, sem er tæki íslenzka auðvaldsins, og það er ákaflega eðlilegt út af fyrir sig, að auðmannastéttin vilji troða skóinn ofan af alþýðunni, hún vilji græða á hennar vinnu. Það er nú einu sinni tilhneiging þeirrar stéttar og þess valds. Og ég undrast heldur ekkert, þó að hann vilji gjarnan koma hér á í okkar þjóðfélagi harðstjórn peningavaldsins. En það, sem ég deili á hann fyrir, er, að hann skuli vera að hjálpa til að koma hér á harðstjórn erlends peningavalds, að íslenzk borgarastétt undir hans forustu og hans flokks skuli vera að gefa upp sjálfstæða tilveru sem borgarastétt og láta innlima sig í auðvald Vestur-Evrópu og Ameríku. Sannarlega hefur þó íslenzk alþýða viljað hjálpa íslenzkri borgarastétt til þess að halda íslenzkum þjóðarbúskap sjálfstæðum.

En það, að ég hvessti augun á hæstv. viðskmrh., var af hinu, að mér fannst það óeðlilegt, að Alþfl. á Íslandi skyldi vera að hjálpa hæstv. forsrh., Sjálfstæðisflokknum, tæki auðmannastéttarinnar á Íslandi, við þetta. Alþfl. hefði átt að geta gert betur en að gefast skilyrðislaust upp fyrir auðmannastéttinni íslenzku. (Forsrh.: Fyrir ræningjaforingjanum.) Já, ræningjaforingjanum. Hann átti að geta gert það. Og mér sýnist, að það, sem nú sé að fara fram hér, sé sú endanlega sögulega uppgjöf forustumanna Alþfl. fyrir auðvaldinu á Íslandi, og hef ég þó fyrir mitt leyti gert það, sem ég hef getað, til þess að forða Alþfl. frá því.

Hæstv. forsrh. hélt hér mikla brandararæðu, eins og hann gerir stundum. Ég veit ekki, hvort það er af því, að honum hefur verið svo þungt niðri fyrir, að hann hefur viljað hafa brandarana sem mesta, eða af því, að hann vildi gjarnan komast sem mest hjá alvöru málsins. Hann er vanur þessu, og honum tekst það vel. Eina ágæta sögu hef ég heyrt af honum, þegar hann var einu sinni forsrh. hér áður fyrr og útgerðarmennirnir voru í vanda, eins og þeir voru vanir um hver áramót, og komu upp í stjórnarráð og kvörtuðu, sérstaklega þeir á Suðurnesjum, og reiknuðu og reiknuðu, hvað þá vantaði margar millj., og svo hafði hæstv. forsrh., þegar þetta var allt saman búíð, staðið upp, tekið upp veskið og sagt: „O, hver andskotinn, en ég hef ekki nema 50-kall.“ Það var allt, sem þeir fengu. En sannleikurinn er sá, að það er náttúrlega ósköp vel hægt að losa sig við útgerðarmennina á Suðurnesjum með svona nokkru. Þeir svelta ekki samt og missa ekki íbúðirnar og ekki einu sinni bátana og ekki einu sinni hraðfrystihúsin. En þegar kemur að því, að verkamenn og millistéttamenn hér í Reykjavík fara að missa íbúðirnar sínar, mennirnir, sem einu sinni trúðu á það, að Sjálfstfl. vildi, að hver maður ætti sína íbúð, — þegar þeir fara að missa íbúðirnar sinar fyrir þessar aðgerðir, þá dugir ekki að afgreiða þá með svona nokkru. Þá er alvara lífsins komin í þetta.

Það nefndi einn hv. þm. hér dæmi í gær af manni með 60 þús. kr. laun, iðnverkamanni með 2 börn, 16 og 17 ára, hann fengi engar fjölskyldubætur, ætti þriðjunginn í sínu húsnæði, — og við skulum reikna út, hvernig fer með þann mann. Við skulum segja, að íbúðin sé 300 þús. kr. virði og hann skuldi 200 þús. kr. í henni. Vextirnir af því eru nú 16 þús. á ári fyrir utan afborganir. Þeir vextir hækka, ef vextirnir fara upp í 12%, og allt er þetta á víxlum, upp í 24 þús., fyrir utan afborganir. Maður með 60 þús. kr. laun, og dýrtíðin vex um 12 þús. Hvernig á þessi maður að komast af? Það, sem verið er að gera með þessum ráðstöfunum, er að féfletta svo og svo mikið af fólki, og það er þetta, sem er alvaran í þessu. Þegar það bætist svo við, að atvinna verður stopul, að eftirvinnan hverfur, að vinnan sjálf minnkar, hvar standa þessir menn þá? Og það er þessi alvara, sem ég hef verið að reyna að fá bæði hæstv. forsrh. og aðra til þess að íhuga í sambandi við þetta, að sjá fyrir afleiðingarnar af þessu, — því að það er hægt að reikna þetta út, eins og þeir hafa reiknað það í París. Þá duga engir brandarar. Þá bjarga þeir því ekki. Þá er kannske hægt að neita staðreyndum, eins og Björn Ólafsson gerði 1952 um atvinnuleysið í Reykjavík, og þá getur verið, að verkamenn og aðrir hér í Reykjavík verði aftur að fara að heimsækja ráðherrann upp í stjórnarráð. En það er ekki það æskilega í þessu. Það æskilegasta er að reikna þessar afleiðingar út sjálfir og viðurkenna þær og breyta samkv. því, þannig að breyta þessu svoleiðis, að komið sé í veg fyrir þær.

