11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

48. mál, efnahagsmál

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns mótmæla þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstj. að hafa ráðizt í það fyrirtæki að láta gefa út og prenta áróðurspésa á kostnað ríkissjóðs. Á bæklingnum, sem var dreift út hér í gær, stendur, að hann hafi verið gefinn út í 40 þús. eintökum, og mér er sagt, að hann eigi að sendast inn á hvert heimili á landinu. Eins og að líkum lætur, eru þar settar fram skoðanir ríkisstj. á mjög einhliða hátt og allt efnahagsástandið málað eins dökkt og frekast er kostur. Með slíkum áróðursaðgerðum hefur hæstv. ríkisstj. gengið feti framar en aðrar ríkisstjórnir hafa leyft sér að gera, og ber að víta slíkar aðgerðir.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa engin mál verið meira rædd manna á meðal en væntanlegar aðgerðir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Þar sem tveir menn hafa hitzt, hefur ætíð verið sama spurningin á ferðinni: Hvað gerir ríkisstj., og hverjar verða tillögur hennar í efnahagsmálum? Er það meiningin, spurði fólk, að lækka gengið? Á að hækka vextina og banna allar kauphækkanir og á að afnema alla vísitölu á kaupgjald? Þannig rak hver spurningin aðra, og menn veltu þessum málum fyrir sér fram og aftur. Ég býst við, að fæstir muni hafa búizt við góðu. Fylgjendur hæstv. ríkisstj. voru í flestum tilfellum þögulir og vildu lítið segja. Þeir hafa sjálfsagt hugsað sem svo, að fæst orð bæru í sér minnsta ábyrgð.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. birt boðskap sinn öllum landsbúum. Í s.l. viku var lagt fram á Alþ. frv. til laga um efnahagsmál. Frv. þetta er í 7 köflum, og fylgir því löng grg. Alls er frv. með grg. 41 prentuð síða. Það mun sjálfsagt ekki hafa farið fram hjá neinum þeim, sem fylgdist með því, sem gerðist á þinginu í vetur, áður en þm. voru reknir heim, að mikið stæði til að gera. Í þingbyrjun hafði þáv. fjmrh. lagt fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1960. Það frv. var í aðalatriðum líkt og fyrrverandi fjárlagafrv., tekjur samkvæmt sjóðsyfirliti voru áætlaðar 975 millj. 713 þús. Gjöld voru áætluð í samræmi við tekjur. Í grg., sem fylgdi því frv., segir, að ekki sé hægt að búast við greiðsluafgangi hjá ríkissjóði, en aftur á móti sé ekki ástæða til að óttast greiðsluhalla. Þó er þess getið, að ríkissjóður geti ekki að óbreyttum tekjum greitt til útflutningssjóðs jafnháa upphæð og hann gerði á árinu 1959. Í staðinn fyrir 152 millj. kr. sé nú í þessu frv. aðeins gert ráð fyrir 50 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði. Það hljóti því að verða verkefni nýrrar ríkisstjórnar að gera tillögur um lausn þessa fjárhagsvandamáls.

28. janúar s.l. var svo lagt fram á Alþingi, eftir að það var kallað saman eftir hið langa frí, nýtt fjárlagafrv. Við lestur þessa frv. var strax ljóst, að ákveðin hafði verið stórfelld gengislækkun, sem nema mundi 135%, þannig að dollarinn skyldi nú reiknast á 38 kr. og pundið á 106 kr. Fjárlagafrv. sýndi, að skattheimta ríkissjóðs mundi aukast stórkostlega. Þetta hlýtur að hafa þau áhrif, að allt vöruverð hækkar að miklum mun fram yfir þá stórhækkun, sem siglir í kjölfar gengisfellingarinnar. Skattar og tollar til ríkissjóðs eru nú áætlaðir 1201 millj. kr. í staðinn fyrir 710 millj. í fyrra frv. Þá er og gert ráð fyrir, að verðtollur hækki um 96.3 millj. og innflutningsgjald af benzíni um 39.5 millj., enda fyrirhuguð stór verðhækkun á benzíni umfram gengislækkunina. Söluskatturinn er áætlaður um 280 millj., en alls eiga tekjur ríkissjóðs að nema 1464704 þús. Við lestur hins nýja frv. var ljóst, að útflutningssjóður skyldi að forminu til lagður niður og hætt að greiða útflutningsuppbætur í þeirri mynd, sem áður hafði verið gert. Yfirfærslugjaldið er niður fellt. Þar á móti kemur svo hin mikla gengisfelling, sem mun gerbreyta öllu verðlagi í landinu til meiri hækkunar en dæmi eru til um áður. Allar aðrar tekjur útflutningssjóðs, svo sem gjald af inniendum tollvörutegundum, innflutningsgjöld og leyfisgjöld, skulu hér eftir renna óskiptar til ríkissjóðs. Niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðir skal haldið áfram, og til viðbótar þeim eru nú fyrirhugaðar niðurgreiðslur á erlendum vörum fyrir nokkra tugi millj. króna. Með því er faríð inn á nýjar leiðir, sem telja verður að séu mjög varhugaverðar. Á móti öllum hinum nýju álögum mun svo ákveðið að hækka nokkuð framlag ríkissjóðs til almannatrygginga, svo sem fjölskyldubætur, barnalifeyrí og ellilaun, eða um 150 millj. kr. Þá mun og ákveðið að fella niður tekjuskatt af launum, 70 þús. kr. eða lægri hjá barnlausum hjónum með hækkandi frádrætti fyrir hvert barn.

