30.03.1960
Efri deild: 49. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

99. mál, alþjóðasamningur um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur haft til athugunar frv. til laga, sem hér er til 2. umr., um heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta öðlast gildi ákvæði alþjóðasamnings, sem gerður var 24. jan. 1959, um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs, ásamt viðbæti. Er hér um samning að ræða, sem 14 fiskveiðibjóðir standa að, og er tilgangur samningsins að tryggja verndun fiskstofna og hagnýtan rekstur fiskveiða á því hafsvæði, sem hér um ræðir, vegna sameiginlegra hagsmuna aðildarríkjanna.

Hér er um að ræða í aðalatriðum endurnýjun á samningi, sem gerður var 1946 milli sömu aðila um möskvastærð á botnvörpu og dragnót og lágmarksstærð á fiski, sem veiða má og bjóða til sölu. Þó er þessi nýi samningur á ýmsan hátt víðtækari. Sá samningur tók þó ekki gildi, fyrr en síðasta ríkið, Spánn, hafði fullgilt hann, en það var árið 1953. Ísland hafði fullgilt samninginn árið 1951, en þó með þeim fyrirvara, að samningurinn gæti ekki haft áhrif á ákvarðanir Íslands um víðáttu fiskveiðilandhelginnar.

Fulltrúar Íslands, er sátu fundinn, sem haldinn var í London 20. 24. jan. 1959, þar sem samningur bessi var gerður og undirritaður, hafa gert skýrslu um fundinn. Þar segir, að 2. gr. samningsins hafi verið aðalágreiningsefnið. Af Íslands hálfu hafi það frá upphafi verið skýrt og ótvirætt, að samningurinn gæti engin áhrif haft á skoðanir þátttökuríkjanna að því er varðaði víðáttu landhelginnar. Um þetta atriði eru skýr ákvæði í 2. gr. samningsins, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ekkert ákvæði samnings þessa skal talið hafa nokkur áhrif á réttindi, kröfur eða skoðanir samningsríkja að því er snertir viðáttu fiskveiðilögsögu.“

Hlutverk þeirrar n., sem ráðgert er að stofna samkv. samningi þessum, er að fylgjast með fiskveiðum á samningssvæðinu og athuga með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja hverju sinni, hvaða ráðstafanir séu nauðsynlegar til verndar fiskstofnunum og til sem hagkvæmastrar nýtingar þeirra. Þá ber n. að gera till. til meðlimaríkjanna um nauðsynlegar ráðstafanir, og þær ráðstafanir, sem til greina koma í þessu skyni, eru aðallega í sex liðum og eru nánar taldar upp. Þó geta fleiri ráðstafanir komið til greina, svo sem um takmörkun á heildarafla eða sókn á tilteknu tímabili á vissum veiðisvæðum.

Vitanlega vilja Íslendingar taka þátt í og styðja að hvers konar skynsamlegum ráðstöfunum, sem miða í þá átt að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðunum og koma á annan hátt í veg fyrir, að ofveiði eigi sér stað. Sennilegt er, að engin ein þjóð eigi meiri hagsmuna að gæta en Íslendingar í bessum efnum. Og þar sem það fer saman, að ákvæði þau, sem hér um ræðir, tryggja annars vegar þá athugun, sem nauðsynlegt er talið að gerð sé í þessu sambandi, og svo hins vegar, að samningur þessi kveður skýrt á um það, að Íslendingar hafa eftir sem áður óskoraðan rétt hvað snertir kröfur og skoðanir þeirra um fiskveiðilandhelgina, þá hljóta Íslendingar að styðja þennan samning. Ég get með þessum orðum lokið máli sínu. — Sjútvn. lýsir því einróma yfir, að hún mælir með samþykkt þessa frv. og að frv. að lokinni þessari umr, verði vísað til 3. umr.