Hæstv. forsrh. sagði, að stjórnin vildi taka lán til langs tíma. Til hvaða fyrirtækja? Af hverju segir hann ekki neitt núna? Af hverju liggur ekkert plan fyrir um það? Af hverju er bara um 800 millj. kr. yfirdráttarlán að ræða? Það er ekkert plan til. Er það kannske vegna þess, að ríkisstj. treysti á, að þegar búið væri að framkvæma þessa hluti, þá mundi Ísland vera komið niður á slíkt nýlendustig, að erlent auðvald vildi gjarnan fá að arðræna það eins og forðum daga? Ef það er meiningin, er þá ekki rétt að segja það, þannig að það komi fram?

Hæstv. forsrh. minntist á í sinni ræðu, ef sölutregðan héldi áfram. Hvernig er með sölutregðuna? Á kannske sölutregðan, sem talað er um, að vera eitthvert nýtt Kóreustríð, ný afsökun fyrir, að allt saman mistakist? Það eru raunverulega blekkingar, þetta með sölutregðuna. Það er ósköp vel vitanlegt, að hér hafa legið birgðir upp á 300—400 millj. kr., sem hægt var að selja og hefði verið hægt að vera búið að selja allt saman. Menn hafa bara ekki viljað selja það nema á vestrænum markaði. Menn hafa neitað góðum tilboðum í haust á fiskimjöli og öðru slíku, ef það var t.d. til Tékkóslóvakíu. Og menn hafa beðið og beðið mánuðum saman, af því að menn hafa heimtað frjálsa valútu svokallaða. Og það er búið að stórskaða Ísland með þessu. Á að halda þessu áfram? Og á verðfallið á kapítalistísku mörkuðunum að vera átyllan á eftir til að segja: Sjáið þið, við reiknuðum út frá, að með því að gera þetta frjálst, gengi það allt saman svona og svona vel, svo kom bara verðlækkun á íslenzkum útflutningsafurðum. — Rétt eins og hæstv. forsrh. var að segja áðan: Það var þetta bannsett Kóreustríð. Og svo bara hækkuðu útlendar vörur. — Þetta er það, sem verið er að sækjast eftir. Þeir vilja vera háðir mörkuðunum, þar sem verðsveiflurnar ganga svona upp og niður, í staðinn fyrir að reyna að tryggja íslenzkt atvinnulíf með því að gera samninga til langs tíma, tryggja að selja svona og svona mikið, tryggja að geta keypt svona og svona mikið.

Það sem gerir, að ég geri þetta að umtalsefni, er það, að þegar íslenzk burgeisastétt er að gera svona vitleysur í sínum ráðstöfunum á íslenzkum afurðum, þá ætlar íslenzkur verkalýður ekki að taka að sér að borga það. En það er það, sem er verið að heimta af honum með því að heimta, að kaupið hans megi ekki hækka. M.ö.o.: vitlausar ráðstafanir á heimsmörkuðunum, sem valdhafarnir eru sekir um, afleiðingarnar af þeim á alþýðan ekki að bera.

Hæstv. forsrh. sagði, að þetta hefði allt farið úr böndunum 1950. Stefnan hjá ykkur núna er einmitt að láta allt fara úr böndunum. Eru það ekki höftin, sem þið viljið afnema? Er það ekki það að hafa eitthvað öruggt og fast í þessu? Þetta á allt að vera frjálst. Af því fer þetta allt úr böndunum hjá ykkur.

Svo er verið að tala hér um, og hæstv. sjútvmrh. var að tala um hér seinast, hvílík óskapa vitleysa þetta væri, að segja, að þessar 800 millj. kr. gætu orðið eitthvert eyðslulán. Þetta væri yfirdráttarlán, og hvaða maður þekkir ekki muninn á yfirdráttarláni og eyðsluláni? Hvað er svo um yfirdráttarlán, sem frýs fast og maðurinn getur ekki borgað? Hefur það aldrei komið fyrir? Ætli mætti ekki spyrja Útvegsbankann eða Landsbankann, hvort það hefði aldrei komið fyrir á Íslandi, að yfirdráttarlán hefði frosið fast? Hæstv. forsrh, var þetta ljóst. Hann var svo sem ekkert að hæla þessu, þó að það væru yfirdráttarlán. Nei, hann sagði bara: Þetta eru skilyrðin, sem öll þessi lönd verða að ganga undir. — Sem sagt, einu sinni enn þá eigum við einskis annars úrkostar. (Gripið fram í.) Nei, verða að ganga undir, ég skrifaði orðrétt upp: (Gripið fram í.) Já, hann er að hugsa þetta núna kannske, og fallegt að njóta þess. En það er gott að njóta yfirdráttarlána, meðan maður tekur þau, en þegar maður á að fara að borga þau, hvernig stendur það þá? Og hæstv. forsrh., það eina, sem hann gat sagt um, hvernig mundi ganga að borga þau, var sölutregðan og vörurnar væru alltaf að falla á vestrænum mörkuðum. Nú á að taka stórt yfirdráttarlán, en með hverju hann ætlar að borga, — það er ekki víst, að það gangi alltaf með sama góða kunningsskapnum eins og ríkt hefur á Íslandi í 30 ár með að borga. Ég er hræddur um, að þessir herrar í París, þó að þeir hafi verið svona blíðir við hæstv. viðskmrh., eigi til að vera dálítið strangari við okkur, þegar við borgum ekki.

