25.02.1960
Neðri deild: 36. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hafa orðið margar og merkilegar breyt. á þjóðlífi Íslendinga og þjóðarhögum síðustu áratugina, en fáar, ef nokkrar hafa verið merkilegri né ánægjulegri en þær, sem orðið hafa á aðbúnaði þjóðfélagsins að þeim, sem veikir eru og smáir og eiga erfitt uppdráttar. Ég man t.d. enn tímabil sveitarflutninganna og eftir því, þegar menn sultu heilu hungri frekar en að leita á náðir sveitarinnar, eins og það var kallað. Það er ekki lengra síðan þetta gerðist en svo, að það er mér enn í fersku minni.

Með tryggingalöggjöfinni hefur orðið á þessu gerbreyting, þó að enn skorti nokkuð á, að fullkomlega vel sé. Alþýðutryggingalögin 1936 og almannatryggingalögin frá 1946 marka tímamót á þessu sviði, þar sem hinn tryggði öðlast rétt til fjárframlaga undir víssum kringumstæðum í stað ölmusu áður. Byrjunin var ófullkomin, en stöðugt hefur þó þokazt í áttina að viðunandi lausn málsins. Þessi löggjöf hefur oft verið endurskoðuð, bætur hækkaðar, réttindi gerð fyllri, og síðast voru almannatryggingalögin endurskoðuð í heild 1956, og við þau lög búum við nú í aðalatriðum, þó að í nokkrum atriðum hafi þeim verið breytt síðan. En verðbólguþróunin í landinu hefur einnig komið hér við, eins og víða annars staðar. Bótagreiðslur trygginganna voru gerðar minna og minna virði með vaxandi dýrtíð, þrátt fyrir það, þó að vísitölugreiðslur kæmu á bæturnar. En síðustu lagfæringarnar, sem gerðar hafa verið til leiðréttingar á síðasta og næstsíðasta ári, árunum 1958 og 1959, eru þó nokkrar, sem ég skal nefna, þ.e. eftir að lögin 1956 komu til framkvæmda.

Árið 1958 voru ýmsar bótagreiðslur almannatryggingalaganna, svo sem elli-, örorku- og barnalífeyrir o.fl., hækkaðar tvisvar. Í fyrsta lagi voru bæturnar hækkaðar um 5% með útflutningssjóðslögunum frá 29. maí 1958, og í öðru lagi voru bæturnar hækkaðar frá 1. sept. 1958 um 91/2 % til samræmis við hækkanir, sem urðu á kaupgjaldi um svipað leyti. Árið 1959 var lögunum um niðurfærslu verðlags og launa frá 30. jan. 1959 hagað þannig, að ákveðið var, að vísitala á lífeyrisgreiðslur skyldi vera 185% í stað 175%, sem greitt var á laun. Þó að hér væri ekki um hækkun að ræða, var þó komizt hjá því að láta lækkunina taka til lífeyris og bótagreiðslna.

Þessar aðgerðir á tveimur undanförnum árum, eða árunum 1958 og 1959, voru að vísu í áttina, en nægðu þó engan veginn til þess að jafna metin fyrir bótaþegana. 1958 hafði af þessum sökum Guðmundur Í. Guðmundsson, þáverandi ráðh. tryggingamála, skipað nefnd samkvæmt þál., samþ. 16. apríl 1958, til þess að endurskoða ákvæði almannatryggingalaganna um lífeyrisgreiðslur með það fyrir augum að bæta hlut lífeyrisþega. Nefndin skyldi sérstaklega athuga, hvort unnt væri: í fyrsta lagi að hækka grunnupphæðir elli-, örorku- og barnalífeyris, í öðru lagi að heimila allt að tvöföldun barnalífeyris vegna munaðarlausra barna, í þriðja lagi að greiða að einhverju leyti lífeyri með barni látinnar móður og í fjórða lagi að jafna að einhverju eða öllu leyti aðstöðu hjóna og einstaklinga gagnvart tryggingalögunum. Í þessa nefnd voru skipaðir þau Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur, Gunnar Möller hrl., sem var ritari n., Helgi Jónasson formaður tryggingaráðs, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., Jóhanna Egilsdóttir formaður verkakvennafélagsins Framsóknar, Ragnhildur Helgadóttir alþm. og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Þessi nefnd samdi síðan frv. á þeim grundvelli, sem fyrir hana var lagt, og var þetta frv. borið fram á Alþingi sem stjórnarfrv. á vetrarþinginu 1959, en hlaut þó ekki afgreiðslu í það skipti.

