04.03.1960
Neðri deild: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

5. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í byrjun þessa þings, sem nú stendur, flutti ég ásamt fjórum öðrum hv. þm. frv. til laga um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti.

Þetta mál var á sinni tíð tekið fyrir og vísað til hv. sjútvn., og ætla ég, að hún hafi eitthvað um málið fjallað. En vegna þess, að mér þykir nokkrar líkur benda til þess, að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi, vil ég vekja sérstaka athygli á því, að ef slíkar veiðar sem frv. gerir ráð fyrir eiga að hefjast á n.k. sumri, eða vori, þá ber brýna nauðsyn til þess, að Alþingi dragi ekki of lengi afgreiðslu málsins, og vildi ég því sérstaklega mælast til þess við forseta deildarinnar, að hann athugaði, hvort ekki væri mögulegt að fá málið afgreitt hið fyrsta.