16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

48. mál, efnahagsmál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hafði nú í rauninni ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., heldur gera nánari grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í heild við 2. umr. En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er sú, að ég tel ástæðu til þess að leiðrétta nokkrar missagnir, sem ég tel hafa komið fram í ræðum þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað.

Það virðist hafa tekizt að gera það að eins konar trúarjátningu hjá ýmsum launþegum, að gengisbreyting hljóti alltaf að breyta skiptingu þjóðarteknanna þeim í óhag. Ég tel, að hér sé um fullkomna bábilju að ræða. Í fyrsta lagi er það nú þannig, sem ekki ætti að vera ágreiningur um, að gengislækkun ein út af fyrir sig getur ekki skert hag þjóðarheildarinnar. Þjóðartekjurnar minnka ekki af þeirri ástæðu, þannig að þjóðin sem heild býr við sömu lífskjör og áður. Það, sem skeður, þegar genginu er breytt, er aðeins þetta, að verðhlutfallið á milli erlends og innlends verðlags breytist. En breytingin á þessum verðhlutföllum minnkar auðvitað ekki þjóðartekjurnar. Ef það væri þannig, að þetta ætti að breyta skiptingu þjóðarteknanna launþegunum í óhag, þá yrðu rökin fyrir því þau, að laumþegar eða verkamenn verji tiltölulega meiri hluta af sínum tekjum til kaupa á erlendu heldur en aðrir þjóðfélagsþegnar. Ég hef aldrei séð borin fram nein skynsamleg rök fyrir þessu, enda virðist mér allt benda til, að líkurnar séu fyrir hinu gagnstæða. Það eru ekki verkamenn t.d., sem eru í siglingum til annarra landa, né verkamenn, sem eiga einkabila o.s.frv. Ég tel miklu meiri líkur á því, miðað við okkar aðstæður, að einmitt eftir því sem tekjurnar eru hærri, sé tiltölulega meira af þeim varið til kaupa á erlendu heldur en ef tekjurnar eru lægri, þannig að gengisbreytingin út af fyrir sig ætti frekar að breyta skiptingu þjóðarteknanna verkamönnum í hag en hið gagnstæða.

En nú er það fleira en gengisbreyting, sem hér er um að ræða, og ég vil ekki draga neina dul á það, eins og komið hefur fram einnig í ræðum hæstv. ráðh., að þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, skerða nokkuð lífskjör þjóðarinnar í heild. Það er ekki gengisbreytingin út af fyrir sig, sem veldur því, heldur annað, og þetta annað er það, að nú á að gera ráðstafanir til þess að afnema greiðsluhallann við útlönd. Það þýðir, að það fé, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar, eins og oftar en einu sinni hefur komið fram í ræðum hæstv. viðskmrh., sem ég hef hlustað á, kemur til að minnka um 150–200 millj. eða sem nemur 3–4% af þjóðartekjunum. Það er þarna, sem skorið er af kökunni, og í þessu, sem hin raunverulega kjaraskerðing liggur.

Um það má auðvitað deila, hvort þessi kjaraskerðing sé nauðsynleg. Það verður komið undir skoðunum manna á því, hvort unnt sé að halda áfram á þeirri braut, sem hingað til hefur verið farin, að taka meiri erlend lán. Ég vil í þessu sambandi minnast á, að það er algerlega villandi að mínu áliti, þegar hv. 9. þm.. Reykv. (AGl) vitnaði í þessu sambandi í grein eftir dr. Benjamín Eiríksson. Það, sem dr. Benjamín benti á í þeirri grein, var, að hann teldi, að greiðslubyrðin gagnvart útlöndum, sem nam 5.7% af þjóðartekjunum árið 1958, væri þjóðinni í rauninni ekki þungbærari en greiðslubyrðin hefði verið árið 1951, en þá var hún 2–3%, og þau rök, sem hann færði fyrir þessu, voru þau, að við værum nú miklu betur búnir að framleiðslutækjum en þá var. Um þetta atriði má auðvitað deila, og má vel vera, að dr. Benjamín hafi rétt fyrir sér í þessu efni. En það er bara ekki þetta, sem máli skiptir, heldur hitt, að greiðslubyrðin nú, tveimur árum eftir 1958, er rúmlega 10%, og sýnt, að hún yrði rúmlega 11% á næsta ári og hlýtur að fara stöðugt vaxandi á næstu árum, ef haldið verður áfram á sömu braut. Það er þetta, sem er aðalatriðið, og þeir, sem í vafa kunna að vera um afstöðu dr. Benjamíns til þessara mála í heild, hefðu átt að hlusta á ræðu þá, sem hann flutti á fundi Stúdentafélagsins s.l. sunnudag, en þar dró hann enga dul á það, að hann er sammála meginþorra íslenzkra hagfræðinga um, að einmitt þau greiðsluvandræði, sem nú er við að etja, ásamt fleiru geri þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, óhjákvæmilegar.

