07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2500)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Karl Guðjónsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Í þessum umr. hefur ýmislegt komið fram. sem nokkur fróðleikur er í um það, hvers konar ástand ríkir á stjórnarheimilinu. Ef við lítum t.d. á ræðuhöldin hans Emils Jónssonar, hæstv. félmrh., þá er það greinilegt, að hann lifir enn þá í þeim kosningablekkingum, sem hans flokkur fór með svo óspart fyrir síðustu kosningar, að það er eins og hann hafi ekki áttað sig á því enn þá, að þar var ekki af heilindum mælt. Hann lýsti því t.d. yfir hér úr þessum ræðustóli áðan, að hans stjórn léti ekki eftir sig neina víxla, neina óreiðuvíxla til framtíðarinnar. Í sömu ræðu gat hann einnig um það, að allir yfirdráttarmöguleikar Íslendinga á erlendum vettvangi væru nú fullnotaðir og horfði til öngþveitis. Hann gat líka um það, að útflutningssjóð mundi ekki vanta neitt fé í ár, en hins vegar tugi eða hundruð millj. á næsta ári, og er þó ekki vitað, að sjóðurinn hafi tekið á sig neinar nýjar skuldbindingar frá því í ársbyrjun í fyrra. Sjálfsagt hefur hann ekki enn þá glöggvað sig á því, að gengislækkunarhugmynd sú, sem ríkisstj. fitlar nú við, sé ekki í samræmi við þá stöðvunar stefnu, sem Alþfl. hefur boðað í dýrtíðarmálum og þykist hafa náð miklum árangri í.

Ekki eru öllu ófróðlegri þær upplýsingar, sem koma frá hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssyni, um það, að hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, sé algerlega andvígur því fjárlagafrv., sem samráðherra hans, Guðmundur Í. Guðmundsson, hæstv. utanrrh., samdi í sinni stjórnartíð. Og þá eru ekki heldur upplýsingar landbrh. alveg ónýtar um það, að í stjórninni hafi ekki verið gert neitt samkomulag um, hvernig eigi að bregðast við 3.18 prósentunum, sem sá ágæti ráðh. hefur í minni áheyrn oftlega tekið fram, að hans flokkur mundi færa bændum, enda þótt hann hér á Alþ. greiddi atkv. gegn því í dag.

En eitt er ríkisstj. sammála um. Hún vill fresta Alþ. Hún vill fresta fundum þess. Hún hefur raunar fyrir löngu ákveðið að gera það, og hún ætlaði að vera búin að því fyrir viku. Hún hefur nú þegar, rúmum mánuði eftir kosningar, gleymt því, til hvers þm. eru kosnir og til hvers þing er háð. Henni finnst þingið vera sér til óþæginda, og hún vill losa sig við það og telur allt of seint ganga í þeim efnum. Hennar hugmynd var sú, að þingið yrði leyst upp, eftir að þm., margir nýir sem slíkir og óvanir starfsháttum þingsins, höfðu átt þess kost í fjóra eða fimm daga að vinna að almennum þingstörfum og án þess að þeir fulltrúar, sem þjóðin hafði valið til þess að ráða vandamálum sinum til hlunns, fengju svo mikið sem að heyra skýrslu um ástand og horfur í þjóðarbúskapnum, svo sem þó er bæði föst venja og lögbundin skylda í byrjun hvers reglulegs þinghalds. Ekki hugðist stjórnin heldur sinna þeirri skyldu, er stjórnarskráin ákveður, að leggja fram á þinginu brbl. til afgreiðslu. Og áður en nokkur till. sást þar um á Alþingi, sögðu stjórnarblöðin, að ákveðin væri þingfrestun á ákveðnum degi, sem nú er að vísu hjá liðinn án þingfrestunar, en rétt í kjölfar þessa var lögð fram um þetta till. á þingi, svo sem eins og til þess, að Alþ. skyldi nú gefinn kostur á því að staðfesta þessa ákvörðun Alþýðublaðsins og Vísis.

En það kom í ljós, að til voru þeir þm., sem ekki voru sammála því, að þing væri einungis kvatt saman til málamynda, og kröfðust upplýsinga um fjárreiður ríkisins og vildu sjá framan í þann vanda, sem ráðherrar voru ófáanlegir til að segja um á Alþ., en voru þeim mun ósparari á að þusa um á fundum í stjórnmálafélögum sínum úti í bæ. Þessar kröfur kölluðu ráðherrar málþóf og töldu af illum toga spunnið og einungis gert til tafar á þingstörfum og til að varna stjórninni næðis til að glíma við vandamálin, eins og þeir nefna íþrótt sína. Þess má þó geta, að ekki hefur stjórnarliðið, sem tryggt hefur sér alger ráð á þingstörfum og hraða þingvinnunnar, tekið fyrir eitt einasta mál í n. utan það eitt, sem flutt er af ríkisstj. og miðar að því að gera þingfrestunina mögulega þegar í stað. Og vart hafa önnur mál heldur komið á þingfundadagskrá, síðan stjórnin öðlaðist sitt fyrsta og hingað til sitt eina baráttumál, hugsjónina um að reka Alþ, af höndum sér.