Þetta frv. er prentað sem sérstakt fskj. með því frv., sem nú hefur verið lagt fram. Í þessu frv. var lagt til, að lífeyrisgreiðslur yrðu yfirleitt hækkaðar um sem næst 20%, sem er mjög veruleg hækkun frá því, sem var, og ýmsar aðrar greiðslur nokkuð rýmkaðar. Ég skal ekki rekja frv. að öðru leyti, það er, eins og ég sagði, prentað sem fskj. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og að verulegu leyti lagt til grundvallar því frv., sem nú er borið fram.

Í framhaldi af þessu frv. nefndarinnar frá 1958 skipaði svo félmrh., Friðjón Skaphéðinsson, á s.l. ári 5 manna nefnd til þess að endurskoða þau ákvæði 3. kafla almannatryggingalaganna, sem fjalla um upphæð slysabóta, með það fyrir augum, að slíkar bætur verði hækkaðar. Í nefndina voru skipaðir þessir aðilar: Björgvin Sigurðsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, Eðvarð Sigurðsson ritari Dagsbrúnar, Guðjón Hansen tryggingafræðingur, sem verið hefur ritari nefndarinnar, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem skipaður var form. n., og Sverrir Þorbjarnarson forstjóri.

Aðalbreytingin frá núgildandi lögum, sem í till. þessarar n. felst, er sú, að dagpeningar slysatrygginganna eru hækkaðir mjög verulega og dánarbæturnar í flestum tilfellum sömuleiðis. Það er lagt til í þessu frv., sem einnig er prentað sem fskj. með frv., sem nú er borið fram, að dagpeningar hækki um ca. 45%, þegar miðað er við einstakling, en 42% fyrir hjón og 24% fyrir hvert barn á framfæri allt að þremur.

Frá því í janúar 1947 og þar til nú hefur dagvinnukaup verkamanna hækkað um ca. 155% , en dagpeningar einstaklinga samkvæmt bótunum um 80% aðeins, hjóna um 108% og vegna barna um 93%. Af þessu sést, að hækkun dagpeninga hefur verið töluvert á eftir og lægri en hækkun kaupgjaldsins. Virðist þó eðlilegt, að kaupgjald og dagpeningar slysabótanna fylgist nokkurn veginn að. En verði sá hluti þessa frv., sem nú er borið fram, sem felur þessar breyt. í sér, gerður að lögum, þá hækka dagpeningar einstaklinga nú upp í 161% hjá einstaklingi og hjóna upp í 196% og vegna barna um 169% .

Í einni samþykkt Alþjóðavinnumálasambandsins, sem Ísland er aðili að og fjallar um lágmark félagslegs öryggis, er áskilið, að lágmark dagpeninga vegna slysa sé 50% af launum, og er þá miðað við hjón með tvö börn. Dagkaup verkamanna er nú um kr. 165.36, og lágmarksbætur skulu því samkvæmt þessari alþjóðasamþykkt vera um kr. 82.68, og ef frvgr. verður lögtekin, næst þetta mark. Dánarbæturnar nema nú 87130 kr. rúmum fyrir lögskráðan sjómann, en 19143 aðeins hjá öðrum. Munurinn á dánarbótum hjá þeim, sem vinna í landi, og þeim, sem vinna á sjó, er þess vegna um 68 þús. kr. og ekkja landvinnumannsins fær því ekki nema litið brot af því, sem ekkja sjómannsins fær við missi maka síns.

Þeir, sem þetta frv. undirbjuggu, töldu, að það yrði tæpast komið auga á skynsamlegar ástæður fyrir því, að t.d. kona, sem missir mann sinn af slysförum við vegavinnu, fái aðeins 19 þús. kr. rúmar, á sama tíma sem kona, sem missir mann sinn, sem er sjómaður, fái 87 þús. kr. Nefndin hefur því lagt til, að þessar dánarbætur vegna slysa verði hafðar jafnar í báðum tilfellum og hækkaðar upp í 90 þús. kr., og er það aðalbreytingin, sem í frv. felst, fyrir utan þessar hækkanir á dagpeningunum, sem ég gat um áðan.

