14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

88. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði úr þessum löngu ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem ég skal gera hér að umtalsefni og reyna að draga þar út meginatriðin, sem þó er nokkuð erfitt í allri þessari langloku og mærð.

Í rauninni verður manni fyrst spurn: Á að taka alvarlega, á að taka hátíðlega þessa miklu andstöðugagnrýni Framsfl. og Alþb. gegn söluskatti? Ég held, að þegar málin eru athuguð, þá geti varla nokkur maður, sem eitthvað þekkir til stefnu og starfsemi þessara flokka, tekið það alvarlega, sem hér er haldið fram, að söluskatturinn sé jafnóskaplegur, ranglátur, fráleitur og þeir halda fram nú. Ef maður lítur t.d. fyrst á Framsfl., þá var Framsfl. í ríkisstj., þegar söluskatturinn var fyrst lögleiddur, en eins og kunnugt er, hafa lögin nr. 100 frá 1948 verið í gildi nú sem sagt í 12 ár og eru enn. Þessi söluskattur hefur að vísu tekið ýmsum breytingum. Og svo að segja allan þennan tíma, frá því er söluskatturinn var lögleiddur hér, hefur Framsfl. verið í ríkisstj. og langsamlega lengst af farið sjálfur með fjármál og skattamál, og á þessum 12 árum eru þær ræður orðnar margar, ég held næstum, að tala þeirra sé legíó, sem fulltrúar Framsfl. með fyrrv. hæstv. fjmrh. í fararbroddi, Eystein Jónsson, hafa haldið til lofs og dýrðar söluskattinum sem tekjustofni. Ég minnist þess t.d., af því að vitnað var hér í ummæli þm. frá 1954, að þá sagði einn málsvari framsóknarmanna í þessu máli, — hann var framsögumaður hér í þessari hv. d., — um söluskattsfrv., sem þá var lagt fyrir af hv. 1, þm. Austf. (EystJ), — þessi frsm. framsóknarmanna í málinu sagði hér í þessari d. eitthvað á þá leið, að hann kæmi ekki auga á neinn tekjustofn eða skattstofn, sem hægt væri að láta koma í staðinn fyrir söluskattinn, nema þá helzt það, að Ísland legði undir sig Grænland og arðrændi íbúana þar. Annan möguleika sá hann ekki, ef ætti að hætta við jafnnauðsynlegan skattstofn og söluskatturinn var í hans augum þá.

Framsfl. ber sína ábyrgð, ekki einn, heldur ber sinn hluta af ábyrgðinni á söluskattinum frá upphafi í þessi 12 ár. Honum hefur að vísu farið forustan í þessu efni að mörgu leyti mjög illa úr hendi. Það er verið að hringla með söluskattinn ár frá ári, ýmist að leggja hann á ýmis stig, sem sagt fjölstigaskatt, eða sem smásöluskatt eða sem iðnaðarskatt, núna síðast hinn alræmda og illræmda 9% skatt á iðnaði og þjónustu. Þetta hefur farið honum ákaflega illa úr hendi, bæði framkvæmdin og lagasetningin, sem hann sem sagt hefur haft forustuna um. En söluskatt hefur hann viljað hafa öll þessi ár. Nú þegar hann hefur hrökklazt úr ríkisstj., þá breytist svo viðhorfið, að það þarf hvorki meira né minna en að hver einasti hv. þm. Framsfl. rísi hér upp og haldi langar ræður, sumar jafnvel svo að klukkutímum skiptir, til þess að fordæma söluskattinn sem gersamlega óhæfan tekjustofn ríkisins. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, — ég veit ekki, hvað öðrum finnst, — en mér finnst ómögulegt að taka þessar orðræður hátíðlega eða alvarlega.

Ef maður lítur svo á Alþb. eða kommúnistana, þá talar fulltrúi þeirra hér mjög digurbarkalega um söluskattinn sem alveg fráleitan skatt og ranglátan á alþýðu manna. Ég tek þetta ekki heldur hátíðlega, því að bæði hann og ég vitum, að trúbræður hans úti í Rússíá nota söluskatt sem aðaltekjulind ríkissjóðs. Þetta vita allir, að mikill meiri hluti af ríkistekjum Sovét-Rússlands kemur einmitt frá söluskatti. Beinir skattar eru þar tiltölulega litlir og tollar ekki háir, og ég ætla t.d., að sumir þeirra hv. þm., sem fyrir nokkru fóru í opinbera heimsókn til Rússlands sem gestir rússneska þingsins, hafi einmitt komið hingað aftur með þær upplýsingar beint frá hinum æðstu mönnum þar, sem þeir áttu tal við og spurðu um tekjustofna ríkisins, að langsamlega aðaltekjustofninn væri söluskattur. Nei, það þarf vissulega einhverja aðra en mig til að taka þessa andstöðu og gagnrýni hátíðlega.

