15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

14. mál, lántökuheimild til hafnarframkvæmda

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hinn 26. nóv. 1959 var útbýtt hér í hv. d. frv. til l. um lántökuheimild og ráðstöfun lánsfjár til hafnarframkvæmda, fluttu af sex þm. Þessu frv. var vísað til hv. fjhn. þann 27. nóv. Síðan er liðið nokkuð á fjórða mánuð, og enn hefur hv. fjhn. ekki skilað áliti um þetta frv. Þess ber að vísu að geta, að skömmu eftir að frv. var vísað til n., var Alþingi sent heim, þ.e.a.s. þingi var frestað, og við það trufluðust að sjálfsögðu störf þingsins og þn. að málum, sem þá höfðu verið lögð fyrir þingið, og þ. á m. að sjálfsögðu nefndarstörf við þetta mál. Eigi að síður er nú langt liðið, síðan þing kom saman að nýju, og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að hv. fjhn. taki afstöðu til þessa máls á einhvern hátt. Hér er um stórmál að ræða, og gera má ráð fyrir því, að það taki nokkurn tíma að ráða því til lykta í þinginu. Er því ekki úrhættis að ganga eftir því, að hv. n. ljúki störfum, þar sem hér er um meðferð málsins í fyrri d. að ræða.

Ég vil sem sagt leyfa mér að beina þessum tilmælum til hæstv. forseta, jafnframt því sem ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að mér sýnist þannig vera ástatt um ýmis önnur mál og þ. á m. mál, sem flutt voru á öndverðu þingi, að þau hafi enn ekki fengið afgreiðslu í n. En það er sérstaklega þetta mál, sem ég vil mælast til að hæstv. forseti hlutist til um að tekið verði til afgreiðslu í nefnd.