24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

65. mál, almannatryggingar

Eysteinn Jónsson:

Herra forsetl. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en verð að gera það vegna vissra atriða, sem komu fram hjá hæstv. félmrh., sérstaklega einu atriði, sem ég skal koma að fljótlega, en mun ekki vera langorður um. En út af því, sem hæstv. félmrh. sagði nú síðast í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði tekið fram, þá er það auðséð, að hann er ekki kröfuharður um, hvernig flokkar eiga að standa við það, sem þeir hafa sagt. Hann sagði, að Alþfl. hefði staðið við allt það, sem hann hefði sagt fyrir síðustu kosningar. En er hæstv. ráðh. búinn að gleyma því, að Alþfl. sagði fyrir síðustu kosningar, að það væri búið að stöðva dýrtíðina í landinu án skatta og að það ætti að halda á málunum á sama hátt eftir kosningarnar, og m.a. hann sjálfur hafði þessa stefnuyfirlýsingu? En hvað er það, sem hefur gerzt síðan? Annars skal ég ekki fara að ræða þetta almennt. Hæstv. ráðh. var að kvarta yfir því, að inn í þessar umr. væri blandað almennt umr. um efnahagsmálin. Ég varð ekki var við, að slíkt kæmi til greina, fyrr en hæstv. ráðh. kom hér og byrjaði á þessu, t.d. með því, sem hann sagði hér í ræðu sinni áðan, að fara að bera saman þær efnahagsmálaaðgerðir, sem nú væri verið að gera, við það, sem gert var 1958. En út í það atriði fór hann í sinni ræðu og sagði, að það væru sízt meiri aðgerðir nú en hefðu verið 1958, og er það ámóta fjarstæða og sumt annað, sem haldið er fram úr þessum herbúðum. Þá var að vísu lögfest almennt yfirfærslugjald. En nú er lögfest stórfelld gengisbreyting og gífurlegar skattaálögur í þokkabót, stórfelld vaxtahækkun og margvíslegar ráðstafanir til þess að minnka framkvæmdir í landinu og koma á almennum samdrætti minnka atvinnu í landinu beinlínis — og ráðgert, að það verði tilfærsla í landinu, sem nemur alveg vafalaust meira en 1000 millj. kr.

Ég skal ekki fara að ræða þetta almennt hér, en ég bara bendi á þetta til þess að sýna hæstv. ráðh., hver það var, sem innleiddi hér í þessar umr. almennar umr. um efnahagsmálaráðstafanirnar.

Í þessu sambandi var hæstv. ráðh. að tala um, hvernig þá hefði verið búið að ellilífeyrisþegum í landinu, og ég skal ekki fara heldur langt út í samanburð á því. En vísitalan var þá ekki með lögum bönnuð, eins og nú er gert, þannig að það var ekkert sambærilegt, sem þá átti sér stað, en lögboðin þá nokkur hækkun á lífeyri, eins og hann raunar sjálfur tók fram.

En það„ sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, var eingöngu það, — þó að ég segði þessi fáu orð nú í leiðinni, — sem hæstv. ráðh. sagði um alþýðutryggingamálin í vinstri stjórninni. Það var eingöngu það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, því að ég kann ekki við að hlusta þegjandi á slíkan málflutning sem hæstv. ráðh. viðhafði í því sambandi og vil líka nota þetta tæki færi til þess að mótmæla röngum málflutningi Alþfl.- manna um þetta atriði, sem hefur komið fram víða. Þeir hafa nefnilega gerzt svo djarfir að halda því fram, að það hafi m.a. verið ágreiningur um alþýðutryggingarnar, sem hafi valdið því, að vinstri stjórnin sagði af sér. En þetta er alveg hreinn tilbúningur af hendi hæstv. ráðh. og hendi Alþfl.-manna. Það er alveg rétt, sem ráðh, tók fram, að í till. þeim, sem Alþfl. lagði fram síðustu dagana, sem vinstri stjórnin sat, fjallar einn liðurinn um tryggingar, eins og hann réttilega las, um athugun möguleika, það er nú ekki tekið fastar til orða en það, eins og hann las sjálfur, að athuga möguleikana á því að hækka tolla og bæta tryggingarnar, fjölskyldubætur og aðra liði trygginganna. En þetta atriði kom aldrei til úrskurðar í vinstri stjórninni — aldrei, og það veit hæstv. ráðh. mjög vel. Það kom aldrei til úrskurðar í vinstri stjórninni um þetta, hvað menn vildu gera í tryggingamálunum, vegna þess að það var ágreiningur um meginstefnuna, — við getum orðað það svo, — það var ágreiningur um meginstefnuna, sem sundraði stjórninni, hvernig leysa skyldi efnahagsmálin, þannig að aldrei kom til álita, hvaða skoðanir menn hefðu á þessu. Og hæstv. ráðh. hefði vel mátt geta þess, fyrst hann vildi fara að segja hér frá þessum efnum, að í till. framsóknarmanna t.d. var gert ráð fyrir því, að það ættu sér stað nokkrar álögur á miður nauðsynlegar vörur og að því fé yrði varið í samráði við alþýðusamtökin til þess að bæta upp áhrif verðhækkana, sem kynnu að verða, eða kjaraskerðingar, sem kynni að verða af öðrum ráðstöfunum, sem flokkurinn lagði til. Og þá hafði Framsfl. m.a. í huga, að ef alþýðusamtökin teldu breytingar á tryggingalöggjöfinni vænlegastar í því efni, þá kæmi það til greina. Ég veit ekki, hvers vegna Alþfl.-menn eru að leika þennan leik eða hæstv. ráðh., að vera að búa til svona sögur eins og þær, að það hafi verið ágreiningur um alþýðutryggingamálið í vinstri stjórninni. Fyrir því er hreinlega enginn fótur. Það var aldrei tekin afstaða til þess liðar í málinu, af þeirri einföldu ástæðu, að ágreiningurinn var um meginstefnuna í málinu. En ég minntist þess, þegar ég heyrði hæstv. ráðh. segja þetta, að Alþfl.-menn hafa fært sig svo upp á skaftið í þessum málflutningi, að það hefur komið einhvers staðar í þeirra málgögnum, jafnvel oftar en einu sinni, að vinstri stjórnin hafi m.a. sundrazt fyrir ágreining um tryggingamálin. En það er alveg rangt sagt frá.