26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

65. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum nr. 24 29. marz 1956, um almannatryggingar, hefur nú verið samþykkt í hv. Nd. og hafa um frv. þar farið fram allýtarlegar umr., auk þess sem það hefur nokkuð verið rætt í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálafrv., sem nú er orðið að lögum, og gerist kannske þess vegna ekki sama þörf fyrir ýtarlega framsögu fyrir málinu og ella mundi verið hafa, þar sem hv. þdm. hafa sjálfsagt flestir eða allir kynnt sér þær helztu breytingar, sem í frv. felast. En nokkur orð skal ég samt láta fylgja því þegar við þessa 1. umr. hér í þessari hv. deild.

Það hafa orðið margar og merkilegar breytingar á þjóðlífi íslendinga og þjóðarhögum síðustu áratugina, en fáar ef nokkrar hafa verið merkilegri né ánægjulegri en þær, sem orðið hafa á aðbúnaði þjóðfélagsins að þeim, sem veikir eru og smáir og eiga erfitt uppdráttar. Það muna allir þá tíma, þegar þeir, sem gátu ekki bjargað sér sjálfir, þurftu aðstoðar hins opinbera við, og þegar grípa þurfti til þess, sem er enn í minnum margra manna, sem nú eru á miðjum aldri og eldri og kallað var sveitarflutningar, þegar fjölskyldum var sundrað og menn fluttir sitt í hverja áttina úr fjölskyldunum, ef eitthvað hallaði og menn gátu ekki séð fyrir sér og sínum sjálfir.

Með tryggingalöggjöfinni hefur orðið á þessu gerbreyting, þó að enn skorti allmikið á, að fullkomlega vel sé. Alþýðutryggingalögin frá 1936 og almannatryggingalögin frá 1946 marka tímamót á þessu sviði, þar sem hinn tryggði öðlast rétt til fjárframlaga undir vissum kringumstæðum í stað ölmusu áður. Byrjunin var að vísu ófullkomin, en stöðugt hefur þokazt nokkuð í áttina. Árin 1936, 1946 og 1956 marka tímamót í þessari löggjöf, hvert á sínu sviði. Árið 1936 voru alþýðutryggingalögin samþykkt, eins og ég gat um áðan, 1946 voru þau stórkostlega aukin og almannatryggingalöggjöfin sett, og endurskoðanir hafa farið fram oftar en einu sinni, og nú búum við við síðustu heildarendurskoðunina, sem varð að lögum á árinu 1956. Að vísu hafa orðið nokkrar breytingar á lögunum síðan, bæði árið 1958 og 1959. Árið 1958 voru ýmsar bótagreiðslur almannatrygginganna, svo sem elli-, örorku- og barnalífeyrir, hækkaðar tvisvar. Í fyrsta lagi voru bæturnar hækkaðar um 5% með útflutningssjóðslögunum 29. maí 1958, og í öðru lagi voru bæturnar enn hækkaðar frá 1. september 1958 um 91/2 % til samræmis við hækkanir, sem urðu á kaupgjaldi um svipað leyti. Árið 1959 var í lögum um niðurfærslu verðlags og launa ákveðið, að vísitala á lífeyrisgreiðslur skyldi vera 185 í stað 175, sem greitt var á laun, og þó að þar væri ekki um hækkun að ræða á lífeyrissjóðsgreiðslunum, þá var þar þó um að ræða mismunun á ellilífeyrisþegunum og öðrum bótaþegum almannatrygginganna og launamönnum í landinu. Þessar aðgerðir allar hafa miðað í þá átt að bæta aðstöðu þeirra, sem trygginganna njóta, og færa löggjöfina lengra í þá átt, að hún verði sem fullkomnust, til þess að greiða götu þeirra manna, sem þessara styrkja og fyrirgreiðslu njóta. En því er ekki að leyna, að hinar öru verðlagsbreytingar, sem orðið hafa í landinu á síðustu árum og áratugum, má segja, hafa gert það að verkum, að þessar endurbætur hafa ekki orðið eins mikils virði og þær hefðu getað orðið, ef þessar breyt. á verðgildi peninga og ástandi efnahagsmála hefðu ekki orðið jafnört og raun ber vitni.