En þótt stjórnarliðið hafi séð til þess, að ekki gæti þokað fram almennum framfaramálum, sem þegar liggja mörg fyrir hér á þingi, hafa þó komið fram í umr. og atburðum síðustu daga nokkrar athyglisverðar upplýsingar, þótt vart geti þær talizt þess eðlis, að þær boði þjóðinni bjartari framtíð. Að vísu kom hér á borð þingmanna fyrir nokkrum dögum 140 blaðsíðna kver með yfirskriftinni „Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1960“. Í því er raunar að finna dálitlar upplýsingar, sem stinga verulega í stúf við þær hrollvekjur, sem mönnum er títt að flytja við hátíðleg tækifæri um ömurleik í íslenzku fjármálalífi. Þar stendur t.d.: „Að því er bezt verður séð, munu tekjur ríkissjóðs á árinu 1959 fara talsvert fram úr áætlun fjárlaga.“ Og eftir að sagt hefur verið frá því, að umframgreiðslur séu einnig nokkrar, svo að ekki muni verða neinn greiðsluafgangur, segir svo: „En aftur á móti er ekki ástæða til að óttast greiðsluhalla á yfirstandandi ári.“

Enginn mun hafa til þess ætlazt, að þetta fjárlagafrv. gæti runnið skeið sitt á enda litið breytt eða orðið að lögum nú fyrir áramótin, enda hófst þing nú síðar en oft áður, og af ýmsum öðrum ástæðum var ekki við því að segja, þótt afgreiðsla þess yrði að dragast fram yfir áramótin. En hitt kom á óvart, þegar hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, neitaði að halda nokkra framsöguræðu með þessu frv. og kvaðst aldrei mundu gera það, heldur semja nýtt frv. og eftir fyrirhugað þinghlé yrði það, en ekki þetta frv., tekið til umr. Þetta jafngildir auðvitað því, að ráðh., sem sjálfur lét útbýta frv. þessu á þinginu, lýsir það markleysu og ónýtt plagg. Það var vitað, að þegar Gunnar Thoroddsen tók við sínu núverandi starfi, lá þetta frv. tilbúið og prentað í rn. Það var samið á ábyrgð hæstv. fyrrv. fjmrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar. Það má vel vera, að mat núv. fjmrh., Gunnars Thoroddsens, á þessu frv. Guðmundar Í. Guðmundssonar sé rétt. En þegar í ljós var komið, að frv. Guðmundar var marklaus og ónýtur pappír, bar auðvitað hreinlátum og snyrtilegum ráðh. að láta fjarlægja það sem annað rusl úr rn. og í þar til gert ílát utan dyra. En þetta gerði ráðh. ekki, heldur lét dreifa því á Alþ. og virðist hafa ætlað að láta þm. vera í góðri trú um, að þetta væri gott og gilt þskj. En yfirlýsing ráðh. um þetta eina plagg, sem fyrir liggur um fjárreiður ríkisins, var eitt af því, sem fram kom í umr. á Alþ. hina síðustu dagana, sem stjórnin leit svo óhýru auga og vildi með öllu sneiða hjá.

En þótt nokkur tíðindi megi það teljast, að skipta á um fjárlagafrv. eftir þinghlé, er hitt þó stærri frétt, að jafnframt eigi þá að skipta um efnahagskerfi, en það sagði ráðh. líka í þessum sömu umr., svo sem eins og í framhjáhlaupi. Að vísu eru öll ummæli einstakra ráðh. um væntanlegar efnahagsaðgerðir sem og ákvæði stjórnarsamningsins, þar sem á þær er drepið, einna líkust véfréttasvörum og bera þess greinilegan vott, að þar hefur engin stefna verið mörkuð fremur en í öðrum þáttum þjóðmála. Stjórnarsamningurinn er einungis sjö stóla sáttmáli án stefnu í þjóðmálum. Sameiginleg tilhneiging beggja stjórnarflokkanna leynir sér þó ekki, en hún hnígur í þá átt, að framkvæma beri stórfellda gengislækkun, þótt framkvæmdin skjóti báðum aðilum það miklum skelk í bringu. að enn er óvissa um það eitt, til hvers kjarkur þeirra hrekkur. Sumum stjórnarherranna kann að finnast heldur skammt liðið frá kosningaræðunum, þar sem Alþfl. gortaði mest af þeirri náð sinni að hafa ráðið niðurlögum dýrtíðarinnar, en Sjálfstfl. vill vera viss um, að þegar framkvæmd gengisfellingarinnar kemur, verði búið að taka niður og brjóta saman alla borðana. sem hann strengdi þvert yfir aðalgötur höfuðborgarinnar með gleiðletruðu vígorðinu um það, að sá flokkur væri leiðin til bættra lífskjara, enda er samræmið á milli kenningarinnar um gengisfellingu og bætt lífskjör og stöðvun dýrtíðar helzt til ónákvæmt.

