04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

139. mál, niðurgreiðsla á vöruverði

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir mjög greinargóð svör. Það er auðséð, að hann gerir sér far um að svara fsp. og leggur svör sín greinilega fram, og vænti ég þess, að sú skýrsla, sem hann gat um, liggi nú þegar fyrir þingheimi og almenningur geti fylgzt með þessum málum.

Á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er áætlað, að niðurgreiðslur nemi 302 millj. kr., og mér skilst að fengnum þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf, að þá sé sú áætlun, sem gerð hefur verið. mjög nærri því. Hins vegar skilst mér, að það liggi ekki fyrir enn þá, hverjar breytingar verða á árinu á niðurgreiðslukerfinu vegna þess, að nú skal greiða niður fóðurbæti um 10 millj. kr. og áburð um 6 millj. og þær niðurgreiðslur takast af þeim niðurgreiðslum, sem nú eru á matvörutegundum, — að þá liggi það ekki ljóslega fyrir, á hvaða matvörutegundum niðurgreiðslan verði minnkuð. Mér skilst, að það liggi ekki nógu ljóslega fyrir, en máske getur hæstv. ráðh. upplýst þetta eitthvað frekar, því að sjálfsagt hefur það komið til tals hjá hæstv. ríkisstj., hverjar þessar vörutegundir verða. Ef það liggur fyrir, þá vænti ég þess, að hæstv. ráðh. vilji upplýsa það hérna.

En það, sem ég vildi almennt benda á í sambandi við niðurgreiðslurnar, er, að ég hef alltaf talið þær nokkuð hættulegar og ekki sízt framleiðslu á vörum, sem mikið eru greiddar niður. Og þegar farið er að greiða niður landbúnaðarvöruverðið, ef svo mætti segja, frá báðum endum, annars vegar fóðurbætinn og áburðinn, þ.e.a.s. minnka á þann hátt framleiðslukostnaðinn, og hins vegar vöruna fullunna til neytandans, þá finnst mér, að þar sé hætta á ferðum, og ef einhver meining hefur fylgt því á s.l. hausti fyrir kosningarnar, þegar Sjálfstfl. prédikaði að það ætti að losna við allar uppbætur og allar niðurgreiðslur, þá efast ég um, að hægt verði að komast þannig frá þeim hlutum, að fyrst og fremst þeir, sem framleiða þessar vörur, verði ekki fyrir meiri skakkaföllum en aðrir. Þessi hætta finnst mér að hljóti jafnan að vofa yfir, á meðan niðurgreiðslur eru, og sú hætta vex að sjálfsögðu, um leið og verið er að auka niðurgreiðslukerfið og auka niðurgreiðslurnar á einstökum vörutegundum, fyrir utan svo það, að þegar greitt er niður meira af vörutegundunum en framleiðslukostnaði nemur, þá hlýtur neytandinn allajafna að verða að nota dýrari vörur til sinna heimilisnota en almenni neytandinn í landinu. sem kaupir þær út úr búðum.

Ég þakka hæstv. ráðh. að lokum fyrir greinargóð svör við þessum fsp., en ég vænti þess, að ef eitthvað liggur fyrir um þessar breytingar, sem kunna að verða á niðurgreiðslukerfinu á næstunni, þá gæti hann frekar upplýst það nú hér.