Ýmsar smærri breytingar eru í frv., svo sem heimild til að láta slysabætur fylgja almennu kaupgjaldi, og þó nokkuð fleira, sem ég skal ekki rekja.

Þriðji þátturinn í sambandi við undirbúning þessa máls gerist svo í sambandi við þá lausn efnahagsvandamálanna, sem ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir og nú hefur verið lögfest. Var í því sambandi ákveðið, að fjölskyldubætur yrðu stórhækkaðar eða yrðu látnar vera 2600 kr. með hverju barni, í stað þess að nú eru ekki greiddar neinar fjölskyldubætur með tveim fyrstu börnunum og aðeins um það bil hálfar með þriðja barni, og bæturnar á þau börn, sem þar fram yfir eru, nema á fyrsta verðlagssvæði 2331 kr., en 1748 kr. á öðru verðlagssvæði.

Þar sem þessar fjölskyldubætur eru að fullu greiddar úr ríkissjóði, var talið sjálfsagt, að bæturnar yrðu hafðar jafnar á báðum verðlagssvæðunum.

Þessar fjölskyldubætur ásamt fyrirhuguðum niðurgreiðslum eru taldar munu nægja til að bæta vísitölufjölskyldunni upp þær verðhækkanir, sem óumflýjanlegar hljóta að verða vegna gengisbreytingarinnar, að undanskildum 3 vísitölustigum, og að fjölskylda með þrjú börn og sömu tekjur muni sleppa skaðlaus. Taldi ríkisstj. rétt að taka fyrst og fremst tillit til barnafjölskyldna, sem verðhækkanirnar bitna meira á en hinum barnlausu og eiga verra með að standa undir hækkuninni, og svo til þeirra annarra, sem tekjurýrir eða tekjulausir eru, eins og ellilífeyrisþegar, öryrkjar, einstæðar mæður o.s.frv. Árlegur ellilífeyrir var því, enda þótt hann komi hvergi fram í neinum vísitöluútreikningi, hækkaður samtímis mjög verulega, eða um 20%, rúm þó, umfram þau 20% , sem gert var ráð fyrir í frv. í fyrra, eða í allt, ef báðar hækkanirnar eru teknar saman, um 44% frá því, sem gildir um núverandi bætur. Í tölum verður þetta þannig, að ellilífeyririnn verður samkvæmt frv. fyrir hjón á fyrsta verðlagssvæði 25920 kr. í stað 15927 kr. nú og 19440 kr. á öðru verðlagssvæði í stað 11945 kr. nú. Þetta eru geysimiklar hækkanir, eða um 44% frá því, sem áður var, og rúmlega þó, eins og ég sagði. Fyrir einstaklinga eru tilsvarandi tölur með sömu hækkunum 14400 kr. í stað 9954 á fyrsta og 10800 kr. í stað 7465 kr. á öðru. Í þessu sambandi er vert að benda á það, sem líka hefur þýðingu og kemur fram í bótahæðinni umfram þessar hlutfallstölur, sem ég nefndi, að í frv. er gert ráð fyrir, að mismunurinn á milli einstaklingsbótanna og bóta til hjóna verði minnkaður frá því, sem nú er, þ.e.a.s. nú eru bótagreiðslurnar til hjóna ákveðnar þannig, að hjónum eru reiknaðar tvöfaldar einstaklingsbætur, að frádregnum 20%, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að hjónabæturnar verði tvöfaldar einstaklingsbætur, að frádregnum aðeins 10% . Og þetta verður líka nokkuð til hækkunar á bótunum fyrir hjónin umfram þessar prósentutölur, sem ég nefndi áðan, enda er, eins og menn sjá, hjónahækkunin hærri en þau 44%, sem lögð voru til grundvallar.

Eins og fram kemur í þessum tölum, er hækkun bótanna á öðru verðlagssvæði ekki eins mikil og á fyrsta verðlagssvæði, en á móti því kemur, að hækkun fjölskyldubótanna á öðru verðlagssvæði er talsvert hærri en hækkun þeirra á fyrsta verðlagssvæði.