Varðandi þessi miklu ræðuhöld Framsfl. verður manni náttúrlega að spyrja, hver sé stefna Framsfl. í þessum málum, og ég verð að segja, að það er ákaflega erfitt að átta sig á því. Ég hef drepið hér á fortíð Framsfl. í söluskattsmálinu. En hvernig er það, telur Framsfl. og hv. þm. hans, að það sé óþarft að afla tekna, 280 millj. kr. tekna, sem fjárlög gera ráð fyrir að séu nauðsynlegar? Er það skoðun Framsfl., að þetta sé algerlega óþarft og það megi afgr. fjárlög án þess? Ef þeir telja það, þá væri fróðlegt að vita, hvaða útgjaldaliði fjárlaga þeir ætla að skera niður sem þessu nemur. Meðan þeir benda ekki á það, er auðvitað allt þeirra tal marklaust. Maður spyr líka, og ég hef spurt um það áður, af því að þessi söluskattur, sem hér er lagt til að verði á lagður, á að koma í staðinn fyrir aðra tekjustofna ríkisins: Eru framsóknarmenn með því eða eru þeir á móti því, að 9% söluskatturinn á iðnaði og þjónustu verði lagður niður, eða vilja þeir halda honum áfram? Ég hef spurt þá líka að því: Eru þeir með því eða á móti, að afnuminn sé tekjuskattur á launatekjur, almennar launatekjur? Það hefur ekkert svar fengizt við hvorugri þessari spurningu.

Í ræðum framsóknarmanna er ómögulegt að fá neinn botn í það, neina niðurstöðu, hver er þeirra stefna í þessum málum, og í rauninni er hún vafalaust engin eða eins og svo oft er með þennan flokk, sem að stefnu til er einstakt viðrini í íslenzkri pólitík. En þetta minnir mig vissulega á það, sem einn ágætur þm. Framsfl. sagði einu sinni á framboðsfundl. Hann var að lýsa því fagurlega, að stefna Framsfl. væri millistefna og hann væri milliflokkur, og hann orðaði það þannig, að stefna Framsfl. væri í rauninni milli frostmarksins og suðupunktsins, en það þýðir á góðri og gildri íslenzku, að hann er hvorki hrár né soðinn. Það er hann í þessu máli, sem hér liggur fyrir, eins og svo mörgum fyrr og síðar.

Hér hefur verið minnzt enn í þessum umræðum á skáldsöguna um 100 millj. kr. skekkju í útreikningum hagfræðinga og ríkisstj. Ég minntist á það hér við 1. umr., að þessi saga er auðvitað tilbúningur einn, — ég veit ekki í hvaða verksmiðju hún er upphaflega framleidd, hvort það er á ritstjórnarskrifstofu Þjóðviljans eða Tímans, það skiptir ekki miklu máli, blöðin lepja þetta hvort eftir öðru og þingmennirnir hér líka. Frjáls þjóð held ég sé gengin í lið með þeim líka í þessu efni. Sem sagt, fyrir þessari fullyrðingu er ekki hinn minnsti fótur.

Ég vil svo í sambandi við þetta mál og sérstaklega vegna ummæla sumra hv. þm. nú hér í dag taka það fram, að ég hef aldrei sagt í sambandi hvorki við fjárlagaumræður né áður á þessu þingi, að söluskatturinn ætti að verða 3%. Það var auðvitað ljóst, að til þess að ná þeirri upphæð, sem þurfti, 280 millj., hefði söluskattur þurft að vera töluvert hærri en 3%. Hann hefði þurft að vera um eða yfir 4% og gilda allt árið, til þess að von væri um, að hann gæfi þessa upphæð. Ástæðurnar til þess, að hinn almenni söluskattur í smásölunni nægir ekki til að gefa þessa upphæð, 280 millj., hef ég rakið hér áður við 1. umr., en þær eru þrjár: Í fyrsta lagi, að niðurstaðan varð sú hjá ríkisstj. og stjórnarflokkunum að hafa söluskattinn ekki hærri en 3%, í stað þess, eins og ég gat um, að hann hefði orðið að vera milli 4 og 5% til þess að ná þessari upphæð yfir allt árið. Í öðru lagi nær söluskatturinn í ár aðeins yfir 9 mánuði. Falla þannig 3 mánuðir frá. Og í þriðja lagi eru undanþegnir allstórir flokkar, eins og fyrst og fremst byggingarvinna, sem er mjög stór liður, auk þess rekstrarvörur útgerðar og landbúnaðar. Þessar eru ástæðurnar til þess, að þessi 3% söluskattur nægir ekki, og þarf því að bæta við innflutningssöluskattinn til að ná þessari upphæð nú á þessu ári.