Eins og menn munu sjá, er gert ráð fyrir mjög miklum hækkunum á tollum og sköttum í hinu nýja frv. Til viðbótar hinum nýju skatta og tollahækkunum kemur svo gengisfellingin, eins og ég hef bent á áður, með þeim afleiðingum, sem óhjákvæmilega hljóta að leiða til stórhækkaðs verðlags á allri erlendri vöru og öllu verðlagi í landinu.

Hvað koma svo þessar nýju aðgerðir ríkisstjórnarinnar til með að kosta þjóðina? Allar líkur benda til þess, að hinar nýju álögur verði ekki undir 1300 millj. kr. að frádreginni skattalækkuninni. Á móti þessum auknu álögum koma svo 189 millj. kr. , þ.e. 152 millj. í auknum tryggingabótum og 37 millj. í nýjum niðurgreiðslum. Bótalausar álögur verða því aldrei undir 1100 millj. Rétt er þó að benda á, að þessar tölur geta auðveldlega orðið miklu hærri, þegar til framkvæmdanna kemur.

Á undanförnum þingum hefur það verið viðtekin regla, að fjárlagafrv. hafi verið lögð fram á fyrstu dögum þingsins og fljótlega þar á eftir hafi farið fram 1. umr. um fjárlögin. En í haust brá svo undarlega við, að fjárlagafrv. var aldrei tekið fyrir til 1. umr. Þegar þm. gerðu fsp. til hins nýja fjmrh., hverju þetta sætti, var því svarað til, að semja þyrfti nýtt fjárlagafrv., þar sem ákveðið væri að byggja upp nýtt efnahagskerfi, og með hliðsjón af hinu nýja efnahagskerfi yrði svo að semja ný fjárlög. Nú liggur hið nýja fjárlagafrv. fyrir, og eru tekjur og gjöld þess áætlaðar yfir hálfan annan milljarð króna. Ég hef nú lítillega rætt um hið nýja fjárlagafrv., þar sem það er nátengt þeim efnahagsráðstöfunum, sem fyrirhugaðar eru, og verða því þessi tvö mál tæplega sundurskilin.

Í haust var því yfir lýst af hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefði ráðið nokkra færustu hagfræðinga landsins sér til aðstoðar. Mundu nú hinir vitru sérfræðingar taka þá þegar til óspilltra málanna og semja till. og álitsgerðir, sem leysa mundu allan vanda. Um álit og skoðanir alþm. var ekki spurt, enda voru þeir að dómi hæstv. ríkisstj. alls ófærir til þess að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar. Þeim var bara einfaldlega sagt að draga sig heim og bíða þar, þar til hæstv. ríkisstj. allramildilegast þóknaðist að kalla þá til áframhaldandi þingstarfa. Svo mikla áherzlu lagði ríkisstj. á það að losna við þingið, að hún krafðist þess af forsetum Alþ., að þeir beittu áður óþekktum aðferðum í þingsköpum með því að skera niður umræður og varna þar máð þm. málfrelsis.

Ekki veit ég, hvort það er satt, sem stóð í einu dagblaðanna fyrir nokkru, að hinir vísu sérfræðingar hefðu að fordæmi Þorgeirs Ljósvetningagoða brugðið feldi yfir höfuð sér, á meðan þeir væru að úthugsa sín snjöllu ráð. En grunur minn er sá, að önnur verði nú viðbrögð landsmanna við till. sérfræðinganna en við till. Þorgeirs. Þorgeir Ljósvetningagoði sýndi með till. sínum mikil pólitísk hyggindi, sem beinlínis urðu til þess að forða þjóðinni frá algerðri sundrung og draga úr stórpólitískum átökum. Aftur á móti eru hinar nýju till. sérfræðinganna og hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar þannig úr garði gerðar, að hætta er á, að til stórátaka dragi á milli aðalstétta þjóðfélagsins og ríkisvaldsins, þ.e.a.s. á milli launastéttarinnar og atvinnurekenda og ríkisvalds

Nú vil ég ekki halda því fram, að hinir svokölluðu sérfræðingar hafi viljandi vits stefnt að slíku ástandi. Þetta eru að sjálfsögðu ágætir menn, sem hafa mikla þekkingu á ýmsum málum þjóðfélagsins, eru máske ágætir reikningsmenn á sína vísu og hafa rök máske fram að færa máli sínu til stuðnings: En þá ágætu menn brestur algerlega þekkingu á lífi og lífsbaráttu alþýðunnar, og þá brestur líka algerlega raunhæfa þekkingu á atvinnulífi Íslendinga. Þeir þekkja ekki til verkalýðshreyfingarinnar, þekkja ekki sögu hennar eða baráttu. Þessir menn eru slegnir blindu borgaralegrar hagfræðikenningar, sem búin er að lifa sitt fegursta og er orðin úrelt og háskaleg fyrir nútíma menningarþjóðfélag. Ein af höfuðkenningum þeirra er hin svo kallaða frjálsa verzlun, og þá um leið er það líka stefna hæstv. ríkisstjórnar. Hún hefur lýst því yfir, að hún stefni að algerðu frjálsræði í verzluninni. Nú hljóta þessir ágætu menn að vita það, að orðíð frjáls verzlun er að mestu leyti ekkert annað en slagorð. Öll verzlun með vörur er í flestum löndum heims háð mjög ströngu eftirliti ríkisvaldsins, auk þess sem öll verzlun er að meira eða minna leyti háð ofurvaldi auðhringa og samtökum auðmanna. Gleggsta dæmið um slík samtök eru olíuhringarnir. Í fjöldamörg ár hafa verið hér starfandi t.d. 3 olíufélög. Á milli þessara félaga, sem eru ekkert annað en angar frá erlendum auðhringum, hefur verið látið líta svo út að væri samkeppni um söluna hér innanlands. Þessi samkeppni hefur ekki komið fram í mismunandi verði, þannig að eitt félagið hafi boðið olíu eða benzín á lægra verði en hitt. Samkeppnin hefur aðeins verið um það, hvert félagið gæti selt öðru meira, en öll hafa félögin selt olíuna og benzínið á sama verði. Þannig er þessu varið með alla verzlun. Frjálsræði í verzlun á Íslandi í dag er ekki meira en það, að óleyfilegt er að selja fiskafurðir nema í gegnum ákveðin sölusambönd. Ekki hef ég orðið þess var, að hinir ágætu hagfræðingar vildu breyta þessu fyrirkomulagi. Smákaupmaðurinn getur ekki pantað vörur í búðina sína beint frá erlendum framleiðendum. Hann verður að fara til heildsalans hér heima, sem hefur umboð fyrir hinn erlenda framleiðanda, og fá vöruna í gegnum hann, og að sjálfsögðu tekur svo heildsalinn sína þóknun fyrir. Auk þess má svo benda á, að öll verzlun er háð gjaldeyrisleyfum og öðrum þess konar efnahagsráðstöfunum. Þannig stangast staðreyndirnar algerlega á við kenningar þessara manna um frjálsa verzlun.