Annars vil ég segja um skiptingu landsins í verðlagssvæði það, að ég tel vafasamt, að hún eigi rétt á sér öllu lengur og hvort ekki séu eiginlega horfnar þær meginorsakir, sem lágu til grundvallar því, að landinu var þannig skipt. Verðlagssvæðin eru, eins og kunnugt er, annars vegar kaupstaðirnir og þau kauptún, ef einhver eru, þar sem íbúatalan er 2000 eða þar yfir, og hins vegar öll önnur sveitarfélög á landinu. Iðgjaldagreiðslurnar á þessum svæðum eru mismunandi og bæturnar einnig mismunandi, en þetta getur komið dálítið óeðlilega út fyrir bótaþegann og jafnvel fyrir iðgjaldsgreiðandann líka, að landinu sé skipt á bennan hátt, — en það er mál fyrir sig og ekki rétt að blanda því inn í þetta. En því hreyfi ég þessu, að nokkurt álitamál var, þegar þessar hækkanir á lífeyrisbótunum voru ákveðnar, hvort skipta skyldi þeirri upphæð, sem ríkissjóður leggur til í þessu skyni, jafnt á milli eða hvort haga skyldi greiðslunum í svipuðum hlutföllum og áður var gert, þar sem framlag ríkissjóðs í þessu skyni er ekki nema tiltölulega lítill hluti af sjálfum kostnaðinum við lífeyrissjóðsgreiðslurnar. En niðurstaðan varð sem sagt þessi, og hún var helguð af því m.a. líka, að fjölskyldubæturnar á öðru verðlagssvæði hækka meira en á fyrsta verðlagssvæði, vegna þess að þær bætur voru áður nokkru hærri á því fyrsta, en báðir fá nú jafnt, og er talið, að þetta muni meira en mæta þeim litla mismun, sem þarna verður á hækkuninni til ellilífeyrisbótaþeganna á fyrsta og öðru verðlagssvæði.

Tryggingastofnun ríkisins var beðin um umsögn um þetta atriði, og ég held ég geri rétt í því að lesa hana upp, því að hún skýrir málið nokkuð, enda geri ég ráð fyrir, að hv. nefnd, sem þetta mál fær til athugunar, taki þetta atriði til athugunar sérstaklega. Tryggingastofnun ríkisins segir svo um þetta:

Gert hefur verið ráð fyrir, að ríkissjóður taki á sig þá útgjaldaaukningu, sem hækkun bóta lífeyristrygginganna frá því, sem í frv. frá 1959 segir, hefur í för með sér. Ef ætlunin hefði verið að skipta þessari fjárhæð milli bótaþega án tillits til, á hvoru verðlagssvæði þeir voru, hefði mátt hugsa sér eftirfarandi reglu:

1. að bætur, sem nú eru greiddar, hækki um sömu krónutölu á báðum verðlagssvæðunum, t.d. ellilífeyrir einstaklinga úr 12000 kr. í 14400 kr. á fyrsta og úr 9000 kr. í 11400 kr. á öðru verðlagssvæði, og 2. að nýjar bætur, fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni, verði jafnháar á báðum v erðlagssvæðum.

Þessa reglu telur stofnunin ruglingslega í framkvæmd. Í staðinn er nú gert ráð fyrir, að aliar fjölskyldubæturnar verði jafnháar á báðum verðlagssvæðunum, en fyrir margar fjölskyldur þýðir það meiri hækkun á öðru en fyrsta verðlagssvæði. Sem dæmi má nefna t.d. fjögurra barna fjölskyldu. Fjölskyldubætur hennar eru sem hér segir: Á fyrsta verðlagssvæði skv. nýju lögunum 10400 kr., skv. eldri ákvæðum 3600, mismunur 6800 kr. til hækkunar. En á öðru verðlagssvæði verða nú greiddar 10400 kr., var áður greitt 2700 kr., mismunurinn 7700 kr., eða 900 kr. meiri hækkun í fjölskyldubótum til þessarar fjölskyldu á öðru verðlagssvæði heldur en á því fyrsta.

Í áætlun, sem Tryggingastofnunin hefur gert um ársútgjöld lífeyristrygginga, er talið, að auk þess að taka á sig greiðslu fjölskyldubóta þurfi ríkisjóður að hækka framlag sitt til lífeyristrygginganna úr 71.1 millj. í 80.9 millj. eða um 9.8 millj. Lausleg áætlun sýnir, að af þessari upphæð mundu fara 6.2 millj. til bóta á fyrsta verðlagssvæði, en 3.6 millj. til bóta á öðru verðlagssvæði. Síðastnefnda upphæðin þyrfti hins vegar að hækka í 4.9 millj, kr. til þess að samsvara að krónutölu á hvern bótaþega 6.2 millj. á fyrsta verðlagssvæði. Hækkunin úr 3.6 millj. kr. í 4.9 millj. þýddi, að bætur á öðru verðlagssvæði gætu orðið 23.6% lægri en bætur á fyrsta verðlagssvæði í stað 25%, eins og nú er. Ellilífeyrir einstaklings yrði þá t.d. 11000 kr. í stað 10800, og munar þarna 200 kr. á bótaþega.“