Nei, það er engin forsjálni í sambandi við þessa hluti, það er engin trygging fyrir að fá að selja okkar íslenzku vörur á þessum mörkuðum, þar sem við þurfum að fá peninga til þess að greiða þessi lán. Það er nákvæmlega sama vitleysan og þegar vinstri stjórnin var að taka lánin. Við þurftum á frjálsum gjaldeyri að halda. Við áttum einmitt ekki að taka lán í Bandaríkjunum, til þess að þurfa ekki að eyða okkar peningum í afborganir og vexti af þeim. Það hefði verið skynsamlegra af okkur að taka þá lánin austur frá, sem við gátum borgað með okkar eigin afurðum, og það er jafnskynsamlegt enn þá.

Svo segir hæstv. fjmrh., að það verði að vera heilbrigð fjármálapólitík, — hann var að tala um það í sambandi við ábyrgðirnar. (Gripið fram í.) Hæstv. forsrh., fyrirgefðu. Ég ætlaði alls ekki að fara að líkja honum við fjmrh. Þá segir hæstv. forsrh., að þetta með að ganga í ábyrgð, jafnvel fyrir menn, sem geti ekki borgað, það sé ljóta uppátækið. Já, heilbrigð fjármálapólitík. Hvað þýðir hún? Hún þýðir það, að maður lánar þeim ríku, því að sá ríki getur borgað. Heilbrigð fjármálapólitík, það er að lána ekki þeim fátæka, vegna þess að hann er ekki eins góð ábyrgð. (Gripið fram í.) Nú á það að vera svoleiðis? En ef sá fátæki á engan ríkan, sem gengur í ábyrgð, eða ef sá ríki setur slík skilyrði til að ganga í ábyrgð, að sá fátæki vill ekki fórna frelsi sínu fyrir það, hvað þá?

Nei, ég er ákaflega hræddur um, að þessi heilbrigða fjármálapólitík, sem hæstv. forsrh. er að tala um, mundi þýða það, að bankarnir ætli með öðrum orðum að gefa þeim ríku sérréttindi í landinu. Bara að þeir færu nú ekki að gefa þeim skulduga það líka, en láta þá fátæku, láta þá, sem eiga erfiðast, láta þá; sem þurfa mest á því að halda, sitja hjá.

Sannleikurinn er, að hér á Íslandi hefur verið brotið í bága við þessa heilbrigðu fjármálapólitík, og það hefur oft verið okkur til heiðurs, — hæstv. forsrh. hefur gert það líka, — vegna þess að okkur hefur þótt þetta of köld pólitík og óréttlát pólitík, vegna þess að við höfum ekki viljað beygja okkur undir alræðisvald peninganna og viljað líta á eitthvað fleira. Og við skulum ekki hverfa frá því.

En fyrst verið er að tala um þessa heilbrigðu fjármálapólitík, þá vildi ég spyrja hæstv. ríkisstjórn: Er það þá meiningin; ef á að gerbreyta um núna, að þegar menn geti ekki borgað vexti, þá eigi að ganga að mönnum, þó að þeir eigi fyrir skuldunum? Við vitum, að það er fjöldinn allur af þeim; sem nú eiga íbúðir hérna, fjöldinn allur af þeim; sem nú eiga fyrirtæki hérna, þeir eiga svona og svona miklar eignir, en þeir geta máske ekki staðið í skilum með afborganir eða með vexti. Á þá að láta bjóða þessa hluti upp, er það meiningin með þessari heilbrigðu fjármálapólitík, þegar þeir geta ekki borgað? Við vitum ósköp vel, hvað það er, sem vantar þarna. Það vantar veltufé, vegna þess að íslenzka þjóðin hefur ekki verið svo rík, að hún eigi nógu mikið veltufé í einstakra manna vörzlu.

Ég veit, að þetta er hægt. En hvað þýðir þetta, svo að ég taki aftur dæmi af ríkasta manni landsins, Einari Sigurðssyni? Hann er alltaf í vandræðum núna með að borga fé. Við vitum, að hann á miklu meira en fyrir skuldum. En við vítum hitt, að tækjum við eitt hraðfrystihús hans á morgun og gengjum að því og létum bjóða það upp, hvað eru þá margir menn í landinu, sem gætu borgað út það, sem væri nokkuð líklegt að það hraðfrystihús raunverulega ætti að kosta? Þeir eru svo að segja engir. M.ö.o.: ef við ættum að fara að framkvæma þá pólítík, sem mönnunum í London eða París mundi þykja sjálfsagt í þessum efnum, þá mundum við skapa efnahagslegt hrun á Íslandi. Er það pólitík ríkisstjórnarinnar? Er það pólitíkin, að það eigi að framkvæma þessa heilbrigðu fjármálapólitík með því að láta vægðarlaust bókstafinn gilda, ganga að þeim, sem getur ekki borgað vextina af sinni íbúð, ganga að þeim atvinnurekanda, sem getur ekki borgað vextina af sinni verksmiðju? Er það meiningin?

Ég veit, að það er hægt að „stabilisera“ ýmislegt hérna á Íslandi með því að fella öll hús á Íslandi og alla verzlun, alla báta í verði, með því að láta ganga að því og selja það fyrir gjafverð. En er það meiningin? Þá væri bezt að segja það. Og ef það er ekki meiningin, sem ég satt að segja býst ekki við, því að ég þekki ekki neinn íslenzkan ráðherra, sem mundi vilja horfa framan í slíkt og skapa slíkt ástand, — ef það er ekki meiningin, hverjir eiga þá að fá að gera þarna upp á milli? Að hverjum er gengið og að hverjum ekki? (Gripið fram í.) Bankastjórarnir m.a.? (Gripið fram í.) Já, en þeir hafa fengið frá ríkisvaldinu yfirleitt þau fyrirmæli að vera ekki að ganga að mönnum. En ef á nú að fara að reka heilbrigða fjármálapólitík á Íslandi, þá verða hlutirnir öðruvísi. Ef á að taka upp sams konar peningapólitík og rekin er í London og París, þá breytist þetta.

