10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og öllum er ljóst, sem lesa þetta umrædda og umdeilda ákvæði í lögum, er það eitthvert óskýrasta og grautarlegasta ákvæði, sem sett hefur verið, og þegar maður heyrir svo ræðu hv. 4. landsk. þm., sem nú var að ljúka máli sínu hér, gæti í rauninni hvarflað að manni, að hann væri höfundur þessa lagaákvæðis, hafi sjálfur samið það. Hann byrjaði með því að misskilja gersamlega ummæli mín um það, að verkalýðsleiðtogar hefðu verið beðnir umsagnar, og honum fannst það varla geta átt sér stað, því að hann hafði ekki verið beðinn um umsögn. En þó að hann sé merkur verkalýðsleiðtogi, þá eru þó til fleiri, og ég skal skýra honum frá því, hvernig þetta mun hafa gengið fyrir sig að sögn skattstjórans.

Skattstjórinn í Reykjavík leitaði ekki til Alþýðusambands Íslands, enda kom það ekki á neinn hátt fram í minni ræðu, heldur, eins og ég tók skýrt fram, til þriggja verkalýðsleiðtoga, og sú umsögn, sem ég gat um hér áðan og las upp úr um gagnrýni bæði á lögunum og reglugerðaruppkastinu, er dagsett 9. nóv. 1959, og verkalýðsleiðtogarnir, sem skrifa undir þetta, eru, — ég skal lesa nöfn þeirra upp, og svo skulum við athuga, hvort hv. þm. kannast við þá, — einn heitir Eðvarð Sigurðsson, annar heitir Snorri Jónsson og þriðji heitir Óskar Hallgrímsson. Ég skal endurtaka, að þeir byrja umsögn sína á því, að það sé augljóst, að þessi lagasetning skapi misræmi milli skattgreiðenda og sé til þess fallin að vekja óánægju hjá öðrum starfshópum en þeim, sem hún tekur til. Gagnrýni þeirra beinist svo jöfnum höndum að reglugerðaruppkastinu og lögunum, og þegar hv. 4. landsk. segir, að skattstjórinn muni hafa fengið fyrirmæli um að semja reglugerðina þannig, að lögin yrðu túlkuð sem þrengst, og gefur í skyn, að það hafi verið fyrirmæli frá fjmrh., þá er þetta hugarburður einn. Ég hef ekki heyrt þetta fyrr, og er það vafalaust tilbúningur hv. 4. landsk., eins og kannske sumt fleira.

Það er svo þessu til viðbótar að geta þess, að ef Alþ. ákveður, eftir að málið hefur verið lagt fyrir það að nýju, að halda þessum núgildandi lagaákvæðum, þá er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að það væri framkvæmt nú þegar á þessu ári, þ.e.a.s. við álagningu tekjuskattsins 1960, ef Alþ. vill það svo við hafa. Það er vitanlegt, að það er nokkuð þangað til gengið verður frá skattálagningu, og oft hefur skattálagning beðið langt fram á vor, jafnvel fram í maímánuð, vegna þess, að Alþ. væri að gera einhverjar breytingar á skattalögunum. Ef sú yrði niðurstaðan hér á Alþ. að halda þessum ákvæðum, er vel hægt að framkvæma það frá því sjónarmiði, að það er hægt að afla þessara upplýsinga um sundurliðun á yfirvinnunni o.s.frv. En það held ég að öllum megi vera ljóst, að þar sem ákveðið er, að Alþ. taki þetta mál til nýrrar meðferðar, og það er tillaga ríkisstj. að fella niður þetta ákvæði, þá hefði verið hin mesta fásinna að ætla nú að fara að skylda alla vinnuveitendur og verkafólk, sem hér ætti hlut að máli, til þess að leggja í það alla vinnu og skriffinnsku og skattstofuna líka að reikna þetta út og telja fram, hvað væri eftirvinna við útflutningsframleiðsluna, ef það lá við borð, ég vil segja meiri líkur eru fyrir því, að þetta ákvæði verði afnumið.

Hv. 4. landsk. þm. taldi sig bera ákaflega fyrir brjósti hinar vinnandi stéttir og taldi þetta vera einhverja hina mestu bót í skattamálum, Þetta óskiljanlega ákvæði, sem hann hefur vafalaust átt einhvern þátt í að semja og orða. En ég vil taka það skýrt fram hér að lokum, að ég er sannfærður um, að fyrir vinnandi fólk eru þær umbætur í skattamálum, sem núverandi ríkisstj. beitir sér fyrir, margfalt meira virði en allt í þeim efnum, sem hv. 4. þm. landsk. tókst að koma í gegn, meðan hann var og hét.