11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2567)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. (TR) sagði, að stjórnarvöldin hafa að undanförnu stundum leitazt við að greiða úr fyrir veðdeildinni með bráðabirgðaúrlausnum. Þetta hefur verið gert oftar en einu sinni, t.d. með þeim hætti, að veðdeildinni hefur verið lánað af tekjuafgangi ríkisins, þegar um hann hefur verið að ræða. Og það er einmitt þetta, sem brtt. mín fjallar um, að það verði nú til bráðabirgða fundin einhver leið til þess að útvega veðdeildinni nokkra fjárupphæð til að bæta úr allra brýnustu þörfinni.

Hæstv. ráðh. segir, að stjórnin hafi góðan vilja í þessu efni, og þess vegna geri ég mér vonir um. að ef Alþ. sýni vilja sinn með því að samþykkja till. mína um áskorun á ríkisstj., þá verði hún við þessu og veðdeildin fái innan skamms nokkra upphæð til þess að sinna þeim lánbeiðnum, sem nú liggja fyrir, a.m.k. þeim lánbeiðnum, sem eru frá mönnum, sem hafa ákaflega aðkallandi þörf fyrir einhverja úrlausn nú í bili. Það er svo mikil peningaumferðin hér í okkar landi, að ég þykist vita, að það sé hægt fyrir hæstv. stjórn að gera þetta, annaðhvort með því að hafa áhrif á seðlabankann þannig, að hann veiti nokkurt lán í bili, eða með einhverjum öðrum ráðum. Ég efast ekki um það, og ég tel, að það sé stuðningur alveg tvímælalaus fyrir ríkisstj. við þessar aðgerðir að hafa yfirlýsingu frá Alþingi um, að það ætlist til þess, að þetta verði gert.