04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

32. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 42 er flutt af okkur 6 þm. Framsfl. hér í þessari hv. deild.

Skv. 1. gr. frv. er lagt til, að stofnaður verði sjóður, sem nefnist framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður. Hlutverk sjóðsins sé að stuðla að framleiðslu- og atvinnuaukningu og jafnvægi í byggð landsins.

Samkvæmt 2. gr. er stofnfé sjóðsins hugsað þannig: Í fyrsta lagi, að ríkissjóður leggi sjóðnum til 15 millj. kr. á árinu 1960. Í öðru lagi fái sjóðurinn það fé, sem ríkissjóður hefur lánað til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu skv. ákvæðum fjárlaga, enda hafi lánin ekki verið eftir gefin. Í þriðja lagi verði stofnfé sjóðsins inneignir ríkissjóðs hjá lántakendum ríkisábyrgðalána vegna afborgana og vaxta, er ríkissjóður hefur þurft að greiða fyrir lántakendur.

Skv. 3. gr. frv. er lagt til, að tekjur sjóðsins séu þessar: Í fyrsta lagi vaxtatekjur. Í öðru lagi árlegt framlag ríkissjóðs á næstu 10 árum, 15 millj. kr. á ári. Og í þriðja lagi skuldir, sem ríkissjóður kann að eignast skv. ákvæðum 2. gr.

Í 4. gr. frv. er lagt til, að lán úr sjóðnum verði veitt til hvers konar framleiðslu- og atvinnuaukningar, sem til þess er fallin að efla atvinnulífið í landinu og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og gegn tryggingu í þeim atvinnutækjum, sem lánað er til.

Þá er einnig lagt til í þessari grein frv., að lánin verði veitt sveitarfélögum, samvinnufélögum, hlutafélögum og einstaklingum, en fyrst og fremst í þeim landshlutum, sem verst eru á vegi staddir í atvinnumálum, jafnan skuli leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar um lánsumsókn. Þá er einnig í þessari grein frv. gert ráð fyrir því, að ef atvinnutæki er flutt burt úr því sveitarfélagi, þar sem það var staðsett og lán veitt til þess, þá sé heimilt að segja láninu upp, nema stjórn sjóðsins hafi samþykkt flutninginn.

Einnig er lagt til í þessari grein, að sjóðsstjórninni sé heimilt að veita sveitarfélegi vaxtalaust lán eða óafturkræft framlag til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum. Ef til þess þarf að koma, skulu þó 4/5 hlutar stjórnarinnar samþykkja slíka ráðstöfun.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði um stjórn sjóðsins, að hún skuli skipuð 5 mönnum, 4 þeirra kosnir af Alþingi, en fimmti maðurinn af stjórn Framkvæmdabankans, og að Framkvæmdabankinn annist daglega afgreiðslu sjóðsins og bókhald.

Í 6. gr. frv. er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að fela stjórn framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóðs störf þau, er atvinnutækjanefnd hefur nú með höndum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að koma föstu skipulagi á þá lánastarfsemi í landinu, sem fram hefur farið alllengi til framleiðslu- og atvinnuaukningar, í því skyni að koma á meira jafnvægi í byggð landsins.

Tveir stofnar hafa runnið undir þessa aðstoð við einstök byggðarlög til atvinnuaukningar. Annars vegar er það atvinnuaukningarfé, sem um alllanga stund hefur verið veitt á fjárlögum í þessu skyni, en hins vegar er það, að ríkissjóður hefur tekið ábyrgð á lánum til atvinnuaukningar víðs vegar á landinu, sem einnig hafa verið veitt með þetta fyrir augum. Þessi lán hafa fyrst og fremst gengið til sjávarsíðunnar og þá einna helzt til kaupa á fiskiskipum, byggingar verksmiðja og fiskiðjuvera, til kaupa á vélum í þágu sjávarútvegsins og fleira af þessu tagi.

Út af ríkisábyrgðunum er skylt að geta þess, að hin vaxandi verðbólga um langt skeið hefur óneitanlega haft þær afleiðingar, að atvinnurekstur hefur gengið misjafnlega vel og möguleikarnir orðið stundum litlir fyrir lántakendur til að standa í skilum með þau lán, sem ríkissjóður var í ábyrgð fyrir. Af þessum ástæðum hafa fallið á ríkissjóð allverulegar upphæðir í vöxtum og afborgunum vegna þessara lána. Því er ekki að neita, að það er slæmt, að svo skuli ganga til og ríkissjóður verða fyrir verulegum skakkaföllum af þessum ástæðum. En hitt ber þó einnig að líta á, að það er ekki kostnaðarlaust fyrir þjóðina, að sjávarþorp eða byggðarlög tæmist af fólki vegna skorts á atvinnutækjum eða öðrum möguleikum til framleiðslustarfa. Sá kostnaður, sem af slíku leiðir, verður seint reiknaður til verðs, þegar svo vill til. Það er staðreynd, að jafnvel 2–3 fiskibátar í sjávarþorpi veita fjölda manns góð lífsskilyrði og atvinnu, bæði á sjó við aflabrögðin og við vinnslu aflans í landi. Og þótt varið sé nokkur hundruð þúsund krónum í hagkvæmum lánum til þess að gera slíkum byggðarlögum mögulegt að eignast þessi framleiðslutæki, þá getur það borgað sig fyrir þjóðfélagið í heild, þótt eitthvert skakkafall af því komi í ábyrgðum ríkissjóðs, þegar á hitt er litið, að það er dýrt, að þetta fólk flytjist í burt, það er líka dýrt fyrir ríkið og þjóðina alla.