Hinn 16. júlí 1958 skipaði Guðmundur Í. Guðmundsson, þáv. ráðh. tryggingamála, nefnd samkv. þál., sem samþ. var 16. apríl það ár, til þess að endurskoða ákvæði almannatryggingalaganna um lífeyrisgreiðslur, með það fyrir augum að bæta hlut lífeyrisþeganna. N. skyldi athuga, hvort unnt væri: í fyrsta lagi að hækka grunnupphæðir elli-, örorku- og barnalífeyris, í öðru lagi að heimila allt að tvöföldun barnalífeyris vegna munaðarlausra barna, í þriðja lagi að greiða að einhverju leyti lífeyri með barni látinnar móður og í fjórða lagi að jafna að einhverju eða öllu leyti aðstöðu hjóna og einstaklinga gagnvart tryggingalögunum. Í þessa nefnd, sem skipuð var á árinu 1958, voru þessir skipaðir: Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur, Gunnar Möller hrl., sem var ritari n., Helgi Jónasson formaður tryggingaráðs, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., Jóhanna Egilsdóttir formaður verkakvennafélagsins Framsóknar, Ragnhildur Helgadóttir alþm. og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Þessi n. samdi síðan frv. á þeim grundvelli, sem fyrir hana var lagt, og var það frv. lagt fyrir Alþ. sem stjórnarfrv. á vetrarþinginu 1959,, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Í þessu frv. var lagt til, að lífeyrisgreiðslur yrðu yfirleitt hækkaðar um sem næst 20%, sem var mjög veruleg hækkun, og ýmsar aðrar greiðslur nokkuð rýmkaðar.

En í framhaldi af þessu skipaði svo fyrrv. hæstv. félmrh., Friðjón Skarphéðinsson, aðra nefnd með bréfi, dags. 5. febr. 1959, til þess að endurskoða þau ákvæði III. kafla almannatryggingalaganna, er fjalla um upphæð slysabóta, með það fyrir augum, að slíkar bætur yrðu hækkaðar verulega. Þessa n. skipuðu eftirfarandi aðilar: Björgvin Sigurðsson framkvæmdastjóri, Eðvarð Sigurðsson ritari Dagsbrúnar, Guðjón Hansen tryggingafræðingur, sem verið hefur ritari n., Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem skipaður var formaður n., og Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins.

Aðalbreyt. frá núgildandi lögum, sem í því frv. felst:, sem þessi n. samdi, var hækkun á dagpeningum vegna slysa og hækkun dánarbóta. Þar er lagt til, í því frv., að dagpeningar hækki um ca. 45%°, þegar um einstakling er að ræða, um ca. 42% fyrir hjón og 24% fyrir hvert barn á framfæri, allt að þremur. Frá því í janúar 1947 og þar til nú hefur dagvinnukaup verkamanna hækkað um 155%, en dagpeningar einstaklinga samkv. slysatryggingaákvæðunum um 80% aðeins og hjóna um 108% og vegna barna um 93% . Af þessu sést, að hækkun dagpeninga hefur verið töluvert lægri en hækkun kaupgjaldsins, sem eðlilegt virðist þó að fylgist að. En verði þetta frv. að lögum, verða hliðstæð hundraðshlutföll sem hér greinir: dagpeningar einstaklinga hækka um 161%, hjóna um 196% og vegna barna um 169%, sé miðað við árið 1947. Í samþykkt Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um lágmark félagslegs öryggis, sem Ísland er aðili að, er áskiliðlágmark dagpeninga vegna slysa 50% af launum, og er þá miðað við hjón með tvö börn. Dagkaup verkamanna er nú kr. 20.67 sinnum 8 eða kr. 165.36 á dag. Lágmarksbætur skulu því nema minnst kr. 82.68. En ef frvgr. þessi verður lögtekin, þá verða bætur þessar, þegar þess er jafnframt gætt, að dagpeningarnir verða einnig greiddir fyrir sunnudaga og aðra helgidaga, 98 kr. Verður því þannig fullnægt ákvæðum samþykktarinnar og vel það.