Þetta var skýrsla Tryggingastofnunarinnar um þetta mál, en ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu eða biðja þá n., sem þetta fær til athugunar, að líta sérstaklega á þetta atriði, sem er vandmeðfarið.

Ástæðan fyrir því, að ekki var lagt í að kanna þetta betur af ráðuneytinu, var sú, að það var talið sjálfsagt og eðlilegt, að þessi l. yrðu öll tekin til athugunar á ný mjög bráðlega, þar sem t.d. skerðingarákvæði almannatryggingalaganna eða lífeyrisgreiðslnanna fellur úr gildi um næstu áramót, og verður sjálfsagt að gera ýmsar athuganir á l. í því sambandi, og þá var ákveðið að flytja a.m.k. frv. með þessu ákvæði um bótagreiðslurnar á báðum verðlagssvæðunum, eins og fram kemur í frv.

Hækkun fjölskyldubótanna og ellilífeyrisins eru þær breytingar frá núgildandi lögum, sem mestu varða. Aðrar bætur eru þó að vísu margar færðar til hækkunar í frv., og ég tel rétt að minnast á nokkrar þegar við þessa umr., án þess að fara að ræða frv. grein fyrir grein.

Árlegur barnalífeyrir á að hækka skv. frv. á fyrsta verðlagssvæði úr 5104 kr. í 7200 kr. og á öðru verðlagssvæði úr 3828 kr. í 5400 kr. En nú eins og áður eru ekki greiddar fjölskyldubætur með þeim börnum, sem barnalífeyrir er greiddur með.

Ekkjubætur, sem greiddar eru konum, sem verða ekkjur, í 3 mánuði, eftir að þær hafa misst mann sinn, hækka verulega, og sömuleiðis hækka mæðralaun, sem greidd eru ógiftum mæðrum, ekkjum og fráskildum konum, sem hafa börn á framfæri sínu. Og enn fremur er gert ráð fyrir, að fæðingarstyrkir hækki.

Kaflinn um slysatryggingarnar í þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram, er tekinn upp lítið breyttur úr frv. því, sem ég sagði frá áðan, að samið var í fyrra af n. þeirri, sem þáverandi félmrh. skipaði til endurskoðunar á því atriði, svo að ég þarf ekki mikið að fara út í það, en ég skal aðeins lesa þó helztu breytingarnar í tölum frá gildandi l., bæði um hækkun dagpeninga og dánarbóta.

Áður en ég kem að því, tel ég rétt að gera grein fyrir, hver mæðralaun og ekkjubætur verða í tölum, en það er þannig, að mæðralaun eru nú ekki greidd til konu, sem á ekki nema eitt barn. Nú er gert ráð fyrir, að á fyrsta verðlagssvæði fái hún 1400 kr. Með 2 börnum hækka mæðralaunin úr 3300 kr. í 7200 kr. á fyrsta verðlagssvæði og með 3 börnum úr 6636 kr. í 14400 kr. Fæðingarstyrkur hækkar úr 1700 kr. í 2160 kr., allt miðað við fyrsta verðlagssvæði. Ekkjubætur við dauðsfall maka, sem greiðist í 3 mánuði, ef ekkja hefur ekki barn innan 16 ára aldurs á framfæri sínu, hækka úr 1165 kr. í 1440 kr., og ef ekkja hefur barn á framfæri sínu, þá greiðast henni jafnháar bætur í 3 mánuði og að auki pr. mánuð í 9 mánuði skv. núgildandi lögum 874 kr., en það hækkar í 1080 kr.

Slysadagpeningarnir hækka fyrir kvænta karla og giftar konur úr kr. 47.80 á dag í 68 kr. Hjá einstaklingum hækkar þessi upphæð úr kr. 41.35 upp í 60 kr., og fyrir börn hækka greiðslurnar úr kr. 6.45 fyrir hvert barn á dag upp í 8 kr.

