08.02.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

42. mál, fjárlög 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, sagði hér, að engin samráð hefðu verið höfð við launþegasamtökin um þetta mál. Ég tel rétt, að það komi hér fram, að áður en ríkisstj. lagði frv. fyrir Alþ., átti hún viðræður við samstarfsnefnd launþegasamtakanna og fulltrúa Alþýðusambandsins, og var m.a. þessi hv. þm. á þeim viðræðufundi.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þessi hv. þm. og hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, það má segja, að þeir hafi komið hér fram sem verðugir fulltrúar vinstri stjórnarinnar, en eins og menn vita, eru þeir erfiðleikar, sem víð eigum nú við að etja, fyrst og fremst arfur frá þeirri stjórn, og eru þessir tveir fyrrv. ráðh. í þeirri stjórn hér vafalaust réttir sakaraðilar.

Hv. þingmenn og sérstaklega hv. 1. þm. Austf. sló því fram sem miklu hneykslunaratriði, að ríkisútgjöldin hækki nú á einu ári um 430 millj. Honum láðist að sjálfsögðu að gera grein fyrir því, hvort það eru einhverjar af þessum hækkunum, sem hann væri á móti. Hann sló aðeins fram heildartölunni, en láðist að geta, í hverju þetta er fólgið. Ég gerði nokkra grein fyrir því í framsöguræðu minni, hvernig þessar 430 millj. eru til komnar. Það er yfirfærsla frá útflutningssjóði, m.ö.o. formsatriði, 113 millj. niðurgreiðslur, sem eru fluttar þaðan. Það eru hinar nýju niðurgreiðslur á kaffi, kornvörum og sykri, 38 millj. Það eru fjölskyldubæturnar og hinar auknu tryggingar, 152 millj. Það er bein afleiðing af gengisbreytingunni, 44 millj. Og loks 83 millj., sem eru ýmsar hækkanir, sem stafa af fólksfjölgun í landinu og aukinni þjónustu, það er aukinn kostnaður við skóla, við landhelgisgæzlu, við spítala og þess háttar. Ég ætla, að þeir, sem líta með sanngirni á þetta mál og vita, hvernig þessar 430 millj. eru til komnar, hljóti að sannfærast um, að þetta er eðlileg hækkun, eins og á stendur.

En hv. 1. þm. Austf. þótti það hin mestu undur, að ég skyldi ekki flytja og koma inn í fjárlagafrv. víðtækum niðurskurði á útgjöldum ríkisins og á ríkisbákninu. Hann sagði, að það vottaði ekki fyrir neinni viðleitni til sparnaðar. Nú er það svo, að þessi hv. þm., 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefur átt mestan þátt í að byggja upp þetta ríkisbákn á 20 árum, móta það og margfalda. Og ég verð að segja, að ég þakka það traust, sem hann sýnir mér, þegar hann ætlast til, að ég kippi því í lag á tveimur mánuðum, sem hann hefur verið að færa úr lagi í 20 ár.

Hv. þm. viðhefur hér hinar mestu rangfærslur varðandi væntanlegar lántökur og blandar þar saman vörukaupalánum, eyðslulánum, framkvæmdalánum og gjaldeyrisvarasjóði. Ein af ástæðunum fyrir því, hvernig komið er, er sú, að allt of mikið hefur verið tekið af svokölluðum eyðslulánum á undanförnum árum eða vörukaupalánum og enn fremur af framkvæmdalánum, sem verið hafa til skamms tíma. Þegar hann nefnir, að þessi skuldasöfnun og greiðsluhalli á undanförnum árum stafi fyrst og fremst af því, að við höfum keypt báta og skip og virkjað Sogið, þá er þetta alrangt, því að lán til þessara framkvæmda er ekki nema örlítill hluti af þeim skuldum, sem safnazt hafa fyrir.

Það, sem hér er um að ræða í þessu frv., er hins vegar allt annars eðlis. Það eru samningar við Evrópusjóðinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um það, að þeir skapi okkur nauðsynlegan gjaldeyrisvarasjóð til að gera þær efnahagsráðstafanir, sem hér standa fyrir dyrum.