Í sambandi við umræður um efnahagsmálafrv. er fróðlegt að athuga, hver hefur verið afstaða þm. Alþfl. til hliðstæðra mála áður fyrr. Alþfl. heldur því fram, að hann sé sósíalistískur flokkur og vilji breyta þjóðfélaginu í sósíalistískara horf. Þegar þetta frv. var til 1. umr. hér í þessari hv. d., hélt hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, langa varnarræðu fyrir þessu frv. og taldi því flest til gildis. En svo vill til, að þessi hæstv. ráðh. hefur áður hér á Alþ. flutt ræðu um hliðstæð mál, en það var á Alþ. í febrúar 1950. Þá lá fyrir til umr. frv, til laga um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl. Þáverandi ríkisstj. hafði þá eins og nú fengið hina færustu sérfræðinga sér til aðstoðar. Sérfræðingarnir hófu störf sín og sömdu mikinn lagabálk með langri grg. Þar lögðu þeir til, eins og nú er gert í hinu nýja frv. um efnahagsráðstafanir, mikla gengisfellingu og töldu, að sú leið mundi rétta við efnahagskerfið og stuðla að frjálsri verzlun. Einn af þeim hv. alþm., sem tóku þá til máls um frv., var núv. hæstv. viðskmrh. Honum fórust orð á þessa leið m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðmarkmið þessa frv. er því að reyna að koma á frjálsri verzlun. Ég er ekki fylgjandi því sjónarmiði, að það eigi að vera höfuðtakmark í efnahagsmálum þjóðarinnar að koma hér á frjálsri verzlun. Ég tel höfuðmarkmiðið vera að tryggja öllum fulla atvinnu og hagnýta til fulls framleiðslutæki, sem þjóðin á.“

Þannig leit hæstv. viðskmrh. þá á frjálsa verzlun. Síðar segir sami hæstv. ráðh., eftir að hann hafði rætt um áhrif gengisfellingarinnar á afkomu bátaútvegsins: „Við þetta bætist svo, að sú aðferð, sem nota á til að tryggja þennan rekstur, verður að teljast ranglát. Hvað er gengislækkun?“ spyr hæstv. núverandi viðskmrh. „Hún er í sjálfu sér ekkert annað en flutningur á tekjum á milli atvinnustétta þjóðfélagsins. Þeir, sem flytja út, fá meiri tekjur, en allar aðrar stéttir minna. Gengislækkunin eykur því tekjur útflytjenda á kostnað annarra atvinnuvega.“

Síðar í ræðu sinni fullyrðir sami núv. hæstv. viðskmrh., að gengisfellingin hljóti að þýða kjaraskerðingu, og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Auðvitað hlýtur kjaraskerðing að sigla í kjölfar þessara ráðstafana.“ En nú er þessi hæstv. ráðh. kominn á allt aðra skoðun. Nú telur hæstv. viðskmrh., að gengisfelling sé allra meina bót, og hann á ekki nægilega sterk orð til að lýsa yfir hrifningu sinni á hinum nýju aðgerðum, sem eru þó margfalt hættulegri og ganga miklu lengra á rétt launastéttanna en gengisskráningarlögin frá 1950 gerðu.

Hæstv. núv. viðskmrh. sagði í sömu þingræðu um afstöðu Alþfl. til gengislækkunarinnar 1950: „Ég hef nú gagnrýnt þetta frv. mjög, bæði markmið þess og skilyrði til að koma að notum. Nú má vera, að einhver spyrji: Hvað vill Alþfl.? Þá, sem þannig spyrja, má minna á,“ — og það gætir dálítils drýgindatóns hjá hæstv. ráðh. — „að Alþfl. er sósíalistískur flokkur, sósíalistískur lýðræðisflokkur, sem vill þjóðnýtingu stærstu atvinnutækjanna og utanríkisverzlunarinnar. Alþfl. er fullviss um, að með því eina móti er hægt að tryggja þegnum þjóðfélagsins fulla atvinnu. Hagkerfi einstaklinganna hefur brugðizt hér eins og annars staðar og er að bregðast.“

Síðast í sömu ræðu segir ráðherrann:

„Nei, þetta kerfi er ekki nothæft. Það getur ekki bjargað sér með gengisfellingu, með gengisbreytingu. Það má segja um gengisbreytinguna 1939 og ástandið nú, að í raun og veru hafi verð krónunnar verið fallið inn á við. En það bætir ekki málstað þess skipulags, þar sem slíkt gerist, réttlætir ekki, að upplausn og glundroði komi alltaf skömmu á eftir góðæri. Ef hægt á að vera að koma í veg fyrir slíkt, þarf að endurskipuleggja hagkerfið allt samkv. kenningu jafnaðarstefnunnar. Á þann eina veg er hægt að tryggja öllum stöðuga vinnu og fulla starfrækslu atvinnutækjanna jafnframt réttlátri skiptingu þjóðarteknanna. Til þess að gengislækkun nú geti talizt samrýmanleg stefnu Alþfl., verður að vera tryggt, að allt hafi áður verið gert til þess að tryggja þegnum þjóðfélagsins fulla atvinnu og tekið sé fyrir alla óeðlilega gróðamyndun, en án slíkra ráðstafana verður gengið heldur ekki tryggt, þó að það sé lækkað. Annars heldur gengislækkunarhjólið áfram að snúast einn hring á hverjum áratug, eins og dýrtíðarhjólið hélt í sífellu áfram að snúast á s.l. áratug.“

Þetta sagði hæstv. viðskmrh. 1950 að væri stefna Alþfl. En nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. viðskmrh.: Hver er nú stefna Alþfl. til gengisfellingarinnar? Er stefna Alþfl. mótuð í frv. til l. um efnahagsráðstafanir? Hæstv. viðskmrh. gerði mjög athyglisverða játningu s.l. föstudag. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það væri alveg rétt, sem Þjóðviljinn hefði haldið fram undanfarin ár, að Alþfl. og Framsfl. eða réttara sagt ráðh. þessara flokka hefðu þegar haustið 1956 viljað framkvæma gengislækkun. Og ég sé enga ástæðu til að þegja yfir því lengur, að þetta er rétt, sagði hæstv. ráðherra. Ráðherrann viðurkennir, að það hafi verið ráðherrar Alþb., sem hefðu afstýrt því, að gengislækkun væri þá framkvæmd. Það er ágætt út af fyrir sig, að þessi yfirlýsing ráðh. skyldi koma fram. En í fjögur ár hefur hæstv. ráðh. þagað, og blað hans, Alþýðublaðið, og flokksmenn hafa margsinnis þrætt fyrir, að Alþfl. hafi nokkurn tíma viljað gengisfellingu. M.ö.o.: Alþfl. hefur sagt þjóðinni ósatt. Hann hefur logið um stefnu sína til gengisfellingarinnar. Kjósendur hafa verið herfllega blekktir.

Það er ekki í fyrsta skipti, sem gengi íslenzkrar krónu er fellt. 1939, 1942 og 1950 var framkvæmd gengisfelling. Allar þessar þrjár gengisfellingar höfðu eitt og sama takmark. Það var að ráðast á lífskjör launastéttanna og þá fyrst og fremst á lífskjör þess fólks, sem lægstar hefur tekjurnar og flesta að fæða og klæða. Frá því fyrsta, að til urðu á Íslandi verkalýðssamtök, og fram á þennan dag hefur auðstéttin á Íslandi átt í harðri baráttu við verkalýðssamtökin. Í hvert einasta skipti, sem þau hafa knúið fram hagsbætur til handa meðlimum sínum, hafa málgögn afturhaldsins úthrópað verkalýðssamtökin og talað um, að kröfur þeirra til hærri launa, styttri vinnutíma og annarra aukinna réttinda væru ósanngjarnar og stefndu að upplausn þjóðfélagsins.

Í hvert skipti, sem verkalýðssamtökin hafa náð fram kjarabótum, hefur flest verið gert af hálfu atvinnurekenda og ríkisvalds til þess að ná því aftur, sem áunnizt hafði. Stórfelldustu aðgerðir í þessa átt er gengisfellingin 1950. 1950 var framkvæmd gengisfelling. Þá var sagt, að slík aðgerð mundi þýða 10–11% verðhækkun, en staðreyndirnar sýndu, að í árslok 1950 höfðu vísitöluvörurnar hækkað um 27%. Nú segja hinir vísu hagfræðingar og hæstv. ráðh., að sú gengisfelling, sem nú á að framkvæma, muni þýða 13–14% kjararýrnun. Þegar hafðar eru í huga afleiðingar gengisfellingarinnar 1950, hlýtur maður að taka þessar tölur hagfræðinganna nú með mikilli tortryggni, og margt bendir til þess, að kjaraskerðingin af gengisfellingunni verði miklu meiri.

Í sambandi við fullyrðingu hagfræðinganna og hæstv. ríkisstj., að gengisfellingin muni ekki þýða nema 13% kjararýrnun, er rétt að benda á, að ekki virðist vera reiknað með þeirri hækkun, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða í sambandi við hina fyrirhuguðu tollahækkun og vaxtahækkun. Ekkert verður um það sagt, hve miklu þetta nemur til áhrifa á vísitöluna og til hækkunar á verðlaginu. Fullvíst má þó telja, að hin nýja tollahækkun og fyrirhuguð vaxtahækkun muni nema mörgum prósentum til viðbótar hækkuninni. Auk þess er ég þess fullviss, að hækkun á verðlaginu vegna gengisfellingarinnar verði miklu meiri en 13%. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að allir útreikningar um slík mál undir líkum kringumstæðum og nú fá á engan hátt staðizt. Það er hin mesta blekking að leyfa sér í trássi við allar staðreyndir að halda því fram, að kjaraskerðingin nú muni ekki verða nema 13%. Sannleikurinn er sá, að flestar tölur um þetta eru að mestu áætlaðar tölur og aðeins settar fram í því eina og sama skyni, til áróðurs.

Þá er það mjög athyglisvert, hvað hagfræðingarnir og þáv. ríkisstj., þ.e.a.s. 1950, sögðu um fiskverðið til sjómannanna. Þeir héldu því þá fram, að það mundi hækka úr 75 aurum í 93 aura. Staðreyndirnar segja, að fiskverðið hækkaði ekki um einn einasta eyri á þessu tímabili.

