01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki vera langorður við þessa 1. umr., en ég verð þó að benda hér á örfá atriði í sambandi við þetta mál.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp þann hátt að leggja brbl. fyrir strax, eins og á að gera, og vona, að það sé vottur um, að hún hafi við nánari íhugun séð einhver missmíði á því, hvernig hún hefur hagað einmitt þeim málum áður, og vísa þar til þess, sem um var rætt hér fyrir jólin.

Í sambandi við þetta mál hlýt ég að minna á það, að þegar núverandi valdasamsteypa tók við í desember 1958, — því að eins og öllum landsmönnum er ljóst, var það raunverulega þá, sem núverandi valdasamsteypa tók við málefnum landsins, — hóf sig upp nýr andi í landbúnaðarmálum, að vísu gamalkunnur, en hafði þó haldið sig við jörðina þá um æðilangan tíma. Og sá andi hefur svifið yfir vötnunum síðan í landbúnaðarefnum. En sá andi var að reyna að finna leiðir til þess að létta lausnir í efnahagsmálum með því að halla á bændastéttina. Þetta kom fram í löggjöfinni, sem þá var lögð fyrir hv. Alþingi og samþ., í fleiri en einu atriði, eins og Stéttarsambandið benti skörulega á, og fékkst ekki leiðrétt þá nema að sáralitlu leyti. Og eitt atriðið, sem þá kom fram, var þetta og fékkst ekki leiðrétt, að enda þótt ætlunin væri með þeirri löggjöf að brjóta blað, eins og það var kallað, í efnahagsmálum og að vissu leyti byrja búskapinn á nýjan leik, eins og þá var látíð í veðri vaka, eins og m.a. sást á því, að það átti að taka upp vísitöluna 100, þá fékkst það ekki fram, að tekjur bænda væru færðar til samræmis við tekjur annarra stétta. Þessu fékkst ekki framgengt, þótt augljóst væri, að bændastéttin var á eftir með sitt verðlag. Það fékkst ekki leiðréttur sá skakki, þannig að allir gætu byrjað jafnt. En því var þess í stað lýst yfir, að þetta mundi koma af sjálfu sér, því að þetta mundi leiðréttast næsta haust. Þá ætti að fara fram verðlagning á landbúnaðarafurðum að réttu lagi og þá mundi þessi skakki verða leiðréttur. Þessar yfirlýsingar voru þá gerðar af hendi þessarar nýju valdasamsteypu og lagt mikið við, að menn skyldu engar áhyggjur hafa af þessu, það kæmi af sjálfu sér.

Til þess svo að gera langa sögu stutta, vil ég minna á það, að þegar haustið kom og það átti eftir gildandi löggjöf að verðleggja landbúnaðarafurðir, kom upp nokkur ágreiningur á milli neytenda og framleiðenda, sem hefur nú áður komið fyrir. Og þá var það, að þessi nýja valdasamsteypa, sem hafði gefið þessar yfirlýsingar þó veturinn áður, notfærði sér þennan ágreining, sem þarna kom upp. Hún lagði sig ekkert fram um að leysa þennan ágreining eða koma málunum í höfn með samkomulagi. Ónei. Hún tók aðra leið, og hún var sú að gefa út brbl. um það, að verðlag landbúnaðarvara skyldi standa óbreytt, þó að allir vissu, að ef rétturinn átti að ske og hlutlaus úrskurður færi fram, hlaut að verða úrskurðuð hækkun á landbúnaðarverðlaginu. En fulltrúar valdasamsteypunnar, sem voru Alþfl.menn í stjórnarráðinu, en sjálfstæðismenn utan þess, sem einmitt af þessu tilefni endurnýjuðu stuðningsyfirlýsingar sínar við ríkisstj., réðu þessu. Forráðamenn hinnar nýju valdasamsteypu réðu því, að sett voru brbl. um, að verðlag landbúnaðarafurða skyldi óbreytt standa.

