28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Forseti (SÓÓ):

Vegna þess, sem fram hefur komið frá nokkrum hv. dm., að þessu máli yrði frestað núna, þá vil ég í því sambandi minna á efni frv., sem reyndar hefur verið gert hér áður. Það er um framlengingu á lögum, sem nú gilda, framlengingu á þeim fyrir næsta ár. Ég vil enn fremur minna á, að það hefur ekki komið fram ósk um það frá meiri hl. hv. fjhn., að málinu yrði nú frestað, til þess að nefndin gæti tekið það frekar til meðferðar. Ég vil enn minna á, að þetta er 2. umr. málsins hér í deild. Hér er eftir 3. umr. og síðan þrjár umr. í seinni deildinni.

Ég held, að það verði ekki með sanngirni sagt, að ég sé ósanngjarn, þó að ég geri nú tilraun til þess að ljúka þessari 2. umr. á þessum fundi. En ég mun þá ekki taka málið til 3. umr. fyrr en á næsta fundi, sem ég geri ráð fyrir að verði á mánudag. (Gripið fram í.) Ja, hin málin. Ég geri ráð fyrir, að ég geri tilraun til þess að taka þau til 2. umr. líka. Ég vildi geta þessa á þessu stigi málsins.