Dánarbætur nema nú 87130 kr. fyrir lögskráðan sjómann, en 19143 kr. fyrir aðra. N. taldi, að ekki yrði komið auga á skynsamlegar ástæður fyrir því, að t.d. kona, sem missir mann sinn af slysförum í vegavinnu, fái aðeins 19143 kr. í dánarbætur, á sama tíma og kona, sem missir mann sinn, sem er sjómaður, fái 87130 kr. N, taldi því rétt, að dánarbætur yrðu hinar sömu fyrir alla, og hún leggur til, að þær verði 90 þús. kr. fyrir hvert dánarslys. Aðrar dánarbætur, sem greiddar eru í einu lagi, verði hækkaðar til samræmis við þetta.

Nokkrar smærri breyt. var einnig að finna í þessu frv. n. um breyt. á slysatryggingakaflanum, og skal ég ekki frekar fara út í þær. En þessar till. síðari n., sem ég nefndi, eru teknar að heita má alveg óbreyttar inn í það frv., sem hér liggur fyrir.

Þriðji þátturinn í sambandi við undirbúning þessa máls gerist svo í sambandi við þá lausn efnahagsmálanna, sem ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir og nú hefur verið lögfest. Þar var ákveðið, að fjölskyldubætur yrðu stórhækkaðar, eða 2600 kr. með hverju barni, í stað þess að þær eru nú 1165 kr. með þriðja barni á fyrsta verðlagssvæði og 874 kr. á öðru verðlagssvæði og síðan 2331 kr. með hverju barni umfram 3 á fyrsta verðlagssvæði og 174 kr. á öðru verðlagssvæði. Þar sem þessar fjölskyldubætur eru samkv. frv. að fullu greiddar úr ríkissjóði, var talið sjálfsagt, að bæturnar yrðu hafðar jafnar á báðum verðlagssvæðum. Þessar fjölskyldubætur, ásamt fyrirhuguðum niðurgreiðslum á vöruverði, eru taldar munu nægja til þess að bæta vísitölufjölskyldunni upp þær verðhækkanir, sem óumflýjanlega hljóta að verða vegna gengisbreytingarinnar, að undanskildum 3 vísitölustigum, og að fjölskylda með 3 börn og sömu tekjur og vísitölufjölskyldan muni sleppa skaðlaus.

Ríkisstj. taldi rétt og eðlilegt í sambandi við efnahagsráðstafanirnar að taka fyrst og fremst tillit til barnafjölskyldna, sem verðhækkanirnar bitna meira á en hinum barnlausu, og svo til hinna annarra, sem tekjurýrir eða tekjulausir eru, eins og ellilífeyrisþegar, öryrkjar, einstæðar mæður o.s.frv. Árlegur ellilífeyrir er hækkaður samkv. frv. um 24%, umfram þau 20%, sem gert var ráð fyrir í frv. í fyrra, eða í allt um 44% frá núv. bótum. Verður ellilífeyririnn þannig samkv. frv. nú 25920 kr. á fyrsta verðlagssvæði fyrir hjón, í stað 15927 kr., eins og nú er, og 19440 kr. á öðru verðlagssvæði, í stað 11945 kr., sem nú er. Fyrir einstaklinga eru tilsvarandi tölur frv. 14400 kr., en voru 9954 kr. á fyrsta verðlagssvæði, og verða nú á öðru verðlagssvæði 10800 kr., en voru áður 7465 kr.