Nei, ég er hræddur um, að hæstv. forsrh. litist ekkert á, ef ætti að fara að framkvæma þá pólitík, sem herrarnir í París eru að reyna að leiða hér yfir okkur. Þá kemur nefnilega, ef ekki á að gera þetta að almennri pólitík, aftur að misréttisspursmálinu.

Svo las hæstv. forsrh. upp langan lista, um ICA-lánið, sem vinstri stjórnin hefði tekið í desember 1956. Það væri svo sem ekki verið að kaupa vörur til þess að koma upp Sogsvirkjun eða öðru slíku. Nei, það var alls konar hveiti og allt mögulegt, held ég, sem hann taldi þarna. Það var alveg réttur listi, sem hann var með. Það voru sem sé ýmsar vörur, sem voru keyptar frá Bandaríkjunum. Til hvers? Til þess að útvega íslenzka fjármagnið í Sogsvirkjunina. Þessar vörur voru keyptar til þess, en þvældust nú inn í listann hjá honum, meira að segja einhverjar túrbínur í Sogsvirkjunina líka. Honum fannst þetta ósköp vitlaust. Svona vitlaust hefði vinstri stjórnin getað farið að. Svona vörur hafði hún nú veríð að kaupa, þó að þetta væri keypt til þess að fá íslenzka fjármagnið til að byggja Sogsvirkjunina.

Já, þetta var ósköp vitlaust. Þetta lán var tekið, ekki af hæstv. forsrh., en af Sjálfstfl. og hans fulltrúum með fulltrúum Framsóknar. Ég var á móti þessu láni. Ég gat sýnt fram á, að það væri hægt að fá annað lán og betra. En Sjálfstfl, vildi ekki sinna því. Það var fellt í stjórn Sogsvirkjunarinnar. Og hver stóð þar fyrir því að taka vitlausa lánið, sem hann var að tala um og lesa upp listann yfir áðan? Það var hæstv. núv. fjmrh., þáverandi borgarstjóri í Reykjavík. (Gripið fram í.) Það var hæstv. forsrh., sem var að tala um, að það hefði veríð vitlaust að taka þetta svona og þessa vitleysu hefði vinstri stjórnin gert, hún hefði ekki látið víð það sitja. (Gripið fram í.) Það er nógur tíminn í nótt.

Þá fór hæstv. forsrh. að tala um bölvun uppbótakerfisins, og það hafa fleiri, líka hæstv. sjútvmrh., minnzt á það hérna, að það hlyti að vera eins konar „perpetuum mobile“, það hlyti að vera eins konar vítahringur í því, að það væri hægt að komast út úr þessu kerfi, við yrðum alltaf að eyða öllu, sem við öfluðum. Það er rangt. Því aðeins þurfum við að lenda í slíku, að við skirrumst við að nota þá möguleika, sem við höfum innanlands til að taka tekjur til þessa uppbótakerfis. Ef við sleppum því að taka t.d. gróða olíuhringanna eða eitthvað af gróða bankanna í þessa hluti, þá náttúrlega lendum við alltaf í þessum sömu vandræðum. (Gripið fram í.) Já, ég skal upplýsa hæstv. forsrh. um það. Við vitum það báðir, af því að við erum báðir í stjórn Landsbankans, hvernig þetta er. Landsbankinn, seðlabankinn og viðskiptabankinn, og Framkvæmdabankinn græddu á síðasta ári yfir 70 millj. kr. Það er vel falið sumt af því í reikningunum, því þó að þeir eigi ekki að borga skatt í Landsbankanum, þá hugsa ég, að þeir kunni miklu betur við að fela þetta, eins og hægt er. Það er heilmikill gróði þarna. Og hæstv. forsrh. hefur betri aðstöðu en ég til að leita hjá olíuhringunum. En einhverju hafa þeir þurft að svindla undan og ekki bara hér heima, heldur líka vestur í Ameríku, þannig að gróðinn er til. Spurningin hefur bara verið þessi: Hvar átti að taka peningana í uppbótakerfið? Átti að taka þá með tollum á alþýðuna, eða átti að taka eitthvað ofur lítið af tugmilljónum króna yfirstéttarinnar á Íslandi? (Gripið fram í.) Já, það er elnmitt spurningin. Það var vegna þess, að það voru dálítil bönd á milli hæstv. forsrh. sem formanns Sjálfstfl. og hans gömlu samverkamanna í Framsfl., að okkur var gert erfitt fyrir að fá í þetta skipti, sem hefði átt að vera tækifæri til, að ganga dálítið rösklega að auðmannastéttinni í Reykjavík.