Ég vil líka til að fyrirbyggja misskilning taka það fram, að þetta frv. er tvenns konar. Annars vegar fjallar það um 3% smásöluskattinn, sem ekki er ætlazt til að standi aðeins þetta ár, heldur áframhaldandi. Það er gert ráð fyrir, að hinn almenni söluskattur sé ekki bráðabirgðaskattur, heldur sé gjaldstofn, sem standi áfram. Hins vegar er svo 8% innflutningssöluskatturinn, sem er bráðabirgðaákvæði, og það er ekki lagt til að þessu sinni, að hann standi lengur en þetta ár. Um það, hvað við tekur á næsta ári, skal ég ekkert segja nú. Eins og ég hef skýrt frá áður hér á hv. Alþingi, er tollskráin og öll löggjöf um aðflutnings- og innflutningsgjöld í sérstakri athugun, og er ætlunin fyrst og fremst að samræma þetta kerfi allt saman og gera það einfaldara en verið hefur. Um það, hvernig verður með innflutningssöluskatt og framtíð hans í sambandi við þetta, skal ég ekkert fullyrða á þessu stigi.

Hv. frsm. 1. minni hl. fjhn. ræddi nokkuð um það, að ekki hefði fengizt í fjhn. samþykkt að senda frv. til umsagnar einhverra aðila. Það kom þó fram í ræðu hans, að þetta hefði kannske ekki verið nauðsynlegt, vegna þess að við undirbúning málsins hefði frv. verið sent til athugunar nokkrum aðilum, eins og ég gat hér við 1. umr. málsins. En þeir aðilar, sem fengu frv. til athugunar nokkrum dögum áður en það var lagt fram í Alþingi, voru: Samband ísl. samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, Kaupmannasamtök Íslands, stórkaupmannafélagið, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Vinnuveitendasamband Íslands, en eins og ég þá tók fram, þá eru þetta þeir aðilar, sem fyrst og fremst eiga að hafa með höndum innheimtu söluskattsins, og þótti þess vegna rétt að gefa þeim kost á að koma að sínum aths. varðandi framkvæmd laganna í tæka tíð, áður en málið yrði lagt fyrir Alþingi.

Hv. frsm. 1. minni hl. sagðist hafa spurzt fyrir um það, hvers vegna Samband ísl. samvinnufélaga hefði ekki sent umsögn, og var nokkuð erfitt að skilja, hvernig í því lá. Sambandið fékk þetta mál að sjálfsögðu sent sem trúnaðarmál. Aðrir aðilar töldu einnig sjálfsagt að koma sínum aths. á framfæri við fjmrn. eða þá nefnd, sem hafði undirbúið frv. Og skil ég satt að segja ekki í þessum misskilningi, sem kann að hafa orðið hjá þessum samtökum, þegar þau fá frv. sent til umsagnar eða athugunar sem trúnaðarmál, að þau hafi ekki heimild til þess að koma að sínum aths. við þá, sem sendu frv. En það er annað mál.

Á þskj. 187 hef ég borið fram brtt., og hún er við 3. gr. frv., en í 3. málsgr. þeirrar gr. segir, að ákvæði um skattfrelsi nái ekki til umbúða, hjálparefna eða óvaranlegra rekstrarvara. Þetta atriði, sérstaklega varðandi umbúðirnar, var töluvert rætt og athugað við samningu frv. Það þótti nauðsynlegt að hafa þessi ákvæði um, að ýmiss konar hjálparefni eða óvaranlegar rekstrarvörur væru ekki undanþegnar. En ég tel rétt eftir nánari athugun á þessu máli að fella niður orðið „umbúðir“ úr þessari gr., því að það er a.m.k. um sumar tegundir eða gerðir umbúða, að það mundi bersýnilega leiða til tvísköttunar, ef þessu ákvæði yrði haldið eins og þarna er.

Aðrar brtt., sem liggja fyrir, eru á þskj. 181, 188 og 189. Varðandi brtt. á þskj. 181 frá 2. minni hl. fjhn., Birni Jónssyni, skal ég ekki fara út í einstök atriði þeirra, en það er auðvitað sýnilegt, að þar er um svo mikilvægar undanþágur frá skattinum að ræða, að það mundi svipta ríkissjóð tekjum, svo að nemur tugum milljóna, og rýra því þennan skattstofn mjög verulega frá því, sem gert er ráð fyrir og nauðsynlegt er til að ná þeirri upphæð, sem fjárlög gera ráð fyrir. Ég get því ekki mælt með samþykkt þeirra.