Auðvitað kom ekki til nokkurra mála, að það væri hægt að sætta sig við þetta, og Framsfl. hóf þegar baráttu fyrir því, að þetta yrði leiðrétt og að valdamenn landsins kæmust ekki upp með þetta. Þetta var alveg í eðlilegu framhaldi af starfi Framsfl. bæði fyrr og síðar til þess að tryggja bændastéttinni jafnrétti í þjóðfélaginu á við aðrar stéttir, því að lengra hefur aldrei komið til mála að ganga.

Enn fremur varð það að sjálfsögðu niðurstaðan hjá Stéttarsambandi bænda að mótmæla þessu harðlega og hefja öfluga baráttu fyrir því að fá þessum lögum hrundið og fá eðlilega verðlagningu á landbúnaðarafurðir.

Að sjálfsögðu kom fljótt í ljós nokkur veila hjá sjálfstæðismönnum í þessu efni, og beygur var auðsær í því liði út af þessu. Þeir lýstu því strax yfir t.d., að þeir vildu bæta seinna þetta tjón, sem bændum væri gert með löggjöfinni, en þeir sögðu ekkert um það á hinn bóginn, hvernig þeir vildu haga verðlagningu landbúnaðarafurða framvegis, hvort þeir vildu standa óskorað með Stéttarsambandinu og bændastéttinni í því að fá sinn rétt aftur, sem hafði verið tekinn af þeim með brbl. Um það sögðu þeir ekki neitt. Það lengsta, sem svo var gengið, þegar beygurinn jókst og kosningabaráttan harðnaði, var að lýsa því yfir, að flokkurinn væri á móti brbl. En ekkert fékkst fram um það, fyrir hverju flokkurinn vildi beita sér, hvort hann vildi taka til greina sjónarmið Stéttarsambandsins eða ekki. Og þannig stóðu þessi mál, þegar Alþingi kom saman í haust og ný ríkisstj. var mynduð af þessari sömu valdasamsteypu, sem búin var að fara með málefni landsins, eins og ég sagði, síðan í des. 1958, og var sú stjórnarmyndun í sjálfu sér meira formsbreyting en efnisbreyting.

Á þinghlutanum, sem haldinn var fyrir jólin, voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá þetta mál tekið málefnalega fyrir á Alþingi og ítrekaðar tilraunir voru gerðar til þess að fá hreinar yfirlýsingar um, hvar t.d. Sjálfstfl. stæði í þessu máli. En slíkar yfirlýsingar fengust engar. En það er enginn vafi á því, að hin harða barátta, sem háð hefur verið allan tímann, síðan þetta kom til, af Framsfl. og Stéttarsambandinu, setti í vaxandi mæli merki á þá, sem fyrir þessu máli stóðu. Það var auðfundið, að það var vaxandi lát á þessum mönnum. Þeir sáu vaxandi missmíði á því að halda til streitu því, sem þeir raunverulega vildu og höfðu stofnað til. En aftur á móti var ómögulegt að fá þetta hreint upp gert, áður en þingið fór heim, sem hefði þó að sjálfsögðu verið það eina rétta.

Síðan leið að þeim tíma, að það varð að taka endanlega ákvörðun um þetta mál, og Stéttarsambandið herti að í þessu efni, eins og það hafði mesta möguleika á. Niðurstaðan varð svo sú í stuttu máli, að hin nýja valdasamsteypa guggnaði á því, sem hún hafði staðið að, hún guggnaði fyrir baráttu Framsfl. og Stéttarsambandsins, guggnaði á því að halda landbúnaðarverðlaginu föstu með löggjöf. Og það er aðalatriðið í þessari baráttu, og ber að fagna því alveg sérstaklega, að þessi valdasamsteypa skyldi guggna á þessu, og þeim árangri, sem þannig náðist af þeirri baráttu, sem háð var.

