17.05.1960
Efri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

163. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. er beint áframhald af þeim athugunum og undirbúningi, sem vegamálastjórnin hefur framkvæmt samkvæmt ályktunum hv. Alþingis um jarðgöng á veginum milli Önundarfjarðar og Ísafjarðar og um Siglufjarðarveg ytri og jarðgöng á honum.

Eftir því sem vegir batna og eru færir lengri tíma árlega, verður það tilfinnanlegra, ef á þeim eru torfærur óbrúaðar. Áður þótti ekki mikið, þótt sæta þyrfti sjávarföllum eða bíða eftir, að hlypi úr á, sem var í vexti, til þess að komast leiðar sinnar. Hvort það tók langan tíma og hvort ferðin tók nokkrum klukkustundum eða jafnvel dögum lengur eða skemur, skipti ekki miklu máli. Nú, þegar ferð er farin á jafnmörgum klukkustundum og áður tók daga, er viðhorfið allt annað. Áður voru flutningar að og frá búi aðallega vor og haust. Nú eru afurðir búanna fluttar daglega til neytenda og verða ónýtar, ef vegir teppast marga daga. Þýðing veganna í lífi þjóðarinnar hefur vaxið svo, að sjálfsagt hefur þótt að brúa ekki aðeins á eða fljót, sem oft verður ófær, heldur einnig smáár, sem verða aðeins ófærar í vatnavöxtum eða leysingum, ef til vill aðeins fáa daga vor og haust.

Það þarf því engan að undra, þótt við, sem eigum að búa við torfærur eins og Breiðadalsheiði og Siglufjarðarskarð, sem eru yfir 600 m yfir sjávarmál og geta orðið og hafa orðið ófærar af snjó jafnvel á miðju sumri, viljum leita ráða til úrbóta. Auk þess eru þessar heiðar ófærar mikinn hluta vetrar, meira að segja í jafngóðu árferði og s.l. vetur. Flutningaþörfin er mikil á þessum leiðum, svo mikil, að grípa verður til sérstakra bátsferða, þegar vegirnir teppast.

Það er því augljóst sanngirnismál að leysa þetta mál á sama hátt og aðrar torfærur, ár, fljót eða gjár, og greiða kostnaðinn úr vega- og brúasjóði á sama hátt eftir stærð mannvirkisins. Við hv. 6. þm. Norðurl. e. erum ekki að fara fram á nein sérréttindi, heldur aðeins, að þeir, sem búa við torfærur, sem aðeins verður sigrazt á með því að gera jarðgöng, megi njóta jafnréttis við aðra landsmenn. Það verður svo auðvitað að vega og meta hverju sinni, hvort það fé, sem handbært er, eigi að fara til jarðganga eða brúargerða. Enn hefur á svo fáum stöðum verið fyrirhugað að gera jarðgöng, að unnt væri að ljúka þeim á næstu 2–3 árum, án þess að stöðva brúargerðir. Hvert hérað eða landshluti verður aðeins — eða umboðsmenn þess — að meta það hverju sinni, að hvoru er meiri samgöngubót, og láta það ráða ákvörðunum um það, hvort gert verður á undan, eða þá röð, sem höfð er á framkvæmdum.

Ég hef rætt þetta mál við vegamálastjóra. Hann tók þessari hugmynd mjög vel og taldi þessa lausn málsins eðlilega.

Ég vil svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.