06.04.1960
Neðri deild: 62. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

115. mál, áburðarverksmiðja

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Þar sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) vék sérstaklega að mér í ræðu sinni um þetta mál, tel ég ekkert á móti því, að ég láti skoðanir mínar hér í ljós um ríkisfyrirtæki og bæjarfyrirtæki og hver ég álít að eigi að vera afstaðan til þeirra.

Að því er varðar áburðarverksmiðjuna, álít ég, að hún eigi að vera eign bænda og bænda einna og þeir einir eigi að eiga hana, sem stunda búskap, þannig að þeir ættu, ef þeir hættu búrekstri, að selja hlut sinn í verksmiðjunni. Ég álít, að leita ætti eftir kaupum á núverandi hlutafé í áburðarverksmiðjunni með það fyrir augum að selja hana bændum, og þá fyndist mér eðlilegt, því að það hefur sjálfsagt ekki verið lagt í þessa verksmiðju með gróðasjónarmið fyrir augum, að hlutaféð yrði selt sem næst nafnverði að viðbættum vöxtum og verðrýrnun peninganna. Það eru um 6000 bændur í landinu, og kæmu þá að meðaltali um 2000 kr. á hvern bónda. Nú mundu ekki allir bændur vilja eiga hlut í verksmiðjunni, þó að það væri ákjósanlegast, þeir mundu ekki geta það og ekki óska eftir því e.t.v. af ýmsum ástæðum. En mér fyndist eðlilegt, að sett væri hámark um hvað hver bóndi mætti eiga í verksmiðjunni, t.d. 20–30 þús., til þess að fyrirbyggja, að hún gæti nokkurn tíma færzt yfir á fárra manna hendur. Þegar bóndi hætti búskap, álít ég, að meta ætti bréfin, ekki eftir endurbyggingarverði verksmiðjunnar, eins og talað er um í grg. og hv. 3. þm. Reykv. minntist á, heldur ætti að meta þau eftir þáverandi verðlagi að frádreginni þeirri verðhækkun, sem hafði átt sér stað, þegar sala bréfanna eða yfirtaka þeirra fór fram. Þannig mundu bændur njóta þeirrar verðhækkunar, sem yrði á verksmiðjunni, eftir að þeir eignuðust hana, þegar þeir hættu að eiga bréfin og vildu selja þau til þeirra, sem hefðu þá byrjað búskap aftur, og gæti verksmiðjan að sjálfsögðu annazt slíkt.

Ég álít, að það ætti að vera þannig með öll ríkisfyrirtæki, að þau ættu fyrst og fremst að vera eign þeirra, sem skipta við þau og byggja þau upp. Verksmiðjan hefur vaxið að verðmætum fyrir tilverknað bænda og bænda einna, og þeir eiga að njóta þess, en hvorki ríkið né einhverjir aðrir, sem kynnu að hafa lagt fé í hana í upphafi og ég veit að hefur ekki verið nema í góðum tilgangi gert til þess að hrinda þessu mikilvæga fyrirtæki af stokkunum. Einnig álít ég, að útgerðarmenn ættu að eiga síldarverksmiðjur ríkisins. Og þegar þeir væru hættir útgerðarrekstri, ættu þeir að selja hluti sína þar og hlutirnir að ganga til nýrra útgerðarmanna og þannig koll af kolli og þeir aðeins að njóta þeirrar verðhækkunar, sem hefði átt sér stað, á meðan þeir áttu verksmiðjuna og skiptu við hana og verksmiðjan var að byggja sig upp fyrir tilverknað þeirra og gróða af afurðum þeirra.

Ég hef trú á því, að rekstur sé miklu hagkvæmari í höndum einstaklinga eða hlutafélaga en í höndum ríkisins. Það verður að mínu viti miklu þunglamalegra, og þar nýtur sín ekki nærri eins vel sú hugkvæmni og framtak, sem getur notið sín í einkarekstrinum í svo ríkum mæli. Hið sama álit ég með ýmis fyrirtæki, sem sveitarfélögin hafa verið að reka. Þau hafa ekki gefið góða raun. Þau hafa gefið mjög slæma raun hjá okkur yfirleitt, með sárafáum undantekningum.

En hvernig mætti það ske, að slík millifærsla á hlutabréfum gæti átt sér stað, t.d. ef um mörg slík fyrirtæki væri að ræða, sem yrðu almenningseign, eins og áburðarverksmiðjan, síldarverksmiðjur ríkisins, tunnuverksmiðjur ríkisins o.s.frv. og kannske einhverjar bæjarútgerðir? Ég álít, að eitt af því nauðsynlegasta í sambandi við slíka uppbyggingu, sem ég álít mjög heilbrigða, væri að gera fólkið þátttakendur í hlutafélögunum, t.d. hér í Reykjavík almenning í bæjarútgerð Reykjavíkur. Almenningur ætti sína hluti í bæjarútgerð Reykjavíkur, og þeir gengju kaupum og sölum, eftir því sem verð væri á þeim á hverjum tíma. En til þess að fá sannvirði á hlutabréfunum á hverjum tíma, þá er eitt af því allra mikilvægasta, að hér væri stofnuð kauphöll, sem skráði hlutabréf, a.m.k. í stórum hlutafélögum, t.d. slíkum fyrirtækjum sem áburðarverksmiðjunni, ef hún yrði almennt eign bænda, eða síldarverksmiðjum ríkisins, Eimskipafélagi Íslands, og svo gæti verið t.d. í almennum hlutafélögum, t.d. olíufélögunum o.s.frv., sem nytu almenns trausts. Ég álít mest aðkallandi til þess að skapa heilbrigt verð á hlutabréfum, að hér sé stofnuð kauphöll.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til þessara mála, af því að hv. 3. þm. Reykv. beindi sérstaklega orðum sínum til mín og mér var ekkert óljúft að fá tækifæri til þess að flytja hér skoðanir mínar á þessum málum.