Á þskj. 188 eru brtt. frá Alfreð Gíslasyni, hv. 9. þm. Reykv., um að bæta þar nokkru við. Varðandi það að undanþiggja nauðsynlegustu lyf samkv. skrá söluskatti vil ég geta þess, að eitt af meginatriðum, til þess að söluskatturinn í smásölu innheimtist sæmilega og til að hægt sé að hafa eftirlit með honum, nægilega strangt eftirlit, er að allra dómi það, að undanþágur séu ekki margar, hafðar svo fáar sem mögulegt er að komast af með. Varðandi þær undanþágur, sem eru í frv., þá er það yfirleitt um þær þannig, að það eru allstórir vöruflokkar, sem ættu ekki, þó að undanþegnir séu, að raska mjög möguleikunum til eftirlits með skattinum. Hins vegar ef t.d. ætti að undanþiggja sum lyf, en önnur ekki, þá mundi það vafalaust valda verulegum erfiðleikum í framkvæmdinni, þar sem jafnan þyrfti að fara að draga þar frá eða reikna frá víssar vörutegundir, sem væru þó náskyldar öðrum, sem væru skattskyldar. Það mundi skapa mikla örðugleika og óvissu í framkvæmdinni og nokkra möguleika til þess að komast hjá skattinum.

Varðandi síðustu brtt. sama hv. þm., þá fjallar hún um það, að ekki megi álagning í heildsölu og smásölu hækka vegna söluskatts af innfluttum vörum. Ég tel, að þetta sé of fortakslaust ákvæði. Í frv. er gert ráð fyrir, að þetta sé lagt á mat verðlagsyfirvalda. Segir í 23. gr., að verð vöru, vinnu og þjónustu megi hækka sem söluskatti nemur, en að hve miklu leyti álagning yrði hækkuð, er sem sagt algerlega á valdi verðlagsyfirvalda. Ef þessi brtt. yrði samþ., þýddi það fortakslaust bann gegn því að hækka álagningu vegna söluskattsins. Nú telja margir og sérstaklega telja smásalar, að nokkur kostnaðarauki verði fyrir verzlanir að annast þá innheimtu söluskatts, sem hér er gert ráð fyrir, og ef þeir geta sannað slíkan útgjaldaauka við verzlunina, þá kemur til álita verðlagsyfirvalda að meta það, hvort rétt sé að leyfa álagningu að einhverju leyti til að mæta þeim auknu útgjöldum. Ég tel, að það sé eðlilegt, að það sé á mati verðlagsyfirvaldanna, en ekki fortakslaust bannað í þessu frv.

Þá er brtt. á þskj. 189 frá hv. 1, þm. Vesturl. (ÁB). Þar er hreyft mjög merku máli, sem er að skapa möguleika til byggingar á gistihúsum og matsölu- og veitingahúsum. Þar er gert ráð fyrir, að söluskattur af sölu, afhendingu og þjónustu, sem látin er í té í matsölu-, veitinga- og gistihúsum, skuli renna í sérstakan sjóð og fé hans skuli lánað til byggingar veitinga- og gistihúsa. Ég hef flutt hér á þingum áður ásamt nokkrum fleiri alþm. frv., er miðar í þá átt að greiða fyrir byggingu gistihúsa, frv. um ferðamál og landkynningu. Það hefur ekki fundið náð fyrir augliti annarra flokka, m.a. þess flokks, sem þessi hv. þm. fylgir. Ég er enn sama sinnis, að það ber brýna nauðsyn til þess að efla ferðamál og landkynningu og bæta úr því ófremdarástandi, sem er hér á landi vegna skorts á gistihúsum. En ég álít, að málið þurfi að taka á miklu breiðari grundvelli og með fleiri sjónarmið en kemur fram í þessari brtt. einni. Þessi till. hv. þm. mundi skerða þennan tekjustofn um 3–4 millj. kr. á ári. (ÁB: Það er lítið.) Já, það er lítið, en þó kemur það saman, ef samþ. eru allar þær till., sem krukka í skattinn, sem hér eru lagðar fram, og ég tel ekki fært að samþ. þessa till. eða draga þannig úr þessum tekjustofni eða auka útgjöld ríkisins sem þessu svarar, hvernig sem maður lítur á það, en vil taka það fram, að ég að sjálfsögðu hef fullan áhuga á því að reyna að greiða úr þessum málum, eins og fært er, að auka gistirúmakost í landinu.