Engum Íslendingi dettur í hug, að það hefði komið til mála, að valdasamsteypan hefði fallið frá þessari stefnu, ef ekki hefði komið til þessi barátta Stéttarsambandsins og Framsfl. Ég verð því að lýsa sérstakri ánægju minni með þetta. Ég vil einnig lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að það hefur einnig komið fram í þessu sambandi, að fulltrúum framleiðenda og neytenda hefur auðnazt að ná samkomulagi, og það tel ég líka mjög mikilsvert. Með því er ég engan veginn að draga neitt úr því, hversu mikilsvert það er, að valdasamsteypan guggnaði á þeirri stefnu gagnvart bændastéttinni, sem hún hafði hafið framkvæmd á. Það er þýðingarmikið og þýðingarmeira en orð verða fundin yfir. En hitt er líka þýðingarmikið, mjög þýðingarmikið, að fulltrúum framleiðenda og neytenda skyldi takast að ná samkomulagi sín í milli.

En það, sem er kjarnapunkturinn í þessu máli, er auðvitað þetta, að í þessari löggjöf er gert ráð fyrir því, að meginreglan verði sama fyrirkomulag á verðlagningunni og verið hefur, þó að nokkuð sé breytt í einstökum atriðum og höfð nokkru víðtækari afskipti neytenda en áður hafði verið. Sá sigur hefur unnizt, að verðlagningin fer fram eftir sömu meginreglum og áður, þ.e.a.s. samkomulagi neytenda og framleiðenda, en gerð hagstofustjóra, ef á milli ber. Og með því að lögleiða þetta á nýjan leik, er fallið frá þeirri verðfestingarstefnu, þeirri árásarstefnu í garð bændastéttarinnar, sem þessi nýja valdasamsteypa hafði byrjað á að framkvæma.

Ég skal ekki þreyta langar umræður um þetta, eins og ég sagði, en ég vil þó aðeins minna á tvö einstök atriði í framhaldi af þessu.

Það er þá fyrst það, sem hæstv. landbrh. kom lauslega inn á, að eins og nú horfir um stórfelldar breytingar í efnahagsmálum landsins, sem ég skal ekki fara að ræða hér nú, þá er það geysilega þýðingarmikið, að sett verði ákvæði inn í löggjöfina um, að verðlag landbúnaðarafurða geti orðið endurskoðað, ef hækkun verður á rekstrarvörum, því að ef stefna ríkisstj. verður framkvæmd eins og hún hefur nú verið boðuð, er fram undan stórfelld hækkun á rekstrarvörum til landbúnaðarins eins og öllu öðru í landinu. Og þá er ákaflega þýðingarmikið, að eðlileg og réttlát ákvæði séu sett um það, að endurskoðun fari fram þá tafarlaust í sambandi við þá þýðingarmiklu breytingu. Þetta vil ég strika undir.

Þá er það í sambandi við 9. gr. laganna. Eins og hæstv. landbrh. drap á, varð þarna að samningi, að Stéttarsambandið félli frá því að halda til streitu því löggjafaratriði, að hægt væri að verðjafna landbúnaðarvörur með því að taka verðjöfnunargjald á innlendum markaði, — en þetta er gamalt ákvæði, eins og við vitum, — félli frá þessu, en í móti kæmi aftur ákvæði 9. gr. um útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh., og mér er það dálítið forvitnismál, hvort hann hefur látíð athuga það, hvað þetta ákvæði muni kosta mikið, miðað við líkur, ef ríkisstj. framkvæmir þá stefnu í efnahagsmálum, sem hún nú hefur hugsað sér og gert till. um og er rétt aðeins óframkomin. En ég spyr að þessu vegna þess, að ég hef ekki getað séð við fljótan yfirlestur á fjárlagafrv. gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir og átta mig ekki vel á því, hvernig þetta er hugsað. En má vera, að þetta eigi eftir að athugast nánar. Ég hef sem sagt ekki getað séð, að á fjárlagafrv. væru ætlaðar nokkrar útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, og ég hef séð það á ýmsu, sem fram hefur komið frá hæstv. ríkisstj., að ráðgert er að fella útflutningssjóðinn niður. Og þá er spurningin: Hvernig horfir þetta mál við að dómi hæstv. landbrh., ef hæstv. ríkisstj. framkvæmir þá stefnu, sem hún nú hefur hugsað sér í efnahagsmálum? Verður ekki þá að gera ráð fyrir samt sem áður einhverjum útflutningsuppbótum samkv. þessari grein, og hvað álitur hæstv. ráðh, að það yrði stórfellt?