Þegar viðskipti eru gefin frjáls að verulegu leyti, er óhjákvæmilegt fyrir þá þjóð, sem að því stendur, að hafa vissan gjaldeyrisvarasjóð til að mæta þeim auknu innkaupum, sem geta komið á víssum tímum vegna frelsisins. Og í öðru lagi er það brýn nauðsyn og alveg sérstök nauðsyn fyrir okkur Íslendinga, með jafnáhættusaman og árstíðabundinn atvinnurekstur og við höfum, að hafa gjaldeyrisvarasjóð til að mæta árstíðasveiflum. Það er þess konar gjaldeyrisvarasjóður, sem er nauðsynlegur af þessum tveimur ástæðum, sem hér er gert ráð fyrir að hafa aðgang að. Það er fjarri öllu lagi, að hér sé verið að taka stórkostleg eyðslulán eða vörukaupalán, heldur þvert á móti er hér um tímabundinn gjaldeyrisvarasjóð að ræða.

Hv. þm., báðir fyrrv. ráðh. vinstri stjórnarinnar, telja, að fjárlagafrv. bæri það með sér, að nú eigi að verða samdráttur í verklegum framkvæmdum. Hv. 4. landsk. þm. sagði, að fyrst fjárframlög til verklegra framkvæmda flestra væru óbreytt, mundi það þýða mikinn samdrátt. Og eitthvað svipað að orði komst hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson. Það ætti að draga úr uppbyggingunni, draga úr verklegum framkvæmdum og minnka raunverulega framlög til verklegra framkvæmda. Við skulum aðeins líta á þetta svolítið nánar.

Framlög til verklegra framkvæmda eru, eins og ég gat um í frumræðu minni, að meginstefnu til í óbreyttri krónutölu frá síðustu fjárlögum. En í mörgum tilfellum eru þau hækkuð og það svo mjög, að til verklegra framkvæmda ýmislegra eru framlögin nú í þessu frv. hækkuð yfir 20 millj. kr. frá fjárlögum 1959.

Ég hef athugað, hvernig þetta leit út í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar hv. 1. þm. Austf. var fjmrh. Haustið 1957 lagði hann fram frv., — auðvitað á ábyrgð og í nafni Hannibals Valdimarssonar líka. Framlög til nýbyggingar vega, til brúa, hafna, skólabygginga, flugvalla og annarra verklegra framkvæmda voru í því frv., fjárlfrv. fyrir 1958, lækkuð frá fjárlögum ársins á undan um 18.3 millj. kr. Þetta voru þeirra afrek það árið, að í stað þess, sem hér er gert, að fjárframlög til verklegra framkvæmda eru þó hækkuð milli 20 og 30 millj., þá var þetta hjá þeim lækkað um 18.3 millj. kr.

Við getum litið á fleira. Þegar yfirfærslugjaldið 55% hafði verið í lög tekið 1958, þá var það sama haust borið fram nýtt fjárlagafrv. af þessum sama fjmrh. og þessum sama Hannibal Valdimarssyni og vinstri stjórninni. Og þrátt fyrir 55% yfirfærslugjaldið voru óbreyttar fjárveitingar að krónutölu í þessu frv. til nýbyggingar vega, brúa, hafna og sjúkrahúsabygginga.

Svo segir hv. 1. þm. Austf. Framsfl. er ekki hentistefnuflokkur. Hann segir ekki eitt í dag og annað á morgun. Hann er ekki eins og fló á skinni. Hann er alltaf samur og jafn. Hann hvikar aldrei frá sinni stefnu.

Hv. 1. þm. Austf. virtist vilja halda ríkisábyrgðunum með öllum þeim vanskilum, sem þar eru sívaxandi ár frá ári. Þetta er kannske mannlegt, vegna þess að hann hefur átt mestan þátt í þessu, eins og hann hefur átt mestan þátt í að skapa með skuldasöfnun við útlönd það hörmungarástand, sem við erum nú lentir í. T.d. var það svo á tímum vinstri stjórnarinnar, að þessar ríkisábyrgðir voru meira en tvöfaldaðar. Þær hækkuðu um 690 millj, kr. á því tímabili, og töluverður hluti af þeim 35 millj. kr., sem nú verður að ætla til greiðslu á vanskilaskuldum, er einmitt frá því tímabili.