Það var nokkuð um það rætt, þegar frv. var samið, hvort hækkanirnar á fyrsta og öðru verðlagssvæði skyldu verða þær sömu hjá ellilífeyrisþegum og þeim, sem taka við örorkubótum, eins og varð um fjölskyldubæturnar. En niðurstaðan varð sú, að hækkunin á ellilífeyrisgreiðslunum skyldi vera hlutfallslega sú sama á báðum verðlagssvæðum, en ekki sú sama að krónutölu, og hefur Tryggingastofnun ríkisins fært fram nokkur rök fyrir því, að það sé réttara — og auðveldara í framkvæmd sérstaklega — að hafa þetta þannig, þar sem líka hækkunin á fjölskyldubótunum á öðru verðlagssvæði verður tiltölulega miklu meiri í krónutölu en á fyrsta verðlagssvæði.

Nú er gengið út frá því, að lögin verði sjálfsagt enn tekin til athugunar mjög bráðlega, eins og ég mun koma að síðar, og hefur þess vegna verið ákveðið að hafa þessi ákvæði um hækkun ellilífeyrisbótanna á þennan hátt. Skipting landsins í verðlagssvæði er nú orðin, ef ég svo má segja, allvafasöm og verður sjálfsagt tekin til athugunar bráðlega.

Hækkun fjölskyldubótanna og ellilífeyrisins eru þær breyt. frá núgildandi lögum, sem mestu varða. Aðrar bætur, sem ég vil rétt minnast á þegar við þessa umr., eru aðallega þessar:

Árlegur barnalífeyrir hækkar á fyrsta verðlagssvæði úr 5104 kr. í 7200 kr. og á öðru verðlagssvæði úr 3828 kr. í 5400 kr. En nú eins og áður eru ekki greiddar fjölskyldubætur með þeim börnum, sem barnalífeyrir er greiddur með. Ekkjubætur, sem greiddar eru konum, sem verða ekkjur, í þrjá mánuði, hækka mjög verulega — og sömuleiðis mæðralaun, sem greidd eru ógiftum mæðrum og ekkjum og fráskildum konum, sem hafa börn á framfæri sínu, og enn fremur er fæðingarstyrkurinn hækkaður samkv. þessu frv., og skal ég ekki fara frekar út í það. Þetta liggur mjög greinilega fyrir samkv. frv. Ég get aðeins lesið hér upp til yfirlits, að mæðralaun með einu barni verða nú á fyrsta verðlagssvæði 1400 kr., en voru engin áður. Þau hækka úr 3300 kr. upp í 7200 kr. með tveimur börnum, úr 6600 upp í 14400 með þremur börnum og með fjórum börnum úr 99Ö0 upp í 14400 kr., allt miðað við fyrsta verðlagssvæði. Fæðingarstyrkurinn hækkar úr 1700 kr. í 2160 kr.

Ég skal svo ekki fara lengra út í að rekja þær hækkanir á bótagreiðslunum, sem verða samkv. hinu nýja frv., heldur en ég hef gert, en minnast aðeins á örfá önnur atriði í þessu sambandi.

Fyrst skal ég nefna svokallaðar iðgjaldagreiðslur skattleysingja. Samkv. núgildandi lögum eiga þeir, sem hafa ekki hærri tekjur en svo, að þeir greiða engan tekjuskatt, rétt á því, að sveitarfélagið, þar sem þeir eru búsettir, greiði fyrir þá iðgjaldið til trygginganna. Með þeirri miklu breytingu, sem nú er fyrirhuguð á tekjuskattslögunum og gerð hefur verið kunn í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálanna, þar sem hjón með þrjú börn verða skattlaus, þó að þau hafi um 100 þús. kr. tekjur, þá er ekki lengur hægt að hugsa sér, að þetta geti verið viðmiðun um það, hvort þetta fólk sé þess umkomið að greiða iðgjöld til trygginganna. Þess vegna hefur í frv. verið valin sú leið að binda skyldu sveitarfélagsins til iðgjaldagreiðslu við það tekjumark, sem skattleysið var áður bundið við, eða um það bil, þ.e.a.s. þeir, sem hafa sömu tekjur og áður gerðu menn skattlausa, verði iðgjaldafrjálsir eða geti velt sínum iðgjöldum yfir á sveitarfélagið.