Hæstv. forsrh. kannast við dálítið, sem heitir helmingaskipti. Hann var í helmingaskiptastjórn í sjö ár. Þessi bönd eru ekki öll slitnuð undireins, það er eitthvað annað. Og okkur tókst ekki að slíta þau, á meðan vinstri stjórnin var. Kannske hjálpar hann okkur til þess að slíta þau núna. Kannske verður það betra næst, þegar róttæk stjórn verður mynduð á Íslandi, að Framsókn verði ekki annar eins dragbítur og hún var. Þó að því hafi verið sleppt í þetta skipti að láta auðvaldið borga, þá er ekki víst þar með, að það sé sloppið að fullu og öllu. Það væri misskilningur hjá hæstv. forsrh. að vona það. (Gripið fram í,) Er þetta aum afsökun? Ef ég hefði haft meiri hluta og Alþýðubandalagið í vinstri stjórninni og hér á Alþingi, þá væri þetta aum afsökun. En má ég máske spyrja: Með hverjum er hæstv. forsrh. að mynda þessa ríkisstj. núna? Við hvern styðst hann? Með hverjum lækkar hann gengið núna? Með hverjum afnemur hann vísítöluna núna? Er það ekki með Alþfl.? Af hverju heldur hann, að hann geti gert þetta með Alþfl.? Heldur hann, að hann gæti gert það með Alþfl. núna, ef Alþfl. í vinstri stjórninni hefði staðið með okkur um álögurnar á auðvaldið? Nei.

Þá kom hæstv. forsrh. að bátaútveginum. Hann hafði verið spurður að því, hvernig stæði á því, að það væri engin trygging fyrir, hvað bátaútvegurinn fengi, þegar hækkað væri verðið á fiskinum til þeirra, sem fá hann nú afhentan, eins og hraðfrystihúsanna. Hann svaraði því, að þetta væri allt saman ákaflega ríflega áætlað, svo að hraðfrystihúsin hlytu að geta gert eitthvað fyrir bátaútveginn. Jæja, á nú úlfurinn að skammta lambinu? Ég skil vel, að það er reiknað mjög ríflega handa hraðfrystihúsunum, handa Einari Sigurðssyni & Co. En er hæstv. forsrh. allt í einu farinn að gera sér vonir um, að það mundi þýða, að viðkomandi hraðfrystihúsahringur yrði eitthvað mildari þess vegna við bátaútveginn? Nei, ætli honum finnist ekki þvert á móti, að hann hafi öll ráð hans í hendi sér? Það má mikið vera, ef úlfurinn, sem þessum gróða verður hent í, ekki aðeins skammtar smáútveginum, bátaútveginum smátt, heldur gleypir hann á endanum. Ég er hræddur um, að það sé jafnvel núna komið nokkuð langt í þá áttina, þó að smáútvegurinn hafi verið tryggður með ákveðnum aurafjölda á kíló af fiski undanfarið, að hraðfrystihúsin séu að ná tökum á honum. Og eftir að þessari tryggingu er kippt burt, sem við settum sameiginlega ásamt öllum öðrum þingmönnum nema einum 1946, þá er ég hræddur um, að það verði lítið, sem verndar þessa Rauðhettu smáútvegsins á móti úlfi hraðfrystihúsanna, enda sagði hæstv. forsrh., að það væru líkur til þess, að hraðfrystihúsin borguðu. Honum var svo sem alveg ljóst, að það var engin vissa. Hann sagði, að það væru líkur, vegna þess að það mundi verða skortur á hráefni í hraðfrystihúsunum. Er það vegna þess, að hæstv. forsrh. reikni með því, að togararnir sigli út fyrst og fremst og leggi lítið upp í hraðfrystihúsin, þannig að frekar verði skortur á hráefni þess vegna í þeim? Hann veit, hvað það þýðir, ekki bara fyrir afkomu hraðfrystihúsanna, heldur líka fyrir afkomu verkamannanna á Íslandi Það er tiltölulega fljótt verið að koma á atvinnuleysi með þeirri ráðstöfun.

Þá kom hæstv. forsrh. að því að tala um mjólkina. Víða kom hann við. Og þá fyrst fannst honum vera fjarstæða, ef væri farið að tala um það, að menn ættu að fara að spara mjólk eftir þessar ráðstafanir. Veit hæstv. forsrh., hvað gerðist, eftir að hann og Framsókn í helmingaskiptastjórninni 1950 lækkuðu gengið þá? Hvað gerðist viðvíkjandi mjólkursölunni í Reykjavik? Það hélt áfram að bætast við fólkið í Reykjavík á því ári og næstu árum. Mjólkurneyzlan var í marz 1950 1 millj. 471 þús. lítrar, hún hafði farið sívaxandi fram að því. Í marz 1950 lækkaði hæstv. forsrh. gengið með framsóknarmönnum. Síðan minnkar mjólkurneyzlan allt árið 1950. Síðan minnkar hún allt árið 1951. Í engum mánuði ársins 1950, í engum mánuði ársins 1951 kemst mjólkurneyzlan upp í það sama og hún var í marzmánuði 1950. Síðan minnkar hún allt árið 1952, þó að 2000 manns bætist við í Reykjavík. Heldur hæstv. forsrh., að borgarastéttin í Reykjavík hafi ekki getað veitt sér þá mjólk, sem hún þurfti? Hverjir heldur hann að hafi orðið að spara við sig mjólkina á þessum tíma, þannig að það var farið að sjá á börnunum hérna 1952? Það voru verkamennirnir í Rvík, verkamennirnir, sem urðu að labba upp í stjórnarráð til Björns Ólafssonar til þess að sýna honum, að þeir væru atvinnulausir. Og hvenær breytist þetta? Við verðum að standa allan desembermánuð 1952 í verkfalli til þess að pína fram breytinguna á þessu. Og fyrst í jan. og febr. 1953 fer mjólkurneyzlan upp yfir það, sem hún var í marz 1950.

Þetta er ekkert gamanmál, og það er þetta, sem veldur því, að við getum gengið út frá því eins vísu og tveir og tveir eru fjórir, að verkalýðurinn í Reykjavík, sem man þessa hluti, ætlar ekki að bíða í þrjú ár til þess að reka slíka kúgun af sér.