Hv. 1. þm. Austf. segir, að það eigi að lækka tekjuskattinn um 75 millj. kr., en í staðinn eigi að leggja á nýjan söluskatt að upphæð 224 millj. kr. Þetta er ekki hægt að segja að sé heiðarlegur málflutningur. Í þessu eru tvær blekkingar. Önnur er sú, að lækkunin á tekjuskattinum mundi á þessu ári nema 110 millj., en ekki 75, og auk þess sleppir hann að geta um 9% söluskattinn, sem er í lögum og mundi á þessu ári nema 114 millj. kr. og á að fella niður með hinum nýja söluskatti. Þessir tveir tekjustofnar, sem eiga að falla niður, nema sömu upphæð og sá hluti söluskattsins, sem á að renna í ríkissjóð, 224 millj. kr.

Það er ekki að undra, þótt ýmsir séu orðnir leiðir á slagorðavaðli Framsfl. og hv. 1. þm. Austf. Þegar þeir berjast gegn jafnrétti fólksins í byggðum landsins til að hafa áhrif á Alþingi, er það kallað byggðastefna Framsfl. Og þegar þeir heimta, að haldið sé áfram spillingunni, sem nú er, skuldasöfnuninni, fyrirsjáanlegum fjárþrotum og stöðvun atvinnulífsins, þá er það kallað uppbyggingarstefna Framsfl. Hér er um svo mikil öfugmæli að ræða, að það minnir vissulega fyrst og fremst á öfugmælavísurnar gömlu, eins og t.d.: „Gott er að hafa gler í skó, þá gengið er í kletta.“

En furðulegast er þó, þegar hv. 1. þm. Austf. og framsóknarmenn tala um fjárfestinguna, því að einn þeirra talar um það, að einn helzti ágallinn á þessum ráðstöfunum ríkisstj. sé sá að draga stórlega úr fjárfestingu, vegna þess að fjárfestingunni verði að halda áfram í fullum mæli, það sé í samræmi við uppbyggingarstefnu Framsfl. En svo um leið segir hv. 1. þm. Austf. hér áðan, að þrátt fyrir þetta verði að vísu að draga úr fjárfestingunni að einhverju leyti, hann skýrði ekkert nánar, hvað það væri. Væntanlega hefur hann þá haft í huga það, sem flokksbróðir hans einn alkunnur sagði í Tímanum fyrir nokkrum árum, að það væri þjóðhættulegt að leyfa frekari íbúðabyggingar í Reykjavík. Kannske er það það, sem Framsfl. á við.

Þegar við lítum nú á till. ríkisstj. um úrræði í efnahagsmálum og heyrum hina miklu gagnrýni stjórnarandstæðinga, þá verður manni vissulega að spyrja: Hver eru úrræði þeirra sjálfra? Og þeim mun fremur, þar sem það er vitað, að Framsfl. og Alþb. gáfust upp haustið 1958 og lýstu því yfir fyrir munn forsrh., að engin samstaða væri í ríkisstj. um nein úrræði til bjargar: Þeir gáfust hreinlega upp. Þegar þeir nú koma rúmu ári siðar og gagnrýna harðlega þær aðgerðir og till. um aðgerðir, sem hér eru á döfinni, þá er það skylda þessara manna eftir uppgjöfina 1958 að færa fram einhver úrræði. Það hafa þeir ekki gert. Það helzta, sem ráða má af ræðum þeirra og skrifum, er þetta: Þeir vilja halda uppbótakerfinu. Þeir vilja, að útvegsmenn haldi áfram að fá styrki og uppbætur. Þeir vilja viðhalda fölsku gengi, hafa 10–20 gengi.

Þeir vilja viðhalda gjaldeyrisskortinum, halda áfram, meðan nokkur tök eru á, að taka eyðslulán erlendis. Þeir vilja halda við svarta markaðinum, gjaldeyrisbraskinu, öllu þessu, sem leiðir af sér smygl og svindl. Þeir vilja halda við innflutningshöftunum, enda eru þau auðvitað óhjákvæmileg, ef uppbótakerfi þeirra á að halda áfram. Þeir vilja halda við því kerfi, sem allt stefnir beint út í stöðvun og atvinnuleysi. Og þeir vilja halda við vísitölukerfinu, sem er þó sannað að ekki hefur á undanförnum áratug eða áratugum fært launþegum neinar teljandi kjarabætur.