Af þeim ádeilum, sem komið hafa fram á frv. fyrir utan almennar ádeilur á söluskattinn sem heild, sem, eins og ég tók fram, maður tekur ekki allt of alvarlega, miðað við fortíð þeirra flokka, sem beita þessari gagnrýni, — en af einstökum atriðum er m.a. í umræðum hér og í nál. a.m.k. 2. minni hl. mjög gagnrýnt, að hér sé farið inn á nýja braut, sem jafnvel sé einsdæmi, að heimila fjmrh. að ákveða hitt og þetta með reglugerð, og hefur svo verið að skilja á sumum hv. þm., að hér sé um algert einsdæmi að ræða, gengið miklu lengra en áður hefur þekkzt, og út yfir taki þó, að fjmrh. eigi samkv. þessu frv. að geta lagt á refsingar, sem sé verkefni dómstóla. Allt er þetta byggt á eintómum misskilningi, og ég skal nú benda á, til viðbótar því, sem ég sagði við 1. umr., hvernig þessum málum er varið.

Það segir í 18. gr. þessa frv., að ráðherra sé heimilt með reglugerð að undanþiggja tilteknar vörutegundir söluskatti við innflutning og heimilað að endurgreiða söluskatt í sumum tilfellum, Í núgildandi söluskattsákvæðum, þ.e. 27. gr. laga frá 1948, sem hafa verið framlengd ár frá ári, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjmrh. er heimilt að ákveða með reglugerð; að vissir flokkar gjaldenda og vissar vörutegundir og þjónusta, auk þess sem áður er nefnt, skuli undanþegið söluskatti“ o.s.frv. Og samkvæmt þessari heimild í 27. gr. núgildandi söluskattslaga hafa fjmrh. undanfarið með reglugerð undanþegið hvorki meira né minna en 63 vörutegundir söluskatti við innflutning og það umfram þær vörutegundir, sem undanþegnar eru í sjálfum lögunum. Samkv. þessari sömu heimild hafa fjmrh. undanþegið á undanförnum árum með reglugerð 14 tegundir af innlendri starfsemi, sem er söluskattskyld samkv. lögunum, og sumar þessara undanþága eru mjög víðtækar. M.ö.o.: í 27. gr. núgildandi söluskattslaga, sem hafa verið framlengd á hverju einasta ári síðan 1948, fyrir forgöngu fyrst og fremst fjmrh. Framsfl. og með atkv. allra þm. hans, hafa sem sagt verið svona víðtækar undanþágur og notaðar, eins og ég hér greindi, þannig að það, sem þetta frv. felur í sér um heimild til undanþágu og endurgreiðslna, er nákvæmlega það sama og áður hefur tíðkazt, ekkert nýmæli.

Það er reyndar rétt að bæta því við, að í tollskrárl. eru mjög margar undanþágu- og endurgreiðsluheimildir fyrir fjmrh, og flestar þeirra mjög víðtækar. Eins og ég gat um við 1. umr., eru þessar lækkunarheimildir í tollskrárlögunum miðaðar við stafrófið, og þær eru svo margar, að stafrófið hefur ekki nægt, svo að það hefur þurft að byrja að nýju á aa og bb, og er nú síðasti liðurinn ff-liður. Þarna munu vera milli 30 og 40 undanþáguhelmildir fyrir fjmrh. samkv. l. frá 1954, sem flutt voru og undirrituð af Eysteini Jónssyni, þáverandi fjmrh. Varðandi undanþágurnar í þessari grein eru þær því engin nýmæli, heldur alveg í samræmi við það, sem hér hefur gilt mjög lengi.

Varðandi það ákvæði, sem hér er mjög gagnrýnt, í 25. gr. frv., að fjmrh. skuli geta ákveðið sekt, þá segir svo í þessari gr., að ef skattskyldur aðili skýri rangt frá því, sem máli skiptir um söluskatt hans, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, þá skuli hann greiða sekt, sem skuli ákveðin allt að tífaldri söluskattsupphæð, sem tapazt hefur af vanrækslu hans eða rangfærslu, og auk þess greiði hann hinn vantalda söluskatt. Fjmrh. ákveður sektina, nema hann eða sá, sem í hlut á, óski eftir, að málinu sé vísað til dómstólanna.

Þegar hv. þm. eru nú að vitna í þetta ákvæði, láta þeir venjulega staðar numið eftir að hafa lesið þessi 3 orð: Fjmrh. ákveður sektina. Hitt skiptir þá væntanlega í þeirra augum minna málí, þó að hver einasti maður, sem í hlut á, geti óskað þess, að málinu sé visað til dómstólanna og þá fari það þangað.