Það er engin ástæða til þess, að börn í Reykjavík þurfi að skorta mjólk, og það er ekki rétt að gera ráðstafanir, sem leiða þann skort yfir. Það er nóg af mjólk á Íslandi. Það er nóg til hér af öllu, sem menn þurfa til þess að geta dregið fram lífið.

Svo sagði hæstv. forsrh, að lokum, að ég hefði haldið hér ræðu til þess að verja kommúnismann. Ég hef kannske einhvern tíma gert það, en ég hélt nú ræðu til að verja uppbótakerfið, svo gallað sem það er. En líklega hefur hæstv. forsrh. ruglað saman. Þeir skyldu þó aldrei þarna í París og New York vera farnir að segja við ykkur, að þetta væri tómur andskotans kommúnismi, þetta uppbótakerfi? Þá skil ég vel, að það sé farið að leggja svona mikla áherzlu á að fá það afnumið, ef þeir eru farnir að hræðast þetta afbrigði af kapítalisma, sem er hérna.

Nei, ég var sannarlega ekki að verja kommúnismann í þessari ræðu. Ég var að verja íslenzkan kapítalisma, sérstakt fyrirbrigði, sem hann hafi skapað og hafi gert honum mögulegt að ýmsu leyti með hans skipulagi að skapa hér sæmilega góð kjör, jafnvel skapað um tíma hér samstarf á milli atvinnurekenda og verkamanna. En þetta finnst náttúrlega þeim auðmannastéttum í öðrum löndum, sem vilja fá að drottna sjálfar og einar, vera kommúnismi.

Ég held, að hæstv. forsrh. verði nú að fara að taka í sig kjark, ef þeir eru farnir að hræða hann með kommúnistagrýlunni. Hann hræddist hana ekki í gamla daga. Hann var alveg ósmeykur við að mynda ríkisstj. um að taka upp fimm ára plön og annað slíkt, þó að flestallir fulltrúar auðvaldsins í Englandi og Bandaríkjunum færu að spyrja hann að því, hvernig í skrambanum honum dytti í hug að fara að gera svona hluti. Og þó að hann sé farinn dálítið að eldast, þá á hann nú ekki að láta þetta eldast af sér, á ekkert að fara að láta hræða sig á kommúnismanum. Það eina, sem Íslandi hefur vegnað vel undir, það er að reyna að hagnýta sér eitthvað af hans yfirburðum yfir kapítalismann, annars vegar þeim yfirburðum að útvega örugga markaði og vera ekki háður kreppulöndum kapítalísmans, þó að maður selji þeim allt, sem maður getur, og hins vegar að skipuleggja samkvæmt áætlunarbúskap okkar eigin atvinnuþróun á Íslandi. Þetta eru hvort tveggja hlutir, sem við gætum lært af sósíalismanum, sem við höfum lært og notið góðs af, og það eigum við að gera áfram, ekkert láta hræða okkur.

Svo sagði hæstv. forsrh., að það mundi vera bjart fram undan, ef þetta gengi allt saman í gegn og menn gengju í gegnum það.

Nei, það er ekki bjart fram undan, nema þetta sé brotíð niður og brotið fljótt. Það var ekkert bjart fram undan fyrir íslenzkan verkalýð árin eftir gengislækkunina 1950. Og það er bezt að geta kæft slíkar aðgerðir í fæðingunni.

Ég sagði, að alþýða manna mundi dæma þetta af afleiðingunum. Og afleiðingarnar eru nú þegar byrjaðar að koma í ljós. Atvinnurekendur hér í Reykjavík eru nú þegar farnir að fá að vita af því, að lánin við þá munu verða minnkuð. Iðnrekendur hér í Reykjavík eru nú þegar farnir að fá að vita af því, að það muni verða hleypt inn svo og svo miklu af erlendum iðnaðarvörum. Það er nú þegar búið að loka tveim litlum verksmiðjum hér og segja fólkinu þar upp, vegna þess að þeir búast þar við innflutningi á útlendum skóm í auknum mæli. Það er nú þegar verið að gera ráðstafanir til þess að segja upp og fækka við sig í iðnaðinum, vegna þess að menn sjá fram á, að þeir muni ekki fá nægileg lán hjá bönkunum til þess að hafa nægilegt rekstrarfé til þess að kaupa sínar vörur. Það er nú þegar, þegar togaraútgerðin heyrir, að það eigi að fara að draga úr lánunum við hana, sú tilhneiging uppi, að það sé um að gera fyrir togarana að sigla út og selja fiskinn sem ísfisk, en láta ekki vinna úr honum hér heima, því að það þýðir að heimta miklu meira rekstrarfé. M.ö.o.: öll sú hringavitleysa að hagnýta ekki okkar eigin framleiðslutæki, eins og við frekast getum, til þess að skapa okkur sem mest verðmæti út úr því, öll þessi hringavitleysa byrjar á ný.

Ég sagði, að alþýðan mundi rísa upp, þegar hún sæi þessar afleiðingar. En stjórnmálamenn eiga að reikna þessar afleiðingar út, áður en þær koma fram, af því að þeir eiga að kunna að leggja saman tvo og tvo. Þeir eiga að reikna þessar afleiðingar út, áður en þær koma fram, af því að þeir eiga að kunna að leggja saman tvo og tvo. Þess vegna eiga þeir að gefast upp við að gera svona hluti eins og hérna er lagt til, af því að afleiðingarnar liggja á borðinu. Til þess eru menn kosnir til að vera foringjar einnar þjóðar, að þeir eiga að sjá lengra en fjöldinn, og það er hart að leiða fyrst svona ófremdarástand yfir fólkið og ætlast svo til, að fólkið rísi þá upp og hafi raunverulega vitið fyrir sínum forustumönnum.

