02.02.1960
Neðri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

34. mál, hefting sandfoks

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við hv. 4. þm. Sunnl. höfum leyft okkur að flytja frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 49, um heftingu sandfoks og græðslu lands.

Tildrög þessa máls eru þau, að þáv. hæstv. landbrh. skipaði hinn 24. júlí 1957 5 manna nefnd til þess, eins og sagði í erindisbréfi hennar, að endurskoða lög um sandgræðslu og athuga möguleika á að auka þá starfsemi. Form. þessarar nefndar var Björn Kristjánsson fyrrv. alþm. á Kópaskeri, en aðrir nm. voru Arnór Sigurjónsson fulltrúi í hagstofunni, Árni G. Eylands stjórnarráðsfulltrúi, Páll Sveinsson sandgræðslustjóri og Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri.

Þessi nefnd vann verk sitt á skömmum tíma og af miklum áhuga. Þegar samsumars, 1957, tók hún sér fyrir hendur að ferðast um þá hluta landsins, þar sem mest landspjöll hafa orðið af uppblæstri eða ágangi vatna á fyrri tímum, og kynnti sér þá eftir föngum sjálf þann árangur, sem þegar er orðinn af starfi sandgræðslu ríkisins, svo og tilraunir til sandgræðslu, sem aðrir hafa staðið að. Hún taldi, að hér væri sjón sögu ríkari. Af viðtölum við einstaka menn úr þessari nefnd veit ég, að þeim fannst mjög til um hvort tveggja, hið mikla viðfangsefni og þá möguleika, sem þeim virtust vera fyrir hendi. Síðar á árinu beitti nefndin sér fyrir því, að gefið var út myndarlegt rit, allstórt, í tilefni af 50 ára afmæli sandgræðslulaga og hinnar fyrstu sandgræðslustarfsemi á vegum hins opinbera hér á landi, og þetta rit kom út á öndverðu ári 1958. Um sama leyti eða svipað leyti og ritið kom út afhenti sandgræðslunefndin ráðuneytinu till. sínar í frumvarpsformi ásamt grg. Þaðan var málið sent búnaðarþingi til umsagnar, og er umsögn þess, þ.e.a.s. búnaðarþings, ásamt brtt. prentuð sem fskj, með þessu frv., á bls. 12, 2. fskj.

Á Alþingi 1958–59 flutti þáv. hv. þm. Skagf., Steingrímur Steinþórsson, frv. sandgræðslunefndar óbreytt í Nd., en gat þess í grg., að hann væri samþykkur ýmsum brtt. búnaðarþings, sem þá eins og nú voru prentaðar sem fskj. með frv.

Þetta frv. varð ekki útrætt, en hv. þáv. landbn. deildarinnar hafði það til athugunar og flutti síðan nýtt frv., sem var nokkuð frábrugðið frv. sandgræðslunefndar, en þetta frv. landbn. varð ekki heldur útrætt á því þingi.

Nú er það svo, að nokkurt tillit mun hafa verið tekið til till. sandgræðslunefndar við ákvörðun framlaga til sandgræðslu, þegar fjárlög fyrir árið 1958 voru undirbúin. Eigi að síður erum við flm. þessa frv. samþykkir fyrrv. hv. þm. Skagf. um það, að rétt sé, að till. sandgræðslunefndar í heild séu teknar til meðferðar á Alþingi. Þó höfum við breytt örfáum atriðum, m.a. vegna breytinga, sem orðið hafa, síðan sandgræðslunefnd gekk frá till., og vísa ég til grg. um það efni.

Vegna aðstöðu okkar beggja flm. sem fulltrúa fyrir byggðarlög, sem hafa verið hart leikin af völdum uppblásturs og gróðureyðingar, er okkur sérstaklega hugstæð nauðsyn vaxandi aðgerða í þessum málum og teljum okkur skylt að stuðla að því, að sem mestur árangur verði af þeirri hreyfingu, sem vakin var með skipun og starfi sandgræðslunefndarinnar. Við munum taka feginsamlega samstarfi um þetta mál, hvort sem það er við hv. landbn. eða hæstv. landbrh. eða aðra, sem hér kunna að vilja ljá góðum málstað lið. Við erum til viðtals um breyt. á frv., ef þær þykja réttmætar og geta stuðlað að framgangi málsins, og þykir þá t.d. eðlilegt, að höfð sé hliðsjón af brtt. búnaðarþings, sem ég nefndi áðan.

