25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja hér fáein orð í belg og þá fyrst og fremst til þess að leggja áherzlu á og undirstrika þau rök, sem komu fram hjá hv. frsm. minni hl. fjhn.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, er í sjálfu sér sakleysislegt. Það er lítið fyrirferðar og lætur lítið yfir sér á allan hátt. Það er einfalt að allrí gerð. Það munu því margir ætla, að þar sé ekki um neitt stórmál að ræða.

En ef betur er að gáð, er það þó svo, að hér er um nokkurt „prinsipmál“ að tefla. Allir vita, að einkasölur ríkisins eru reknar eða geta verið reknar í mismunandi tilgangi. En um það held ég að allir verði sammála, að einkasölur þær, sem hér eru reknar á tóbaki og áfengi, séu reknar fyrst og fremst — og máske að því er tóbakseinkasöluna varðar eingöngu — í því skyni að afla ríkissjóði tekna. Þetta eru tekjuöflunarfyrirtæki ríkissjóðs.

Það fer ekki á milli mála og verður sjálfsagt ekki deiluatriði hér, að fjárstjórnarvald ríkisins eigi að vera í höndum Alþingis. Þeirri stefnu ber stjórnarskráin svo glöggt vitni, að um það þarf ekki að fjölyrða. Það sést bæði af því, sem segir um fjárlög í 42. gr. stjórnarskrárinnar, og því, sem segir um rannsókn Alþingis eftir á og þess trúnaðarmanna um það, hvort farið hafi verið eftir fjárlögum, en um það segir í 43. gr. En sá þáttur fjármeðferðar ríkisins, sem þó hefur af hálfu stjórnarskrárgjafans verið alveg sérstök áherzla lögð á að tryggja Alþingi fullkomna íhlutun um, er tekjuöflun ríkissjóðs, þ.e. skattlagningarheimildin. Því ber 40. gr. stjórnarskrárinnar ótvírætt vitni, þar sem berum orðum segir, að engan skatt megi á leggja, breyta né af taka nema með lögum.

Það er viðurkenndur skilningur á þessari stjórnarskrárgrein, og verður ekki um það deilt, að orðið skattur er ekki haft þarna í þeirri þröngu merkingu, sem það er stundum notað í, heldur tekur það einnig t.d. til tolla og til hvers konar álagna af hendi ríkisins.

En þessi stefna stjórnarskrárinnar er enn rækilegar undirstrikuð í 47. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem stendur skýrum stöfum, að skattamálum skuli skipað með lögum.

Nú vita það allir, að þegar stendur í stjórnarskránni, að einhverjum málefnum skuli skipað með lögum, þá er almenna löggjafanum almennt óheimilt að framselja það vald sitt öðrum og þá fyrst og fremst framkvæmdarvaldshöfum. Ef það stendur í stjórnarskránni, að einhverjum málefnum skuli skipað með lögum, þá er t.d. löggjafanum algerlega óheimilt að fela ráðh. eða rn. eða öðrum stjórnarvöldum ákvörðunarvald um það efni.

Um þetta held ég að allir fræðimenn séu sammála, að framsal valds af hálfu löggjafarvaldsins sé þannig almennt óheimilt nema þá innan mjög þröngra takmarka.

Þar sem það er nú viðurkennt og liggur ljóst fyrir, að tóbakseinkasalan er rekin í fjáröflunarskyni fyrir ríkissjóð, virðist mér, að í raun og veru ætti hið sama að gilda um álagningarheimild að því er varðar tóbaksvörur og yfirleitt álagningarheimild, þegar um einkasölur ríkisins er að ræða, sem reknar eru til þess alveg sérstaklega að afla ríkissjóði tekna, eins og þegar um skattálagningu er að tefla. Og það er nokkurn veginn ótvírætt, að þannig hefur löggjafinn litíð á þetta, eins og rækilega var rakið af hv. frsm. minni hl. fjhn. En almenni löggjafinn hefur hins vegar talið sér heimilt til þess að auðvelda heppileg vinnubrögð í þessu efni að einskorða ekki álagninguna algerlega við einhverja tiltekna prósentutölu, heldur hefur hún verið tiltekin með svigrúmi. Með þessari starfsaðferð hefur verið ótvirætt fullnægt ákvæðum stjórnarskrárinnar og jafnframt ríkisstj. gefið alveg nægjanlegt svigrúm, og það er á engan hátt hægt að telja þetta óhagkvæm vinnubrögð.

Ég efast ekki um, að hæstv. fjmrh. er mér sammála um það, að ef litíð er á þetta frá fræðilegu sjónarmiði, þá sé hér a.m.k. um takmarkatilfeili að ræða og að það sé ekki í anda stjórnarskrárinnar að veita ríkisstj. hér alveg ótakmarkaða heimild til tekjuöflunar, alveg án nokkurs aðhalds frá Alþingi eða án þess atbeina.

En hér kemur svo annað til. Hér kemur líka til greina hið pólitíska sjónarmið. Það er efalaust svo, að það hafa allar ríkisstjórnir talsverða tilhneigingu til þess að draga vald úr hendi Alþingis og undir sig. En ég verð að segja það, að mér virðist núverandi hæstv. ríkisstj. hafa verið alveg sérstaklega ágeng í þessu efni. Það hefur komið fram með ýmsum hætti, og þarf raunar ekki að endurtaka það, sem hv. frsm. minni hl. fjhn., hv. 5. þm.. Norðurl. e., sagði um það efni. Það kom sérstaklega glöggt fram á sínum tíma með gerræðisfullri þingfrestun. Það kemur fram með mýmörgu móti í nýsamþykktu efnahagsmálafrv. Og það hefur komið fram ákaflega áberandi í sambandi við framkvæmd á þeim ráðstöfunum, sem þau efnahagslög fjalla um.