Í annan stað vil ég minnast lítillega á tvö atriði. Í fyrsta lagi hið svokallaða skerðingarákvæði, sem mjög hefur verið til umr í hv. Nd. Í tryggingal. er nú svo ákveðið, að þeir, sem tekjur hafa, sem ná því marki, sem bótagreiðslunum nemur, fái ellilífeyrisgreiðslurnar og öryrkjalífeyrisgreiðslurnar skertar, og þegar tekjur þessa fólks eru komnar upp í tvöfalda bótagreiðsluupphæðina, þá hverfa bæturnar. Í lögum er líka, að þetta ákvæði um skerðinguna gildi ekki lengur en til loka yfirstandandi árs. Það hafa ýmsar ábendingar komið fram um það, bæði nú og áður, að það væri ekki óeðlilegt, að þetta skerðingarákvæði yrði numið úr lögum, og ég get fyrir mitt leyti vel á það fallizt. En þar sem í núgildandi lögum er ákveðið, að þetta skerðingarmark eða þessar skerðingarreglur skuli falla úr gildi um n.k. áramót, þá hefur ekki þótt rétt eða ekki þótt ástæða til, getur maður sagt, að fara út í að flýta því, að það yrði gert, m.a. vegna þess, að til þess að svo verði, þarf að undirbúa það fjárhagslega og sjá um, að þeirra tekna verði aflað, sem til þess þarf. Sem sagt, ríkisstj. gerir ráð fyrir í þessu frv., að við skerðingarákvæðunum verði ekki hróflað, og ég fyrir mitt leyti geng þó út frá því, að þau gangi úr gildi samkv. l., eins og þau eru nú, í lok þessa árs og þá verði um leið frá því gengið, hvernig tekna til þessara greiðslna verði aflað. Það má líka geta þess í þessu sambandi, að með hækkuðum ellilífeyri og örorkubótum hækkar þetta skerðingarmark mjög verulega, því að í staðinn fyrir 15000 kr. áður á fyrsta verðlagssvæði fyrir hjón, þá hækkar þetta upp í 25 þús. kr. rúmar nú, þannig að tekjurnar mega vera í ár, 1960, ef þessi lög öðlast gildi, u.þ.b. 10 þús. kr. hærri en áður án þess að skerðast og um 20 þús. kr. hærri, án þess að full skerðing komi til.

Ég hef áður minnzt á skiptingu landsins í verðlagssvæði og skal ítreka það, sem ég hef um það sagt, að það er ýmislegt, sem bendir til þess, að þær ástæður, sem fyrir hendi voru, þegar tryggingalögin voru sett á sínum tíma, um það að skipta landinu í verðlagssvæði, séu nú ekki lengur fyrir hendi og að það sé rétt að taka upp athugun á því, hvort ekki sé rétt, að allt landið verði eitt verðlagssvæði. Þetta hefur verið nokkuð athugað áður, en hefur sætt andstöðu sveitarstjórna á ýmsum stöðum, bæði vegna þess, að sveitarstjórnirnar náttúrlega fá með hækkuðum bótagreiðslum líka á sig kvöðina um hækkað framlag til trygginganna, og einstaklingarnir á svæðinu þurfa líka að bera, ef landið verður eitt verðlagssvæði, hækkuð iðgjöld frá því, sem nú eru á öðru verðlagssvæði. Ég tel, að þetta sé atriði, sem þurfi að hafa samvinnu við sveitarstjórnirnar um, og hef þess vegna talið eðlilegt, ef þetta frv. verður samþ. nú, þá verði fyrir næsta Alþ. sett milliþn., sem skilu till. sinum til næsta þings, um það í fyrsta lagi, á hvern hátt verði mætt af námi skerðingarákvæðanna í l., og um leið athugað, hvort afnám verðlagssvæðanna getur ekki líka fylgt í kjölfarið.