Við, sem að þessum málum stöndum nú, við viljum allt annað. Við viljum stöðva greiðsluhallann við útlönd. Við viljum ná jafnvægi í búskap þjóðarinnar út á við og inn á við. Við viljum afnema innflutningshöftin í sem ríkustum mæli og koma á viðskiptafrelsi. Við viljum vinna að því, að gjaldeyrissalan verði frjáls, að hér verði eitt og rétt gengi skráð og vitanlega stefnt að því, að upp renni sá dagur, sem margir trúa kannske vart að geti verið fram undan, en hefur þó orðið að raunveruleika í mörgum okkar nágrannalöndum, að hver og einn Íslendingur geti gengið inn í banka og keypt þar þann erlendan gjaldeyri, sem hann óskar eftir, fyrir íslenzka peninga á rétt skráðu gengi. Ef þessar ráðstafanir, sem nú er unnið að, takast, þá mun þessi stund m.a. ekki vera langt undan. Og við viljum auka almannatryggingarnar, eins og gerð hefur verið grein fyrir, afnema tekjuskattinn á launatekjum og lækka útsvörin. Vissulega koma einhverjir erfiðleikar í bili. En ef þjóðin tekur þessu með skilningi, þá mun jafnvægi nást og bati fást á skömmum tíma, jafnvel áður en þetta ár er á enda. En þá skapast hér líka nýir og óvæntir möguleikar.

Íslendingar eiga svo mikið af ónýttum auðlindum og svo mikla möguleika um aukna velmegun í framtíðinni að það má segja, að eitt fyrsta skilyrði til þess að hagnýta þetta allt saman sé að fá erlent fjármagn í einhverju formi til þess að hagnýta þessar auðlindir. Og þó að með áframhaldandi kerfi, því sem nú hefur verið um hríð, sé gersamlega útilokað að fá nokkur hagkvæm lán til verklegra framkvæmda, þá er hitt víst, að um leið og Íslendingar hafa tekið upp skynsamlega efnahagspólitík, um leið og þeir hafa komið jafnvægi á hjá sér og sýnt, að þeir eru menn til að stjórna sínum fjármálum, um leið og þetta ástand hefur skapazt, þá skapast líka nýir möguleikar, m.a. hjá Alþjóðabankanum og öðrum alþjóðlegum fjármálastofnunum, til að fá hagkvæm lán með góðum kjörum til langs tíma til uppbyggingar í þessu landi, fyrst og fremst til að hagnýta auðlindir okkar. Og það skulu menn vita, að rannsóknir hafa leitt í ljós og útreikningar, að með virkjun okkar fallvatna og með virkjun jarðgufunnar er hægt að fá hér orku, sem er ódýrari en í nokkru öðru Evrópulandi. Það skapar ótrúlega möguleika til aukins iðnaðar og aukinnar velmegunar Íslendinga á flestum sviðum. En grundvallarskilyrði fyrir þessu öllu saman er auðvitað, að við tökum skynsamlega á efnahagsmálunum og komum hér á jafnvægi.

Í rauninni má segja, að íslenzka þjóðin lifi nú og horfi fram á þrjú tímabil: Fyrst og fremst sjúkdómstímabilið í sínu efnahagskerfi, því að nú að undanförnu hefur sjúklingnum — þjóðinni – alltaf verið að elna sóttin jafnt og þétt. Sjúkdómstímabilið er nú væntanlega bráðum á enda og lækningatímabilið að hefjast. Það getur verið, að það taki skamman tíma, ef þjóðfélagsstéttirnar sýna skilning á því, að það þarf að grípa til lækningaaðgerða til að lækna sjúkdóminn. Og ef það verður gert, þá hefst hér, áður en mjög langt um liður, öld heilbrigðinnar í íslenzkum efnahagsmálum.

Hér hafa þessir fyrrv. ráðh. vinstri stj. látið þau orð falla, að þessar efnahagsráðstafanir og þessar till. bitni fyrst og fremst á unga fólkinu, til þess að reyna að fá unga fólkið í landinu til þess að slá skjaldborg um áform sín um að halda við allri spillingunni í þjóðfélaginu með hinu úrelta uppbótakerfi og því öngþveiti, sem hér blasir við. Nei, þegar dýpra er skoðað, eru þessi mál, þessar till., sem ríkisstj. hefur lagt fram, einmitt mál unga fólksins, því að þar eygir unga fólkið frelsið og möguleikana til að neyta krafta sinna. Þær till., sem hér er lagt til að samþ. verði í efnahagsmálum og öðru, sem því fylgir, einmitt þær till. miða að því að skapa hér á Íslandi þjóðfélag frelsis, jafnréttis, heilbrigði og heiðarleika.