Hv. 4. þm.. Vestf. (SE) flutti hér langa ræðu og gagnrýndi ýmislegt í frv. því, sem fyrir liggur, og reyndi eftir föngum að rökstyðja mál sitt með tölum, sem út af fyrir sig er virðingarvert. En ég get ekki gert að því, að þegar ég hlustaði á mál þessa hv. þm.., þá kom mér í hug saga, sem einn ágætur framsóknarmaður sagði mér fyrir nokkru, frá stjórnmálanámskeiði fyrir unga framsóknarmenn, þar sem einn mikilhæfur leiðtogi Framsfl, var að kenna þessum ungu mönnum listir stjórnmálanna. Hann hafði eitthvað látið að því liggja, eða þannig skildu sumir ungu mannanna það, að á vettvangi stjórnmálanna gæti stundum verið nauðsynlegt að halla réttu máli. Þá stóð upp einn þessara ungu manna og sagði: Þér kennið okkur það, að ósannindi og blekkingar séu vopn, sem beita verði á vettvangi stjórnmálanna! — Þá sagði þessi mikilhæfi leiðtogi framsóknarmanna: Mikill misskilningur, ungi maður, auðvitað á maður að segja sannleikann. En það er ekki alltaf nauðsynlegt eða rétt að segja allan sannleikann. Það er stundum nóg að segja hálfan sannleikann. — Og ég verð að segja, að mér fannst sumt af þeim tölum, sem hv. þm.. nefndi, einmitt vera þessu marki brennt, að það var aðeins hálfur sannleikurinn. Í því sambandi vil ég nefna, þegar hann var að áætla um þær verðhækkanir, sem stafa mundu af þessu frv. Það mundu ýmsar vörur hækka í innkaupi um 40–50%, sagði hann, og jafnvel meira. Þetta er alveg rétt, svo langt sem það nær. Þær vörur, sem fluttar eru inn með 55% yfirfærslugjaldinu, en það er það gengi, sem nú er algengast, koma til með að hækka í kringum 55% í innkaupsverði. En þetta gefur bara ekki rétta mynd af þeim verðhækkunum, sem af þessu verða, heldur ofmetur þær stórlega, og það er vegna þess, að innkaupsverðið er ekki nema nokkur hluti af útsöluverði varanna hér. Því miður höfum við ekki nákvæmar upplýsingar um það, hve miklu þessi hluti nemur, en ég man, að hagfræðinganefnd, sem ég átti sæti í og skipuð var af stjórnmálaflokkunum haustið 1946, birti í sinni álitsgerð upplýsingar um þetta frá verðlagsskrifstofunni. Þessar upplýsingar eru að vísu orðnar gamlar, en ekkert liggur fyrir um það, að þau hlutföll, sem þarna er reiknað með, hafi verulega raskazt. Samkvæmt þeim var innkaupsverð erlendra vara upp og ofan þriðjungur af útsöluverði þeirra, svo að það er auðsætt, að þar sem einmitt er nú gert ráð fyrir, að innlendur kostnaður, álagning og þess háttar, haldist óbreyttur að krónutölu, þá verði verðhækkunin ekki svo mikil sem innkaupsverðinu nemur. Það er að vísu rangt að deila með þremur í 50, jafnvel þó að við gengjum út frá þessum hlutföllum óbreyttum, því að tollar koma vitanlega til að hækka að krónutali, þannig að verðhækkunin verður nokkru meiri en því nemur. En ég hef ekki séð það vefengt með rökum, þegar því er haldið fram í grg. hæstv. ríkisstj., að verðhækkunin á erlendum vörum sem afleiðing af gengislækkuninni muni verða um 25%. Og tvennt er það, sem benda má á í því sambandi, sem bendir til þess, að þær áætlanir, sem hér eru gerðar, ofmeti verðhækkanirnar heldur en jafnvel að þær vanmeti þær. Annað er það, að gert er ráð fyrir því, að viðskiptin gagnvart útlöndum verði nú miklu frjálsari en þau áður hafa verið. Þetta ætti að skapa möguleika á því, að innkaupsverð vara lækki í erlendum gjaldeyri frá því, sem nú er. Það skapar innflytjendum meiri möguleika á hagstæðum innkaupum heldur en nú hafa verið fyrir hendi, þar sem gjaldeyrisskorturinn hefur verið svo mikill. Það skal að vísu tekið fram, að það má gera ráð fyrir því, að þessa gæti meira hvað snertir vörur, sem teljast ekki til brýnna nauðsynja. Það kemur fólki samt til góða, þó að það komi e.t.v. ekki verulega fram í vísitölunni, því að almenningur kaupir nú þessar vörur eftir sem áður. Annað atriði, sem ég tel að máli skipti í þessu sambandi og bendir til þess, að verðhækkunin þurfi ekki að verða svo mikil sem ráð er fyrir gert, er sú staðreynd, að þegar þessir útreikningar eru gerðir, er gengið út frá óbreyttum neyzluvenjum og að menn kaupi sama magn af erlendri vöru og þeir hafa áður gert. En nú er það, sem skeður, að verðhlutföllin á milli erlends og innlends verðlags breytast, þannig að erlendu vörurnar verða tiltölulega dýrari. Þetta skapar fólki möguleika á því að nota meira innlent að tiltölu en það áður hefur gert, og má í þessu sambandi sérstaklega benda á fullunnar iðnaðarvörur. Íslenzkar iðnaðarvörur koma ekki til með að hækka til jafns við hinar erlendu, þannig að það væri hægt að spara útgjöld með því að kaupa þær í ríkari mæli en áður hefur verið.