Gengislækkunarmennirnir frá 1950 boðuðu almenna hagsæld og öryggi og atvinnu. En árin 1951 og 1952 voru mjög mikil atvinnuleysisár, svo að til stórvandræða horfði. Íbúðarhúsabyggingar stórminnkuðu. Næstu ár var mikill samdráttur í öllum byggingariðnaði landsmanna. Fiskiskipastóll landsmanna dróst saman. Það var fyrst í tíð vinstri stjórnarinnar, að úr þessu var reynt að bæta. Þá var hafið mikið átak í húsnæðismálunum, þá voru byggð mörg hundruð nýrra íbúða árlega. Sérstaklega er það eftirtektarvert, hve aukningin var mikil úti um allt land. Á dögum vinstri stjórnarinnar var hafið myndarlegt átak í aukningu fiskiskipastóls landsmanna. Með þessum aðgerðum var bætt fyrir margra ára vanrækslu gengislækkunarmannanna frá 1950.

Þannig urðu áhrif gengislækkunarinnar frá 1950 þveröfug við það, sem hinir vísu hagfræðingar þá og þáv. ríkisstj. höfðu haldið fram, og svo gersamlega brást þessi aðgerð í efnahagsmálunum, að taka varð upp bátagjaldeyriskerfið og önnur hliðstæð styrktarkerfi hvert á fætur öðru. Þessar staðreyndir eru allt annað en meðmæli með þeim aðgerðum, sem nú eru fyrirhugaðar í efnahagsmálum okkar, og í raun og veru ættu þær að vera nægjanlega ljósar, til þess að menn forðuðust að lenda í sama foraðinu nú og þá.

Í 23. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, er sagt, að óheimilt sé að ákveða um kaup, laun, þóknun, ákvæðisvinnutaxta eða nokkuð annað endurgjald fyrir unnin störf, að þau skuli fylgja breyt. á vísitölu á einn eða annan hátt. Þetta ákvæði skal taka til allra kjarasamninga stéttarfélaganna. Ákvæði í samningum um kaup og kjör, gerðum fyrir gildistöku laganna, um greiðslu verðlagsuppbótar samkv. vísitölu verða ógild, er lög þessi taka gildi.

En það er ekki í fyrsta sinn, sem ríkisvaldið grípur inn í gerða samninga milli stéttarfélaga og vinnuveitenda. Hér er þó gengið lengra og á ósvífnari hátt á rétt launastéttanna en nokkru sinni fyrr. Ég tel, að þetta eina ákvæði frv. út af fyrir sig sé nægjanlegt til þess, að samtök verkafólks og annarra launastétta geti ekki unað við og hljóti að gera gagnráðstafanir.

Því er haldið fram í grg. frv., að reynslan hafi sýnt, að það vísitölukerfi, sem í gildi hefur verið síðan í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari, hafi ekki verið til neinna verulegra hagsbóta fyrir launastéttirnar. Hér er staðreyndunum algerlega snúið við. Þrátt fyrir ýmsa galla á vísitölunni og þá fyrst og fremst vegna síendurtekinna tilrauna ríkisvaldsins í þá átt að falsa vísitöluna hefur vísitölukerfið verið eina öryggið fyrir launastéttirnar til að hamla á móti vaxandi dýrtíð. Nú er lagt til í þessu frv. að vinna það níðingsverk á launastéttunum að banna með lögum að greiða vísitölu á kaup, sem allt frá 1942 hefur verið vörn verkafólksins og annarra launþega gegn síendurteknum verðbólguráðstöfunum ríkisvalds og yfirstéttar.

Það, sem veldur þó manni mestri furðu, er afstaða Alþfl. til þessa máls. Sú var þó tíðin, að Alþfl. beitti sér fyrir vísitölukerfinu og taldi það til mikilla hagsbóta fyrir launastéttirnar. Í umræðum, sem fram fóru á Alþ. um gengislækkunarlögin 1950, sagði hæstv. núv. viðskmrh. um fyrirhugaða breyt. á útreikningi vísitölunnar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég kem þá að 4. gr., sem verður að teljast ein hin mikilvægasta í frv. og fjallar um breyt. á útreikningi vísitölunnar. Breytingin á að vera í því fólgin að stækka þátt kjöts og húsaleigu í vísitölunni. En ekki er vikið að því einu orði, að þessi breyt. á grundvelli vísitölunnar skipti minnstu máli eða að þetta hafi í för með sér, að vísitalan hækki minna en hingað til. Þetta er mjög ámælisvert,“ segir ráðherrann. „Það skiptir mjög miklu máli fyrir alla launþega landsins, hvernig vísitalan breytist. Samkv. lauslegri athugun hefur þessi breyting á vísitölugrundvellinum það í för með sér, að hækkun vísitölunnar verður 1/3 minni á eftir.“

Og síðar segir:

„Ég tel óviðeigandi að skýra ekki frá þessu og draga þannig fjöður yfir það, sem rétt er.“ Og núv. hæstv. ráðh. heldur áfram og segir: „Það hlýtur að verða krafa launþeganna og samtaka þeirra, að hætt verði við þessa lúmsku breytingu á vísitölugrundvellinum, sem mundi lækka hana um 15–17 stig, miðað við gömlu vísitöluna. Ég legg því til, að þessi gr. falli niður.“

