09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

66. mál, Rafleiðsla á 4 bæi í Húnavatnssýslu

Gunnar Gíslason:

Hv. 1. flm. þessarar þáltill. situr nú ekki á þingi. Ég vil því leyfa mér að tilmælum hans og fyrir hönd okkar annarra flm. að fylgja þessari þáltill. úr hlaði í örstuttu máli, en gæti þó látið nægja að vitna til grg. þeirrar. sem till. fylgir, og bréfs þess, sem birt er sem fylgiskjal á þskj. 128.

Efni þáltill. er það, að hið háa Alþingi beini því til raforkumálastjórnarinnar, að hún hlutist til um, að á þessu ári verði lagt rafmagn til heimilisnota á fjóra bæi í Austur-Húnavatnssýslu, þ.e. býlanna Hjaltabakka, Holts, Húnsstaða og Hurðarbaks. En því er svo háttað, að jarðir þessar eru í næsta nágrenni Laxárvirkjunarinnar á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, og er það vatnsfall, sem þarna er fyrir löngu virkjað, eign þessara jarða auk jarðanna Hnjúka og Sauðaness í sömu sveit, en þær jarðir tvær munu hafa fengið rafmagn frá þessari virkjun.

Við flm. þessarar till. viljum reyna að koma til móts við óskir eigenda og ábúenda áðurnefndra jarða, og ég fæ ekki betur séð en þessar óskir séu næsta eðlilegar, að jarðir þær, sem næst raforkuverinu liggja og eiga það vatnsfall, sem virkjað hefur verið, fái raforku frá þessu raforkuveri og hefðu raunar átt að fá það fyrir löngu.

Ávallt þegar óskir hafa borizt frá þeim mönnum, sem þessar jarðir byggja, um rafmagn á þessi býli, hefur því verið borið við, að fjarlægð milli þeirra væri í ósamræmi við þær reglur, sem settar hafa verið um dreifingu rafmagnsins um byggðirnar. Þar mun vera svo fyrir mælt, að fjarlægð milli býla megi helzt ekki vera meiri en 1 km til jafnaðar. Mér er ekki kunnugt um, að þessi vegalengd megi ekki vera eitthvað lengri af tæknilegum ástæðum og af þeim sökum sé ekki hægt frá reglunni að víkja.

Ég veit ekki, hversu fjarlægð er mikil á milli þessara býla, en ég hygg samt, að hún sé ekki svo mikil, að það muni vera óþægilegt af þeim sökum að fullnægja óskum eigenda þessara jarða. Mér sýnist því í því tilfelli, sem hér um ræðir, — og þau eru raunar fleiri, t.d. hjá okkur heima í Skagafirði í sambandi við Gönguskarðsárvirkjun, þar eru bæir í næsta nágrenni við virkjunina, örstutt frá henni, sem enn hafa ekki fengið rafmagn, — mér sýnist, að engin sanngirni mæli með því, að raforkumálastjórnin ríghaldi svo í þessar reglur, að hún sjái sér ekki fært að verða við þeim óskum, sem hér eru fram bornar.

Ég sé, að það er komin fram brtt. við þessa þáltill., sem er flutt af hv. 5. þm. Norðurl. v., þar sem hann leggur til, að tveimur býlum sé bætt við. Ég geri alveg ráð fyrir, að þessar óskir séu eðlilegar, en till. okkar var eingöngu miðuð við þær óskir, sem okkur höfðu borizt og lesa má um í fskj., sem fylgir þáltill.

Ég hef þessi orð svo ekki fleiri, en óska þess, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.