En þótt hér hafi verið sýnt fram á það, að þingfrestun í tvo mánuði, rétt þegar nýkjörið þing var að hefja störf, lítilsvirði bæði Alþ. og almennt lýðræði í landinu, er samt vert að líta á þau rök, sem stjórnarliðið hefur helzt uppi fyrir sínum málstað. Þau liggja fyrir og eru þessi: Stjórnin þarf næði og tóm til þess í fyrsta lagi að kanna efnahagsástandið og í öðru lagi að undirbúa lagasetningu til lausnar vandamálunum.

Kenningin um könnun á efnahagsástandinu er fyrst og fremst viðkvæði Sjálfstfl. Af eðlilegum ástæðum gagnar hún Alþfl. verr, þar eð menn mundu einungis brosa, ef sá flokkur ætlaði að fara að telja sig bláókunnugan í stjórnarráðinu. En þeir, sem fylgzt hafa svolítið með gangi mála að undanförnu, vita líka ofur vel, að fáfræði Sjálfstfl. er uppgerðin ein, haldlaus afsökun fyrir ráðleysi flokksins og sundurþykkju, sem nú sverfur að honum fastar en nokkru sinni áður. Þetta er raunar sami flokkurinn og fyrir réttu ári athugaði um stjórnarmyndun, tók í sína vörzlu öll gögn hins opinbera varðandi efnahagsmál og fékk þau í hendur sínum sérfræðingum. Síðan hafði Sjálfstfl. algera forustu um mótun fjárlaga fyrir þetta ár og einnig um setningu laga um útflutningssjóð, að ógleymdri þeirri efnahagsráðstöfun, sem þá átti öllu að bjarga, en það var lagasetningin um lækkun kaups og afurðaverðs í fyrravetur. Og auðvitað hefur Sjálfstfl. átt þess fullan kost að fylgjast með framvindu allri í þessum efnum hjá stjórninni, sem hann kom á laggirnar til að framkvæma sín stefnumið fyrir ári, enda þótt hann brysti þrek til þess í 11 mánuði að setjast sjálfur í þá stjórn, svo sem hann þá hefur gert nú. Það er því hin afkáralegasta viðbára og ekkert annað, þegar hann nú þykist koma að öllu bláókunnugur og þurfa miklar rannsóknir til að botna eitthvað í því, hvernig komið sé.

Hvað er þá að segja um hitt atriðið, nauðsynina á næði frá þingstörfum til að finna leiðir út úr vandamálunum? Skyldu nú ekki ráðh. og annað stórmenni, er að stjórninni stendur, nota hverja stund, sem frá þinghaldinu er hægt að víkja, til þess að glíma við vandann, til að brjóta heilann um lausnarorðið og bera saman ráð sín? Að vísu hafa sézt um það ráðherrayfirlýsingar í blöðum, að svo sé fjarvist þeirra úr þingsölum hversdagsleg, að þá sofi þeir í bólum sínum. þegar þeirra er saknað á þingfundum. En auðvitað er þetta ekki hin almenna regla, enda hefur forsrh. nýlega brýnt alþjóð og þá að sjálfsögðu ekki síður sína samráðh, um að halda nú vöku sinni, því að það sé nauðsyn þjóðarinnar, og það hafa dæmin líka sannað, að þegar næturfundum þingsins hefur verið nægilega lengi frestað. til þess að þingheimur fengi að njóta nærvistar þeirra, sem saknað var, þá hafa það ekki verið framlágir eða syfjaðir menn, upprifnir úr nætursvefni, sem á þingi hittust. Það vildi t.d. til upp úr miðnættinu aðfaranótt s.l. fimmtudags, þegar forseti Nd. svipaðist um þingbekki, áður en til atkvæða væri gengið, að honum mun hafa þótt ráðherrastólar þunnskipaðir og einnig fleiri skörð í þingmannaraðir, þar sem stjórnin átti sér stuðnings að vænta. Nú eru þeir stóru auðvitað önnum kafnir að glíma við vandann, hugsuðu menn, og þingstörfin urðu að dragast á langinn, því að forseti sýndi fullan skilning á því, að þingfylgi stjórnarinnar er það naumt, að ekki má mörg skörð í til þess, að af sé meirihlutavald þess. En hér skyldi atkvgr. fara fram á hinni tilteknu nóttu, og þeir stóru voru til kvaddir, þó að það kostaði þá nokkurt ónæði og frátafir frá glímunni við vandann. Eftir að beðið hafði verið svo sem hálfa stund, birti heldur yfir í þingsal. Ráðherrar og háembættismenn, einmitt hinir ábyrgustu gagnvart vandanum, gengu til sæta sinna. Þeir voru búnir skartklæðum þeim, sem tíðkanleg eru einungis við hinar stærstu hátíðir, og allir hinir höfðinglegustu í fasi. Þetta eru sannir höfðingjar, hlutu þeir að hugsa, er vottar urðu að þeim hátíðleik, er hér birtist. Þeir fara að eins og Skúli fógeti forðum, þegar hann sá syrta í álinn. Hann klæddist litklæðum til þess að ganga á vit þess vanda, sem hann átti fyrir höndum, og hann tók til sinna ráða, réðst gegn vandanum, og í það skiptið vann hann sitt afrek í litklæðunum. Síðan hefur aldrei til neins höfðingsskapar spurzt, er næði neinum samjöfnuði við það, fyrr en þarna, að þingsalur upplýstist á náttaþeli af hvítum skartbringum og skínandi ásjónum stórmenna, er nú nutu ekki næðis að glíma við vandann, heldur urðu einnig að sinna tiltölulega lítilmótlegum atkvæðagreiðslum á þingi. En þetta gerðu þeir og mögluðu hvergi, og síðan var fundi slitið, svo að væntanlega hefur þeim skjótlega aftur gefizt tóm til glímunnar við vandann.

