07.04.1960
Neðri deild: 64. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja fyrir þessu frv., því að þannig munu aðstæður vera, að það er rétt, að það gangi fram á sem skemmstum tíma. En áður en það fer héðan frá deildinni, vildi ég þó láta uppi þá skoðun mína, að þó að ég telji þetta frv. ganga í rétta átt, þá álít ég, að það gangi of skammt, og það byggi ég m.a. á því, að ég álít, að íslenzkir námsmenn, sem stunda nám erlendis, fái hvergi nærri nægilega bætta með þessu frv. eða öðrum ályktunum Alþingis, sem ganga í þessa átt, þá kjaraskerðingu, sem hefur leitt af völdum gengislækkunarinnar.

Á s.l. ári nam yfirfærður námsmannagjaldeyrir um 16.7 millj. kr., en á hann lagðist þá 30% yfirfærslugjald. Nú mun hins vegar láta nærri vegna gengislækkunarinnar, að það leggist á þessa upphæð 133% gjald, sem þýðir það, að þó að námsmenn fengju ekki á þessu ári nema svipaðan erlendan gjaldeyri til yfirfærslu og á síðasta ári, þá þyrftu þeir að greiða fyrir hann 17 millj. kr. meira í íslenzkum krónum. Gengislækkunin þýðir m.ö.o., að það eru lagðar álögur á íslenzka námsmenn, sem stunda nám erlendis, um 17 millj. kr. Hins vegar er með þessu frv. og með því framlagi, sem áætlað er á fjárlögum í þessu skyni, styrkur og lánveitingar til íslenzkra námsmanna erlendis ekki aukin nema um rúmar 3 millj, kr., sem er ekki nema lítill hluti þess álags, sem gengislækkunin leggur á þá.

Ég álít, að það verði óhjákvæmilegt síðar á þessu ári og t.d. á næsta þingi að taka þetta mál til mjög gaumgæfilegrar athugunar með það fyrir augum að auka styrkveitingar verulega í þessu skyni, bæði til þess að bæta upp það mikla tjón, sem íslenzkir námsmenn verða fyrir vegna gengislækkunarinnar, og svo einnig vegna þess, að það verður í vaxandi mæli þörf fyrir það, að við sendum námsmenn til útlanda til að afla sér þar margvíslegrar sérfræðilegrar þekkingar.

Þetta taldi ég rétt að láta koma fram núna, að þó að ég greiði þessu frv. atkvæði, þá tel ég mikla nauðsyn á því, að hlutur íslenzkra námsmanna, sem stunda nám erlendis, verði miklu meira bættur en hér er gert.