24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2559)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Á þskj. 39 hef ég ásamt fjórum öðrum hv. þm. leyft mér að flytja till. þá, sem nú er til umr. Till. fjallar um, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta rannsaka fjárþörf veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og undirbúi síðan tillögur um, hvernig tryggja megi veðdeildinni starfsgrundvöll með það fyrir augum, að hún geti gegnt hlutverki sínu fyrir landbúnaðinn á viðhlítandi hátt.

Það er alkunnugt, að á undanförnum árum hefur verið miklum vandkvæðum bundið að fá veðlán til lengri tíma út á jarðeignir og húsakost í sveitum, nema um nýbyggingar eða nýrækt hafi verið að ræða. Þetta hefur sérstaklega komið sér illa fyrir þá, sem hafa viljað kaupa jarðir og reisa bú. Eina stofnunin, sem hefur talið það innan síns verkahrings að hlaupa undir bagga með þessum aðilum, er veðdeild Búnaðarbankans. en vegna efnaleysis hefur hún orðið að vísa frá fjöldamörgum lánsbeiðnum, enda þótt lánsupphæðir til hvers og eins væru mjög takmarkaðar með starfsreglum deildarinnar.

Með fyrirmælum 1930 var ákveðið, að lánsfjárhæð mætti ekki fara fram úr 3/5 hlutum af virðingarverði fasteignar. Eignir skyldu metnar til verðs, sem þær eftir beztu vitund virðingarmanna hefðu í kaupum og sölum. Með bréfi atv.- og samgmrn. í júní 1943 var Búnaðarbankanum samkvæmt ósk bankans leyft að stofna nýjan flokk veðdeildar bankans, eins og orðað er í bréfinu, en það skilyrði sett ásamt öðrum, að lánsfjárhæðin í hverju einstöku tilfelli mætti ekki fara fram úr 60% af landverði jarðar, miðað við gildandi fasteignamat, og 30% af húsverði og annarra varanlegra mannvirkja á jörðinni, miðað við sama mat. Með þessum fyrirmælum rn. var hámark lána úr deildinni út á hverja jörð stórkostlega skert frá því, sem verið hafði áður, þar sem miða átti eftirleiðis við gildandi fasteignamat í stað mats, sem byggðist á sölu- og kauptillverði, þ.e.a.s. markaðsverði viðkomandi eignar, eftir því sem næst yrði komizt. Frá þessari reglu og skerðingu var svo fallið þremur árum síðar og þá aftur heimilað að lána allt að 60% af landverði og 30% af húsaverði samkvæmt matsgjörð dómkvaddra manna á veðinu og þá miðað við gangverð viðkomandi eignar, eins og fram var tekið í bréfi landbrn. til Búnaðarbankans. dags. 6. ágúst 1946. Það er svo saga út af fyrir sig, að vegna getuleysis veðdeildarinnar hafa forráðamenn Búnaðarbankans ekki treyst sér til annars en að takmarka lánsfjárhæð til hverrar jarðar við 35 þús. kr. Má segja, að miðað við allt verðlag sé sú upphæð alls kostar ófullnægjandi.

Varðandi lánamál landbúnaðarins verður það að viðurkennast, sem betur fer, að tiltölulega greiður aðgangur hefur verið að lánum til nýrra framkvæmda. Á ég með því við lánveitingar stofnsjóða landbúnaðarins, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs. Meðan veðdeild Búnaðarbankans hefur staðið svo til galtóm, hefur báðum þessum sjóðum verið séð fyrir milljónatugum árlega og þeir því getað lánað út á framkvæmdir nokkurn veginn eftir því, sem þeim hefur miðað áfram. Um það eru menn sammála, að nauðsynlegt sé að veita lán til nýræktar og nýbygginga í sveitum, ef uppbyggingin á þar ekki að stöðvast, en fram hjá þeirri staðreynd má hins vegar ekki ganga, að oft getur verið jafnrík ástæða til lánveitinga, þótt ekki sé um nýjar framkvæmdir að ræða.

Við það munu flestir kannast, að illa gengur oft og tíðum að selja góðar jarðir, þótt vel séu í sveit settar og hafi greiðan aðgang að markaði fyrir afurðir sínar. Oft og tíðum stendur ekki á mönnum, sem vilja kaupa, heldur hinu, að þeim eru allar leiðir lokaðar til þess að fá lán. Jarðarverð er nú orðið það hátt, að sárafáir hafa nokkra getu til þess að festa kaup á meðaljörð nema með því móti að stofna til skulda í sambandi við kaupin. Þá koma ekki til greina nema samningsbundin lán til lengri tíma, ef vel á að fara, þar sem sá arður er ekki af búskapnum, að hann standi undir skyndilánum.

Það á einmitt að vera verkefni veðdeildarinnar að geta hlaupið myndarlega undir bagga með mönnum, þegar þannig stendur á. Þjóðfélagslega séð er það jafnnauðsynlegt, að eigendaskipti geti átt sér stað á jörðum með kaupum eins og að aðstoða menn með lánveitingum og styrkjum til þess að koma upp nýrækt og nýjum húsakosti.