Nú eru vandamál þjóðarinnar auðvitað margþætt, og ekki vissu þeir, er í þingi urðu ásjáandi þessa hátíðleika, er þar birtist umrædda nótt, að hverjum þættinum störf hinna fjarstöddu stórmenna beindust, fyrr en Alþýðublaðið gaf um það nokkra vísbendingu hinn 4. þ.m., en þar birtist þá grein á forsíðu, þar sem þessar upplýsingar er m.a. að finna, og vitna ég nú orðrétt til þess blaðs, að vísu með litlum úrfellingum, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Andrew Gilchrist, ambassador Breta á Íslandi, fer héðan alfarinn einhvern næstu daga. Hann heldur fyrst til Bretlands, en þaðan til Chicago. Á miðvikudagskvöld var honum haldið kveðjuhóf í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Hver sem hlutur þessa brezka embættismanns í landhelgisdeilunni hefur verið, hefur hann persónulega og hans fjölskylda ekki átt sjö dagana sæla, síðan deilan hófst. Síðan hefur allur þorri íslenzkra embættismanna og fleiri Íslendingar afþakkað öll boð brezka sendiherrans og neitað að stíga inn í það fæti, og það var fátítt, að brezka sendiherranum væri boðið til eins eða neins af opinberum aðilum.“

Þessi lýsing mun hafa átt við allt fram að kosningum. En með mikilli gleði hefur blaðið nú skýrt frá því, að hér hafi orðið á veruleg umbreyting. Þarna höfðu sem sagt umr. um þjóðmál á þingi orðið til þess að trufla okkar ráðherra, okkar fiskimálastjóra og máske fleiri sanna og góða Íslendinga í því að bæta brezka sendiherranum upp þurrlæti það, sem þjóðin hefur sýnt honum síðan herskip þau, sem hann er talsmaður fyrir, tóku að vernda frelsið á úthöfunum, eins og framferði brezku vígdrekanna í landhelginni okkar heitir samkv. hugmyndum herra Andrews Gilchrists og stjórnar þeirrar, sem hann starfar hér fyrir. Hinu er svo ekki að neita, að alltaf eru til menn, sem ekki kunna gott að meta, t.d. ekki vinafögnuð ríkisstj. og þessa brezka sendiherra, sem veitt hefur viðtöku svo mörgum harðorðum mótmælum sem raun er á um Gilchrist þennan. Svo er þessu t.d. varið um okkur fulltrúa Alþb. hér í þessari stofnun. Við teljum tíma ekki illa varið til umræðu um almenn þjóðmál, svo sem rekstrargrundvöll fiskiflotans, sanngjarnt verð á búvörum bænda eða fjárreiður ríkissjóðs, og viljum láta Alþ. taka þessi mál og raunar fleiri til athugunar og afgreiðslu, jafnvel þótt það geti truflað svefnró þreyttra ráðherra og veizlufrið stjórnarvalda hjá fulltrúum brezku stjórnarinnar, þar sem slík mál eru vafalaust litin smáum augum. Og við munum greiða atkvæði gegn frestunartillögunni, sem við enn teljum ótímabæra, og með því lýsa okkur reiðubúna til þingstarfa, þótt frekara þinghald kunni enn að trufla þann þátt glímunnar við vandann, sem fram fer til lofdýrðar brezkum sendifulltrúum. — Góða nótt.