Svo kom hæstv. forsrh. — og það gerðu raunar fleiri — inn á gengislækkanirnar, sem hér hafa verið framkvæmdar áður. Jú, ég var líka á þingi með honum, þegar allar þessar gengislækkanir voru framkvæmdar, 1939, 1950 og þessi núna 1960, á tíu ára fresti. Ég var á móti þeim öllum. En það er hitt, sem menn kinoka sér við, og hæstv. sjútvmrh. virtist ekki heldur vera ljóst, hvernig á því stæði, að verðbólgan gengi sífellt þennan gang hér á Íslandi og gengislækkun kæmi þess vegna hér reglulega með 10 ára millibili. Af hverju gerist þetta hér á Íslandi, og af hverju gerist það ekki í Bretlandi t.d.? Orsökin er sú, að yfirstéttin í Bretlandi á veltuféð og stofnféð í sínu fyrirtæki, yfirstéttin í Bretlandi, auðmannastéttin, hefur ekki hagsmuni af því, að þessir peningar falli í verði. Þetta eru hennar eigin peningar. Það er hún, sem lánar út í fyrirtækin, það er hún, sem lætur borga sér lán til baka, og hún vill fá jafngóða peninga til baka og þá, sem hún hefur lánað út. En atvinnurekendastéttin hér á Íslandi á ekki peningana sjálf, nema hverfandi lítinn hluta af þeim. Hún hefur veltuféð frá ríkinu og sparifé almennings. Yfirstéttin á Íslandi, sem hefur farið með ríkisvaldið þessa áratugi, hefur enga hagsmuni af því að halda verðgildi íslenzkrar krónu við, þvert á móti. Hún hefur hagsmuni af því, að þetta veltufé almennings, þetta veltufé ríkisins, sem henni er lánað, falli sífellt í verði. Þess vegna skapar hún þennan vítahring. Þess vegna hækkar hún í sífellu verðið á vörunum. Hún er að vinna kerfisbundið að því að lækka krónuna, af því að það er ekki hennar króna, heldur króna ríkisins, krónan, sem hún hefur fengið að láni, og því minni sem hún er orðin, þegar hún á að borga hana til baka eða vextina af henni, því betra. Ríkisvaldið er notað til að skapa þessa verðbólgu. Auðmannastéttin fer með þetta ríkisvald, og hún notar þetta í sína þágu. Sömu hagsmunir sem brezka auðmannastéttin hefur af því að halda gengi bundnu föstu, sömu hagsmuni hefur íslenzka auðmannastéttin af því að lækka í sífellu gengið á íslenzku krónunni.

Þess vegna er það engin tilviljun, að hæstv. forsrh., sem hefur verið aðalfulltrúi og foringi suðmannastéttar á Íslandi, hefur verið með öllum þessum þrem gengislækkunum. Ég held, að hann hafi eitthvað verið að tala um, að hann hefði eiginlega ekki verið með gengislækkun, sem hann vildi telja vorið 1958, sem vinstri stjórnin hefði verið að gera, og átti hann þá við efnahagsráðstafanirnar. Man hæstv. núv. forsrh., — hann sat þarna í horninu, þar sem ég sit núna, — þegar þetta gerðist og hann talaði dálítið um þessar efnahagsráðstafanir, en ég sagði úr þeim ræðustól, sem þá var hérna, við hann, að honum væri ekki eins leitt og hann léti, hann vildi fá þessar efnahagsráðstafanir í gegn eins fljótt og hægt væri? Enda var það svo, að Björn Ólafsson kom þá til mín, hann var fulltrúi Sjálfstfl. í fjhn., og ég var þá forseti þessarar hv. d., kom til mín og spurði mig að því, hvort við ættum ekki að taka þetta mál fyrir, áður en 1. umr. væri búin. Ég sagðist ekki kunna við að fara að ræða málið í n., áður en 1. umr. væri búin. Og þá kom hann og bauðst til þess að hafa fund á uppstigningardag í n. til þess að flýta fyrir málinu eins og hægt væri. Auðmönnunum á Íslandi lá ósköp mikið á að fá þetta í gegn. Ég er hræddur um, að hæstv. forsrh. hafi ekki verið eins mikið á móti því í hjartanu og hann var á móti því í munninum, þegar hann talaði um þær efnahagsráðstafanir þá. (Gripið fram í.) Já, hann gerir það. Og vildum við þó ekki án hans vera.

Nei, gengislækkanirnar hafa allan þennan tíma verið svikamylla yfirstéttarinnar á Íslandi til þess að hagnýta sér fé almennings og fé ríkisins til þess að ná gróða af íslenzkum almenningi. (Gripið fram í.) Nei, við vorum að firra fólkið gengislækkuninni þá og gátum meira að segja knúið það í gegn, að launin voru hækkuð um 5% í þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, og síðan sáum við um, að það var hækkað áfram til þess að vega upp það, sem fólkið kynni að hafa tapað. Og það verður gert aftur. Hæstv. forsrh. þarf ekki að vera neitt hræddur um, að alþýðan muni ekki standa á verði um sína hagsmuni, a.m.k. eins og 1958, jafnvel betur. Nei, þessi svikamylla yfirstéttarinnar á Íslandi, sem verðbólgan og gengislækkanirnar eru, verður að hætta. Og það verður barizt þangað til það skeður.