Það var annað atriði í ræðu hv. 4. þm.. Vestf., sem ég einnig vildi árétta, nefnilega það, er hann ræddi um fjölskyldubæturnar. Hann sagði, að fjölskyldubætur hækkuðu lítið hvað snerti fjórða barn og börn, sem þar væru fram yfir. Ég hef að vísu tölurnar ekki fyrir mér, en vefengi ekki, að hv. þm.. fari rétt með þetta. En ef með þessu á að sýna þær bætur, sem barnafjölskyldurnar, sem eiga mörg börn, fá, þá er það ekki heldur nema hálfur sannleikur, því að þess er að gæta, að þessar barnmörgu fjölskyldur fá einnig hækkun fjölskyldubóta fyrir fyrri börnin, þannig að þær fá líka þessar 6600 kr., sem þriggja barna fjölskyldan fær.

Annað atriði, sem hefur komið fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, er það, að þeir halda því fram, að áhrif vaxtahækkunarinnar verði líka röskun á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu hinum fátækari og sérstaklega verkamönnum í óhag. Þetta tel ég algerlega rangt. Ég álit einmitt, að vaxtahækkunin hljóti að vera verkamönnum sem heild í hag og að nokkru bæta þeim þá kjaraskerðingu, sem þeir verða fyrir af öðrum ástæðum. Það má að vísu e.t.v. benda á einstaklinga, sem hafa lán með lausum vöxtum, einnig í verkamannastétt, sem þetta kann að koma illa við. En annars hefur því hingað til verið haldið fram og ekki sízt af þeim Alþb.-mönnum, sem út af fyrir sig er alveg rétt, að það eru yfirleitt ekki verkamenn, sem fá stór lán í bönkunum og hafa til umráða lánsfé þjóðarinnar, heldur eru það stærri atvinnurekendur og hinir efnameiri borgarar þjóðfélagsins, þannig að það verða þessir aðilar, sem koma til með að bera aðalþunga vaxtahækkunarinnar. Aftur á móti hvað snertir hina hliðina á vaxtahækkuninni, það að innlánsvextirnir vaxa, þá býst ég við, að það sé tiltölulega meira af innlánsfénu, sem efnalitla fólkið á, því að það er yfirleitt þannig með eignir þeirra, sem hafa lítil efni, að þær eru fyrst og fremst sparifé, en ef um meiri háttar eignir er að ræða, þá eru þær í hlutabréfum eða fasteignum eða öðru slíku. Auk þess má á það benda, að vaxtahækkunin ætti að þrýsta á álagninguna og geta orðið til þess að lækka vöruverðið, en hvað mikið, verður ekki sagt um. Bæði er það nú þannig, að það er skýrt tekið fram í grg., að tilætlunin er ekki sú, að vaxtahækkunin verði uppi borin í hærri álagningu, það verður ekki leyft, en við það bætist það, að þegar vextir eru orðnir talsvert hærri, þá verður dýrara að hafa vörubirgðir, þannig að kaupmenn og kaupfélög verða að losa sig við vörubirgðir sínar fyrr en ella, og leiðin til þess er ekki sú, jafnvel þó að þeim yrði leyft það, að velta vaxtahækkuninni yfir á vöruverðið, heldur einmitt að halda vöruverðinu svo lágu sem þeir telja að sé fært.