Eins og ég hef getið um áður, mun þetta ákvæði vera sett inn í frv. og að því leyti sem það er í gildandi lögum af hagkvæmniástæðum, vegna þess að í mörgum tilfellum þykir bæði fjmrn. og hinum umrædda aðila það spara tíma og fé, að rn. ákveði sektina, en ekki, að málið gangi til dómstólanna. En sem sagt, hver einasti aðili, sem í þessu lendir og vill láta málið fara til dómstólanna, ræður því.

En því fer fjarri, að þetta sé nokkurt nýmæli, því að í tekju- og eignarskattslögunum frá 1954 er svo hljóðandi ákvæði: „Nú skýrir maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt frá einhverju, sem máli skiptir um tekjuskatt eða eignarskatt, og skal hann þá sekur um allt að því tífalda skattupphæð þá, sem undan var dregin. Fjmrh. ákveður sektina,“ segir í tekjuskattslögunum, „nema hann eða hinn seki óski, að málinu sé vísað til dómstólanna.“ Svo til samhljóða ákvæði að orðalagi.

Þetta er ekki aðeins í tekjuskattslögunum frá 1954, heldur hefur þetta verið óbreytt í fjóra áratugi, frá tekju- og eignarskattsl. 1921, án þess að mér vitanlega nokkur maður hafi hreyft aths. við þetta ákvæði. Og þetta er ekki aðeins í tekju- og eignarskattslögunum, heldur segir 28. gr. núgildandi söluskattslaga, að um söluskattinn skuli þessi 47. gr. tekjuskattslaganna einnig gilda. M.ö.o.: þetta ákvæði um, að fjmrh. í þessum tilfellum ákveði sektina, skattsektina, nema aðili óski eftir því, að málið gangi til dómstóla, hefur verið í 4 áratugi í tekjuskattslögunum og frá upphafi, 1948, í lögum um söluskatt.

Ég verð að segja, að það nálgast óskammfeilni, þegar hv. þm. koma hingað upp og belgja sig út með það, að þetta sé eitthvert nýmæli og einræðiskennd í ríkisstj., að leyfa sér að taka upp slíkt ákvæði, af því að sumir þessara manna, sem hér hafa ráðizt á þetta, vita, að þessi ákvæði hafa verið lengi í gildi.

Allt þetta tal um, að með þessu frv. sé veríð að veita fjmrh. einhverjar auknar heimildir frá því, sem verið hefur, eða fela honum dómsvald í refsimálum, — allt saman er þetta slúður og staðlausir stafir. Og ég vil taka það fram, að að þessu leyti um heimildir til að setja ákvæði í reglugerð eða um heimildir fjmrh. hefur ekki einum staf verið aukið eða við bætt frá því, sem hinir fjórir embættismenn, sem sömdu frv., lögðu til í sínum till.

Hv. frsm. 2. minni hl., Björn Jónsson, segir í sínu nál., að fullyrðingar mínar um það, að hér sé aðeins um að ræða tilflutning á gjaldheimtu, séu hreinar blekkingar, og hann segir, að þær stangist gersamlega á við það, sem hagstofustjórinn hafi upplýst, að nýi söluskatturinn muni valda kjaraskerðingu um 3%. Í sambandi við þetta tala svo hv. stjórnarandstæðingar um það hver eftir annan, að hér sé um að ræða harkalegri álögur en nokkru sinni fyrr, þetta komi þyngst niður á alþýðuheimilunum, það sé verið að þrengja kosti launamanna, lífskjör láglaunamanna versni til muna við þetta söluskattsfrv., en hins vegar versni ekkert kjör þeirra, sem betur eru settir, eins og hv. síðasti ræðumaður komst að orði.

Ég hef tekið það fram hér áður, að sú upphæð, sem þessu frv. er ætlað að ná í ríkissjóð til viðbótar því, sem áður hefur verið í lögum, er 280 milljónir. Sumir hv. þm. hafa verið hér með talnablekkingar á þá leið, að þeir leggja við þessa tölu þær 154 millj., sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að 7% söluskatturinn af innflutningi, sem verið hefur í gildi í nokkur ár og á að standa óbreyttur, gefur, — þeir leggja þessa tölu við 280 millj. og segja, að það eigi að auka skattana um þessa samanlögðu upphæð.

