17.05.1960
Efri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

163. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. frsm. þessa máls (KJJ) sagði það, ef ég hef tekið rétt eftir, að sér fyndist eðlilegt, að þm. fengju að ráða, hvort heldur væri brúað í þeirra landshluta eða byggð jarðgöng. Þetta finnst mér alveg sjálfsagt, að þm. í hlutaðeigandi landshluta fái að ráða þessum málum. En það er bara allt annað en kemur fram í frv. sjálfu, vegna þess að frv. gerir alls ekki svo ráð fyrir, að þeir landshlutar, sem þannig stendur á um að þurfa annars vegar að láta grafa í gegnum fjöll og hins vegar að láta byggja brýr, verði látnir velja, því að það fé, sem þeir ætlast til að sé unnið fyrir í jarðgöngum, er tekið af fé, sem á að þjóna öllum landsmönnum jafnt. Og ég vil ítreka það, að mér finnst, að tilgangi þessa máls sé alls ekki náð, nema því aðeins að hægt sé að finna leið til sérstakrar fjáröflunar, vegna þess að við vitum það allir, að land okkar er sundurskorið þannig, að við getum ekki ekið hringinn enn þá vegna vatnsfallanna, og það sýnir kannske bezt, hvað mikil og stórvirk mannvirki eru eftir í þeim efnum. Við megum því ekki stuðla að því með annarri lagasetningu, að þessi mál nái ekki fram að ganga eins skjótt og við annars vildum vera láta.

Ég hygg, ef ég man rétt, að nú renni kr. 1,14 af benzínvegaskatti til ríkissjóðs fyrir utan það, sem fer til brúa- og vegalagninga, og mér finnst ákaflega sanngjarnt og eðlilegt, að það fé, sem er tekið af þeim aðilum, sem eiga þessi farartæki, sé notað fyrst og fremst til þessara mannvirkja. Og ég vil mjög beina því til þeirrar n., sem kann að fjalla um þetta mál, hvort hún vill ekki leggja til, að af þessum kr. 1.14 verði eftirleiðis teknir nokkrir aurar, eins margir og talið er að þurfi til þessara hluta, til þess að hægt sé að sjá þessum mannvirkjum fyrir nægjanlegu fjármagni, án þess að það þurfi að skerða aðrar framkvæmdir í landinu vegna framlaganna til þeirra.

Ég skil ákaflega vel nauðsyn þessa máls og þeirra, sem búa við þessa staðhætti. Og þrátt fyrir það, þó að búið sé að byggja brýr hér á landi um hálfrar aldar skeið, þá er mikið verk óunnið í þeim efnum. Saga jarðganga er tiltölulega ung hér, og það liggur ekki ljóslega fyrir, hvað þau kunna að kosta, þegar farið er að grafa í gegnum heil fjöll. En þótt það kunni að liggja fyrir nú, að m3 kosti aðeins 200 kr., þá getur það hækkað verulega frá því, sem verið hefur, og í öðru lagi fer sá kostnaður að sjálfsögðu mjög eftir gerð fjallanna, því að við vitum, að það er ákaflega mismunandi kostnaður við sprengingar. Það fer eftir bergtegundum og hversu þéttar bergtegundirnar eru. Ég vil því beina því enn einu sinni til þessarar n., að hún athugi þetta mál, til þess að það fái skjótan og góðan framgang og önnur mál, sem Alþ. hefur á undanförnum árum viljað greiða fyrir, önnur samgöngumál, þurfi ekki eftirleiðis að sitja á hakanum vegna þess, að það er bætt á þá fjársjóði, sem hafa þurft að sjá þeim framkvæmdum fyrir fjármagni undanfarin ár.