Greiðslurnar vegna dauðaslysa hækka, eins og ég var búinn að minnast á áður, upp í 90 þús. kr. og verða jafnar til allra.

Í þessu sambandi eða í framhaldi af þessu vildi ég minnast lítils háttar á svokallaðar iðgjaldagreiðslur skattleysingja. Skv. núgildandi l. á hver maður, sem engan tekjuskatt greiðir, kröfu til þess, að viðkomandi sveitarfélag greiði hans iðgjald. Það eiga allir rétt til þess að sækja um það, að sveitarfélagið greiði iðgjaldið, samkv. núgildandi lögum, en sveitarfélögin eru ekki skyld til þess að borga nema fyrir þá, sem engan skatt greiða. Nú kemur það til, sem lýst hefur verið af hálfu ríkisstj., að skattleysingjarnir verða æði margir, eftir að þær breyt. hafa verið gerðar á tekjuskattslögunum, sem boðaðar hafa verið, svo að það kemur náttúrlega ekki til mála að miða skylduna til iðgjaldagreiðslu hjá sveitarfélagi við skattleysi. Þess vegna hefur sú leið verið farin í frv. að miða skylduna til iðgjaldagreiðslu hjá sveitarfélagi við það, að viðkomandi hafi jafnmiklar tekjur og áður hefðu gert hann skattlausan, samkv. gömlu l., þannig að raunverulega verður engin breyt. á hjá manni með sömu tekjur og áður hvað þetta snertir. Sá, sem var skattlaus áður og átti þess vegna kröfu á sveitarfélagið, hann á með sömu tekjum eftir þessu frv. rétt til þess, að sveitarfélagið haldi áfram að greiða fyrir hann.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess, að ég fari öllu lengra út í það að gera grein fyrir þessu frv. Bæði hefur nokkuð verið rætt um það áður og svo eru ýtarlegar og skýrar greinargerðir, sem fylgja því. Ég vil aðeins geta þess, að gildistökutíminn er nokkuð misjafn eftir því, hvaða hlutar frv. eru. Bætur lífeyristrygginganna skulu greiðast samkv. þessum l. frá 1. febr. nema fjölskyldubætur, sem fyrst greiðast samkv. lögunum frá 1. apríl. Þó skulu ákvæðin um framlög vegna fjölskyldubóta og önnur framlag til lífeyristrygginga gilda frá 1. jan. og ákvæði 21. gr. um iðgjöld og framlög til sjúkrasamlaga gilda um iðgjöld og framlög fyrir tímann eftir 31. des. 1959, þannig að gildistökutíminn bæði fyrir nokkrar bótagreiðslurnar og fyrir iðgjaldagreiðslurnar er ekki alveg sá sami, en þótti ekki rétt að binda það öðruvísi en hér er gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Þá spyrja menn að vonum: Hvað kostar allt þetta? Ég því er ekki að leyna, að hér er um að ræða þá stórkostlegustu breytingu á almannatryggingalögunum, sem gerð hefur verið, síðan þau tóku gildi. Og til þess að sjá, hversu geysilega stór þessi breyt. er, þarf ekki annað en að líta á fskj. 3, sem fylgir frv. Þar er sýnt fram á, að heildargreiðslurnar fyrir 1960, sem upphaflega voru taldar að mundu koma til framkvæmda af Tryggingastofnun ríkisins, eru 183 millj. kr., en gjöldin samkv. þessu frv., ef að lögum verður, eru áætluð 384.6 millj. kr., þ.e.a.s. hækkunin er um 200 millj., rétt rúmar, á 183 millj., þ.e.a.s. hún er yfir 100%. Hún skiptist þannig á bótagreiðslur, að ellilífeyrir hækkar úr 80 millj, upp í 125 millj. eða um rúmlega 50%, örorkulífeyrir hækkar úr 25 millj. kr. upp í 37.6 millj. eða líka um ca. 50%, örorkustyrkur hækkar úr 2 millj. og upp í 3 millj., sömuleiðis um 50%, barnalífeyrir óendurkræfur hækkar úr 10.3 í 14.5 millj. eða nálægt 40% og fjölskyldubæturnar hækka úr 27 millj. kr. upp í 153 millj. eða um 560%, mæðralaunin hækka úr 4.2 millj. upp í 11.7 millj. eða nálgast að þrefaldast. Þetta er sú stórkostlegasta breyting, eins og ég sagði, sem nokkurn tíma hefur verið gerð á þessum lögum, og á að geta komið mjög til bóta þeim, sem mest þurfa á bótum að halda í lífsbaráttunni, þ.e.a.s. barnmörgum fjölskyldum og ellihrumum gamalmennum, einhleypum mæðrum og ýmsum slíkum, sem erfiðast eiga uppdráttar.