Það er auðvitað líka mikill misskilningur, að gengisbreytingin raski verulega hlutfallinu á milli launakjara íslenzkra og erlendra verkamanna. Það gerir hún ekki. Það, sem breytist vegna gengisbreytingarinnar, er aðeins það, að sá samanburðarmælíkvarði, sem í þessu efni hefur verið notaður, hefur hingað til verið rangur og algerlega villandi, en verður nú nokkurn veginn réttur. Það mátti t.d. reikna það út fyrir gengisbreytinguna, að íslenzkur verkamaður væri miklu betur launaður en danskur verkamaður, ef miðað væri við dönsku krónuna á hinu skráða gengi kr. 2.36. Vitanlega var þetta algerlega villandi, því að kaupmáttur danskrar krónu svarar ekki til kr. 2.36 á Íslandi, heldur 5 eða 6 ísl. kr. Þetta var tilfellið fyrir gengisfellinguna, og það raskast ekki sem neinu nemur við gengisbreytinguna. Við verðum að hafa það hugfast, að hið skráða gengi var algerlega óraunhæft, og mátti í rauninni líkja því við gamla fasteignamatið. Það hefði með svipuðum rökum mátt halda því fram, að þegar vinstri stjórnin lét breyta fasteignamatinu og fimmfalda það, sem var út af fyrir sig skynsamleg ráðstöfun, sem enginn hafði neitt við að athuga, og hefði sennilega átt að hækka það enn þá meira, þá hefði hún með þessari ráðstöfun verið að flytja stórkostlegan hluta af þjóðareigninni yfir á hendur fasteignaeigenda. En slíku hélt auðvitað enginn viti borinn maður fram. Ég varð auðvitað ekki einum eyri ríkari fyrir það, þó að fasteignamat á húsi mínu væri fimmfaldað.

Hv. 9. þm.. Reykv. vitnaði í kennslubók í hagfræði eftir mig, þar sem stendur, að gengislækkun sé varhugaverð, af því að hún geti haft verðbólguáhrif. Ég stend fyllilega við þetta. Það er vissulega alltaf hættan, sem gengislækkun fylgir, að hún eykur dýrtíðarhugarfarið, eins og það mætti orða. Út frá því sjónarmiði er önnur leið til samræmingar á innlendu og erlendu verðlagi, nefnilega hin svokallaða niðurfærsluleið, heppilegri. En ástæðan til þess, að sú leið hefur ekki verið valin nú og var ekki heldur valin 1950, var sú staðreynd, að það var hægt að sýna fram á það með rökum, sem hafa ekki verið vefengd af neinum, að niðurfærsluleiðin, ef hún ætti að koma að gagni, hlyti að hafa í för með sér þyngri byrðar, a.m.k. í bili, sérstaklega fyrir launafólk, heldur en gengislækkunarleiðin. Og ástæðan er sú, að ef maður ætti að færa innlenda verðlagið niður, þá kemur hin nauðsynlega kauplækkun fram strax, en vöruverðið kemur aðeins til með að lækka smám saman eða a.m.k. verulegur hluti af því. Aftur á móti ef það er gengislækkunarleiðin, sem er farin, þá koma verðhækkanirnar aðeins fram smám saman. En það er einmitt vegna þess, að bæði hagfræðingunum og hæstv. ríkisstj. var þetta vandamál ljóst, að gerðar voru sérstakar ráðstafanir til þess að hamla gegn verðþenslu, og má þar fyrst og fremst nefna vaxtahækkunina.

Það er líka dálítið villandi, og það er eitt dæmið um hálfan sannleikann, þegar hv. 9. þm.. Reykv. sagði, að það væri fjarri lagi að amast við því, þó að launþegar fengju vísitöluuppbót á laun, vegna þess að slíkar launahækkanir væru aldrei orsök verðbólgu, heldur aðeins afleiðing verðhækkana, sem hefðu orðið. Það er vitanlega út af fyrir síg rétt, að auðvitað kemur fyrsta launahækkunin eftir það, að dýrtíðarhækkunin hefur átt sér stað. En þessi saga er bara dálítið lengri, því að launahækkunin veldur nýrri hækkun á verðlaginu og svo koll af kolli, þannig að það er þessi vísitöluskrúfa, sem með þessu á að stöðva.