Í hv. Nd. kom líka mjög til umr., hvort ekki væri unnt að taka upp í lögin aftur ákvæðin um heilsugæzlu, sem voru þar í upphafi, en voru tekin út á sínum tíma, og teldi ég, að það væri líka verkefni þessarar n., sem ég hugsa mér að skipuð verði, að athuga, hvort fært þætti að taka upp í einu formi eða öðru ákvæði heilsugæzlukaflans.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa um þetta mál öllu fleiri orð. Það liggur ljóst fyrir, að með þessari breyt., sem hér er lagt til að gerð verði á almannatryggingalögunum, þá er brotið í blað og endurbætur gerðar á bótagreiðslunum, sem eru stærri og meiri en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað í sögu almannatrygginganna.

Heildarútgjöld trygginganna vaxa með þessu frv. úr 183 millj. kr. upp í 384 millj. kr., eða um rúmar 200 millj. kr., og gera meira en að tvöfaldast. Þetta er svo mikil aukning á þeim hlunnindum, sem almannatryggingalögin veita, að neitt svipað hefur ekki komið til greina áður. Og þegar það er borið saman við þær tillögur, sem gerðar voru af hinni stjórnskipuðu n., sem tók til starfa á árinu 1958, þá fer það svo langt fram úr því, sem þar var gert ráð fyrir, að það er ekki sambærilegt. Ellilífeyrisgreiðslumar hækka úr 80 millj. upp í 125 millj. eða um rúm 50%. Örorkulífeyririnn hækkar úr 25 millj. í 37.6 millj., eða sömuleiðis um rúm 50%. Barnalífeyririnn hækkar úr 10.3 millj. upp í 14.5 millj., eða milli 40 og 50%. Og fjölskyldubæturnar hækka úr 27 millj. upp í 153 millj., eða upp í 560% af því, sem áður var. Mæðralaunin hækka úr 4.2 millj. og upp í 11.7 millj., eða nærri þrefaldast.

Það hafa orðið um það nokkrar umr. í hv. Nd., hvort ekki væri gengið óþarflega langt í því að hækka fjölskyldubæturnar það mikið, að þær væru greiddar þegar með fyrsta barni, og meira að segja hefur sú skoðun verið látin þar í ljós, að þetta væri ekki beint félagsmálaatriði eða sósíalt atriði, heldur væri það eingöngu eða fyrst og fremst sett fram í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera. Ég ber ekki á móti því, að þetta er að nokkru leyti fram komið í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem hér er verið að gera. En ég bendi á í því sambandi, að þau lönd, sem lengst eru talin vera komin á þessu sviði, t.d. af Norðurlöndunum bæði Svíþjóð og Finnland, hafa hvor tveggja ákvæði í sínum tryggingalögum um það, að fjölskyldubætur skuli greiddar þegar með fyrsta barni. Og ég vil vona það, að þó að þessi löggjöf sé sett í sambandi við efnahagsmálalöggjöfina að nokkru leyti, þá muni hún samt sem áður verða varanleg, hvað sem um efnahagsmálin verður og hver sem afdrif þeirrar löggjafar verða í framtíðinni. Ég held þess vegna, að með setningu þessarar tryggingamálalöggjafar, sem við berum hér fram frv. um, sé vissulega ekki nema nokkur hluti, sem hefur áhrif í þá átt beinlínis formlega að mæta áhrifum þeim, sem verða af breyt. á gengisskráningunni. Mörg atriðin og kannske flest eru af öðrum toga spunnin og beinlínis til þess að bæta kjör þess fólks, sem erfiðast á uppdráttar í þjóðfélaginu. Og ég tel, að það sé aðalsmerki hvers þjóðfélags að geta gert vel við þetta fólk, og ég vil leyfa mér að vona, að þær bætur og þær aukningar á tryggingalöggjöfinni, sem hér er gert ráð fyrir, megi vera varanlegar, — hvað sem um hitt verður, hvort sem þær efnahagsaðgerðir, sem stofnað er til af hálfu ríkisstj., heppnast eða ekki, þá muni þessar ráðstafanir gilda í framtíðinni.