Það hefur þurft að verja og hefur verið varið nokkur hundruð þúsund krónum til þess að veita bæjum og sjávarþorpum möguleika til að eignast einn eða tvo báta og koma upp óhjákvæmilegum byggingum í landi, vinnslustöðvum, til þess að hagnýta aflann. En hvað kostar það þjóðina, ef fólkið flyzt þangað, sem þarf að byggja yfir það að nýju, því að venjulega hverfur það frá eignum, þegar það flytur? Það kostar kannske eins mikið að byggja yfir eina, tvær eða þrjár fjölskyldur annars staðar, þegar svona vill til.

Ég fullyrði, að það hefur varla nokkru fé verið betur varið en því, sem farið hefur til þess að halda við byggð og skapa viðunandi lífsskilyrði víðs vegar úti um land, eins og gert hefur verið með atvinnuaukningarfénu og með ríkisábyrgðum fyrir lánum til framleiðsluaukningar. Það er ekki aðeins, að það sé hagur þessara héraða,sem framleiðslu- og atvinnuaukningarfjárins nutu, að þessari starfsemi hefur verið haldið uppi og verði haldið áfram. Það er jafnframt hagur þéttbýlisins, að fólkið streymi ekki stöðugt þangað og keppi þar um atvinnu, húsnæði og marga fleiri hluti. Þetta kemur bezt í ljós, þegar kreppir að.

Á árunum 1953–56 var fjárveiting til atvinnuaukningar á fjárlögum um 5 millj. kr. á ári, en varð í framkvæmd nokkru meiri. Árið 1957 var fjárveitingin 15 millj., árið 1958 13½ millj., og á fjárlögum yfirstandandi árs er fjárveitingin 10 millj.

Snemma á árinu 1956 var af hálfu þáv. ríkisstj. flutt frv. um ráðstafanir til jafnvægis í byggð landsins. Tveir menn unnu að undirbúningi þess frv., þeir hv. alþm. Gísli Guðmundsson og Gísli Jónsson. Þetta frv. varð ekki útrætt á því þingi. Þetta frv., sem hér er til umr., er í verulegum atriðum svipaðs efnis og það frv., sem þá var flutt, en líka í öðrum atriðum allfrábrugðið. Sé ég ekki ástæðu til að fara út í þann samanburð við þessa 1. umr., heldur vil ég leggja sérstaka áherzlu á hitt, hvers virði það er atvinnulífinu í landinu, að haldið sé áfram og aukin sú aðstoð, sem hið opinbera veitir til jafnvægis í byggðum landsins, til atvinnu- og framleiðsluaukningar víðs vegar úti um landið, því að skilyrðin þar eru víða fyrir hendi, ef ekki strandar á fjármagninu. Nauðsynin að halda þessari starfsemi áfram hygg ég að sé óumdeilanleg.

Í þessu sambandi vil ég nefna þá stækkun landhelginnar, sem nú er orðin. Sú stækkun hefur m.a. aukið möguleikana til meiri framleiðslustarfsemi allt í kringum landið. Það má með sanni segja, að vegna stækkunar landhelginnar sé auður hafsins orðinn okkur meiri, orðinn öruggari og nærtækari en áður. En jafnframt þessu hefur skipakosturinn aukizt og batnað og tækninni fleygt fram. Allt þetta hefur bætt mjög lífsskilyrðin, þar sem þau voru ófullnægjandi áður, og gert eftirsóknarverðari þá útgerðarbæi, sem áður áttu örðugt uppdráttar. En þetta kallar óneitanlega á fjármagn. Og það fjármagn, sem til þess er veitt, er stuðningur við þjóðina alla. Það eykur þjóðarframleiðsluna. Það gerir margs konar verðmæti, sem fyrir eru á þessum stöðum, þýðingarmeiri. Það styður að blómlegri landbúnaði í nálægum byggðum, það sem gert er við sjávarsíðuna, og það skapar skilyrði fyrir vaxandi iðnað.

Þjóðinni fjölgar ört. Komandi kynslóðum verður að ætla rúm og starfsskilyrði, ekki á einum stað eða í einum landshluta, heldur alls staðar um landið, þar sem þessi skilyrði eru á annað borð fyrir hendi. Það má ekki skorta fjármagn til þess að hagnýta þau.

Við mættum lengi muna þetta, sem skáldið sagði:

„Þetta land á ærinn auð,

ef menn kunna að nota hann.“

Og því aðeins tel ég, að Íslendingar kunni að nota þennan auð landsins og hafsins, að ekki verði dregið úr þeirri aðstoð, sem veitt hefur verið til þess, heldur verði auknu fjármagni varið til þessara byggðarlaga, því að við vitum ekki enn, hversu þýðingarmikið það getur orðið í framtíðinni, að þetta sé ekki vanrækt nú.

Við þessa 1. umr. skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.