17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (2856)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mjög í þær umr., sem hér fara fram, og ekki í þann meting, sem er á milli þeirra aðila, sem hér hafa talað um það, hver hafi mestu til vegar komið í þessu efni.

Þetta mál, sem hér er til umr., er mikið vandamál. Það er alveg augljóst, að það skapast alveg ný viðhorf í því máli vegna fyrirhugaðra efnahagsaðgerða ríkisstj. Það er alveg augljóst, að það vandamál, sem verið hefur ákaflega erfitt til úrlausnar, verður á allan hátt miklu vandasamara og erfiðara til úrlausnar eftirleiðis. Það er þess vegna full ástæða til þess, og ég er hv. flm. þessarar þáltill. öldungis sammála um það, að Alþingi láti þessi mál til sín taka.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, er sú, að hv. flm. þessarar þáltill. þótti við eiga að krydda mál sitt ýmsum hnífilyrðum í garð seðlabankans, sem ég vil ekki láta standa í þingtíðindum ómótmælt. Í fyrsta lagi gat hann þess, að það væri ekki mikið að skylda seðlabankann til þess að leggja 40 millj. í þetta, vegna þess að hann gæti þá á móti dregið úr óhóflegri fjárfestingu sjálfs sín í stórbyggingu eða stórbyggingum í miðbænum. Hér er um algerlega órökstuddar staðhæfingar að ræða, sem flm. getur ekki fundið neinn stað. (Gripið fram í: En eru þær ósannar?) Þær eru ósannar, já. Það er ekki hægt að tala um það, að seðlabankinn hafi lagt í nokkra óhæfilega fjárfestingu í kaupum á húseignum í miðbænum.

Í öðru lagi var flm. að fetta fingur út í þau skilyrði, sem sett hefðu verið á það lán, sem seðlabankinn lánaði nú eftir áramótin til byggingarsjóðs, og gerði lítið úr því láni. Út af því vil ég taka það fram, að málaleitan ríkisstj. til seðlabankans var á þann veg, að aðallega eða í fyrsta lagi fór hún fram á lán til lengri tíma, en til vara fór hún einmitt fram á lán með þessum kjörum og með þessum hætti og með þessum skilyrðum, sem lánið síðar var veitt með. Það var ekki orðið við aðalbeiðninni, en það var fallizt á að veita þetta umbeðna lán, sem ríkisstj. hafði farið fram á, og með þeim skilyrðum, sem hún hafði farið fram á, að því fráskildu, að í stað þess, að ríkisstj. hafði farið fram á 20 millj. kr. lán, var veitt 15 millj. kr. lán.

Það er að sjálfsögðu svo, að um slíka afgreiðslu sem þessa geta verið skiptar skoðanir í stjórn seðlabankans, en ég get hér ekki rætt um afstöðu einstakra stjórnarmanna til slíkrar afgreiðslu, hvorki mína né annarra. En þessi varð nú niðurstaðan, og ég vil segja það, að slík afgreiðsla var alls ekki fordæmalaus, því að sams konar aðferð á lánveitingum af hálfu seðlabankans til byggingarsjóðs var einmitt viðhöfð í ráðherratíð fyrrv. félmrh., hv. 4. landsk. þm. (HV), flm. þessarar þáltill. Og slík lán og einmitt með þessu fyrirkomulagi voru, það fullyrði ég, veitt oftar en einu sinni einmitt samkvæmt beiðni hans eða þess ráðuneytis, sem hann veitti forstöðu. Þess vegna er það vissulega svo, að það var bæði óþarft og óviðeigandi af þessum hv. þm. að vera með hnífilyrði í garð seðlabankans, vegna þess að sannleikurinn er sá, að í sinni ráðherratíð þurfti hann oftar en einu sinni að leita til einmitt þessarar stofnunar um fyrirgreiðslu, og ég vil fullyrða það, að hann þarf alls ekkert að kvarta undan þeirri fyrirgreiðslu, sem hann fékk þar. Og ég get vissulega eignað mér hlut í, að hann þarf ekki að kvarta undan þeirri fyrirgreiðslu, sem hann þá oft og einatt fékk.

Hins vegar er það, að ég dreg ekki í efa, að hann hafi haft meiri óskir, — ég vefengi það alls ekki, — en það er nú sitt hvað, óskir og geta. En menn verða að aðgæta, að í þessum vandamálum er ekki nóg að gera kröfur til þess, að seðlabankinn láti út seðla. Það er að vísu svo, að það væri kannske hægt í ýmsum tilfellum, en ég er hræddur um, að það þætti ekki heppileg pólitík yfirleitt.

Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi, að þetta mál, sem hér er til umr., er vissulega þannig vaxið, að það er vert að ræða það hér á Alþ. og gefa því gaum, og ég er sjálfsagt að ýmsu leyti efnislega alveg sammála hv. flm. í þessum efnum. En eins og ég sagði, vildi ég alls ekki láta ómótmælt þeim hnífilyrðum, sem hann var hér með í garð tiltekinnar stofnunar og einstakra starfsmanna hennar.