Ég held, að það megi segja, að þegar þessar bætur eða bótafyrirkomulag er komið til framkvæmda, þá sé Ísland komið allnærri því að hafa sínar tryggingabætur jafnar því, sem bezt gerist erlendis. Í grg., sem fylgdi frv., sem lagt var hér fram í fyrra, er gerð tilraun til þess að gera samanburð á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð, að því er varðar ellilífeyri einstaklinga. Þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að á Íslandi séu ellilaunin 17% af launum verkamanna, í Danmörku 30.2% og í Svíþjóð 35%. Þetta er um lífeyri einstaklinga. Það er auðvitað rétt, eins og gert er í grg., að taka fram, að í núgildandi löggjöf er heimild til þess að tvöfalda þennan lífeyri í alveg sérstökum tilfellum, en sú takmörkun eða sá hemill getur maður sagt á þessari greiðslu er þó sá, að þær upphæðir, sem í þetta fara, mega ekki fara fram úr 7% af heildarlífeyri fyrra árs. Þetta 7% takmark er nú hækkað upp í 10% og getur náttúrlega hækkað þessa tölu nokkuð, ef hún er tekin með, en ef hún er ekki tekin með, þá er þarna um 17% hjá okkur að ræða á móti 30% í Danmörku og 35% í Svíþjóð. En verði þetta frv., segir n, í sinni grg., samþ., þá er prósentan komin upp í 23.8 á Íslandi, og með þeirri aukningu, sem nú er gerð, nálgast prósentan að verða 30 eða mjög svipað hlutfall á milli ellilífeyris og launa eins og: í Danmörku er, en þó heldur minna, og talsvert minna en er í Svíþjóð. Hjá hjónum verður samanburðurinn Íslandi nokkru hagstæðari, því að það var þó þannig, að hjón höfðu hér 27.3%, í Danmörk 45.4%, í Svíþjóð 46.7%. Með ákvæðum frv. í fyrra hefði prósentan á Íslandi hækkað upp í 42.8%, og með þeirri breytingu, sem enn er bætt við með því frv., sem hér liggur fyrir, virðist, að hlutfallið sé komið rétt undir 50%. og orðið sennilega lítið eitt hærra en í báðum löndunum, Danmörku og Svíþjóð. Þetta tekur til hjóna, hitt tilfellið tók til einstaklinga. En ég fullyrði það, að með þessari breyt., sem hér er lagt til að gera, komumst við á bekk með þeim þjóðum, sem lengst eru komnar á þessu sviði.

Ég viðurkenni, að nokkurn þátt í setningu þessara ákvæða eiga efnahagsráðstafanirnar, sem nú hafa verið gerðar, vegna þess að ríkisstj. þótti hagkvæmt að deyfa að nokkru þann brodd, sem að þessu fólki snýr, einmitt með þessum breytingum á almannatryggingalögunum. En ég vil láta í ljós þá von, og ég veit, að ég mæli það fyrir munn allra hv. þingmanna, að þó að okkur takist innan einhverrar tíðar að koma þeim málum á þann grundvöll, að ekki þurfi lengur til skerðingar að taka hjá einstaklingum í landinu, þá megi þessi ákvæði tryggingalaganna halda áfram að vera í gildi, eins og þau eru hér borin fram, og kannske aukið við þau til jafns við aðrar þjóðir, sem enn eru betri, ef við eigum kost á því. Ég álít það aðalsmerki fyrir íslenzku þjóðina, að hún treysti sér til að gera vel við þetta fólk, bæði það, sem á í örðugleikum vegna fjölskyldustærðar, og eins hina, sem rýrar eða engar tekjur hafa.

Um frv. var fullkomið samkomulag alla tíð í ríkisstj. og enginn ágreiningur um einstök atriði. Það getur náttúrlega vel verið, að sum atriðin megi við nánari athugun endurbæta, og ég fyrir mitt leyti er opinn fyrir því að hlusta á öll skynsamleg rök á þá átt.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.