Það er aðalatriðið í okkar augum, að þetta mál verði afgreitt á þann hátt, að það verði til þess að styrkja og auka sandgræðslustarfsemi. Við teljum raunar, þó að ég kæmist svona að orði, að réttara sé að tala um landgræðslu en sandgræðslu í þessu sambandi, þótt hitt orðið hafi oftast verið nefnt. En það er víðar en á söndum, sem þörf er á að græða upp landið, og um landgræðslu almennt fjallar þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og reyndar kemur glöggt fram í heiti þess. Og í því sambandi fjallar það um nýja tegund verkefna og um nýjar leiðir. Með þessu á ég sérstaklega við uppgræðslu beitilenda, bæði í heimahögum og á afréttum, og dreifingu áburðar úr flugvélum yfir óslétt land eða lítt gróið.

Kveðið var fyrir rúmlega þremur aldarfjórðungum í orðastað fjallkonunnar þetta, sem margir kunna:

„Sjá nú, hve ég er beinaber

með brjóstin visin og fölar kinnar“

og

„þrautir mínar í þúsund ár

þekkir guð einn og talið getur.“

Þessi lýsing átti víst bæði við þjóðina og landið. Ekki ómerkari maður en Ari fróði segir, að landið hafi á landnámstíð verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þau orð þekkja flestir, og hvað sem viðargróðri líður, þá er það víst, að Ari hefði ekki farið að rifja upp sögulegar endurminningar um gróðursæld Íslands nema fyrir það, að í hans tíð eða rúmlega tveimur öldum eftir að byggð hófst var gróðurinn þegar farinn að láta á sjá til mikilla muna. Og þannig hefur þetta haldið áfram lengi. Landið eða gróðurríki þess hefur þolað sínar þrautir í þúsund ár, eins og í ljóðinu segir. Köld ár og aldir, vindar, vötn, eldur og aska hafa verið þar að verki og mennirnir stundum hjálpað til með skógarhöggi og fleiru, þótt búfénaður manna sé þar e.t.v. stundum helzt um of fyrir sökum hafður. Á vorum tímum eru áhrif vindanna, sandfokið, uppblásturinn, augljósust. Við þekkjum þessi dæmi mörg. „Þar sem að áður akrar huldu völl, ólgandi Þverá veltur yfir sanda.“ Þjórsárdalur hvarf snemma úr byggð. Sumir fræðimenn telja, að dregið hafi úr alþingisreið, vegna þess að hagar hafi horfið á alfaraleiðum milli jökla. Biskupstjaldstæði heitir fyrir norðan á einum stað, þar sem engum mundi nú detta í hug að tjalda, sem ferðaðist um landið á hestum.

Sumir halda því fram, að í sögum um útilegumannadali lifi óljós endurminning kynslóðanna um horfinn gróður til fjalla, og mér finnst það ekki alveg ótrúlegt, að svo kunni að vera. Nú hefur fyrir nokkrum áratugum verið hafizt handa um að veita viðnám gegn landeyðingu og græða landið á ný. Það er kannske ekki rétt að segja, að um mikla landvinninga sé að ræða í þessu sambandi eða hafi verið, og þó er það engan veginn lítið, sem áunnizt hefur. Á þessum tíma, rúmlega 40 árum, síðan byrjað var á sandgræðslunni, er búið að koma upp nálega 60 sandgræðslugirðingum. Þær eru víða um land, einna flestar á Norðurlandi og Suðurlandi. Flatarmál hins girta lands er samtals nokkuð yfir 100 þús. hektara eða miklum mun stærra en tún landsmanna samanlögð. Girðingarnar koma í veg fyrir ágang búfjár, og sums staðar er „melgrasskúfurinn harði“, sem skáldið nefndi svo, tekinn í þjónustu sandgræðslunnar með sáningu, stundum útlend grös, stundum borið á landið, og á einstaka stað er það notað til túnræktar. Sums staðar eru settir niður timburstokkar til þess að hindra hreyfingu á sandinum.

