17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (2870)

6. mál, síldarrannsóknir og síldarleit

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Till. þeirri til þál. á þskj. 6, sem hér er til umr., um kaup á hentugu skipi til síldarrannsókna og síldarleitar, fylgir nokkuð ýtarleg grg., og get ég vísað mjög til hennar um rökstuðning fyrir mikilvægi málsins. Ég vil þó bæta þar nokkru við í framsögu.

Sú var tíðin, að íslenzki síldveiðiflotinn naut engrar aðstoðar við síldarleit og síldarrannsóknir þekktust tæpast. Veiðiskipin sjálf urðu að finna síldina og tilkynntu þá í gegnum talstöðvar sínar öðrum skipum um síldarfundi. Fyrir nokkrum árum var tekin upp síldarleit úr lofti, og bætti hún mjög úr. Hins vegar hefur það nú gerzt hin síðari árin, að síldin við Norður- og Austurland leitar æ minna upp á yfirborðið, og hefur veiðiflotinn tekið mest af síldaraflanum með hjálp asdictækja. Þessi breyting gerir m.a. leitarflug úr lofti þýðingarminna en áður var, og er því nauðsynlegt að auka síldarleit á sjó, og sú er líka hugsunin, sem liggur að baki tillöguflutningi þessum.

Á undanförnum árum hefur fiskideild atvinnudeildar háskólans, sem hefur yfirstjórn þessarar starfsemi, haft til afnota við síldarleitina skip frá landhelgisgæzlunni, aðallega varðskipið Ægi. Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa galla, m. a. þá, að hvorki Ægir né önnur skip landhelgisgæzlunnar, sem lánuð hafa verið til þessarar starfsemi stuttan tíma í senn, hafa verið útbúin tækjum, sem nauðsynleg eru, til þess að hægt sé að vinna að rannsóknarstörfum um borð.

Haustið 1953 voru asdictæki sett í Ægi, en skiptiskrúfa og togspil voru hins vegar ekki sett í hann vegna kostnaðarins, sem því var samfara, enda þótt starfsmenn fiskileitarinnar teldu slík tæki ásamt fleiri tækjum nauðsynleg vegna þeirra rannsóknarstarfa, sem nauðsynlegt var að inna af hendi um borð í skipinu.

Hinar nýju rannsóknarstofur sjávarútvegsins, sem nú er búið að reisa, krefjast þess, að fiskideildin geti unnið störf sín til sjós á viðunandi hátt, annars eru þær innantómt sýndarfyrirbrigði.

Skv. l. nr. 33 frá 1958 er ákvæði um 65% álag á útflutningsgjald, og átti 1/13 hluti álagsins að renna til byggingar hafrannsóknaskips. Fjárhæð þessi nam samtals árin 1958 og 1959 1 millj. 673 þús. kr. rúmum, og hefur af þeirri fjárhæð verið lánuð um 1 millj. kr. til þess að fullgera fiskirannsóknarstofurnar í Reykjavík.

Sjáanlegt er, að langt er í land með það, að fjármagn fáist nægilegt til þess að ljúka smíði þessa hafrannsóknaskips. En jafnvel þótt svo væri ekki, telja fiskifræðingar brýna þörf fyrir annað skip, minna og ódýrara, til þess að sinna síldarleitinni og síldarrannsóknunum sérstaklega. Hafrannsóknaskipinu er sérstaklega ætlað að stunda úthafsrannsóknir, svo sem karfarannsóknir, þorskrannsóknir og aðrar rannsóknir á fjarlægum miðum, en þess á milli á að nota það til togtilrauna og fiskmerkinga hér við land. Síldarleitarskipið mundi hins vegar vera bundið við síldarleit og veiðitilraunir í kringum landið allt árið, en ný tæki og nýjar veiðiaðferðir hafa nú gert síldveiðar mögulegar á svo til hvaða árstíma sem er.

Um kostnað við að kaupa og reka slíkt skip er erfitt að segja. En að sjálfsögðu yrði að stilla honum í hóf, eftir því sem mögulegt er. Skip af stærð t.d. austur-þýzku bátanna mundi mjög hentugt í þessu skyni að áliti fiskifræðinga, og slík skip er nú hægt að kaupa mjög víða, m.a. í Noregi. Ég tel það ekkert áhorfsmál, að þeim fjármunum sé vel varið, sem notaðir kynnu að verða í þessu skyni. Og ég tel, að ríkissjóður hafi vel efni á slíkri fjárfestingu sem þessari einmitt nú, því að þær nýju tekjur, sem ríkissjóði áskotnast við þær efnahagsráðstafanir, sem fyrirhugaðar eru, eru ekki svo litlar.

Tekjur af síldveiðum er vafalaust hægt að stórauka, bæði með því að stunda veiðar lengri tíma á hverju ári en gert hefur verið til þessa og eins með því að taka upp nýjar veiðiaðferðir. Framkvæmd á þessari þáltill. mundi vafalítið vera mikilvægt spor í þessa áttina.

Ég legg til, að þáltill. þessari verði vísað til síðari umr. og fjvn.