04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

903. mál, framlag til byggingarsjóðs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er, hvenær megi vænta framlags þess til byggingarsjóðs ríkisins, sem ríkisstj. tilkynnti 21. marz s.l. að hún mundi útvega sjóðnum til útlána.

Framlögin, sem getið var um í tilkynningunni 21. febr. s.l., voru tvenns konar: í fyrsta lagi 25 millj. kr., sem kæmu beinlínis til úthlutunar, og 15 millj. kr., sem notaðar yrðu til þess að breyta stuttum bráðabirgðalánum húsbyggjenda í föst, löng lán, þannig að unnt yrði á árinu 1960 u.þ.b. að tvöfalda venjuleg útlán húsnæðismálastjórnar.

Um fyrri hlutann, 25 milljónirnar, er það að segja, að gert er ráð fyrir, að helmingi þeirrar upphæðar eða 12½ millj. kr. verði úthlutað í þessum mánuði og hinum næsta og að upphæðin komi til greiðslu í júní og júlí. Hinum helmingnum verður úthlutað siðar, og hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um, hvenær það verður gert. Um 15 millj. kr. „konverteringuna“ hefur enn ekki verið tekin endanleg ákvörðun. Málið hefur verið rætt nokkuð við viðkomandi bankastjórnir og sparisjóðsstjórnir, sem þessi stuttu lán hafa veitt, og hafa þau viðtöl gefið fulla von um, að í það mál verði unnt að ganga til framkvæmda mjög bráðlega, þó að ég telji út af fyrir sig, að það sé ekki eins aðkallandi með afgreiðslu 25 millj.

Ég held, að ég hafi með þessum fáu orðum svarað því, sem um er spurt.