Þetta var álit hæstv: ráðh., Gylfa Þ. Gíslasonar, þá, á gildi vísitölunnar fyrir launþegasamtökin. Og hann var ekki einn um þá skoðun. Stefán Jóh. Stefánsson, þáv. þm. Alþfl., átaldi harðlega allar tilraunir í þá átt að falsa vísitöluna. Hann taldi vísitöluna vera stórhagsmunamál launþegasamtakanna. En nú beitir hæstv. ráðh. sér fyrir algeru afnámi vísitölunnar á öll laun. Nú er ekki talað um 1/3, heldur bara afnám vísitölunnar, bara útþurrkun hennar í eitt skipti fyrir öll og að gera þar með að engu ákvæði kjarasamninga verkalýðsfélaganna um greiðslu vísitöluuppbótar á kaup. Það verður ekki sagt um þennan hæstv. ráðh., að hann sé ekki snúningslipur fyrir auðvaldið á Íslandi. Maður er farinn að venjast mörgu og ýmsu af forustumönnum Alþfl. nú á síðari árum, en ég held, að hér sé lengra gengið á braut árása á lífskjör allra launastétta en nokkurn mann úr verkalýðsstétt hafi órað fyrir. Og það er merkilegt, að það skuli einmitt vera þingmenn Alþfl., þessa gamla baráttuflokks alþýðunnar á Íslandi til margra ára, sem ganga fram fyrir skjöldu í því að koma þessu ófremdarástandi á. Ég er ekki eins hissa á því, þó að Sjálfstfl, beiti sér fyrir því, hann er þó fyrst og fremst flokkur auðmannastéttarinnar á Íslandi, en hingað til hefur Alþfl. ekki viljað telja sig vera umboðsflokk þeirrar stéttar, heldur þveröfugt.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er grunnkaupshækkun ekki beinlínís bönnuð, en í grg. segir, að ríkisstj. muni beita sér gegn því, að kaup verði hækkað. Hér er ekki verið að fara í neina launkofa með það, hver sé stefna hæstv. ríkisstj. í launa- og kjaramálum. Ef þetta frv. verður að lögum, mun allt verðlag í landinu stórlega hækka, eða um allt að því kannske 20–30%. Jafnhliða þessu á svo að afnema alla vísitölu á kaup, eins og ég hef áður bent á. Með þessum ráðstöfunum verður hleypt af stað hreinu og beinu verðbólguæði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, og til að undirstrika og staðfesta þessar æðisgengnu árásir á lífskjörin lýsir hæstv. ríkisstj, því yfir, að hún muni beita sér á móti öllum kauphækkunum. Með slíkum aðferðum er stefnt markvisst að því, að laun verkafólks á Íslandi verði miklum mun lægri en laun verkafólks í nálægum löndum. Með einu pennastriki á að eyðileggja margra ára baráttu verkalýðssamtakanna og færa lífskjör launafólksins niður á hreint nýlendustig, jafnvel niður fyrir laun, sem svertingjar í SuðurAmeríku hafa nú.

Heldur nú hæstv. ríkisstj., að verkalýðssamtökin taki við þessum ráðstöfunum möglunarlaust, eða eru þeir menn, sem að þessum aðgerðum standa, hættir að reikna með verkalýðssamtökunum? Ég skal ekkert fullyrða um það, hvað kann að gerast í þessum málum af hendi verkalýðssamtakanna. En benda má á þá staðreynd, að hingað til hafa þau af fremsta megni reynt að verja hagsmuni meðlima sinna fyrir síendurteknum árásum ríkisvalds og atvinnurekenda, og ekkert bendir til þess, að þau verði ekki þeirri stefnu sinni trú hér eftir sem hingað til.

Það, sem er þó máske langalvarlegast við þetta frv., er það, að með því er stefnt að því að koma á atvinnuleysi í landinu. Gert er ráð fyrir því, að bankarnir takmarki mjög útlánastarfsemi sína, sem þýðir beinlínis samdrátt í öllu atvinnulífi landsmanna. Takmarka skal endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum við það stig, sem þau eru nú komin á. M.ö.o.: það á ekki að kaupa afurðavíxla fyrir hærri upphæð en gert var á s.l. ári, t.d. út á sjávarafurðir. Til þess nú að undirstrika þetta enn frekar er sagt, að ríkisstj. muni beita sér fyrir því, að nokkur hluti innlánsaukningar hjá bönkum og sparisjóðum, þ. á m. innlánsdeildum kaupfélaganna, verði bundinn í Seðlabankanum í Reykjavík. Allt skal til Reykjavíkur.

Með slíkum aðferðum sem hér um ræðir er ráðizt allharkalega gegn hagsmunum þess fólks, sem búsett er utan Reykjavíkur. Þeir sparisjóðir, sem til eru í hinum ýmsu bæjum og kauptúnum víðs vegar um land, eru máske þær einu lánastofnanir, sem það fólk, sem þar á heima, hefur aðgang að. En með þessum ráðstöfunum verða lánsmöguleikar sparisjóðanna stórlega rýrðir, sem aftur á móti mun hafa í för með sér stórfelldan samdrátt í atvinnulífi viðkomandi staðar og mundi t.d. stórlega draga úr byggingum íbúðarhúsnæðis úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Sama má að nokkru leyti segja um innlánsdeildir kaupfélaganna. Meðlimir kaupfélaganna leggja þar inn sparifé sitt og fá af því hærri vexti en hjá bönkum og sparisjóðum. Kaupfélögin nota svo þessar innstæður meðlima sinna til vörukaupa. Þessi viðskipti hafa verið talin hagstæð fyrir báða aðila, meðlimi kaupfélaganna og félögin, og verið látin óátalin hingað til af ríkisvaldinu. Ég fæ ekki betur séð en með þessari nýju ákvörðun, ef að lögum verður, sé verið að ráðast á kaupfélögin og gera hlut þeirra stórum verri en nú er. En með því að ráðast þannig að kaupfélögunum er fyrst og fremst verið að ráðast á hagsmuni hvers einasta meðlims þeirra.

