12.02.1960
Efri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

40. mál, útsvör

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í lögum um útsvör, nr. 66 1945, er kveðið á um það, að útsvör skuli á leggja á tímabilinu frá febrúar til maímánaðar ár hvert. Heimilt er þó félmrn. að veita undanþágu, ef sérstaklega stendur á, til þess að þessi útsvarsálagning megi dragast eitthvað.

Í janúarmánuði, snemma að vísu, þetta ár barst ráðuneytinu vitneskja um það, að í einu hreppsfélagi, álafsvíkurhreppi, hefði ekki verið lagt á útsvar fyrir árið 1959, þó að komið væri fram yfir áramót. Ráðuneytið tók þetta mál strax til athugunar og sendi fulltrúa sinn vestur til þess að athuga málið. Sömuleiðis fór oddviti sýslunefndarinnar á staðinn til þess að kynna sér málavöxtu, og kom þá á daginn, að þetta var rétt. Heimild útsvarslaganna til þess að leyfa frestun á útsvarsálagningu er þó bundin við árið. Það stendur í lögunum eitthvað á þá leið, ef ég man rétt, að rn. sé heimilt að fresta útsvarsálagningunni þangað til síðar á árinu. Það er náttúrlega ómögulegt fyrir eitt hreppsfélag að vera án þess, að útsvör verði á lögð, og kom þess vegna til álíta, hvernig mætti koma þarna til aðstoðar, svo að hreppsnefndin gæti komið útsvarsálagningunni við. Nú var árið liðið, þannig að það þótti ekki ótvírætt, að ákvæði útsvarslaganna heimiluðu rn. að fresta þessari útsvarsálagningu þangað til fram yfir áramót. Þess vegna var það ráð tekið, að gefin voru út brbl. um það, að orðin „á árinu“ í lagagreininni yrðu felld niður og hún yrði þá orðuð framvegis þannig: ráðuneytinu væri heimilað að velta undanþágu með útsvarsálagningu þangað til siðar, en ekki síðar á árinu.

Brbl. voru sem sagt gefin út um þetta, og útsvarsálagning mun þegar hafa farið fram. Vitaskuld er það fyrir neðan allar hellur, að þetta skuli hafa komið fyrir, því að það er væntanlega um mikið sleifarlag að ræða hjá þeim, sem að því hafa staðið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á þessum brbl., og ég þarf ekki að hafa um frv. mörg orð, það skýrir sig alveg sjálft. Ég skal þó geta þess, að í Nd., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, var lögunum breytt þannig, að þau eru eingöngu bundin við þetta einstaka tilfelli. Eins og greinin er orðuð, þá er hún svo hljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laganna getur ráðherra heimilað Ólafsvíkurhreppi að framkvæma fyrir febrúarlok 1960 aðalniðurjöfnun útsvara, sem fram átti að fara á árinu 1959.“

Ég hef út af fyrir sig ekkert við þetta að athuga. Þetta kemur væntanlega svo sjaldan fyrir, að það á ekki að koma að sök, þó að lögin verði eingöngu bundin við þetta sérstaka tilfelli. Það var náttúrlega ómögulegt að komast hjá því að aðstoða hreppinn við að koma útsvarsálagningunni fram, og þess vegna voru brbl. sett og þetta frv. fram borið.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. heilbr. og félmn.