30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þær umr., sem hér fóru fram varðandi fsp. um niðurgreiðslu á fóðurbæti og áburði. hafði ég kvatt mér hljóðs s.l. miðvikudag, og tilefni þess, að mér þótti til þess nokkur ástæða, var sú, að þrátt fyrir loforð um niðurgreiðslur á þessum vörum, sem ekki hafa verið greiddar niður til þessa, og með sérstöku tilliti til hins. að ekki er ætlað á fjárl. neitt fé til þessarar niðurgreiðslu, þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh., hvort þetta sé þannig hugsað, að hér eigi eingöngu að vera um það að ræða, að þær niðurgreiðslur, sem hingað til hafa farið í það að greiða búnaðarvörur eins og mjólk eða slíkar afurðir, eigi nú ekki að renna til þess, heldur til niðurgreiðslu á fóðurvörum eða áburði. Ég get vart skilið, að málið sé hugsað með neinum öðrum hætti, fyrst ekki er ætlað fé í þessar niðurgreiðslur.

En þetta hefur hvergi komið fram, og ég hygg, að eftir ræðu hæstv. landbrh. á búnaðarþingi muni bændur almennt hafa staðið í þeirri trú, að þeir mundu fá auknar niðurgreiðslur til sín, sem sagt þeir væru að fá nokkurt fé sér til hagsbóta. Ég vildi óska eftir því, að landbrh. léti það koma skýrt fram hér í umr., hvort svo er eða ekki, hvort hér á að auka niðurgreiðslur með því að greiða nú niður þessar vörur, sem ekki hafa áður verið greiddar niður, eða hvort á að minnka niðurgreiðsluna t.d. á mjólk eða öðrum búvörum sem því svarar, sem niður verður greitt fóðurvörur og áburður.