Nei, það, sem hér er um að ræða, eru 280 millj. Og til hvers er verið að afla þessara 280 millj.? Það er til þess að vinna upp missi þeirra þriggja tekjustofna, sem margsinnis er búið að lýsa: Tekjuskattsins vegna afnámsins á tekjuskatti af almennum launatekjum, sem er áætlað að sé um 110 milljónir kr. Afnáms 9% söluskatts af iðnaði og þjónustu, sem er orðinn bæði ákaflega ranglátur og erfiður í framkvæmd, það er gert ráð fyrir, að hann gefi 114 millj. Þetta eru 224 millj. Þriðji liðurinn er svo hluti sveitarfélaganna af söluskatti, sem er 56 millj. Samtals eru þessir þrír liðir 280 milljónir.

Ég hef sagt það hér áður og segi það enn, að með þessu frv. er ekki verið að leggja nýjar álögur á þjóðina, heldur er hér um breytingar eða tilfærslu á gjaldheimtu að ræða. 280 millj. á að létta af, 280 millj. á að leggja á.

Varðandi hluta sveitarfélaganna af söluskattinum, þá hefur það verið dregið í efa og jafnvel verið haldið ákveðið fram af sumum þm., að útsvörin muni alls ekkert lækka við þessar 56 millj., þær muni í mesta lagi verða til þess að vega á móti eða bæta upp hækkun útgjalda sveitarfélaganna af efnahagsráðstöfununum.

Þetta er alrangt. Í fyrsta lagi munu sveitarfélögin ekki þurfa nema nokkurn hluta af þessum 56 millj. af söluskattinum til að vega upp á móti áhrifum gengisbreytingarinnar. En auk þess skulum við athuga það líka, að a.m.k. í öllum þeim bæjar- og sveitarfélögum, þar sem íbúum fjölgar, þá gefur sami útsvarsstigi að sjálfsögðu hærri heildartekjur en árið áður. Þegar auk þess bætist við, að þær tekjur, sem greiða á útsvar af á þessu ári, sem sagt tekjur ársins 1959, eru hjá almenningi nokkru hærri í krónutölu en tekjur almennings á árinu 1958, þá verður það líka til þess, að sveitarfélögin fá nokkru hærri tekjur í krónutölu með sama útsvarsstiga en áður. Það er ljóst, að bæjar- og sveitarfélögin geta vegna þessa nýja tekjustofns lækkað sin útsvör. Og að því er snertir Reykjavíkurborg, en framfærsluvísitalan er, eins og kunnugt er, miðuð við framfærslukostnað og afkomu í Reykjavík, þá er það ljóst, að Reykjavík mun lækka sín útsvör, lækka sinn útsvarsstiga að töluverðu marki á þessu ári.

Ég vil nú gera hér nokkurt yfirlit um það í stórum dráttum, hver er útgjaldaauki þeirrar fjölskyldu, sem vísitalan er byggð á, sem stundum er kölluð vísitölufjölskyldan, þ.e. alþýðufjölskylda með tvö börn og með almennar verkamannatekjur. Þá kemur það í ljós, að aukin útgjöld hennar vegna þessa frv. eru: Af 8% söluskattinum, þ.e. af innflutningi, 1700 kr., miðað við heilt ár, af 3% söluskattinum um 1525 kr. Samanlagt er því útgjaldaauki vísitölufjölskyldunnar af þessu söluskattsfrv. yfir árið 3225 kr. Til frádráttar kemur afnám 9% söluskattsins á iðnað og þjónustu, og það nemur fyrir þessa sömu fjölskyldu um 1300 kr. yfir árið. Þegar það hefur verið dregið frá, þá er hækkunin af þessu frv. um 1875 kr. á heilu ári fyrir vísitölufjölskylduna. Á árinu 1960 kemur þessi hækkun aðeins á 3 ársfjórðunga, 9 mánuði ársins. M.ö.o.: áhrif þessa frv. á hag vísitölufjölskyldunnar á yfirstandandi ári er hækkun um rúmar 1400 kr. fyrir þessa 9 mánuði. Það er það, sem vísitölufjölskyldan þarf að borga meira vegna þessa frv. heldur en ella. Á móti þessu kemur það, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að bera fram frv. hér og fá það afgr. á þessu þingi um að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum, og tekjuskattur þessarar sömu fjölskyldu er 1450 kr. Útsvarslækkun á þessari sömu fjölskyldu mun verða a.m.k. 700 kr. Ég skal taka það fram, að það er ekki hægt að segja nákvæmlega, hversu mikið útsvarsstiginn lækkar í Reykjavik á þessu ári, vegna þess að niðurjöfnunarnefndin er ekki komin það langt í sínum athugunum, að hún geti frá því gengið. Ég get aðeins sagt það á þessu stigi, að sú lækkun verður milli 10 og 15%. En sem sagt, a.m.k. um 700 kr. lækkar útsvarið á þessari fjölskyldu. Tekjuskatturinn og lækkun útsvarsins nemur því 2150 kr.