Um árangurinn af öllu þessu má nokkuð ráða af riti sandgræðslunefndarinnar, sem ég nefndi áðan. Þessar sandgræðslugirðingar eru flestar í eða nærri byggð. En fyrir þeim, sem að þessu frv. hafa staðið, það hafa aðallega samið, vakir nýr áfangi í þessari sókn, að hafizt verði handa um það með skipulögðu átaki á komandi árum að efla gróður á afréttum og í úthögum á samfelldum landssvæðum, eins og komizt er að orði í 16. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að sandgræðsla Íslands geri í samráði við Búnaðarfélag Íslands og jarðvegsrannsóknadeild búnaðardeildar háskólans tíu ára áætlun um þessa starfsemi, sbr. 17. gr. frv. — Ég vil geta þess hér, að það þarf að breyta ártali í þessum greinum frá því, sem er í frv., selja 1960 í staðinn fyrir 1959 og 1961 í staðinn fyrir 1960, og vera má, að okkur flm. hafl sézt yfir að gera fleiri breytingar af þessu tagi, sem eðlilegt er að gera, af því að frv. er samið 1957–58. En sumu höfum við breytt af þessum ástæðum, eins og tekið er fram í grg. og ég gat um áðan. En þetta er til athugunar, leiðréttingar af þessu tagi, fyrir þá þingnefnd, sem fær málið til meðferðar.

Í sambandi við þá fyrirhuguðu tíu ára áætlun, sem hér er nefnd, vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á mjög merkilegum athugunum, sem getið er um í afmælisriti sandgræðslunefndarinnar á bls. 329–330. Ég veit, að allir hv. þm. hafa á sínum tíma fengið þetta rit í hendur. Þar er talið líklegt, að hér á landi séu sandar og melar auðveldir til græðslu, eins og það er orðað, og lægri en 400 metra yfir sjávarmál, samtals nálega 3800 ferkm. Þá er ekki talið ógróið land innan núverandi sandgræðslugirðinga. En aðrar auðnir, þ.e.a.s. þær auðnir, sem ekki eru melar og sandar, auðveldir til græðslu, eins og n. kemst að orði, — aðrar slíkar auðnir, lægri en 400 metra, eru taldar nálægt 3500 ferkm. Þetta er ekki svo að skilja, að landssvæði þessi séu með öllu gróðurlaus, enda gert ráð fyrir, að sá strjáll gróður, sem þar er fyrir, geti orðið til hjálpar við uppgræðsluna. Hér er sem sé um að ræða að koma upp gróðri og auka gróður. Í því sambandi er mjög treyst á hina nýju aðferð, dreifingu áburðar úr lofti, enda þegar fengin af því nokkur reynsla.

Með fyrirhuguðum aðgerðum er ætlunin að auka gróður og bæta þannig afréttir og önnur beitilönd, enda afréttir sums staðar á landinu í rýrasta lagi, eins og kunnugt er. En gróðuraukning í afréttum og bithögum er mikils verð vegna bústofnsaukningar í landinu og þá auðvitað einkum fyrir sauðfjárbúskap landsmanna.

Nú kunna einhverjir, þegar farið er að tala t.d. um sauðfjárbúskap, að yppta öxlum og segja sem svo, að ekki sé þörf á að gera ráðstafanir til þess að fjölga búfénaði hér á landi og sízt sauðfé. Þeir, sem svo hugsa, gæta þess ekki sem skyldi, hve ört þjóðinni fjölgar og þó einkum þeim, sem ekki framleiða kjöt eða aðrar landbúnaðarafurðir. Og við vitum það, að eitt af aðaláhyggjuefnum ýmissa hagvísindamanna á alþjóðavettvangi er það um þessar mundir, að hætt sé við, að matvælaframleiðslan í heiminum aukist ekki á komandi tímum í réttu hlutfalli við hina öru fjölgun mannkynsins. Einhvern tíma kann að verða sagt: Sælt er það land, og sæl er sú þjóð, sem á annað eins nægtabúr úrvalsmatvæla og Ísland á eða getur átt bæði á sjó og landi. — En hvað sem þessu líður, þá er það a.m.k. áhyggjuefni, sem ýmsir fróðir menn halda fram um þessar mundir hér á landi, að ekki geti talizt fært án sérstakra ráðstafana til aukningar á beitargróðri að fjölga sauðfé umfram það, sem nú er, og sé jafnvel um ofnotkun beitilands að ræða. Tillögur, sem sýna, að nokkuð er hugsað um þessi mál, hafa oftar en einu sinni verið uppi hér á hv. Alþingi. Þarna er auðvitað átt við landið sem heild, því að sums staðar er áreiðanlega óhætt að fjölga fé til muna, án þess að hætta sé á ferðum af ofbeit.

