04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

906. mál, reikningar ríkisins í seðlabankanum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), að það sé aðalatriði, hvað þá atriði í stefnu ríkisstj. í bankamálum, að ekki komi til nokkurra mála að auka lán út á útflutningsafurðir, ef um framleiðsluaukningu er að ræða. Það er verkefni viðskiptabankanna að gera það. Því verkefni hafa þeir sinnt, eru þegar búnir að sýna í reynd á vertíðinni, að þeir hafa sinnt því, og því verkefni mun að sjálfsögðu verða sinnt áfram.

Verði á þessu ári um að ræða verulega aukningu á framleiðslu í landinu, sérstaklega útflutningsframleiðslunni, mun eðlilega þurfa að leiða af því nokkra aukningu á útlánum til útflutningsfyrirtækjanna, en það verður verkefni viðskiptabankanna að sjá um það. Það hafa þeir gert, það sem af er yfirstandandi ári, yfirstandandi vertíð, og það munu þeir halda áfram að gera.

Þær reglur, sem ég las upp áðan, og þær hámarkstölur áttu við um hin sjálfvirku endurkaupalán seðlabankans á afurðavíxlum viðskiptabankanna.