Því hefur verið haldið fram, að verðhækkunin af völdum gengislækkunarinnar verði engin 13%, heldur allt að því 30%. Auðvitað er þetta meira og minna úr lausu lofti gripið.

Það er annað atriði, sem hefur komið fram í þessu sambandi, sem ég vil gjarnan einmitt að gefnu tilefni hér í hv. d. leiðrétta. Það hefur hvað eftir annað verið sagt, að Ólafur Björnsson og dr. Benjamín Eiríksson hafi áætlað í grg. sinni fyrir gengislækkunarfrv. 1950, að verðhækkanir af völdum gengislækkunarinnar mundu verða í mesta lagi 13%, en reynslan sýndi, að verðhækkunin um næstu áramót var orðin ekki 13%, heldur 23% í des. og jafnvel 27% í jan. Þarna sjáið þið, hvernig þessir hagspekingar reikna og hvað það er að marka, er svo bætt við. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að að vísu var í grg. okkar fyrir gengislækkunarfrv. áætlun um það, hvað verðlagið mundi hækka vegna beinna áhrifa gengislækkunarinnar. Að vísu var sú áætlun ekki gerð af okkur, eins og kemur fram í grg., heldur var það byggt á áliti n., sem þá skömmu áður hafði setið á rökstólum og í áttu sæti Pétur heitinn Magnússon fyrrv. ráðh., núverandi hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason og Klemenz Tryggvason hagstofustjóri. Þeir höfðu gert áætlun um áhrif gengisbreytingar á verðlagið, og vegna þess að grundvöllurinn var óbreyttur, þá byggðum við á því. Við gerðum áætlun um þetta, hvað verðlagið mundi hækka mikið vegna beinna áhrifa gengislækkunarinnar. Hins vegar gerðum við aldrei áætlun um það og hefði aldrei dottið í hug að gera áætlun um það, hver vísitalan mundi verða þá um næstu áramót eða 10 mánuðum seinna. Út í það mundi enginn skynsamur maður fara. Það er sams konar munur á þessu eins og því að reikna annars vegar út, hvað kaffipakkinn muni hækka í verði vegna gengisbreytingarinnar, sem gerð hefur verið, sem er tiltölulega einfalt reikningsdæmi, ef maður þekkir innkaupsverð á kaffi o.s.frv., eða hins vegar að spá einhverju um það, hvað kaffið muni kosta t.d. 1. júlí n.k. Hvað kaffiverðið verður þá, það er ekki eingöngu háð þeirri gengisbreytingu, sem kann að hafa verið gerð, heldur kaffiuppskerunni í Brasilíu á þessum vetri og ýmsum öðrum meira eða minna ófyrirsjáanlegum atvikum. Og meginástæðan til þess, að verðhækkunin varð svo miklu meiri á árinu 1950 en beinlínis leiddi af gengisbreytingunni, var hin mikla hækkun á erlendu vöruverði, sem stafaði af Kóreustyrjöldinni. Kóreustyrjöldin hækkaði heildsöluverð á erlendum vörum um 40–50%, og ég býst ekki við, að neinn hv. þm. telji okkur dr. Benjamín ámælisverða fyrir það, þó að við höfum ekki séð fyrir Kóreustyrjöldina, því að félagi Stalín sá nú einu sinni ekki ástæðu til þess að trúa okkur fyrir því, að hann hefði í huga með vorinu hernaðaraðgerðir á þessum skaga þarna austur frá. Auðvitað er það eins með þær áætlanir, sem nú verða gerðar um áhrif gengislækkunarinnar á verðlagið, þó að engin ástæða sé til að vefengja þær, að það er auðvitað ekki hægt að fullyrða, að verðhækkunin geti ekki verið orðin meiri eftir 6 mánuði eða 9 mánuði eða hvað það nú er. Það geta komið fyrir óhagstæð tilvik, sem hækka þessar vörur í innkaupi. En það gagnstæða getur líka vel átt sér stað, að innkaupsverð varanna erlendis lækki, og ég hef fært nokkur rök að því, að hægt sé að öllu öðru óbreyttu að gera sér um það nokkrar vonir. En þá er það um leið skýrt, þegar hv. 4. þm.. Vestf. var að gera gys að því, að það væri ekki nógu fast kveðið að orði í þessum áætlunum, að það liggur í eðli málsins, að um þetta hljóti að verða nokkur óvissa. Það er því engan veginn að ófyrirsynju, að svo er gert, því að í þessum efnum hlýtur alltaf að ríkja nokkur óvissa.