04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (3190)

908. mál, efnahagsmál sjávarútvegsins

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Fsp. okkar hv. 4 þm. Vestf. á þskj. 342 er í þremur liðum.

Við spyrjum í fyrsta lagi: Hefur hæstv. ríkisstj. nú eftir áramótin tekið ákvörðun um að auka uppbætur á sjávarafurðir, sem framleiddar voru á árinu 1959, eða um að auka rekstrarstyrk eða rekstrarstyrki til eða vegna útgerðar á því ári, og ef svo er, hve mikið? Þessi spurning er borin fram vegna þess, að okkur hefur borizt til eyrna, að ákveðið hafi verið að verja fé úr útflutningssjóði í þessu skyni til togaraútgerðarinnar og að sú ákvörðun hafi verið tekin, eftir að lögin um efnahagsmál gengu í gildi. Við teljum æskilegt, að Alþingi fái vitneskju um það beint frá hæstv. ríkisstj., hvort þessi ákvörðun hefur verið tekin um greiðslu úr útflutningssjóði í einhverju formi, og ef svo er, hve mikið fé þar er um að ræða og hvernig greiðslu þess er hagað.

Í öðru lagi spyrjumst við fyrir um það, hvað hæstv. ríkisstj. ætli að gera til að bæta úr erfiðleikum við sjávarsíðuna vegna niðurfalls verðbóta á einstakar fisktegundir, smáfisk og fisk veiddan á vissum tímum árs. Þegar ríkisstj. lagði frv. til laga um efnahagsmál fyrir Alþingi í vetur, var tekið fram í grg. frv., að hækkun sú á skráningarverði erlends gjaldeyris, sem till. var gerð um og síðan samþykkt, væri við það miðuð, að þorskveiðar bátanna í heild bæru sama úr býtum og þær hafa áður gert, meðan útflutningsbætur voru greiddar. Síðan segir í grg., að þessar bætur nemi nú, þ.e.a.s. áður en lögin eru samþ., 94.5% af útflutningsverðmæti bátafisksins. Þetta var sem sé meðaltal bótanna, 94.5%, en sérbætur höfðu verið greiddar á sumar fisktegundir, steinbít, ýsu og flatfisk og enn fremur smáfisk og fisk veiddan á vissum tímum árs, og er þar átt við a.m.k. aðallega sumarveiddan fisk. En ef sá hluti aflans, sem sérbótanna naut, er tekinn út af fyrir sig, voru uppbæturnar á hann miklu hærri en 94.5%. Skýrsla um það efni er í grg. frv., sem ég nefndi áðan.

Af setningu hinna nýju laga samhliða afnámi bótanna hlaut því að leiða a.m.k. hlutfallslega mikla verðlækkun á þeim afla, sem áður naut sérbótanna, og sú lækkun kemur fyrst og fremst mjög tilfinnanlega niður á þeim sjávarplássum, þar sem sérbótafiskurinn var og er mikill hluti heildaraflans, en þeir staðir eru sérstaklega margir á Norður-, Austur- og Vesturlandi. Tvisvar sinnum á þessu þingi hafa verið bornar fram till. um að gera ráðstafanir til þess að mæta þeim áföllum, sem afnám sérbótanna hlýtur að hafa í för með sér, en þær till. hafa verið felldar og gefið í skyn, að málið væri enn ekki tímabært. Við sjáum þó ekki annað en langt sé síðan það varð tímabært í sambandi við steinbítsaflann á Vestfjörðum a.m.k., og nú er vor- og sumarútgerðin að hefjast um norðan- og austanvert landið. Við göngum þess vegna út frá því, að það sé a.m.k. tímabært nú að spyrja hæstv. ríkisstj., hvað hún ætli að gera í þessu máli, og að hún sjálf sér fært að gefa um það upplýsingar.

Þriðja spurningin er svo um það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi í hyggju að beita sér fyrir ráðstöfunum til að létta undir með þeim, sem eiga fiskiskip í smiðum erlendis eða skulda verulegan hluta af andvirði fiskiskipa í erlendum gjaldeyri.

1. jan. s.l. voru að ég ætla samkvæmt skýrslu Skipaskoðunar ríkisins 57 fiskiskip í smíðum erlendis. Auk þess er kunnugt, að á undanförnum árum hefur verið flutt inn mikið af fiskiskipum, sem standa að veði fyrir lánum, sem eigendur skipanna verða að greiða í erlendum gjaldeyri.

Hækkun stofnkostnaðar eða tekinna lána í íslenzkum krónum mun reynast flestum erfið og hætt við, að það vandamál verði torleyst fyrir marga og óleysanlegt fyrir suma, nema einhvers konar fyrirgreiðslu megi vænta umfram það, sem ráð var fyrir gert í öndverðu.

Á þessu stigi þykir okkur fyrirspyrjendum ástæða til að grennslast eftir því, hvort ríkisstj. telji sér fært eða geri ráð fyrir því nú að hafa hér um einhverja forgöngu, enda gerum við ráð fyrir, að marga hlutaðeigendur fýsi að vita, hvort þess sé að vænta af hennar hálfu.