26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

65. mál, almannatryggingar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að verða ekki allt of margorður að þessu sinni, því að ég vil ekki hindra það, að málið komist til n. í dag, og yfirleitt ekki hindra það, að það fái sem fyrst afgreiðslu. Málið er þess eðlis, að það er ekki vanþörf á, að það nái afgreiðslu til þess að bæta nokkuð úr því, sem orðið er með afgreiðslu annarra laga hér á hv. Alþ.

Hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir þessu frv., og ég gat ekki skilið hann á annan veg en þann, að hann teldi hér um miklar framfarir að ræða í tryggingakerfi þjóðarinnar, miklar hagsbætur fyrir hina tryggðu, og hann mun hafa sagt orðrétt, að aldrei hafi verið stigið svo stórt spor í þessum efnum sem nú. Ég vænti, að hann leiðrétti það, ef ég hef þetta ekki rétt eftir honum: Ég hef hins vegar litið þannig á, að þetta frv. sé ekki til annars en að vega nokkuð upp á móti þeim álögum, sem stjórnarflokkarnir eru að leggja á þjóðina í heild, og nái ekki nærri því svo langt, að það bæti þær álögur að fullu, þótt hæstv. ríkisstj. telji, að svo sé í einhverjum tilfellum.

Það var svo, þegar gengislækkunarfrv, var til umræðu, að hv. stjórnarsinnar vitnuðu stöðugt í það, að fjölskyldubæturnar kæmu þar á móti. Ef þær áttu að mæta þeim álögum, þá voru það ekki kjarabætur frá því, sem var. Það var bara til þess að bæta upp álögur. Það er út af fyrir sig virðingarvert, og ég er ekki að lasta það, að þarna er þó bætt upp nokkuð það, sem íþyngt er þeim, sem bótanna njóta, og það er lofsvert, það sem það nær. Fjölskyldum er nokkuð bætt upp dýrtíðin vegna gengislækkunarinnar, og elli- og örorkuþegum er líka bætt upp nokkuð, eftir því sem hæstv. félmrh. sagði, og hygg ég, að það muni vera um 20%. En ef dýrtíðin eykst meira en um 20%, fær þetta fólk engar bætur, þá stendur það í stað. Það er því ekki um neinar bætur á þeirra hag að ræða, ef dýrtíðin fer fram úr því.

Ég skal ekki drepa á mörg atriði í þessu frv., en af því að hv. stjórnarsinnum hefur orðið helzt til tíðrætt um fjölskyldubæturnar, þá langar mig til þess að drepa á þær aðeins nokkrum orðum.

Í grg, með efnahagsmálafrv. sagði hæstv. ríkisstj. orðrétt: „Með þessum ráðstöfunum er það tryggt, að kjör fjölskyldna, sem hafa um 60 þús. kr. tekjur og eru í þrjú eða fleiri börn, verði ekki skert og ekki heldur kjör ellilífeyrisþega og öryrkja.“ Og ég skildi hæstv. félmrh. þannig áðan, að hann væri þessarar sömu skoðunar, hvað snerti fjölskyldur með þrjú börn, en mér heyrðist hann ekki vilja fullyrða neitt um það, að fjölskyldur með fleiri börn yrðu ekki fyrir skerðingu. Í útreikningi hagstofunnar á vísitölu er greint frá því, að fyrir efnahagsráðstafanir ríkisstj. hafi verið reiknað með, að útgjöld vísitölufjölskyldunnar séu 60975 kr., en vísitölufjölskyldan er 4.2 menn. Hæstv. ríkisstj. hefur sagt í grg. efnahagsmálafrv., að búast megi við, að gengisbreytingin ein hækki útgjöld manna um 13% . Þetta er þá einfalt dæmi. Útgjöld vísitölufjölskyldunnar munu þá hækka um 7927 kr., eftir því sem hæstv. ríkisstj. segir sjálf, og þetta er ekki vegna söluskatts, hvorki 8% söluskatts á innflutningi né 3% söluskatts í viðskiptum. Nei, þetta er bara vegna gengislækkunarinnar. Hvernig mun þá hæstv. ríkisstj. takast að halda lífskjörum óskertum hjá þessu fólki? Hún hefur sem sagt ætlað að gera það fyrst og fremst með fjölskyldubótum. Í vísitölufjölskyldu, þar sem eru 4.2 menn, geta þó ekki verið nema tvö börn, og fjölskyldubætur þeirra eru þó ekki nema 5200 kr. Hvaðan kemur þá hitt? Ef hjón eru með 3 börn, þá á hækkun fjölskyldubótanna að verða 6634 kr. Ekki dugir það heldur á móti þessari 13% hækkun á lífsnauðsynjum fjölskyldunnar vegna gengislækkunarinnar einnar. En það merkilegasta er þó það, að hæstv. ríkisstj. og flokkum hennar er það alvara að halda því fram, að öllum fjölskyldum séu bættar upp álögurnar að fullu. Þeir segja það í grg. með efnahagsmálafrv. En mér væri forvitni á að heyra álit hæstv. félmrh. um það, hvort hann telur, að svo sé. Ég skal taka dæmi. Álítur hann, að fjölskylda með 5 börn fái bætt upp að fullu gengislækkunina eina með fjölskyldubótunum? Ég vona, að hann hafi þetta alveg í höfðinu og muni geta svarað þessu umhugsunarlítið. Já, já, segir hæstv. ráðh., þá bíð ég eftir því. Hækkun fjölskyldubóta á 5 börn mun vera rúmar 7000 kr., því að hækkunin er ekki nema 269 kr. á fyrsta verðlagssvæði á hvert barn, sem er umfram þrjú. Hvernig getur þetta staðizt, að hæstv. ríkisstj. metur álögur sínar á 5200 kr. fyrir tvö börn, en ekki nema á 269 kr. á hvert barn, sem er umfram þrjú? Ég spurði um þetta, þegar efnahagsmálafrv. var hér til umræðu, en fékk ekkert svar, og ég er ekki farinn að skilja, að þetta geti staðizt, að þetta fólk fái bættar verðhækkanirnar vegna gengislækkunarinnar með fjölskyldubótunum. Ég vildi sannarlega geta sannfærzt um það, því að þessu fólki væri full þörf á því, alveg eins og elli- og örorkulífeyrisþegunum.