Það er raunar víðar en hér á Íslandi, sem menn hafa áhyggjur af gróðureyðingu og hafa hafizt handa um að græða upp lönd á ný. Hingað hafa komið sérfræðingar í þessum málum frá matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og ferðazt um landið, og héðan var á sínum tíma send ýtarleg skýrsla um ástand þessara mála hér og sandgræðslustarfið árið 1953, ef ég man rétt, samin af Runólfi heitnum Sveinssyni sandgræðslustjóra. Sú skýrsla vakti sérstaka athygli á þeim vettvangi, þ.e.a.s. þeim alþjóðavettvangi, sem matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna er. Hún er birt í riti sandgræðslunefndar, sem ég hef oft minnzt á áður, og enn fremur er þar birt nokkuð af skýrslu kanadísks sérfræðings í beitarbúskap, sem hér dvaldist á vegum matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar sumarið 1954 og sumarið 1956.

Ég var fyrir nokkuð mörgum árum staddur norður í Kelduhverfi, þar norður undir sjó, á hlýjum vordegi síðari hluta júnímánaðar. Þetta var sólbjartur morgunn, og skýjafar var ekki teljandi þennan dag. En upp úr hádeginu kom á nokkuð hvass vindur af suðri. Ég man það mjög vel, að eftir skamma stund hætti að sjá til sólar og himinninn í suðri myrkvaðist. Þegar á daginn leið, sást óljóst eða ekki til hinna efri bæja í Öxarfirði, þótt í norðri væri heiður himinn allan daginn. Þarna reið sandbylur af Hólssandi, sem er norðan Hólsfjalla, yfir fagurgróin, viði vaxin lönd Öxfirðinga, og á þessum eina degi færði sandauðnin áreiðanlega út ríki sitt, svo að nokkru munaði, á þessum slóðum. Það var eins og þarna færi jóreykur af óvígum her, sem kæmi sunnan fjöllin. Og hér var þá ekkert til varnar. Nú er búið að girða nokkuð mikinn hluta af Hólssandi, landeyðingin stöðvuð og sókn hafin með góðum árangri, búið að græða upp töluvert landssvæði með sáningu og öðrum aðferðum, sem sandgræðslan notar.

Ég hef oftar séð svipaða sýn þessari, og það hafa fleiri gert og einnig á öðrum stöðum og öðrum tímum, en þessi dagur og þessi sýn alveg sérstaklega verður mér alltaf minnisstæð, og ég gat ekki stillt mig um að rifja hana upp og allan óhugnað hennar nú, þegar þetta mál er til umr.

Íslendingar eru nú að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vernda fiskimiðin hér umhverfis landið og koma í veg fyrir eyðingu fiskistofna. Þetta er þjóðinni lífsnauðsyn, eins og allir vita. En það er líka lífsnauðsyn að vernda og stækka hina grónu jörð hér á landi.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til fyrir hönd okkar flm., að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn., en vil að öðru leyti vísa til grg. þeirrar, sem frv. fylgir á þskj. 49, og prentaðra fylgiskjala með því. Síðan þetta frv. var flutt hér í hv. d., hef ég heyrt og mér hefur reyndar verið tjáð það af mönnum í n., að sandgræðslunefndin hafi komið saman til fundar að nýju nú eftir áramótin og vinni að nánari athugun málsins. Það er því æskilegt, að hv. landbn. kynni sér, hvort sandgræðslunefnd kann að vilja gera einhverjar breytingar á sínum fyrri tillögum, sem ástæða kynni að vera til að taka sérstaklega til meðferðar, áður en málið er afgreitt frá n. hér í hv. deild.