04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

908. mál, efnahagsmál sjávarútvegsins

Sjútvmrh, (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hefur ríkisstj. nú eftir áramótin tekið ákvörðun um að auka uppbætur á sjávarafurðir ársins 1959 eða rekstrarstyrki til útgerðar á því ári, og ef svo er, hve mikið?“

Þessu vildi ég svara þannig, að með bréfi 18. febr. s.l. tilkynnti sjútvmrn. útflutningssjóði þá ákvörðun ríkisstj. að greiða uppbætur á fisk veiddan á togurum árið 1959, þannig að þessar uppbætur yrðu sem næst því að vera jafnar því, sem bátarnir höfðu fengið áður, enda eru margir, sem halda því fram, að mismunurinn á verði fisksins úr bátunum og togurunum hafi ekki verið réttlætanlegur að því marki, sem hann hefur verið,

Með síðara bréfi rn. til útflutningssjóðs voru bætur þessar síðar endanlega ákveðnar sem hér segir: Á allan fisk, sem togararnir hafa lagt á land hér á landi á s.l. ári, greiðast 22.4 aurar á kg, miðað við landað magn. Á fisk, sem togararnir hafa landað erlendis á s.l. ári, greiðast 11.74% á reiknað fob-verðmæti aflans. Í þriðja lagi: Hámarksgreiðslu á skip skal þó miða við meðaltalsgreiðslu til allra togaranna, sem telst vera 850 þús. kr., og uppbætur greiðast ekki á fisk, sem fer til fiskmjölsvinnslu.

Bætur þessar voru áætlaðar samtals 31 millj. 897 þús. kr. rúmar, og hafa þegar verið greiddar 31 millj. 547 þús. kr. rúmar, eða til allra togaranna, sem út voru gerðir á s.l. ári, nema eins.

Þetta er raunar allt það, sem ég hef um þetta að segja. Þó má kannske bæta því við, að uppbótar greiðslur úr útflutningssjóði, eftir að efnahagslögin tóku gildi, þ.e.a.s. eftir að tekjurnar í sjóðinn hættu að koma inn eftir venjulegum leiðum, eru mikið annað en þær uppbætur, sem áður voru greiddar, því að nú greiðast þessar uppbætur í raun og veru aðallega af 5% útflutningsskattinum, sem ákveðinn hefur verið, og kemur því allt öðruvísi niður en þessar uppbætur gerðu áður.

Í öðru lagi er spurt: „Hvað ætlar ríkisstj. að gera til að bæta úr erfiðleikum við sjávarsíðuna vegna niðurfalls sérbóta á einstakar fisktegundir, smáfisk og fisk veiddan á vissum tímum árs?“

Svar við þessu er ekki annað en það, að um þetta hefur engin ákvörðun verið tekin.

Í þriðja lagi er spurt: „Ætlar ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstöfunum til að létta undir með þeim, sem eiga fiskiskip í smíðum erlendis eða skulda verulegan hluta af andvirði fiskiskipa í erlendum gjaldeyri?“

Þessari spurningu get ég svarað þannig, að í fyrsta lagi var leitað til fiskveiðasjóðs um það, að hann breytti lánsupphæðum sínum úr sjóðnum og miðaði þær eftirleiðis við raunverulegt kostnaðarverð skipanna heimkominna í íslenzkum krónum, þannig að tekið væri tillit til þeirrar hækkunar, sem yrði á verði skipanna og leiddi af gengislækkuninni, og útlánin úr sjóðnum miðuð við þessa upphæð eða þetta kostnaðarverð skipsins, þegar það væri komið heim, en ekki við þá samninga, sem áður höfðu verið gerðir um lántökurnar, m.ö.o., lánin hækkuð til jafns við gengisbreytinguna. Í öðru lagi hefur ríkisstj. ákveðið að leita til þeirrar nefndar, sem væntanlega verður kosin og er reyndar á dagskrá þessa fundar að kjósa til úthlutunar á atvinnuaukningarfé, um það að taka eins ríflega og mögulegt er fyrir nefndina tillit til þeirra erfiðleika, sem innflytjendur mótorbáta eða fiskiskipa hafa orðið fyrir vegna gengisbreytingarinnar. Í þriðja lagi hefur verið leitað til gjaldeyrisbankanna, sem hafa með yfirfærslu á kaupverði skipanna að gera og ábyrgjast hana, að þeir leituðust við að aðstoða þá menn, sem fyrir gengisbreytinguna höfðu ákveðið að panta ný fiskiskip og gert um það samninga, en urðu fyrir þessari óvæntu kaupverðsaukningu við breytinguna, að gefa þeim kost á aðstoð, sem þeir þyrftu á að halda í því sambandi, og hefur verið vel undir það tekið, og veit ég, að í mörgum tilfellum hafa bankarnir greitt götu þeirra.

Þetta er það, sem ég hef um þessar spurningar að segja, og vænti ég, að hv. fyrirspyrjendur telji þeim með þessu svarað.