Ég ætla ekki að fara út í útreikninga, hvað lífsnauðsynjar þeirrar fjölskyldu, sem er stærri en 4.2 menn, kunna að hækka mikið í krónum við ráðstafanirnar. Hæstv. ríkisstj. hefur skýrt þarna frá 13%, sem hljóta að nema tæpum 8 þús. kr. á vísitölufjölskyldu. En hvað nemur það mikilli upphæð á 7 manna fjölskyldu? Ég ætla ekki að fara út í þann reikning. Það hlýtur að nema allverulegri upphæð, fyrst það nemur svona miklu á rúmlega 4 manna fjölskyldu. En þó að við förum ekki langt út í þá útreikninga, er eitt þó sýnilegt, og því vil ég beina til hæstv. félmrh., að útgjaldaupphæð fjölskyldu með 4, 5 eða 6 börn er orðin svo mikil, að mér er gersamlega óskiljanlegt, hvaðan þessar fjölskyldur eiga að taka tekjur til að greiða með útgjöldin.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að 5–7 manna fjölskylda hljóti að hafa útgjöld upp undir 80 þús. kr., eftir að efnahagsráðstafanir ríkisstj. eru komnar til framkvæmda, bæði gengislækkunin og söluskatturinn, og fjölskyldubæturnar muni fjarri því megna að jafna metin. Að vísu vitnar hæstv. ríkisstj. jafnan í lækkun tekjuskatts, en hún verður að taka það með í reikninginn, að fjölskylda, þótt hún hafi 60 þús. kr. tekjur, ef hún er með 3–5 börn, borgar ekki háan tekjuskatt, kannske nokkur hundruð krónur. Það dregur því ekki mikið að sleppa við hann: Hæstv. ríkisstj. hefur líka vitnað í það, að útsvör eigi að geta lækkað, vegna þess að nokkur hluti söluskatts á að ganga til bæjar- og sveitarfélaga. En hún hefur sleppt því, að bæjar- og sveitarfélög fá líka aukin útgjöld vegna efnahagsmálaráðstafananna, svo að það getur enginn sagt um það nú, hvað sú lækkun kynni að geta orðið, hvort hún verður sem nokkru nemur. En ef það er rétt hjá mér, að 5–7 manna fjölskylda hljóti að hafa 75–80 þús. kr. útgjöld eftir þessar ráðstafanir, hvernig stenzt hún þetta, ef það er verkamaður með Dagsbrúnarkaupi, sem hefur aðeins 8 stunda vinnutíma á dag, þó að hann vinni allt árið alla daga. Tekjur slíks verkamanns, sem vinnur 8 tíma á dag alla daga ársins, eru ekki nema 49600 kr. Og þó að þessi verkamaður hafi einnar klst. eftirvinnu á dag alla daga ársins, þá komast tekjur hans ekki nema upp í 58900 kr., og þótt hann hafi tveggja stunda eftirvinnu á dag allt árið, komast tekjurnar ekki nema upp í 68200 kr. Hvernig fer þessi fjölskylda að, þrátt fyrir það þó að hún fái þær fjölskyldubætur, sem hér er reiknað með? Þetta er mér ráðgáta, og um þetta hef ég spurt hæstv. stjórnarsinna, en þeir hafa engu um það svarað.

Ég mun ekki, eins og ég sagði áðan, tefja mjög tímann um þetta mál að þessu sinni. Ég vil styðja að því, að það fái fljóta afgreiðslu. En ég vil endurtaka þær óskir mínar til hæstv. félmrh., að hann leitist við að svara því, hvernig honum sýnist, að fjölskyldur með 49 þús. og upp í 68 þús. kr. tekjur muni standast þau útgjöld, sem þær hljóta að verða að bera samkv. efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj. Þrátt fyrir þær bætur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., eru engar líkur til þess, að þessar fjölskyldur geti staðizt útgjöldin nema á einn hátt, á þann hátt að minnka við sig kaup á lífsnauðsynjum. Ég verð að segja, að hækkun bóta, þó að góðar séu, er ekki neitt stórt spor áfram í tryggingakerfi þjóðarinnar, þegar þær verða aðeins lítil uppbót á það, sem á þetta fólk er lagt. En þrátt fyrir það skal ég að lokum endurtaka það, að ég tel frv. sannarlega virðingarvert, og án slíkra tillagna hygg ég, að enginn flokkur og enginn maður hefði viljað leggja út í það, sem nú er verið að gera í efnahagsmálum þjóðarinnar yfirleitt.