Í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. Nd. á þskj. 207 hefur verið gerð grein fyrir því, hvernig Ísland standi í sambandi við elli- og örorkulífeyrisgreiðslurnar, samanborið við þau tvö lönd, sem hafa á sér það orð í heiminum að vera einna lengst komin í þessum málum. Þar segir, að einstaklingar á Íslandi muni samkv. frv., ef að lögum verður, fá um 28.5% af launum verkamannsins, í Danmörku 30.2% og í Svíþjóð 35%. Við erum þarna aðelns undir, en mjög nálægt því, sem greitt er í þessum löndum. Ellilífeyrir hjóna verður samkv. frv. 51.3% hjá okkur, 45.4% í Danmörku og 46.7% í Svíþjóð. Þarna virðist mér eins og við séum komnir fram úr því, sem Svíþjóð og Danmörk hafa talið sér fært að veita sínum elli- og örorkulífeyrisþegum, — eða ég vil segja í heild, að við getum talið okkur á þessu sviði nokkurn veginn jafnfætis því, sem bezt er.

Um slysabæturnar minntist ég á áðan, að þær voru komnar raunar niður fyrir það, sem við vorum skuldbundnir til að greiða samkv. þeim samningum, sem við áttum við Alþjóðavinnumálastofnunina, sem segir, að slysadagpeningar skuli vera helmingur af vinnulaunum. En lagfæringarnar, sem gerðar eru með þessu frv., hafa kippt því í lag og komið greiðslunum talsvert mikið upp fyrir það lágmark, sem þar er gert ráð fyrir, enda þar um algert lágmark að ræða.

Ég tel þess vegna, að með þessari breyt., sem hér er gert ráð fyrir að gera á almannatryggingalögunum, sé mjög stórt spor stigið í þá átt að bæta bótaþegunum, elli- og örorkubótaþegunum, þeim, sem taka mæðralaun, þeim, sem taka slysabætur, fjölskyldubætur og annað þess háttar, það, sem þetta fólk var orðið á eftir vegna hinnar ört vaxandi verðbólgu í okkar landi, og að sporið, sem stigið er nú, sé svo stórt, að það hafi aldrei áður í sögu trygginganna verið stigið jafnstórt. Ég vil líka bæta því við, að enn er náttúrlega engu lokatakmarki náð, þó að hér með þokist vel í áttina. Ég vil bæta því við, að nefnd mun verða skipuð til þess að undirbúa og kanna möguleikana á því að útvega fé til að standast afnám skerðingarákvæðis laganna og til þess að athuga möguleikana á því að gera landið að einu verðlagssvæði og upptöku heilsugæzluákvæðisins, eins og það var í l. í upphafi eða eitthvað þar á milli. Þetta verður verkefni þeirrar n., sem skipuð verður í þessu skyni og ég vil vænta að geti skilað frá sér áliti, áður en næsta þing kemur saman.

Ég vil að lokum leyfa mér að vekja athygli á því, að fjölskyldubótagreiðslurnar eiga samkv. frv. að hefjast 1. apríl. Það væri þess vegna mjög æskilegt, ef takast mætti að afgreiða þetta frv. fyrir þann tíma, og ég vil leyfa mér að fara þess á leit við þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún geri sitt ýtrasta til þess að afgreiða málið það fljótt, að frv. gæti orðið að lögum fyrir þann tíma.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til; að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.