Þá er gert ráð fyrir, að allir bankavextir verði stórlega hækkaðir. Til þess að allt fari að lögum, er ætlun ríkisstjórnarinnar að láta nema úr gildi lög um bann við okrí. Þar með fær ríkisstj. og bankarnir óskorað vald til að hækka bankavexti eftir eigin geðþótta. Það verður tæplega um það deilt, að stórkostleg hækkun bankavaxta hlýtur að draga úr öllum verklegum framkvæmdum. Sérstaklega mun slik ráðstöfun verða til þess að draga úr og torvelda allar byggingarframkvæmdir í landinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mikill fjöldi af efnalitlu fólki hefur ráðizt í það að byggja sér hús og lagt á sig alveg ótrúlega mikið erfiði við slíkar framkvæmdir. Með þeim ráðstöfunum, sem fyrirhugað er að koma í framkvæmd í peningamálum samkv. þessu frv., er útilokað, að efnalaust eða efnalítið fólk geti byggt sér íbúðarhús, sem aftur á móti mundi þýða stórkostleg húsnæðisvandræði um allt land, en þó hvergi meiri en hér í Reykjavik.

Þannig er markvisst stefnt að því að koma hér á alræði peningavaldsins með þeim afleiðingum, að hér hlýtur að myndast atvinnuleysi, örbirgð og fátækt. Á sama tíma eru svo auðmönnum og auðfélögum opnaðir margs konar möguleikar til aukins gróða og vaxandi arðráns af allri alþýðu manna.

Samkv. hinu nýja fjárlagafrv. er lagt til, að varið verði til verklegra framkvæmda svo að segja sömu upphæð í krónum og í síðustu fjárlögum. Hér er því um stórfellda lækkun á verklegum framkvæmdum að ræða, þar sem vitað er, að allur kostnaður við framkvæmdirnar muni stórhækka vegna fyrirhugaðra verðhækkana, sem koma til með að stafa af gengislækkun, tollahækkunum og vaxtahækkunum. Samdráttur á verklegum framkvæmdum hins opinbera er því bein árás á lífskjör þess fólks, sem starfað hefur á vegum hins opinbera að slíkum framkvæmdum.

Minnkandi atvinna og stórminnkandi kaupgeta, þetta er því alvarlegra, þegar það er haft í huga, að í mörgum sjávarþorpum er þetta aðalvinna fjölmargra manna, sem þar eru búsettir, auk þess sem fjölmargir bændur hafa getað notað sér þessa vinnu og aukið þar með tekjur búa sinna.

Þannig er sama, hvert litið er. Öll ákvæði þessa frv. svo og fjárlagafrv. stefna að einu og sama marki, þ.e. að stórrýra lífskjörin og koma á atvinnuleysi, þ.e. að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari.

Ég vil minnast örlítið á fiskverðið til sjómannanna. Fiskverð til sjómanna skal vera óbreytt, eins og það var í febrúar 1959, þar til nýir samningar hafa verið gerðir, eins og segir í frv. Gildir það jafnt um fiskverð hjá bátasjómönnum sem togarasjómönnum. Með þessu ákvæði er fyrir það girt, að sjómenn verði aðnjótandi þeirrar hækkunar á fiskverði, sem af gengisfellingunni kann að stafa, heldur skal sú hækkun renna óskipt til frystihúsanna, eftir því sem bezt verður séð. Það er mjög athyglisvert, að kjör togarasjómannanna eru svo slæm, að erfiðlega gengur að fá sjómenn á skipin. Útgerðarmenn hafa lengi vel getað fengið Færeyinga á skipin, en nú verður sú leið lokuð, m.a. og aðallega fyrir það, hvað laun togarasjómanna eru léleg. Það virðist ekki hafa hvarflað að hæstv. ríkisstj., að úr þessu þurfi að bæta. Jafnvel blöð hæstv. ríkisstj. gerðu hróp að samninganefnd færeyska sjómannasambandsins fyrir kröfur þær, sem það setti fram við Landssamband ísl. útvegsmanna fyrir hönd meðlima sinna. En þær kröfur voru, eftir því sem bezt er vitað, það sem Norðmenn, Þjóðverjar og Englendingar greiða færeyskum sjómönnum, ef þeir ráðast á skip frá þeim löndum. Þetta sýnir okkur, hve kjör togarasjómanna okkar eru léleg og hve mikil nauðsyn það er, að úr því verði bætt, en hæstv. ríkisstj. virðist vera þar á allt öðru máli.

Eitt af bjargráðum hæstv. ríkisstj. er fyrirhuguð stór lántaka, að upphæð um 800 millj. kr. , eða hærri en allar erlendar skuldir Íslendinga. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að öllu þessu stórláni skuli varið til vörukaupa, eins og það er orðað, til að gera vöruúrvalið fjölbreyttara, m.ö.o.: eyðslulán til kaupa á almennum neyzluvörum og lúxus og óþarfa varningi.

Það er ekki úr vegi að minna á, að meðan vinstri stjórnin sat að völdum, skammaði Sjálfstfl. hana ekki fyrir neitt jafnmikið og erlendar lántökur. Það átti að vera pólitískur glæpur að taka erlend lán, jafnvel til kaupa á framleiðslutækjum, sem á mjög skömmum tíma mundu þó í útflutningsverðmæti standa skil á öllum þeim gjaldeyri, sem þurfti til þess að kaupa viðkomandi tæki. Sagði íhaldið, að með slíkri ráðstöfun væri öllu stefnt í beinan voða. Nú er blaðinu algerlega snúið við. Nú á að taka stórlán til almennrar eyðslu, því að fyrir þetta lán á ekki að kaupa framleiðslutæki, sem mundu auka gjaldeyrisframleiðsluna. Og í þessu sambandi er rétt að benda á, að ef þessu væntanlega stórláni yrði skynsamlega varið, væri hægt að byggja t.d. nýja Sogsvirkjun, nýja áburðarverksmiðju og endurnýja að miklu leyti allan togaraflota landsmanna: En þessu láni á ekki að verja til slíkra hluta, heldur skal því varið til að kaupa alls konar vöruskran. Hver getur skilið svona pólitík? Er þessi ráðstöfun til hagsbóta fyrir þjóðfélagið? Ég held það verði fáir, sem svara því játandi, að svo sé.