Það hefur t.d. borið hér á góma á Alþingi, hvort ríkisstj. hafi farið að lögum í sambandi við 32. gr. efnahagsmálalaganna. En í 32. gr. efnahagsmálalaganna segir, að ríkisstj. geti, að fengnu áliti þar til greindra aðila, m.a. stjórnar Seðlabankans og svo stjórna hinna einstöku fjárfestingarstofnana, sem þar eru tilgreindar, ákveðið vexti af útlánum þeirra sjóða, sem áður fyrr voru ákveðnir með lögum.

Nú vita það allir lögfræðingar, að ég ætla a.m.k., að þegar segir, að eitthvað skuli gert að fengnu áliti, þá er það skilyrði fyrir því, að framkvæma megi þá ráðstöfun, sem þar er verið um að fjalla, að allt hafi verið fengið, að það liggi fyrir skriflega, enda þótt stjórnarvöldunum, sem ákvörðunarvaldið hafa, í þessu tilfelli ríkisstj., sé svo ekki skylt að fara eftir því fengna áliti. En það er verið að lögbjóða þessa álitsumleitun til þess, að einhverjum þeim aðilum, sem sérstaklega eru taldir hafa kunnáttu í þeim efnum eða reynslu í þeim efnum, sem um er að ræða, gefist færi á að tjá sig um það og leggja sín rök fram fyrir ákvörðunarvaldið, í þessu tilfelli ríkisstj., og það er ekki gengið út frá því fyrir fram, að sá aðili, sem ákvörðunarvaldið hefur í hendi sinni, sé algerlega pottþéttur fyrir því að vera móttækilegur fyrir þeim rökum, sem kunna að vera í þeim álitsgerðum, sem fengnar hafa verið. En í sambandi við það, hvernig ríkisstjórnin fór að í sambandi við framkvæmdina á þessari 32. gr., þá er óhætt að segja, að hún gaf þeim aðilum, sem þar var um að ræða, ekkert svigrúm til þess að tjá síg, til þess að láta í té það allt, sem ríkisstj. bar skylda til lögum samkvæmt að fá, áður en hún tæki ákvarðanir sínar um þessi málefni.

Það vita þeir, sem hér eru staddir, að á sunnudagskvöld var lesin í útvarpinu tilkynning frá ríkisstj. hæstv. um ákvörðun á vöxtum þessara fjárfestingarsjóða. Ég leyfi mér að staðhæfa það hiklaust, að það sé útilokað, að það álit seðlabankastjórnarinnar, sem fengið var, hafi getað legið fyrir ríkisstj. á þeim tíma. Og ef hæstv. fjmrh. vill halda því fram, þá hefði ég gaman af að heyra, hvernig hann vill rökstyðja það. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt. En ég er aðeins að nefna þetta sem dæmi um það, hversu hæstv. núverandi ríkisstj. er áköf í að ná undir sig valdi, sem áður var í höndum Alþingis, og hversu gerræðisfull hún er í meðferð þess valds, sem hún hefur þannig sölsað undir sig.

Ég er algerlega andvígur þessari stefnu, sem hér hefur borið svo mjög á á þessu þingi, að ríkisstj. hafi uppi viðleitni til þess að toga undir sig það vald, sem á að vera í höndum Alþingis, og ég tel það vera skyldu alþm.. að reyna að spyrna hér við fæti. Það má segja, að það verði lítið gert með það, sem við stjórnarandstæðingar segjum hér, og þetta frv. verður sjálfsagt samþ. af stjórnarstuðningsmönnum. En ég vil þó segja, að í þessu efni sé jafnvel skylda stjórnarstuðningsmannanna enn ríkari en okkar um það að veita stjórninni aðhald í þessu efni, ef ekki í þingsölum hér, þá á þingflokksfundum, og láta henni ekki haldast það uppi að halda áfram stefnu sinni, eins og verið hefur í þessum efnum, að reyna sífellt að ganga á það lagið að reyna að draga taumana úr höndum Alþingís, að því er fjárstjórnarvald ríkisins varðar.

Ég skal svo ekki bæta hér miklu við. En það er þó auðsætt, að það er farið fram á þessa breyt. á lögunum í því skyni, að álagning verði hækkuð. Annars væri alls ekki farið fram á þessa heimild. Það er þess vegna ljóst, að ríkisstj. ætlar sér að hækka álagningu á tóbaksvörur.

Nú er það svo, hvort sem mönnum þykir það heppilegt eða ekki, — og um það geta menn haft skiptar skoðanir, — að tóbaksvörur eru vörur, sem almenningur í þessu landi notar mjög almennt og mjög mikið og kannske því miður allt of mikið. Það segir því til sín fyrir almenning, hvert verð er á þessari vöru, enda er það viðurkennt, að ég ætla, með því að þessi liður er, að því er ég bezt veit, reiknaður með í vísitölu og því tekið tillit til hans.

Nú hefur það verið út gefið af hæstv. ríkisstj., sem haft hefur um það nokkuð mörg og stór orð, að hún muni reynast traust og standa vel á verði og hún muni alls ekki leyfa neinar hækkanir á álagningu á vörum í landinu, þrátt fyrir alla vaxtahækkun og þrátt fyrir annan tilkostnað muni hún alls ekki leyfa hækkun á álagningu. En ætlar þá hæstv. ríkisstj. að ganga á undan og verða fyrst til þess að hækka álagninguna á þeim vörum, sem almenningur notar og ríkisstj. hefur tögl og hagldir um? Það verð ég að segja, að er slök efnd á loforði hennar um að hækka ekki álagningu á vörum.