Út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan um vísitöluna, þegar hann var að tala á móti henni, mundi mig nú hafa langað til að spyrja hann: Hefur vísitalan gert honum einhvern sérstakan óleik? Ætli bændur hafi ekki fengið reiknaða fyllilega til sín vísitöluna fyrir það, sem markaðurinn hefur verið, og ætli það sé ekki gengið út frá því enn þá? Ef vísitalan hefur gert honum einhvern óleik, þá ætti hann að afsala sér að láta reikna hana inn í landbúnaðarvöruverðið.

Svo lauk hæstv. forsrh. máli sínu með því að skírskota til hinna ungu, duglegu manna, sem nú ættu að fá að njóta þess frelsis, sem væri verið að innleiða. Frelsi fyrir hverja? Fyrir þá ríku, þá sem eiga peningana, þá sem hafa þá til að leggja í fyrirtækin. Frelsi fyrir sérréttindamennina, þá sem finna náð fyrir augum bankanna. En ungu, duglegu mennirnir hér í Reykjavík, sem hafa verið að byggja sér hús, þræla í því í eftirvinnu, í helgidagavinnu, í fríunum sínum og geta ekki fengið lán og verður bannað að fá lán og verða hækkaðir vextirnir víð þá eftir þessu, þeir ungu, duglegu mennirnir, hvað eiga þeir að gera? Ég veit, hvað vakir fyrir þeim mönnum, sem gáfu ráðin um þessar ráðstafanir, sem nú á að gera. Það eru sömu mennirnir sem segja, að þeir séu ekki ánægðir, fyrr en ungir, duglegir menn komast ekki einu sinni að á togurunum hérna, atvinnuleysi þjóðarinnar er svo tilfinnanlegt.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri ekki gaman að því að standa bugtandi og beygjandi fyrir mönnunum í innflutningsskrifstofunni. Er nokkuð meira gaman að standa bugtandi og beygjandi fyrir bankastjórunum og fá nei? Valdið, sem innflutningsskrifstofan hefur núna, verður flutt inn í bankana. Það verður kannske heldur erfiðara að komast að bankastjórunum, og þeir verða kannske heldur fljótari að neita, því að nú hafa þeir Seðlabankann sem hengingarói um hálsinn á sér. Og ríkisstj. hefur svo sína ól og svipu á Seðlabankann, og úti í París situr OEEC og segir við ríkisstjórnina: Heyrðu, nú passar þú upp á lánið þitt. — Nei, það er ekkert glæsileg framtíð, sem er verið að skapa þeim ungu mönnum. — Hann var að tala um, þegar hann hefði verið ungur, það hefði verið svo dásamlegt. Var það nú svo voðalega dásamlegt? (Forsrh.: Alveg voðalega dásamlegt.) Var það nú svo voðalega dásamlegt, ef hann hefði sjálfur þurft að standa t.d. bugtandi og beygjandi fyrir bankastjórum, af því að hann hefði kannske skuldað þeim? Það eru ekki allir, sem eru í þeirri aðstöðu að geta komið sem ráðherra til bankastjóranna og sagt við þá: Af því að ég skulda eitthvað hérna, þá er bezt, að við tökum ríkiseinokun á þessu öllu saman, og svo hefur ríkið ábyrgðina á því öllu saman og við þurfum ekkert að láta Kveldúlf fara á hausinn. — Það eru ekki allir, sem standa í svona aðstöðu. Nei, það var ekkert gaman, og honum þótti það ekki heldur gaman. En það veit hæstv. forsrh., að bankaráðsmenn hafa ekkert með lán að gera, svo að hann verður að treysta á einhverja góða að í bankastjórninni, þegar þar að kemur.

Nei, það var ekkert gaman þá. Það var ekkert gaman. Það, sem var gaman, það var, að við höfum getað látið unga kynslóð alast upp hérna á Íslandi, sem þurfti ekki að þola atvinnuleysið, sem þurfti ekki að hafa gjaldþrotið yfir sér daglega, sem þurfti ekki að lifa kreppuna. Það var gaman. Það var gæfa að geta unnið að því. Og það er það verk, sem á ekki að láta spilla. Við eigum ekki að láta það ástand komast á hér á Íslandi aftur, að verkamenn gangi hundruðum saman atvinnulausir hér í Reykjavík. Við eigum ekki að láta það ástand koma aftur hér á Íslandi, að jafnvel sterkustu fyrirtækin á Íslandi verði gjaldþrota vegna kreppunnar í auðvaldslöndunum og þau geti sjálf, hve vel sem þau eru rekin, hve rík sem þau voru orðin, ekki ráðið við neitt.

Það er þetta, sem við þurfum að forða Íslandi frá. Það er þess vegna, sem við höfum, þegar kreppt hefur að okkur, þegar auðvaldið, þjóðfélagið hefur látið okkur finna, hve óbært það er, að við höfum gripið til þess hér á Íslandi að láta ríkið ábyrgjast hlutina, að við höfum tekið svo að segja samábyrgð alls þessa litla þjóðfélags til þess að bjarga öllu, sem það hefur byggt upp, til þess að bjarga því að fá atvinnu handa fólkinu, til þess að bjarga því að gera ekki upp hvert fyrirtækið á fætur öðru, og það er þetta þjóðfélag, sem við eigum að láta halda áfram með öllum sínum göllum, meðan við setjum ekki annað betra í staðinn. Við eigum heldur að skapa það atvinnuöryggi fyrir okkur, sem við höfum búið við á Íslandi meira eða minna með litlu millibili undanfarin 20 ár, — við eigum heldur að láta það halda áfram en að kasta okkur út í þetta forað kúgunarkerfisins, sem auðvaldsdrottnarnir í París og New York eru að leiða yfir okkur núna.