30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort halda eigi fundi áfram eftir matarhlé. (Forseti: Já, kl. hálfníu. ) Ef svo er, þá vil ég leyfa mér að mótmæla því og fara fram á það við forseta, að hann slíti fundi og fundur verði ekki boðaður aftur fyrr en á eðlilegum tíma eftir þá hátíð, sem nú fer í hönd. Fyrir þessum tilmælum mínum vil ég tilgreina fjórar ástæður: Í fyrsta lagi þá, að í hönd fara hátíðir í tilefni fullveldisins, og mun vera algert einsdæmi, að næturfundum sé haldið áfram, þegar svo stendur á. Í öðru lagi tel ég næturfundi algerlega óeðlilega, þegar svo skammt er liðið á starfstíma þingsins. Og í þriðja lagi hafa þau rök verið færð sérstaklega fram fyrir hraða á þessum málum og fyrir þingfrestun, að ríkisstj. skorti starfsfrið. Ég vil þess vegna ekki stuðla að því, að svefn og eðlileg hvíld sé höfð af hæstv. ráðh., og tel eðlilegt, að þeir njóti eðlilegrar hvíldar, til þess að þeir geti unnið störf sín að deginum. Í fjórða lagi tei ég, að á sama hátt geti þm. átt kröfu á því að hafa nokkurn starfsfrið nú í upphafi þings við undirbúning mála. Það hefur sézt hér undanfarna daga, að á hverjum degi, sem líður af þinginu, kemur fram mikill fjöldi nýrra og merkilegra mála, og mér er kunnugt um það, að mörg fleiri eru í undirbúningi. En með því að fundum sér haldið áfram nótt og dag, þá er sýnilegt, að þm. gefst ekki eðlilegt tóm til þess að undirbúa mál sín og frv., og vil ég tilgreina það sem fjórðu ástæðuna fyrir þessum tilmælum mínum.

Ég veit, að hæstv. forseti, sem er þrautreyndur og gamall þingmaður, skilur allar þessar röksemdir, og ég vonast til þess og veit það, að hann mun hafa lært það mikið af fyrirrennara sínum hér, Bernharð Stefánssyni, að hann verði við þessum sjálfsögðu óskum, sem ég hef fulla ástæðu til að halda að muni verða tekið undir af ýmsum hv. þdm.