Við stofnun veðdeildar Búnaðarbankans og eftir að hún tók til starfa mun það hafa verið hugmyndin að tryggja henni a.ð verulegu leyti rekstrarfé með útgáfu og sölu bankavaxtabréfa. Ef hér á landi hefðu verið skilyrði fyrir heilbrigðan verðbréfamarkað, má gera ráð fyrir því, að sala slíkra verðbréfa hefði tryggt deildinni töluvert fjármagn til útlána. Eins og allir vita, hefur þróunin í efnahagsmálunum hins vegar verið í þá áttina, að ógerlegt hefur verið að selja á frjálsum markaði verðbréf, sem greiðast hafa átt upp á mörgum árum, nema þá með miklum afföllum. Þetta ástand hefur því raunverulega útilokað veðdeildina og aðrar svipaðar stofnanir í landinu frá því að fá fé frá sparifjáreigendum.

Til þess að hindra það, að veðdeildin yrði með öllu fjárvana og þar með óstarfhæf, hefur því orðið að gera ráðstafanir til þess að útvega henni fjármagn með öðrum hætti. Vil ég í stuttu máli drepa á þær nánar, sem mér er kunnugt um.

1) Þegar tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1951 var ráðstafað, fékk veðdeildin 1 millj. króna í sinn hlut.

2) Með lögum 1955 um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1954 var heimilað að lána veðdeildinni 4 millj. kr. af greiðsluafganginum með 5½% vöxtum og til 20 ára. Var sú heimild notuð og upphæðin greidd veðdeildinni.

3) Með l. nr. 31 frá 1954 var svo ákveðið, að meðan veðdeild Búnaðarbanka Íslands er ekki með frambúðarráðstöfunum séð fyrir því fé, sem henni er nauðsynlegt til að geta sinnt því margþætta hlutverki, sem henni er ætlað að lögum, skuli ríkisstj. tryggja henni með samningum við Landsbanka Íslands og aðrar peningastofnanir eða á annan hátt affallalausa sölu bankavaxtabréfa. er nemi árlega a.m.k. 1 millj. og 200 þús. kr. Í lögunum er nú tekið fram, að ríkisstj. geti ákveðið, að Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélag Íslands og Söfnunarsjóður Íslands kaupi þessi bréf, og ákveður hún árlega upphæðina, eftir að hún hefur kynnt sér hag hlutaðeigandi stofnana og jafnframt leitað álits forstöðumanna þeirra. Hvernig sem á því stendur, hafa þessi lög aldrei komið til framkvæmda, eftir því sem ég bezt veit.

4) Í lögum nr. 44 frá 1957, um skatt á stóreignir, var ákveðið, að einn þriðji hluti þess skatts, sem innheimtist, skyldi renna til veðdeildar Búnaðarbankans. Samkvæmt þessum lögum mun deildin nú þegar hafa fengið 2 millj. og 100 þús. kr., og á árinu 1958 lánaði seðlabankinn henni 5 millj. kr. út á væntanlegar tekjur af þessum skatti. Um það, hvað deildin muni eiga eftir að fá af stóreignaskatti, get ég ekki sagt með neinni vissu, en gizka á, að það muni nema nálægt 22 millj. kr.

5) Tekið var fram í lögum frá 1957, um húsnæðismálastofnun o.fl., að fé það, sem fengist í gegnum skyldusparnaðinn og kæmi úr sveitunum. skyldi ávaxtast í veðdeildinni. Þessu fé verður veðdeildin að sjálfsögðu að skila aftur á sínum tíma og þá með vöxtum og vísitöluuppbót, ef einhver er. Um s.l. áramót mun deildin hafa fengið af skyldusparnaði um 6 millj. og 700 þús. kr.

6) Á árunum 1955 og 1956 mun veðdeildin hafa fengið lán úr ríkissjóði samtals að fjárhæð 6 millj. kr., sem síðan var breytt í óafturkræft framlag árið 1957.

7) Árið 1957 fékk veðdeildin 5 millj. kr. hjá atvinnuleysistryggingasjóði að láni.

Allar þessar ráðstafanir hafa orðið til þess að létta undir með veðdeildinni, þótt þær hafi ekki hrokkið til þess, að hún gæti veitt þá þjónustu, sem brýn nauðsyn er fyrir. Í útlánum hjá deildinni munu nú vera um 27.5 millj. kr. Eigið fé deildarinnar með varasjóði mun vera um 10.7 millj. kr. Það, sem á vantar til þess að ná útlánunum, er lánsfé, sem deildin hefur fengið frá seðlabankanum, atvinnuleysistryggingasjóði og af skyldusparnaði.

Vegna þess, hvernig til hefur tekizt í fjármálalífi okkar undanfarandi ár, verður það án efa vandamál, hvernig tryggja megi veðdeildinni fjárráð til frambúðar. Við flm. þessarar till. teljum vænlegast til árangurs, að ríkisstj. láti rannsaka, hvaða leiðir komi helzt til greina, og geri á grundvelli þeirrar athugunar ákveðnar tillögur, sem þá yrðu væntanlega lagðar fyrir Alþingi. Ríkisstj. hefur greiðan aðgang að öllum gögnum og upplýsingum, sem að gagni mega koma, og mundi að sjálfsögðu hafa samráð við Búnaðarbankann og aðrar stofnanir landbúnaðarins. Fram hjá þeirri staðreynd verður og ekki heldur gengið, að varanleg lausn á fjárhagserfiðleikum veðdeildarinnar fæst ekki án tillits til annarra vandamála varðandi lánamálin í heild. Því er lagt til, að ríkisstj. láti rannsaka fjárþörf veðdeildarinnar og geri síðan tillögur um það, hvernig tryggja megi henni fjármagn, svo að hún geti starfað með eðlilegum hætti. Ég leyfi mér því að fara fram á það við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.