Að sjálfsögðu verðum við að haga innkaupum okkar erlendis frá á almennum neyzlu- og lúxusvarningi eftir því, sem efni okkar leyfa á hverjum tíma, en ekki fara að kröfum nokkurra stórheildsala hér í Reykjavík. Það er því algerlega óhæf ráðstöfun að taka 800 millj. kr. lán eða hærra lán en allar erlendar skuldir ríkisins eru nú og verja því til kaupa á miður nauðsynlegum varningi. Slík ráðstöfun er hreinn pólitískur afglapaháttur, sem áreiðanlega á eftir að hefna sin geipilega.

Þannig er sama, hvert lítið er. Öll ákvæði þessa frv. svo og fjárlagafrv. stefna að einu og sama marki, þ.e. að stórrýra lífskjörin og koma á atvinnuleysi, að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi og verstu tegund af blekkingum, þegar hæstv. ráðh. leyfa sér að halda því fram, að þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar eru, muni ekki rýra lífskjörin nema sem svarar 3% frá því, sem þau eru nú, og að hjá þeim, sem hafa stærstar fjölskyldur, muni ekki vera um neina kjararýrnun að ræða. Það er engum vafa undirorpið, að verði þetta frv. að lögum, þýðir það meiri kjaraskerðingu og verri lífskjör en áður hefur þekkzt hér á landi. Það má benda á, að sumar erlendar vörutegundir muni hækka um frá 40 allt upp í 80% frá því, sem nú er. Innlendar vörur, svo sem landbúnaðarvörur, munu hækka um 11–12%, allar byggingarvörur koma til með að hækka um 20–30% eða jafnvel meir. Og þessa hluti alla ætla þeir menn og flokkar að framkvæma, sem höfðu að kjörorði við kosningarnar í haust „algera stöðvun dýrtíðarinnar og bætt lífskjör“. „Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstfl.“, var kjörorð Sjálfstfl. „Við höfum stöðvað verðbólguna,“ hrópuðu frambjóðendur Alþfl. á öllum framboðsfundum. Ég fullyrði, að aldrei hafa nokkrir stjórnmálaflokkar á Íslandi framið jafnaugljós og stórfelld svik gagnvart öllum almenningi og nú er stefnt að hjá stjórnarflokkunum með fyrirhuguðum efnahagsráðstöfunum. Og til að kóróna þennan þokkaverknað á svo að banna með lögum vísitöluuppbætur á allt kaup og svipta þar með launastéttirnar því eina öryggi, sem þær hafa haft í 18 ár til að hamla upp á móti verðbólgunni. Nú skal verðbólgan með öllum sínum þunga skella á fólkinu, án þess að nokkrar breytingar verði á launum þess til hækkunar, hve mikil sem dýrtíðin kann að verða.

Mér er nær að halda, að hæstv. ríkisstjórn geri sér ekki ljósar þær alvarlegu afleiðingar, sem fyrirhugaðar ráðstafanir koma til með að hafa á lífsafkomu alls almennings. Ríkisstjórninni hlýtur að vera það ljóst, að verkalýðsfélögin eiga eftir að segja sitt álit á þessum málum. Hvað þau koma til með að gera, veit enginn nú. Flest hafa verkalýðsfélögin lausa samninga og geta því hvenær sem er sett fram nýjar gagnkröfur og hafið samninga við atvinnurekendur. Ef hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að beita sér á móti öllum kaupkröfum, eins og hótað er í grg. fyrir þessu frv., getur svo farið, að verkalýðsfélögin sjái sig neydd til frekari aðgerða. Um þetta skal þó ekkert fullyrt, þetta er mál verkalýðsfélaganna. Það er þeirra að: velja og hafna. Hitt tel ég mér þó skylt, að vara hæstv. ríkisstjórn við þeim afleiðingum, sem það kann að hafa, ef það frv., sem hér liggur fyrir, verður gert að lögum. Með því hefur hæstv. ríkisstj. kastað hanzkanum framan í verkalýðssamtökin. Mætti þá svo fara, að hún fengi hann til baka og þá ekki með minni krafti en hún sendi þeim hann. Eitt er staðreynd, verkalýðshreyfingin á Íslandi er voldug og sterk, verkalýðssamtökin hafa aldrei tekið á móti árásum ríkisvaldsins né atvinnurekenda þegjandi, og það er því engin ástæða til að halda, að þau taki þessum stórfelldu árásum með þögn og þolinmæði. Hitt mun þó sanni nær, að þau, þ.e. verkalýðssamtökin, svari þessum — stórfelldu árásum á lífskjör alþýðunnar með viðeigandi gagnráðstöfunum. Ég tel mér alveg sérstaklega skylt að beina þessum orðum til hæstv. ríkisstjórnar, vegna þess að það má öllum ljóst vera, að það mundi horfa til mikilla vandræða fyrir alla íbúa þessa lands, ef til stórátaka þyrfti að koma við verkalýðssamtökin í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem hér liggja fyrir og lagt er til af hæstv. ríkisstj. að verði gerðar að lögum. Og ég á bágt með að trúa því, að hæstv. ríkisstjórn sé svo blind og haldin því ofstæki, að hún athugi ekki þessi mál nánar, áður en hún beitir meirihlutavaldi hér á Alþingi til þess að knýja þessar ráðstafanir í gegn.