Er verið að íþyngja þessari fjölskyldu, er verið að hlaða á hana nýjum álögum, er verið að þyngja hennar hag og gera henni erfiðara fyrir, þegar létt er af henni útgjöldum, sem nema 2150 kr., en nýjar álögur eða útgjöld nema 1400 kr., m.ö.o. þær lækkanir, sem þessi fjölskylda fær á þessu ári? (Gripið fram í: Hver hefur reiknað þetta?) Hver hefur reiknað þetta? Þetta eru staðfestar tölur. (Gripið fram í: Reiknaðar af hverjum?) Reiknaðar af hverjum? Er þessi hv. þm. að rengja þessar tölur? .Ég spyr hann að því, rengir hann það, að tekjuskatturinn á vísitölufjölskyldu sé 1450 kr.? Það liggur fyrir í opinberum gögnum. Hver einasta af þessum tölum er sannanleg og liggur fyrir. Ég býst við, að hv. þm. hafi séð þann grundvöll, sem vísitölureikningurinn er byggður á, og þá er hægt að reikna þetta alveg hreinlega út úr honum. M.ö.o.: þær lækkanir, sem vísitölufjölskyldan fær á þessu ári, eru milli 700 og 800 kr. meiri en útgjaldaaukinn af þessu frv. Svo dirfast hv. þm. minni hl. að koma hér og segja, að með þessu frv. og athöfnum stjórnarinnar í þessu sé verið að rýra stórkostlega kjör láglaunamanna og bæta upp þeim, sem eru betur settir.

Þetta eru staðreyndir, sem verður ekki á móti mælt, að með þessum tilflutningi á skattstofnum eða gjaldheimtu, sem ríkisstj. beitir sér fyrir með þessu frv. og tekjuskattsfrv. og útsvarsfrv., sem síðar verður lagt fram, er verið að bæta kjör alþýðufjölskyldnanna.

Hv. frsm. 1. minni hl., 1. þm. Norðurl. e. (KK), hefur áður verið stuðningsmaður þess og staðið að frv. um að tryggja sveitarfélögunum hluta af söluskatti. Hann segist nú enn þá vera í hjarta sínu með því, en samt sem áður ætli hann að greiða atkv. á móti því nú. Hann segir: Ég tel það ekki koma til mála fyrir sveitarfélögin að óska eftir hluta af söluskatti undir þessum kringumstæðum. — Ja, maður hefur heyrt margar ofstækisræðurnar frá hv. stjórnarandstæðingum á þessu þingi, en mér finnst þó taka út yfir allan þjófabálk, þegar þessi broshýri hæglætismaður er orðinn svo heltekinn af blindu ofstæki, að hann er nú orðinn á móti því, að sveitarfélögin fái hluta af söluskatti, sem hefur þó í nærri áratug verið hans hjartans mál. Vegna hvers? Vegna þess, að núverandi ríkisstj. stendur að þessu. Ég hefði allra sízt búizt við slíkri afstöðu frá hans hendi.

Varðandi þau ummæli hans, að ekki komi til mála að láta núgildandi reglur jöfnunarsjóðs gilda um úthlutun á söluskatti til sveitarfélaganna, þá skal ég taka undir, að vitanlega hefur aldrei komið annað til orða en endurskoða lögin um jöfnunarsjóð sveitarfélaga um leið. Og sú n., sem fjallar um tekjustofna sveitarfélaganna og hefur nú samið frv. um breytingu á útsvarslögunum, hefur einnig samið frv. til breytinga á l. um jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Og það er rétt að skýra frá því, að þar er tekin upp sú gamla till., sem ég ætla að einnig hafi verið í því frv., sem þessi hv. þm. stóð að á sínum tíma, að tekjum jöfnunarsjóðs, þar með þessum hluta söluskatts, skuli úthlutað til sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags, þó þannig, að ekkert sveitarfélag fái hærra framlag en nemi 50% af niðurjöfnuðum útsvörum. Þetta ákvæði mun einnig hafa verið í fyrri frv. og er sett, að því er segir í grg. n., vegna þess, að ekki sé eðlilegt, að einstaka sveitarfélög kynnu með þessum hætti að losna alveg eða að mestu leyti við útsvör. En sem sagt, meginreglan verður þessi, að skipta tekjum jöfnunarsjóðsins eftir íbúatölu.

Ég ætla óþarft að svara fleiri atriðum eða gera fleiri atriði að umtalsefni, sem fram hafa komið í þessum umræðum.